Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | DEBÓRA

„Þú komst fram, móðir í Ísrael“

„Þú komst fram, móðir í Ísrael“

DEBÓRA virti fyrir sér í morgunskímunni hermennina sem höfðu safnast saman uppi á Taborfjalli. Hún var snortin af hugrekki mannanna og trú Baraks, leiðtoga þeirra. Þótt þetta væri 10.000 manna her myndi reyna á hugrekki þeirra og trú þennan dag. Þeir áttu að leggja til atlögu við grimman óvinaher þó að þeir væru miklu færri og illa vopnum búnir. En þangað voru þeir samt komnir – aðallega vegna hvatningar þessarar einu konu.

Sjáðu Debóru fyrir þér. Fötin hennar bærast í vindinum þar sem hún stendur ásamt Barak og horfir á tilkomumikið útsýnið af fjallinu. Taborfjallið er um 400 metra hátt, keilulaga með flötum toppi. Ef maður stendur uppi á fjallstoppnum sér maður Esdraelonsléttuna teygja sig í suðvestur. Bugðótt Kísonáin rennur í gegnum grasi vaxið flatlendið þar til hún fellur í hafið mikla við Karmelfjall. Árfarvegurinn gæti hafa verið þurr þennan morgun en það glitraði samt á eitthvað á breiðri sléttunni. Her Sísera nálgaðist og það glitti í ískyggileg járnvopn. Þarna var á ferð stolt Sísera – 900 stríðsvagnar, hugsanlega útbúnir járnljáum sem stóðu út úr ásum hjólanna. Sísera ætlaði sér að strádrepa vanbúinn Ísraelsherinn rétt eins og hann væri að slá bygg.

Debóra vissi að Barak og menn hans væru að bíða eftir að hún segði eitthvað, að hún gæfi þeim einhvers konar merki. Var hún eini kvenmaðurinn þarna? Hvernig fannst henni að bera svona mikla ábyrgð við þessar aðstæður? Var hún í vafa um hvert hlutverk hennar væri? Augljóslega ekki! Jehóva Guð hafði sagt henni að hefja þetta stríð og hann hafði einnig opinberað það fyrir henni að hann myndi láta konu stöðva stríðið. (Dómarabókin 4:9) Hvað getum við lært af trú Debóru og þessara hugrökku hermanna?

„FARÐU OG HALTU TIL TABORFJALLS“

Þegar Debóra er fyrst kynnt til sögunnar í Biblíunni er hún sögð vera „spámaður“. Þó að það sé óvanalegt er Debóra ekki sú eina í frásögum Biblíunnar sem ber þann titil. * Debóra hafði einnig öðrum skyldum að gegna. Hún útkljáði deilur með hjálp Jehóva þegar fólk kom og lagði mál sín fyrir hana. – Dómarabókin 4:4, 5.

Debóra bjó í fjallahéraði Efraíms, á milli borganna Betel og Rama. Þar var hún vön að sitja undir pálmatré og þjóna fólkinu undir leiðsögn Jehóva. Verkefni hennar var allt annað en auðvelt en hún lét það ekki draga úr sér kjark. Það var mikil þörf á þjónustu hennar. Síðar var hún reyndar með í að semja söng, undir innblæstri, þar sem meðal annars er minnst á ótrúfesti þjóðar hennar: „Menn kusu sér nýja guði. Þá var barist við borgarhliðin.“ (Dómarabókin 5:8) Ísraelsmenn höfðu snúið baki við Jehóva til að þjóna öðrum guðum og þess vegna seldi Jehóva þá í hendur óvinum þeirra. Kanverskur konungur að nafni Jabín drottnaði yfir þeim og setti Sísera, voldugan hershöfðingja sinn, yfir þá.

