Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | JÓSEF

„Heyrið nú hvað mig dreymdi“

„Heyrið nú hvað mig dreymdi“

JÓSEF horfði löngunaraugum til austurs. Hann óskaði þess að hann gæti slitið sig lausan frá úlfaldalestinni og hlaupið í burtu. Einhvers staðar rétt handan við þessar hæðir var borgin Hebron þar sem hann bjó. Jakob, faðir hans, væri sennilega að sinna kvöldverkunum og hefði enga hugmynd um það sem komið hafði fyrir eftirlætissoninn. En það var engin leið fyrir Jósef að komast til hans núna. Kannski ætti Jósef aldrei eftir að sjá elskaðan föður sinn aftur. Farandkaupmennirnir höfðu augun á Jósef á meðan þeir ráku úlfaldana áfram eftir þessari troðnu slóð sem lá suður á bóginn. Núna var Jósef þeirra eign og þeir ætluðu ekki að sleppa honum úr augsýn. Í þeirra augum var þessi drengur hluti af dýrmætum farminum sem samanstóð af ilmandi olíum og trjákvoðu, verðmæti sem þeir gætu selt með miklum hagnaði suður í Egyptalandi.

Jósef hefur sennilega aðeins verið um 17 ára. Sjáðu hann fyrir þér þar sem hann lítur út undan sér til vesturs, sér sólina setjast yfir hafinu mikla og reynir að átta sig á hvernig líf hans hefur umturnast. Hann trúði því varla að bræður hans höfðu selt hann sem þræl og þaðan af síður að þeir hefðu í fyrstu ætlað að drepa hann. Mikið hlýtur Jósef að hafa átt erfitt með að halda aftur af tárunum. Hann gat með engu móti ímyndað sér hvaða framtíð biði hans.

Jósef glataði frelsinu en ekki trúnni.

Hvernig stóð á því að Jósef var í þessum hörmulegu aðstæðum? Og hvað getum við lært af trú þessa unga manns sem var lagður í einelti og svikinn af bræðrum sínum?

FLÓKNAR FJÖLSKYLDUAÐSTÆÐUR

Fjölskylda Jósefs var vægast sagt stór en hvorki samhent né hamingjusöm. Sú mynd, sem Biblían gefur af henni, afhjúpar slæmar afleiðingar fjölkvænis, þessarar rótgrónu siðvenju sem Guð umbar meðal fólks síns uns Jesús, sonur hans, kom aftur á einkvæni. (Matteus 19:4-6) Jakob átti að minnsta kosti 14 börn með fjórum konum – Leu og Rakel, eiginkonum sínum, og Silpu og Bílu, ambáttum þeirra. Hin fagra Rakel var sú sem Jakob unni. Hann bar aldrei slíkar tilfinningar til Leu, eldri systur Rakelar, sem hann hafði verið ginntur til að kvænast. Það ríkti hörð samkeppni milli eiginkvennanna og hafði þau áhrif á börnin að þau urðu öfundsjúk hvert út í annað. – 1. Mósebók 29:16-35; 30:1, 8, 19, 20; 37:35.

 Lengi vel gat Rakel ekki eignast börn en að lokum eignaðist hún Jósef. Jakob sá ekki sólina fyrir þessum syni sem Rakel ól honum í ellinni. Eitt sinn lagði fjölskyldan upp í ferð til fundar við Esaú, bróður Jakobs. Esaú bar manndrápshug til Jakobs og því var ferðin ekki hættulaus. En Jakob sá til þess að Rakel og Jósef litli væru á öruggasta staðnum aftast í gönguhópnum. Þessi viðburðaríki dagur hlýtur að hafa haft djúpstæð áhrif á Jósef. Reyndu að ímynda þér hvernig honum leið þennan morgun þegar hann starði stórum augum á aldraðan föður sinn og velti fyrir sér af hverju þessi þróttmikli maður væri orðinn haltur. Mikið hlýtur hann að hafa orðið undrandi þegar honum var sögð ástæðan: Þessa nótt hafði faðir hans glímt við máttugan engil! En af hverju hafði hann gert það? Af því að Jakob vildi öðlast blessun frá Jehóva Guði. Umbunin, sem Jakob fékk, var sú að nafni hans var breytt í Ísrael. Heil þjóð yrði kennd við nafn hans! (1. Mósebók 32:22-31) Með tímanum fékk Jósef að vita að ættkvíslir þessarar þjóðar myndu koma af sonum Ísraels, það er að segja Jakobs.

