Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 LESENDUR SPYRJA ...

Hver skapaði Guð?

Hver skapaði Guð?

Sjáðu fyrir þér föður sem er að tala við sjö ára son sinn. Hann segir: „Fyrir langalöngu bjó Guð til jörðina og allt sem er á henni. Hann bjó líka til sólina, tunglið og stjörnurnar.“ Drengurinn er hugsi í smástund og spyr síðan: „En pabbi, hver bjó Guð til?“

„Enginn,“ svarar faðirinn. „Guð hefur alltaf verið til.“ Þetta einfalda svar dugir drengnum í bili. En þegar hann stækkar leitar spurningin aftur og aftur á huga hans. Hann á erfitt með að skilja að hægt sé að vera til án þess að eiga sér upphaf. Meira að segja alheimurinn á sér upphaf. Hann spyr sjálfan sig: ,Hvernig varð Guð eiginlega til?‘

Hverju svarar Biblían? Í meginatriðum eins og faðirinn í dæminu að ofan. Biblíuritarinn Móse skrifaði: „Drottinn ... áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.“ (Sálmur 90:1, 2) Jesaja spámaður tók í sama streng og spurði: „Veistu ekki eða hefur þú ekki heyrt að Drottinn er eilífur Guð sem skapaði endimörk jarðar?“ (Jesaja 40:28) Í Júdasarbréfinu er einnig talað um að Guð hafi verið til „frá allri eilífð“. – Júdasarbréfið 25, Biblían 1859.

Þessi vers sýna fram á að Guð er ,konungur eilífðar‘ eins og Páll postuli komst að orði. (1. Tímóteusarbréf 1:17) Það merkir að Guð hefur alltaf verið til sama hversu langt við förum aftur í tímann. Og hann verður til um alla framtíð. (Opinberunarbókin 1:8) Það er því eitt grundvallareinkenni almáttugs Guðs að hann er eilífur.

Hvers vegna eigum við erfitt með að skilja það? Vegna þess að ævilengd okkar er takmörkuð og þar af leiðandi skynjum við tímann allt öðruvísi en Jehóva Guð. Þar sem hann er eilífur eru þúsund ár fyrir honum eins og einn dagur. (2. Pétursbréf 3:8) Lýsum þessu með dæmi. Gæti fullorðin engispretta, sem lifir aðeins í 50 daga, skilið ævilengd okkar sem er 70 eða 80 ár? Það er harla ólíklegt. Biblían segir þó að við séum eins og engisprettur í samanburði við hinn mikla skapara. Hæfni okkar til að rökhugsa er meira að segja ósköp takmörkuð miðað við hugsanir hans. (Jesaja 40:22; 55:8, 9) Því er ekkert undarlegt að það skuli vera margt í tengslum við Jehóva sem við mennirnir getum hreinlega ekki skilið til fulls.

Enda þótt við eigum erfitt með að skilja að Guð sé eilífur getum við samt séð að það er rökrétt. Ef einhver annar hefði skapað Guð væri sú persóna skaparinn. Biblían segir þó skýrum orðum að Jehóva sé sá sem „hefur skapað alla hluti“. (Opinberunarbókin 4:11) Auk þess vitum við að fyrir ævalöngu var alheimurinn ekki til. (1. Mósebók 1:1, 2) En hvernig varð hann til? Það gefur augaleið að skaparinn þurfti að vera til á undan alheiminum. Hann var líka til á undan öllum öðrum skynsemigæddum verum, eins og til dæmis einkasyni sínum og englunum. (Jobsbók 38:4, 7; Kólossubréfið 1:15) Það er því greinilegt að í fyrstu var enginn til nema hann. Hann getur ekki hafa verið skapaður þar sem enginn annar var til sem gat skapað hann.

Að við og allur alheimurinn skuli vera til staðfestir tilvist eilífs Guðs. Sá sem hannaði alheiminn og ákvarðaði þau lög sem stýra honum hlýtur alltaf að hafa verið til. Hann einn gat gefið öllu öðru líf. – Jobsbók 33:4.