Nafnið Sísera eitt og sér olli skelfingu og ótta í Ísrael. Trúarsiðir og menning Kanverja var hrottafengin og fól meðal annars í sér barnafórnir og musterisvændi. Hvernig var að hafa kanverskan hershöfðingja og her hans við völd í landinu? Söngur Debóru leiðir í ljós að það var nánast ómögulegt að ferðast um landið og smábæjarlíf var úr sögunni. (Dómarabókin 5:6, 7) Það er hugsanlegt að fólk hafi falið sig í skógum og hæðum og verið hrætt við að stunda búskap eða að búa í óvörðum bæjum, hvað þá að ferðast á þjóðvegum þar sem hægðarleikur var að ráðast á það, ræna börnunum og nauðga konunum. *

Skelfingin réði ríkjum í 20 ár eða þar til Jehóva sá merki um að þessi þrjóska þjóð hans væri tilbúin að breyta háttum sínum, eða eins og segir í innblásnum söng Debóru og Baraks: „Uns þú komst fram, Debóra, uns þú komst fram, móðir í Ísrael.“ Það er ekki vitað hvort Debóra, sem átti mann að nafni Lapídót, hafi sjálf verið móðir en þessi orð voru táknræn. Jehóva valdi Debóru til að sjá þjóðinni fyrir móðurlegri vernd. Hann gaf henni fyrirmæli um að boða mann með sterka trú, Barak dómara, á sinn fund og senda hann til að berjast gegn Sísera. – Dómarabókin 4:3, 6, 7; 5:7.

Debóra hvatti Barak til að ganga fram og frelsa þjóð Guðs.

„Farðu og haltu til Taborfjalls,“ fyrirskipaði Debóra fyrir munn Jehóva. Barak átti að safna saman 10.000 manna liði af tveim ættkvíslum Ísraels. Debóra flutti honum loforð Guðs um að þeir myndu sigra hinn volduga Sísera og 900 stríðsvagna hans. Þetta loforð kom Barak mjög á óvart. Enginn her var í Ísrael og þjóðin var illa vopnum búin. Barak samþykkti þó að halda út í stríð en aðeins ef Debóra kæmi með honum til Taborfjalls. – Dómarabókin 4:6-8; 5:6-8.

Sumir hafa ályktað ranglega að Barak hafi skort trú vegna þess að hann vildi að Debóra færi með honum. Þrátt fyrir allt bað hann Guð ekki um meiri vopnabúnað. Þessi trúfasti maður sá hag í því að hafa einhvern í umboði Jehóva með í för til styrktar honum og mönnum hans. (Hebreabréfið 11:32, 33) Jehóva varð við bón hans og heimilaði að Debóra færi með þeim. Jehóva innblés þó Debóru að spá fyrir að karlmaður fengi ekki heiðurinn af lokasigri stríðsins. (Dómarabókin 4:9) Guð hafði ákveðið að láta konu taka hinn illa Sísera af lífi.

Nú á dögum þurfa konur að þola mikið óréttlæti, ofbeldi og misþyrmingar. Þær njóta sjaldnast þeirrar virðingar sem Guð vill að þær njóti. Konur og menn standa jöfn frammi fyrir Guði og geta notið velþóknunar hans. (Rómverjabréfið 2:11; Galatabréfið 3:28) Saga Debóru minnir okkur á að Guð sýnir konum einnig velvild og traust með því að fela þeim sérstök verkefni. Það er mjög mikilvægt að við tileinkum okkur ekki fordóma sem eru svo útbreiddir í nútímasamfélagi.

,JÖRÐIN SKALF, HIMINNINN NÖTRAÐI OG SKÝIN LÉTU VATNIÐ STREYMA‘

Barak kallaði menn sína saman. Hann safnaði saman 10.000 mönnum sem höfðu hugrekki til að fara gegn ógnvænlegum her Sísera. Þegar Barak hélt með mönnum sínum upp á Taborfjall var hann ánægður að geta stappað í þá stálinu. Í frásögunni segir: „Debóra var honum samferða.“ (Dómarabókin 4:10) Hugsaðu þér hversu mjög það styrkti hermennina að sjá þessa hugrökku konu í för með þeim upp á Taborfjall. Konu sem var fús til að hætta lífi sínu með þeim vegna trúar sinnar á Jehóva Guð.