Síðar, þegar Jósef var enn ungur að árum, átti sér stað hörmulegur atburður. Ástkær móðir hans lést fyrir aldur fram þegar hún fæddi Benjamín, yngri bróður hans. Jakob, faðir þeirra, syrgði hana mjög. Sjáðu hann fyrir þér þar sem hann þerrar tárin blíðlega af augum Jósefs og huggar hann með voninni sem áður hafði verið Abraham, langafa Jósefs, til huggunar. Mikið hlýtur Jósef að hafa hlýnað um hjartaræturnar þegar hann heyrði að Jehóva myndi einn góðan veðurdag vekja móður hans aftur til lífsins! Kannski varð það til þess að Jósef þótti enn vænna um Jehóva sem er kærleiksríkur „Guð ... lifenda“. (Lúkas 20:38; Hebreabréfið 11:17-19) Synirnir tveir, sem Rakel ól Jakobi, áttu alltaf sérstakan sess í hjarta hans eftir fráfall hennar. – 1. Mósebók 35:18-20; 37:3; 44:27-29.

Mörg börn yrðu eigingjörn eða hrokafull af slíku atlæti. En Jósef lærði margt af góðum eiginleikum foreldra sinna og þroskaði með sér sterka trú og gott skyn á hvað væri rétt og rangt. Þegar hann var 17 ára aðstoðaði hann nokkra eldri bræður sína við að gæta sauða en varð vitni að því að þeir gerðu illt af sér. Fannst honum freistandi að þegja yfir því í þeim tilgangi að koma sér í mjúkinn hjá bræðrum sínum? Hvað sem því líður gerði hann það sem var rétt. Hann lét föður sinn vita af málinu. (1. Mósebók 37:2) Þegar Jakob sá hve hugrakkur ástkær sonur hans var fékk hann hugsanlega enn meiri mætur á honum. Fordæmi Jósefs er svo sannarlega verðugt umhugsunarefni fyrir ungt fólk sem óttast Guð. Þegar það virðist freistandi að hylma yfir alvarlega synd einhvers, hvort heldur systkinis eða vinar, er viturlegt að líkja eftir Jósef og láta þá sem eru í aðstöðu til að hjálpa hinum brotlega vita af málinu. – 3. Mósebók 5:1.

Við getum einnig dregið lærdóm af fjölskylduaðstæðunum sem Jósef ólst upp við. Sem betur fer er fjölkvæni óheimilt meðal þjóna Guðs nú til  dags. Samt sem áður eiga margir innan safnaðarins stjúpforeldri, stjúpbörn eða stjúpsystkini. Allir geta lært af frásögunni um fjölskyldu Jakobs að það grefur undan einingu fjölskyldunnar ef foreldrarnir eru hlutdrægir og mismuna börnunum. Skynsamir foreldrar, sem annast samsetta fjölskyldu, gera allt sem þeir geta til að fullvissa börn sín og stjúpbörn um að þeir elski hvert og eitt þeirra, að þau búi öll yfir einstökum hæfileikum og að sérhvert þeirra geti aukið á hamingju fjölskyldunnar. – Rómverjabréfið 2:11.

ÖFUNDIN GREFUR UM SIG

Jakob heiðraði Jósef fyrir að vera trúr og réttlátur.

