Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSIÐUEFNI | HVERNIG LÍTUR GUÐ Á STRÍÐ?

Viðhorf Guðs til stríðs til forna

Viðhorf Guðs til stríðs til forna

Fólkið var kúgað og þjakað. Það bað stöðugt til Guðs um frelsun en ekkert gerðist – að minnsta kosti ekki strax. Þetta var Ísraelsþjóðin, fólk Guðs til forna. Þjóðin var í ánauð hins öfluga stórveldis Egypta. (2. Mósebók 1:13, 14) Í áraraðir biðu Ísraelsmenn þess að Guð frelsaði þá undan harðstjórn Egypta. Að lokum rann upp tími Guðs til að grípa í taumana. (2. Mósebók 3:7-10) Í Biblíunni segir að Guð hafi sjálfur háð stríð gegn Egyptum. Hann herjaði á Egyptaland með mörgum skelfilegum plágum og tortímdi síðan konungi Egypta og her hans í Rauðahafinu. (Sálmur 136:15) Jehóva Guð reyndist þjóð sinni máttug „stríðshetja“. – 2. Mósebók 15:3, 4.

Að Guð skyldi sjálfur heyja stríð gegn Egyptum sýnir að hann hefur ekki vanþóknun á öllum stríðum. Stundum sendi hann þjóð sína, Ísrael, í stríð. Hann fyrirskipaði þeim til dæmis að heyja stríð gegn Kanverjum sem voru ákaflega grimmir. (5. Mósebók 9:5; 20:17, 18) Hann leiddi líka Davíð, konung Ísraels, í stríð gegn hinum harðúðugu Filisteum. Guð lét Davíð meira að segja í té hernaðaráætlun sem tryggði honum sigur í stríðinu. – 2. Samúelsbók 5:17-25.

Þessar frásögur Biblíunnar leiða í ljós að þegar þjóðir, sem voru sérlega illar, ógnuðu Ísraelsmönnum gaf Guð þeim fyrirmæli um að fara í stríð til þess að vernda þjóðina og varðveita sanna tilbeiðslu. En taktu eftir að það var þrennt sem einkenndi þau stríð sem Guð leyfði.

  1. GUÐ EINN ÁKVAÐ HVERJIR ÁTTU AÐ TAKA ÞÁTT Í STRÍÐI. Eitt sinn sagði Guð við Ísraelsmenn: „Þið eigið ekki að berjast.“ Hvers vegna áttu þeir ekki að gera það? Guð ætlaði sjálfur að heyja stríðið fyrir þá. (2. Kroníkubók 20:17; 32:7, 8) Hann gerði það margoft, líkt og í dæminu sem minnst er á í byrjun greinarinnar. En stundum fyrirskipaði hann Ísraelsþjóðinni til forna að berjast í stríði. Hann lagði blessun sína yfir stríð sem voru háð til að taka fyrirheitna landið til eignar og verja það. – 5. Mósebók 7:1, 2; Jósúabók 10:40.

  2. GUÐ EINN ÁKVAÐ HVENÆR HALDA ÆTTI ÚT Í STRÍÐ. Þjónar Guðs áttu að bíða þolinmóðir þar til tilsettur tími Guðs kæmi til að ráðast gegn  illsku og kúgun þjóðanna umhverfis þá. Þangað til máttu þeir ekki ákveða sjálfir að leggja út í hernað. Þegar þeir óhlýðnuðust þeim fyrirmælum misstu þeir velþóknun Guðs. Í Biblíunni kemur reyndar fram að þegar Ísraelsmenn fóru í hernað, sem Guð hafði ekki leyft, voru afleiðingarnar oftast hörmulegar. *

  3. Þó að Guð hafi háð stríð gegn Kanverjum þyrmdi hann sumum, eins og Rahab og fjölskyldu hennar.

    GUÐ GLEÐST EKKI YFIR DAUÐA MANNA, JAFNVEL EKKI RANGLÁTRA MANNA. Jehóva Guð er uppspretta lífsins og skapari mannkyns. (Sálmur 36:10) Hann vill því ekki að nokkur maður deyi. En því miður brugga margir illráð gegn öðrum, kúga þá og jafnvel myrða. (Sálmur 37:12, 14) Til að stöðva slík illskuverk heimilaði Guð stundum þjóð sinni að heyja stríð gegn illvirkjunum. En jafnvel þó að hann hafi í gegnum tíðina látið Ísraelsmenn heyja slík stríð var hann „miskunnsamur og ... þolinmóður“ gagnvart þeim sem kúguðu þjóð hans. (Sálmur 86:15) Áður en Ísraelsmenn réðust inn í borg áttu þeir til dæmis að „bjóða henni friðarskilmála“ svo að íbúarnir hefðu tækifæri til að breyta hegðun sinni og komast hjá stríði. (5. Mósebók 20:10-13) Þannig sýndi Guð að honum „þóknast ekki dauði guðlausra, heldur að hinn guðlausi hverfi frá breytni sinni og lifi“. – Esekíel 33:11, 14-16. *

Eins og fram hefur komið leit Guð á stríð sem gilda leið til að binda enda á illsku og kúgun til forna. En það var Guð – ekki mennirnir – sem hafði réttinn til að ákveða hvenær ætti að halda út í slík stríð og hverjir tækju þátt í þeim. Guð var þó langt frá því að vera herskár og blóðþyrstur. Reyndar hatar hann ofbeldi. (Sálmur 11:5) En breyttist viðhorf Guðs til stríðs þegar Jesús Kristur, sonur hans, hóf þjónustu sína hér á jörð á fyrstu öld?

^ gr. 7 Til dæmis biðu Ísraelsmenn eitt sinn ósigur þegar þeir lögðu út í stríð við Amalekíta og Kanverja þegar Guð hafði sagt þeim að gera það ekki. (4. Mósebók 14:41-45) Mörgum árum síðar hélt Jósía konungur í stríð án leyfis frá Guði og sú fljótfærni kostaði hann lífið. – 2. Kroníkubók 35:20-24.

^ gr. 8 Ísraelsmenn buðu Kanverjum ekki friðarsáttmála áður en þeir réðust gegn þeim. Hvers vegna ekki? Kanverjar höfðu fengið 400 ár til að snúa frá vondum vegum sínum. Þegar Ísraelsmenn hófu stríð gegn þeim var kanverska þjóðin óforbetranleg í illsku sinni. (1. Mósebók 15:13-16) Það átti því að afmá hana með öllu. En nokkrir Kanverjar, sem bættu ráð sitt, fengu þó að halda lífi. – Jósúabók 6:25; 9:3-27.