Þegar Sísera frétti að Ísraelsmenn hefðu vogað sér að safna saman liði gegn honum brást hann strax við. Fleiri kanverskir konungar gengu til liðs við Jabín konung sem var sennilega sá valdamesti. Þegar ógurlegur her Sísera ruddist yfir sléttuna á stríðsvögnum sínum skalf jörðin. Kanverjar voru sannfærðir um að þeir færu létt með að gjörsigra aumkunarverðan her Ísraelsmanna. – Dómarabókin 4:12, 13; 5:19.

Hvernig brugðust Barak og Debóra við þegar herfylkingarnar nálguðust? Ef þau héldu sig í hlíðum Taborfjalls hefðu þau kannski forskot á kanverska herinn því að til þess að geta notað stríðsvagnana þurftu þeir helst að vera á sléttlendi. En Barak ætlaði að berjast eins og Jehóva vildi svo að hann beið eftir fyrirmælum frá Debóru. Að lokum komu fyrirmælin. Hún sagði: „Rístu upp því að nú er sá dagur kominn að Drottinn mun selja Sísera þér í hendur. Vissulega fer Drottinn fyrir þér.“ Við lesum áfram: „Fór Barak þá ofan af Taborfjalli og tíu þúsund menn fylgdu honum.“ – Dómarabókin 4:14. *

Her Ísraelsmanna þusti niður hlíðina og út á opna sléttuna. Þeir stefndu beint á ógurlegar stríðsvélarnar. Fór Jehóva fyrir þeim eins og Debóra hafði lofað? Það kom fljótt í ljós. Þá „skalf jörðin, himinninn nötraði og skýin létu vatnið streyma“, segir í frásögunni. Það skall á steypiregn og alger ringulreið varð í tilkomumiklum hersveitum Sísera. Það virðist hafa orðið svo mikið úrhelli að jörðin varð fljótt að mýri. Fljótlega urðu þungir járnvagnarnir aðeins til trafala. Þeir sukku í leðjuna og sátu þar pikkfastir. – Dómarabókin 4:14, 15; 5:4.

Regnið var Barak og mönnum hans engin fyrirstaða. Þeir vissu hver olli því. Þeir réðust að hersveitum Kanverjanna eins og Guð hafði boðið þeim og þyrmdu engum af mönnum Sísera. Kísonáin flæddi yfir bakka sína og straumþunginn skolaði öllum líkunum niður að hafinu mikla. – Dómarabókin 4:16; 5:21.

Jehóva barðist fyrir þjóð sína eins og Debóra hafði sagt fyrir og gjörsigraði her Sísera.

Jehóva sendir þjóna sína ekki lengur í stríð. Hann ætlast þó til þess að fólk hans taki þátt í andlegum hernaði. (Matteus 26:52; 2. Korintubréf 10:4) Ef við gerum okkar besta til að hlýða Guði í heimi nútímans tökum við afstöðu með honum í þeim hernaði. Við þurfum að vera hugrökk vegna þess að þeir sem taka afstöðu með Guði mega búast við harðri andstöðu. En Jehóva hefur ekki breyst. Hann verndar þá sem leggja trú sína og traust á hann líkt og Debóra, Barak og hinir hugrökku hermenn Ísraels til forna.

„BLESSUÐ FRAMAR ÖLLUM KONUM“

Versti óvinurinn náði þó að flýja. Sísera, sem hafði kúgað þjóð Guðs svo illa, flúði vígvöllinn á hlaupum. Hann yfirgaf menn sína í miðjum bardaga, komst fram hjá hermönnum Ísraels upp á þurrt land og setti stefnuna á þann bandamann sem næstur var. Hann hraðaði sér langa leið yfir opið landsvæði, dauðhræddur um að hermenn Ísraels kæmu auga á hann. Sísera hljóp í áttina að tjaldbúðum Hebers en hann var Keníti sem hafði sagt skilið við hirðingjaþjóð sína, flust suður á bóginn og gert einhvers konar samkomulag við Jabín konung. – Dómarabókin 4:11, 17.

Sísera var örmagna þegar hann kom í tjaldbúðir Hebers. Heber var að heiman en Jael, eiginkona hans, var heima. Sísera gerði greinilega ráð fyrir að Jael myndi hafa í heiðri samkomulag eiginmanns síns við Jabín konung. Kannski fannst honum óhugsandi að konu dytti í hug að gera nokkuð á móti vilja eiginmanns síns. En Sísera þekkti Jael greinilega ekki. Hún hafði augljóslega séð hvernig Kanverjar höfðu kúgað og farið illa með þjóðina. Hún gerði sér líklega einnig grein fyrir að hún stóð frammi fyrir ákvörðun. Annaðhvort gæti hún hjálpað þessu illmenni eða gengið til liðs við Jehóva með því að ráðast til atlögu gegn óvini þjóðar hans. En hvað gæti hún gert? Hvernig gæti kona yfirbugað svo sterkan og þaulvanan hermann?

Jael þurfti að vera fljót að hugsa. Hún bauð Sísera að hvíla sig. Hann skipaði henni að halda komu sinni leyndri fyrir hverjum þeim manni sem kynni að leita hans. Þegar hann lagðist niður breiddi hún yfir hann og þegar hann bað hana um vatn að drekka gaf hún honum rjóma. Fljótlega féll Sísera í fastan svefn. Jael tók þá fram áhöld, sem konur sem bjuggu í tjöldum voru vanar að nota, tjaldhæl og hamar. Hún læddist síðan að Sísera. Nú stóð hún frammi fyrir því ógnvænlega verkefni að drepa manninn í nafni Jehóva. Augnablikshik eða óöryggi hefði getað haft hörmulegar afleiðingar. Hugsaði hún um fólk Guðs og hvernig þessi maður hafði farið illa með þjóðina í áratugi? Eða var henni efst í huga sá heiður að fá að taka afstöðu með Jehóva? Frásagan segir ekkert um það. Við vitum aðeins að hún lét til skarar skríða og Sísera lá í valnum. – Dómarabókin 4:18-21; 5:24-27.

Seinna kom Barak til að leita hann uppi. Þegar Jael sýndi honum Sísera þar sem hann lá dauður með tjaldhælinn í gegnum gagnaugað gerði hann sér grein fyrir að spádómur Debóru hafði ræst. Kona hafði drepið Sísera, þennan volduga hermann. Gagnrýnendur og efasemdamenn hafa kallað Jael ýmsum illum nöfnum en Barak og Debóra vissu betur. Í söng sínum var þeim innblásið að segja að Jael væri „blessuð framar öllum konum“ vegna hugrekkis síns. (Dómarabókin 4:22; 5:24) Göfuglyndi Debóru er sannarlega eftirtektarvert. Hún öfundaði Jael ekki af heiðrinum heldur var henni mest umhugað um að orð Jehóva hafði ræst.

Nú þegar Sísera var dauður stóð Ísraelsmönnum ekki lengur ógn af Jabín konungi. Kúgun Kanverja var loksins á enda. Friður varði nú í landinu í 40 ár. (Dómarabókin 4:24; 5:31) Debóra, Barak og Jael hlutu mikla blessun fyrir að leggja traust sitt á Jehóva Guð. Ef við líkjum eftir trú Debóru, tökum einarða afstöðu með Jehóva og hvetjum aðra til að gera slíkt hið sama blessar Jehóva okkur með ýmsum sigrum og varanlegum friði að lokum.

^ gr. 7 Dæmi um aðrar konur sem spáðu voru Mirjam, Hulda og eiginkona Jesaja. – 2. Mósebók 15:20; 2. Konungabók 22:14; Jesaja 8:3.

^ gr. 9 Söngur Debóru gefur til kynna að Sísera hafi oft snúið til baka úr hernaði með stúlkur eða konur að herfangi, stundum jafnvel fleiri en eina á hvern hermann. (Dómarabókin 5:30) Orðið sem þýtt er „kona“ í þessu versi merkir bókstaflega „leg“. Slíkt orðaval bendir til að þessar konur hafi aðallega verið teknar vegna æxlunarfæra sinna. Nauðganir voru að öllum líkindum daglegt brauð.

^ gr. 17 Þessum bardaga er lýst tvisvar í Biblíunni. Bæði í frásögunni í 4. kafla Dómarabókarinnar og í söng Debóru og Baraks í kafla 5. Sögurnar bæta hvor aðra upp því hvor um sig segir frá smáatriðum sem hin nefnir ekki.