Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | HEFUR GUÐ ÁHUGA Á ÞÉR?

Guð reynir að ná til þín

Guð reynir að ná til þín

„Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ – JÓHANNES 6:44, Biblían 1981.

AF HVERJU SUMIR ERU Í VAFA: Mörgum finnst þeir ekki nánir Guði jafnvel þótt þeir trúi á hann. Christina sem býr á Írlandi sótti kirkju í hverri viku en segir samt: „Ég átti erfitt með að líta á Guð sem persónu. Fyrir mér var hann bara sá sem hafði skapað allt. Ég þekkti hann ekki neitt og mér fannst ég aldrei náin honum.“

ORÐ GUÐS KENNIR: Jehóva heldur áfram að reyna að ná til okkar þótt okkur líði kannski svipað og Christinu. Jesús brá upp þessari líkingu af umhyggju Guðs fyrir okkur: „Ef einhver á hundrað sauði og einn þeirra villist frá, skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í fjallinu og fer að leita þess sem villtur er?“ Hver er lærdómurinn? „Það [er] eigi vilji yðar himneska föður að nokkur þessara smælingja glatist.“ – Matteus 18:12-14.

Hver og einn „þessara smælingja“ er dýrmætur í augum Guðs. En hvernig fer Guð að því að „leita þess sem villtur er“? Versið, sem vitnað er í hér fyrir ofan, bendir á að Jehóva dragi fólk til sín.

Hverjir eru það nú á dögum sem ræða við fólk í heimahúsum og á götum úti um Guð og Biblíuna?

Lítum á hvernig Guð átti frumkvæðið að því að draga til sín hjartahreina einstaklinga á fyrstu öld. Þegar embættismaður frá Eþíópíu sat í vagni sínum og las biblíuspádóm gaf Guð Filippusi, lærisveini Jesú, boð um að fara til hans og útskýra fyrir honum hvað spádómurinn merkti. (Postulasagan 8:26-39) Síðar gaf Guð Pétri postula bendingu um að fara heim til Kornelíusar, rómversks liðsforingja sem bað oft til Guðs og leitaðist við að tilbiðja hann. (Postulasagan 10:1-48) Guð leiddi einnig Pál postula og félaga hans að á nokkurri sem rann fyrir utan borgina Filippí. Þar hittu þeir guðrækna konu, Lýdíu að nafni. Jehóva „opnaði ... hjarta hennar og hún tók við því sem Páll sagði“. – Postulasagan 16:9-15.

Í öllum þessum tilvikum sá Jehóva Guð til þess að þeir sem leituðu hans fengju tækifæri til að kynnast honum. Hverjir eru það nú á dögum sem ræða við fólk í heimahúsum og á götum úti um Guð og Biblíuna? Margir myndu segja að það væru Vottar Jehóva. Getur verið að Guð noti þá til að reyna að ná til þín? Væri ekki ráð að biðja Guð um að hjálpa þér að koma auga á hvernig hann reynir að draga þig til sín? *

^ gr. 8 Hægt er að fá nánari upplýsingar með því að horfa á myndskeiðið Hvers vegna ættum við að kynna okkur Biblíuna? á www.jw.org/is.