Jósef tók hugrakkur afstöðu með því sem var rétt. Kannski var það þess vegna sem Jakob ákvað að heiðra hann með því að láta gera sérstaka flík handa honum. (1. Mósebók 37:3) Í sumum biblíuþýðingum segir að þetta hafi verið marglitur eða röndóttur kyrtill en það er fátt því til stuðnings. Líklega var þetta síður og glæsilegur kyrtill með löngum ermum, flík sem höfðingi eða prins myndi hugsanlega klæðast.

Jakobi gekk eflaust gott eitt til og sú umhyggja og virðing, sem hann sýndi Jósef, hlýtur að hafa snert hjarta drengsins. En þessi flík átti eftir að valda Jósef miklum erfiðleikum. Hafðu í huga að hann var fjárhirðir og það var erfiðisvinna. Sjáðu hann fyrir þér í þessum konunglegu klæðum þar sem hann skálmar í gegnum hátt og þétt gras, klifrar í klettum eða leysir lamb úr þyrnirunna. Og það sem verra var, hvaða áhrif myndi það hafa á samband Jósefs við bræður sína að faðir þeirra skyldi gefa honum gjöf sem endurspeglaði sérstakt dálæti hans á honum?

Biblían svarar því: „Þegar bræðrum hans varð ljóst að faðir þeirra elskaði hann meir en þá lögðu þeir hatur á hann og gátu ekki talað vinsamlega við hann.“ * (1. Mósebók 37:4) Öfund þeirra er kannski skiljanleg en það var alls ekki skynsamlegt af þeim að láta undan þessari skaðlegu tilfinningu. (Orðskviðirnir 14:30; 27:4) Hefurðu einhvern tíma öfundað einhvern sem fékk athygli eða heiður sem þú vildir fá? Hugsaðu þá um bræður Jósefs. Öfundsýkin kom þeim til að gera ýmislegt sem þeir sáu ákaflega eftir seinna meir. Fordæmi þeirra minnir þjóna Guðs á að það er langtum viturlegra að ,fagna með fagnendum‘. – Rómverjabréfið 12:15.

Jósef gat örugglega skynjað að bræður hans báru illan hug til hans. En greip hann til þess ráðs að fara úr kyrtlinum og fela hann í hvert sinn sem bræður hans voru nærri? Kannski langaði hann til þess. Mundu samt að Jakob gaf Jósef kyrtilinn til að láta velþóknun sína og föðurást í ljós. Jósef vildi ekki bregðast trausti föður síns og sýndi honum hollustu með því að vera í kyrtlinum. Við getum lært margt af þessu. Enda þótt himneskur faðir  okkar sé aldrei hlutdrægur kýs hann stundum að sýna einstaka þjóni sínum sérstaka athygli og velvild. Enn fremur biður hann alla þjóna sína um að skera sig úr þessum spillta og siðlausa heimi. Jósef skar sig úr í þessum sérstaka kyrtli og á svipaðan hátt eru sannkristnir menn frábrugðnir fjöldanum vegna hegðunar sinnar. Hegðun þeirra vekur þó stundum öfund og fjandskap annarra. (1. Pétursbréf 4:4) En ætti þá guðrækinn maður að fela það að hann þjóni Guði? Nei, ekkert frekar en Jósef hefði átt að fela kyrtilinn. – Lúkas 11:33.

DRAUMAR JÓSEFS

Stuttu síðar dreymdi Jósef tvo sérkennilega drauma. Fyrri draumurinn var á þá leið að Jósef og bræður hans voru hver um sig að binda kornknippi. Kornknippi bræðra hans röðuðu sér síðan umhverfis kornknippi hans og lutu því, en það stóð upprétt. Í síðari draumnum lutu sólin, tunglið og 11 stjörnur Jósef. (1. Mósebók 37:6, 7, 9) Hvernig átti Jósef að bregðast við þessum undarlegu draumum?

