Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSIÐUEFNI | HVERNIG LÍTUR GUÐ Á STRÍÐ?

Viðhorf Guðs til stríðs nú á dögum

Viðhorf Guðs til stríðs nú á dögum

Fólk er kúgað og þjakað nú á dögum. Margir þrábiðja Guð um lausn undan þjáningum og spyrja sig hvort þær taki nokkurn tíma enda. Hlustar Guð á bænir þeirra um hjálp? Og hvað um þá sem fara í stríð til að losna undan kúgun? Styður Guð hernað þeirra og lítur á hann sem réttlætanlegan?

Harmagedónstríðið mun binda enda á allar styrjaldir.

Eitt megum við vera viss um: Guð tekur eftir þjáningum fólks og ætlar að gera eitthvað í málinu. (Sálmur 72:13, 14) Í orði sínu lofar Guð ,að veita þeim sem þrengingu líða, hvíld‘. Hvenær verður það? „Þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með máttugum englum sínum. Hann ... hegnir þeim sem þekkja ekki Guð og þeim sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“ (2. Þessaloníkubréf 1:7, 8) Í framtíðinni opinberast Jesús í ,stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ sem í Biblíunni er einnig kallað Harmagedón. – Opinberunarbókin 16:14, 16.

Í því stríði lætur Guð ekki menn heldur son sinn, Jesú Krist, ásamt öðrum máttugum andaverum heyja stríð gegn hinum illu. Þessar himnesku hersveitir munu binda enda á alla kúgun. – Jesaja 11:4; Opinberunarbókin 19:11-16.

Viðhorf Guðs til stríðs hefur ekkert breyst. Hann lítur enn á stríð sem gilda leið til að binda enda á illsku og kúgun. En eins og hingað til hefur Guð einn rétt til að ákveða hvenær slík stríð skuli háð og hverjir taki þátt í þeim. Eins og fram hefur komið hefur Guð ákveðið að stríðið gegn illskunni og til að hefna hinna kúguðu verði háð í framtíðinni af Jesú Kristi, syni hans. Það merkir að stríð,  sem háð eru nú á dögum, hafa ekki velþóknun Guðs, sama hversu göfug ástæða virðist vera fyrir þeim.

Lýsum þessu með dæmi: Tveir bræður byrja að rífast og slást meðan faðir þeirra er að heiman. Þeir gera hlé á slagsmálunum til að hringja í pabba sinn. Annar bróðirinn sakar hinn um að hafa byrjað slagsmálin en hinn segist hafa verið beittur órétti. Báðir biðla til pabba síns og vonast eftir að hann taki afstöðu með sér. Eftir að hafa hlustað á þá báða segir faðirinn þeim hins vegar að hætta að slást og bíða eftir að hann komi heim og geri út um málið. Í stutta stund bíða bræðurnir. Fljótlega eru þeir þó farnir að slást aftur. Þegar faðirinn kemur heim er hann óánægður með báða synina og refsar þeim fyrir að hafa ekki hlýtt sér.

Stríðandi þjóðir biðla oft til Guðs um stuðning. En Guð tekur ekki afstöðu í styrjöldum sem háðar eru nú á dögum. Þess í stað segir skýrt í orði hans, Biblíunni: „Gjaldið engum illt fyrir illt“ og „leitið ekki hefnda sjálf“. (Rómverjabréfið 12:17, 19) Auk þess hefur hann kunngert mönnunum að þeir eigi að bíða þolinmóðir eftir að hann taki í taumana, en það mun hann gera í Harmagedónstríðinu. (Sálmur 37:7) Þegar þjóðir heims bíða ekki eftir að Guð skerist í leikinn og grípa þess í stað sjálfar til vopna lítur Guð á stríð þeirra sem yfirgengilega ósvífni og hefur vanþóknun á þeim. Í Harmagedónstríðinu mun Guð láta reiði sína í ljós og útkljá deilur þjóða í eitt skipti fyrir öll. Þá „stöðvar [hann] stríð til endimarka jarðar“. (Sálmur 46:10; Jesaja 34:2) Harmagedónstríðið mun binda enda á allar styrjaldir.

Endir allra styrjalda er aðeins ein þeirra mörgu blessana sem ríki Guðs mun færa mönnunum. Jesús talaði um þessa stjórn í bæn sem er flestum kunn: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Guðsríki stöðvar ekki aðeins styrjaldir heldur afmáir það einnig illskuna sem er orsök styrjalda. * (Sálmur 37:9, 10, 14, 15) Það er því ekki að undra að fylgjendur Jesú skuli hlakka ákaflega til þeirra blessana sem ríki Guðs færir þeim. – 2. Pétursbréf 3:13.

En hversu langt er þess að bíða að ríki Guðs bindi enda á þjáningar, kúgun og illsku? Uppfylling á spádómum Biblíunnar benda til þess að við lifum „á síðustu dögum“ þessa heimskerfis. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) * Brátt mun ríki Guðs binda enda á þessa ,síðustu daga‘ í Harmagedónstríðinu.

Eins og fram kom fyrr í þessari grein munu þeir sem ákveða að „hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú“ farast í þessu lokastríði. (2. Þessaloníkubréf 1:8) Mundu samt að Guði þóknast ekki dauði nokkurs manns, jafnvel ekki þess rangláta. (Esekíel 33:11) „Hann vill ekki að neinn glatist“ í þessu lokastríði og þess vegna sér hann til þess að fagnaðarerindið um Jesú Krist sé „prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það“. (2. Pétursbréf 3:8, 9; Matteus 24:14; 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Já, vegna boðunarstarfs Votta Jehóva út um allan heim fær fólk tækifæri til að kynnast Guði, hlýða fagnaðarerindinu um Jesú og sjá þann dag þegar stríð heyra sögunni til.

^ gr. 9 Ríki Guðs mun einnig afmá dauðann, óvin mannkyns. Guð mun reisa ótalmarga upp frá dauðum, þar á meðal marga sem í gegnum tíðina hafa fallið í stríðum. Nánari upplýsingar er að finna í 7. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.

^ gr. 10 Hægt er að fá frekari upplýsingar um síðustu daga í 9. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían?