Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Styður fornleifafræðin frásögur Biblíunnar?

Sargon II Assýríukonungur sem minnst er á í Jesaja 20:1.

Í grein í tímaritinu Biblical Archaeology Review kemur fram að tilvist „að minnsta kosti 50“ einstaklinga, sem talað er um í Hebresku ritningunum, sé nú hægt að staðfesta með fornleifafundum. Þeirra á meðal eru 14 konungar, sem ríktu í Júda og Ísrael, þar með taldir vel þekktir konungar eins og Davíð og Hiskía en einnig minna þekktir konungar eins og Menahem og Peka. Á lista fornleifafræðinganna var einnig að finna fimm faraóa og 19 konunga Assýríu, Babýlonar, Móabs, Persíu og Sýrlands. Fornleifafundir staðfesta ekki aðeins tilvist konunga heldur einnig óþekktari manna eins og æðstu presta, fræðimanns og fleiri embættismanna.

Í greininni kemur fram að fræðimenn séu almennt sammála um að nægar sannanir hafi fundist sem staðfesta að allir þessir einstaklingar hafi verið til. Í Grísku ritningunum er auðvitað talað um talsvert fleiri sögufræga einstaklinga og fornleifafundir staðfesta einnig tilvist margra þeirra. Þar má nefna Heródes, Pontíus Pílatus, Tíberíus, Kaífas og Sergíus Pál.

Hvenær hurfu ljón af söguslóðum Biblíunnar?

Ljón á glerhúðuðum vegg frá Babýlon til forna.

Á söguslóðum Biblíunnar finnast ekki lengur villt ljón. Biblían minnist þó á ljón í um 150 skipti sem sýnir að ritarar hennar þekktu vel til þeirra. Oftast er átt við ljón í táknrænum skilningi en Biblían segir líka frá raunverulegum ljónum. Í frásögum hennar kemur til dæmis fram að Samson, Davíð og Benaja hafi orðið ljónum að bana. (Dómarabókin 14:5, 6; 1. Samúelsbók 17:34, 35; 2. Samúelsbók 23:20) Einhverjir urðu líka ljónum að bráð. – 1. Konungabók 13:24; 2. Konungabók 17:25.

Fyrr á tímum var asíuljónið (Panthera leo persica) að finna allt frá Litlu-Asíu og Grikklandi til Palestínu, Sýrlands, Mesópótamíu og norðvesturhluta Indlands. Fólk bar óttablandna virðingu fyrir ljónum. Þau má oft finna í fornum listaverkum frá Austurlöndum nær. Helgigöngustræti Babýlonar var prýtt íburðarmiklum glerhúðuðum múrsteinsveggjum sem voru skreyttir ljónum.

Talið er að krossfarar hafi veitt ljón í Palestínu til loka 12. aldar e.Kr. Ljónin virðast hafa dáið út á svæðinu skömmu eftir aldamótin 1300. Þó bárust fregnir af ljónum í Mesópótamíu og Sýrlandi fram á 19. öld og í Íran og Írak allt fram á fyrri hluta 20. aldar.