Draumarnir voru frá Jehóva Guði. Í þeim var fólginn spádómlegur boðskapur sem Guð vildi að Jósef kæmi á framfæri. Jósef átti í rauninni að flytja spádóm Guðs líkt og allir hinir spámennirnir gerðu þegar þeir fluttu þverlyndu fólki Guðs boðskap hans og dóma.

Jósef sagði hógvær við bræður sína: „Heyrið nú hvað mig dreymdi.“ Bræður hans skildu merkingu draumsins og voru hreint ekki ánægðir. Þeir spurðu í hæðnistón: „Ætlarðu að verða konungur og ríkja yfir okkur?“ Frásagan bætir við: „Þeir hötuðu hann enn meir vegna drauma hans og þess sem hann sagði.“ Þegar Jósef sagði föður sínum og bræðrum frá síðari draumnum voru viðbrögðin lítið skárri. Samkvæmt frásögunni „ávítaði faðir hans hann og sagði: ,Hvaða draumur er þetta sem þig hefur dreymt? Eigum við að koma, ég og móðir þín og bræður þínir, og lúta til jarðar fyrir þér?‘“ Þó hélt Jakob áfram að hugleiða það sem Jósef hafði sagt. Gat verið að Jehóva væri að koma boðum á framfæri við drenginn? – 1. Mósebók 37:6, 8, 10, 11.

Jósef var hvorki sá fyrsti né sá síðasti sem fékk það verkefni frá Jehóva að flytja spádómsboðskap sem féll ekki í kramið hjá fólki og leiddi jafnvel til ofsókna. Jesús var mestur þeirra sem falið var að flytja slíkan boðskap og hann sagði fylgjendum sínum: „Hafi menn ofsótt mig þá munu þeir líka ofsækja yður.“ (Jóhannes 15:20) Þjónar Guðs á öllum aldri geta lært margt af trú og hugrekki Jósefs.

HEIFTIN TEKUR ÖLL VÖLD

Að einhverjum tíma liðnum sendi Jakob hinn unga Jósef í ferðalag. Eldri synirnir voru að gæta sauða fyrir norðan, nálægt borginni Síkem þar sem þeir höfðu stuttu áður bakað sér óvild og reiði borgarbúa. Jakob hafði því eðlilega áhyggjur af sonum sínum og sendi Jósef til að kanna hvort allt væri í lagi hjá þeim. Hvað ætli Jósef hafi fundist um þessa beiðni? Hann vissi vel að bræður hans hötuðu hann meir en nokkru sinni fyrr. Hvernig myndu þeir taka því þegar hann kæmi til þeirra sem talsmaður föður þeirra? Samt sem áður hlýddi Jósef föður sínum og lagði af stað. – 1. Mósebók 34:25-30; 37:12-14.

Ferðin norður var löng og erfið, hugsanlega fjögurra eða fimm daga ganga. Síkem var hér um bil 80 kílómetra norður af Hebron. Þegar Jósef kom til Síkem frétti hann að bræður hans hefðu haldið áleiðis til borgarinnar Dótan sem var um 22 kílómetra norður af Síkem. Jósef hélt því göngunni áfram og nálgaðist loksins Dótan. Þegar bræður hans sáu hann álengdar náði heiftin samstundis tökum á þeim. Frásagan segir: „Þeir sögðu hver við annan: ,Sjáið, þarna kemur draumamaðurinn. Komum og drepum hann. Síðan köstum við honum ofan í gryfju og segjum að villidýr hafi étið hann. Þá sjáum við hvað verður úr draumum hans.‘“ Rúben tókst þó að fá bræður sína til að fallast á að kasta Jósef lifandi í gryfjuna, í von um að hann gæti bjargað drengnum síðar. – 1. Mósebók 37:19-22.

