Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | HAFA VÍSINDIN KOMIÐ Í STAÐ BIBLÍUNNAR?

Áhrif vísindanna á líf þitt

Áhrif vísindanna á líf þitt

Samkvæmt einni orðabók eru vísindi „kerfisbundnar rannsóknir á eðli og atferli hins efnislega alheims sem byggðar eru á athugunum, tilraunum og mælingum“. Slík vinna er krefjandi og útheimtir oft á tíðum mikla þolinmæði. Vísindamenn fást við tilraunir og athuganir í margar vikur, mánuði og jafnvel ár. Stundum er vinna þeirra til einskis en oft leiðir hún til góðs fyrir mennina. Skoðum nokkur dæmi.

Fyrirtæki í Evrópu hefur búið til tæki úr sterku plasti og háþróuðum síum sem hreinsar mengað drykkjarvatn og kemur þannig í veg fyrir að fólk veikist. Slík tæki hafa verið notuð í kjölfar náttúruhamfara líkt og þegar jarðskjálfti reið yfir Haítí árið 2010.

Hátt yfir jörðu svífa fjölmargir gervihnettir og mynda það sem kallað er GPS-staðsetningarkerfi. Þetta kerfi, sem fyrst var þróað í hernaðarlegum tilgangi, hjálpar ökumönnum, flugmönnum, siglingafræðingum og jafnvel veiðimönnum og fjallgöngumönnum að rata rétta leið. GPS-kerfið auðveldar fólki að komast leiðar sinnar, þökk sé vísindamönnunum sem fundu það upp.

Vísindin hafa auðveldað mönnum lífið á margan hátt. Notar þú farsíma, tölvu eða Netið? Hefurðu náð heilsu á ný eða hefur heilsan batnað vegna framfara í læknavísindum? Hefurðu ferðast með flugvél? Þá hefurðu notið góðs af framförum sem hafa orðið á sviði vísinda. Vísindin hafa á marga vegu góð áhrif á líf þitt.

ÞAÐ SEM VÍSINDUNUM ER UM MEGN

Vísindamenn kafa djúpt í efnisheiminn til að afla sér meiri þekkingar. Kjarneðlisfræðingar grandskoða innri starfsemi atómsins og stjarneðlisfræðingar leita milljónir ára aftur í tímann í þeirri von að geta skilið hvernig heimurinn varð til. Vísindamenn geta jafnvel rannsakað það sem er ósýnilegt og ósnertanlegt og sumir þeirra telja því að þeir ættu að geta fundið Guð, sem Biblían talar um, ef hann er til.

Sumir vel þekktir vísindamenn og heimspekingar ganga skrefinu lengra. Þeir halda á lofti því sem vísindarithöfundurinn Amir D. Aczel kallar „vísindalega rökfærslu gegn tilvist Guðs“. Heimsþekktur eðlisfræðingur fullyrðir til dæmis að „skortur á sönnunum fyrir því að til sé Guð, sem gegni mikilvægu hlutverki í alheiminum, taki af allan vafa um að slíkan guð sé að finna“. Aðrir gefa í skyn að máttarverk Guðs, sem talað er um í Biblíunni, séu aðeins „blekkingar“ og „klækir“. *

Við ættum þó að spyrja okkur: Vita vísindamenn nógu mikið um efnisheiminn til að geta fullyrt að þeir hafi komist að endanlegri niðurstöðu? Svarið er einfaldlega nei. Gríðarlegar framfarir hafa orðið í vísindum en margir vísindamenn segja þó enn mörgu ósvarað og að sumu verði kannski aldrei hægt að svara. „Við munum aldrei geta skilið allt til fulls,“ sagði eðlisfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Steven Weinberg um skilning manna á efnisheiminum. Prófessor Martin Rees, konunglegur stjörnufræðingur Bretlands, skrifaði: „Sumt munu mennirnir ef til vill aldrei komast til skilnings á.“ Sannleikurinn er sá að margt í efnisheiminum, allt frá örsmárri frumunni til hins feiknastóra alheims, er enn ekki hægt að skilja með hjálp nútímavísinda. Skoðaðu eftirfarandi dæmi:

  • Líffræðingar skilja ekki til fulls hvernig lifandi frumur starfa. Vísindamenn hafa ekki enn fundið skýr svör við því hvernig frumur taka til sín orku, framleiða prótín og skipta sér.

  • Þyngdaraflið hefur áhrif á okkur öllum stundum. Samt reynist það vísindamönnum enn hálfgerð ráðgáta. Þeir geta ekki skýrt til fullnustu hvernig þyngdaraflið dregur okkur aftur niður á jörðina þegar við hoppum eða hvernig það heldur tunglinu á sporbraut umhverfis jörðu.

  • Heimsfræðingar áætla að um 95 prósent af því sem alheimurinn er búinn til úr sé ósýnilegt og ógreinanlegt með tækjum sem notuð eru til vísindarannsókna. Þeir skipta þessum einkennilegu fyrirbærum í tvo flokka, hulduorku og hulduefni. Eðli þeirra er enn óþekkt.

Margt annað veldur vísindamönnum heilabrotum. Af hverju er það umhugsunarvert? Vinsæll rithöfundur, sem skrifar um vísindi, segir: „Þekking okkar kemst ekki í hálfkvisti við vanþekkingu okkar. Vísindi ættu að vekja með okkur aðdáun og löngun til að vita meira í stað þess að gera okkur þröngsýn.“

Ef þú veltir fyrir þér hvort vísindin eigi eftir að koma í stað Biblíunnar og geri þar af leiðandi trúna á Guð óþarfa skaltu hugleiða eftirfarandi: Fyrst snjallir vísindamenn, sem nota háþróuð rannsóknartæki, geta aðeins aflað sér takmarkaðrar þekkingar á efnisheiminum ætti ég þá að hafna með öllu því sem vísindamönnum er um megn að útskýra? Í lok ítarlegrar greinar um sögu og framfarir í stjörnufræði segir í alfræðiorðabókinni Encyclopedia Britannica: „Eftir næstum 4.000 ára reynslu í stjörnufræði er alheimurinn nánast jafn ókunnur mönnunum nú og hann virtist í augum Babýloníumanna.“

Vottar Jehóva virða rétt hvers og eins til að ákveða hverju þeir trúa. Við reynum eftir fremsta megni að fylgja þessum biblíulegu ráðum: „Látið sanngirni ykkar verða kunnuga öllum mönnum.“ (Filippíbréfið 4:5, New World Translation) Með það í huga hvetjum við þig til að kynna þér hvernig vísindin og Biblían samræmast og styðja hvort annað.

^ gr. 9 Sumir hafna Biblíunni vegna ýmissa kirkjukenninga eins og þeirri að jörðin sé miðja alheimsins eða að Guð hafi skapað jörðina á sex bókstaflegum sólarhringum. – Sjá rammann „ Biblían og vísindalegar staðreyndir“.