Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI

Hvað get ég gert ef barnið mitt er lagt í einelti?

Hvað get ég gert ef barnið mitt er lagt í einelti?

Sonur þinn segir að hann sé lagður í einelti í skólanum. Hvað geturðu gert? Ættirðu að krefjast þess að skólinn refsi gerandanum eða kenna syni þínum að berjast á móti? Áður en þú ákveður hvað þú gerir skaltu hugleiða nokkur atriði varðandi einelti. *

 • Hvað ætti ég að vita um einelti?

 • Hvað get ég gert?

Hvað ætti ég að vita um einelti?

Hvað er einelti? Einelti er endurtekið andlegt eða líkamlegt ofbeldi framið af ásteningi. Móðgun eða fjandskapur er því ekki alltaf einelti.

Hvers vegna er mikilvægt að vita hvað einelti er? Sumir nota orðið einelti um alla slæma hegðun. En ef þú gerir mikið mál úr smámunum gætirðu óafvitandi kennt syni þínum að hann sé ófær um að leysa ágreining – nokkuð sem hann þarf að kunna bæði núna og á fullorðinsárum.

Meginregla í Biblíunni: „Vertu ekki auðreittur til reiði.“ – Prédikarinn 7:9.

Kjarni málsins: Sumar aðstæður krefjast þess að þú grípir inn í en aðrar geta gefið barninu tækifæri til að læra þrautseigju og að leysa úr ágreiningi við aðra. – Kólossubréfið 3:13.

En hvað ef sonur þinn segir að einhver sé stöðugt að áreita hann?

Hvað get ég gert?

 • Hlustaðu með þolinmæði á son þinn. Reyndu að komast að því (1) hvað á sér stað og (2) hvers vegna hann er lagður í einelti. Ekki draga ályktanir fyrr en þú þekkir allar hliðar málsins. Spyrðu þig hvort það gæti verið önnur hlið á málinu. Til að skilja málið til fulls gætirðu þurft að tala við kennara sonar þíns eða foreldra hins barnsins.

  Meginregla í Biblíunni: „Svari einhver áður en hann hlustar er það heimska hans og skömm.“ – Orðskviðirnir 18:13.

 • Ef sonur þinn er lagður í einelti skaltu hjálpa honum að átta sig á að viðbrögð hans geta annað hvort bætt ástandið eða gert það verra. Til dæmis segir í Biblíunni: „Mildilegt svar stöðvar bræði en fúkyrði vekja reiði.“ (Orðskviðirnir 15:1) Að svara í sömu mynt getur gert illt verra og látið eineltið aukast frekar en að minnka.

  Meginregla í Biblíunni: „Gjaldið ekki illt með illu eða illmæli fyrir illmæli.“ – 1. Pétursbréf 3:9.

 • Útskýrðu fyrir syni þínum að það sé ekki merki um veikleika að svara ekki í sömu mynt. Það gefur honum þvert á móti styrk því að hann lætur ekki aðra stjórna sér. Á vissan hátt finnur hann höggstað á gerandanum án þess að leggja hann í einelti.

  Það er sérstaklega mikilvægt fyrir son þinn að hafa þetta í huga ef hann er lagður í einelti á netinu. Ef hann blandar sér í rifrildi á netinu gefur hann eineltinu tækifæri til að halda áfram og það gæti orðið til þess að hann yrði sjálfur sakaður um einelti. Þess vegna geta bestu viðbrögðin verið engin viðbrögð. Það getur slegið vopnin úr höndunum á þeim sem leggur í einelti og hjálpað syni þínum að ná stjórninni.

  Meginregla í Biblíunni: „Þegar eldsneytið þrýtur slokknar eldurinn.“ – Orðskviðirnir 26:20.

 • Í sumum tilfellum getur sonur þinn forðast fólk og staði þar sem hann gæti orðið fyrir einelti. Ef hann veit til dæmis hvar ákveðinn einstaklingur eða hópur heldur sig getur hann komist hjá vandræðum með því að fara aðra leið.

  Meginregla í Biblíunni: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.“ – Orðskviðirnir 22:3.

Þú gætir þurft að tala við kennara sonar þíns eða foreldra hins barnsins.

PRÓFAÐU ÞETTA: Hjálpaðu syni þínum að sjá möguleikana í stöðunni og hvaða kosti og galla þeir hafa. Til dæmis:

 • Hvað gæti gerst ef hann hunsar einfaldlega eineltið?

 • Hvað gæti gerst ef hann er ákveðinn og segir gerandanum að hætta?

 • Hvað gæti gerst ef hann segir kennaranum frá?

 • Getur hann slegið vopnin úr höndum gerandans með því að vera vingjarnlegur eða hafa gott skopskyn?

Hvort sem eineltið á sér stað á netinu eða augliti til auglitis eru engin tvö tilfelli eins. Þú skalt því hjálpa syni þínum að finna góða lausn. Fullvissaðu hann um að þú standir með honum í gegnum þessa raun.

Meginregla í Biblíunni: „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ – Orðskviðirnir 17:17.

^ gr. 3 Þótt barnið í þessari grein sé sonur eiga meginreglurnar einnig við um dætur.