Jósef gekk til bræðra sinna án þess að hafa minnstu hugmynd um hvað þeir ætluðu sér að gera honum. Hann vonaðist eflaust til að samskipti þeirra yrðu friðsamleg. En þess í stað réðust bræður hans á hann! Þeir rifu hann úr kyrtlinum sem faðir hans hafði gefið honum, drógu hann að vatnslausri gryfju og hentu honum ofan í hana. Jósef steyptist niður í djúpa gryfjuna. Eftir að hafa áttað sig á því sem hafði gerst reis hann á fætur en sá fljótt að hann kæmist aldrei hjálparlaust upp úr gryfjunni. Fyrir ofan glitti í heiðan himinn og hann  heyrði raddir bræðra sinna fjara út. Hann hrópaði til þeirra og sárbændi þá um hjálp en þeir létu sem þeir heyrðu ekki í honum. Án minnstu samkenndar settust þeir að snæðingi skammt frá gryfjunni. Meðan Rúben skrapp frá ræddu þeir aftur um að drepa drenginn en Júda taldi þá á að selja hann í staðinn kaupmönnum sem ættu leið hjá. Dótan var í grennd við verslunarleiðina sem lá til Egyptalands og innan skamms birtist úlfaldalest Ísmaelíta og Midíaníta. Skaðinn var skeður þegar Rúben kom aftur. Þeir höfðu selt bróður sinn sem þræl fyrir 20 silfursikla. * – 1. Mósebók 37:23-28; 42:21.

Bræður Jósefs lögðu hatur á hann þótt hann gerði það sem var rétt.

Við erum nú aftur komin þangað sem frá var horfið í byrjun greinarinnar. Þar sem Jósef var fluttur nauðugur suður eftir veginum til Egyptalands leit út fyrir að hann hefði misst allt. Hann hafði verið sviptur frelsinu og í mörg ár fengi hann engar fregnir af fjölskyldu sinni. Hann vissi ekkert um örvæntingu Rúbens þegar hann kom aftur og sá að Jósef var horfinn eða um sorg Jakobs þegar honum var talin trú um að ástkær sonur hans væri látinn. Hann fékk engar fregnir af Ísak, öldruðum afa sínum, og ekki heldur af Benjamín, yngri bróður sínum, sem hann elskaði svo heitt og átti eftir að sakna sárt. En hafði Jósef í raun verið sviptur öllu? – 1. Mósebók 37:29-35.

Það leit kannski út fyrir það en þó var nokkuð sem bræður Jósefs gætu aldrei tekið frá honum. Það var trú hans á Jehóva Guð. Jósef þekkti Jehóva vel og ekkert gæti tekið það frá honum – hvorki fjölskyldumissirinn né harðræðið sem hann var beittur á leiðinni til Egyptalands, né heldur niðurlægingin sem hann upplifði þegar hann var seldur sem þræll til auðugs Egypta að nafni Pótífar. (1. Mósebók 37:36) En hvaða áhrif höfðu þessar þrengingar á trú Jósefs? Hann varð enn ákveðnari í að halda sig nálægt Guði sínum og trú hans efldist við hverja raun. Væri ekki viturlegt af okkur að líkja eftir trú Jósefs?

^ gr. 15 Sumir fræðimenn telja að bræður Jósefs hafi túlkað þessa höfðinglegu gjöf sem merki um að faðir þeirra hefði í hyggju að veita Jósef frumburðarréttinn. Þeir vissu vel að Jósef var fyrsti sonurinn sem Jakob eignaðist með eiginkonunni sem hann unni og hafði ætlað sér að giftast fyrst. Rúben, frumburður Jakobs, hafði auk þess lagst með hjákonu hans. Þar með hafði hann vanvirt föður sinn og glatað frumburðarréttinum. – 1. Mósebók 35:22; 49:3, 4.

^ gr. 25 Frásaga Biblíunnar er nákvæm jafnvel í tengslum við þessar tölulegu upplýsingar. Heimildir frá þessu tímabili leiða í ljós að þrælar voru almennt seldir á 20 sikla í Egyptalandi.