Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | HEFUR GUÐ ÁHUGA Á ÞÉR?

Guð skilur þig

Guð skilur þig

„Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.“ – SÁLMUR 139:1.

„Augu þín sáu mig sem fóstur.“ – SÁLMUR 139:16, New World Translation.

AF HVERJU SUMIR ERU Í VAFA: Margir halda að í augum Guðs séu mennirnir aðeins syndarar, óhreinir og óverðugir athygli hans. Kendra, sem þjáðist af þunglyndi, var að bugast af sektarkennd yfir því að geta ekki risið fullkomlega undir kröfum Guðs. Hvaða afleiðingar hafði það? Hún segir: „Ég hætti að biðja til Guðs.“

ORÐ GUÐS KENNIR: Jehóva sér í gegnum ófullkomleika þinn og veit hver þú ert innst inni. Biblían segir: „Hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ Þar að auki breytir hann ekki við okkur „eftir syndum vorum“ heldur fyrirgefur og miskunnar okkur þegar við iðrumst. – Sálmur 103:10, 14.

Leiðum hugann að Davíð, konungi Ísraels, sem minnst var á í fyrstu forsíðugreininni. Hann sagði í bæn til Guðs: „Augu þín sáu mig sem fóstur og í bók þinni voru allir hlutar þess skráðir ... Grandskoða mig, ó Guð, og þekktu hjarta mitt.“ (Sálmur 139:16, 23, New World Translation) Já, Davíð var viss um að þótt hann syndgaði, jafnvel mjög alvarlega, gæti Jehóva lesið hjarta hans og séð sára iðrun hans.

Jehóva skilur þig betur en nokkur maður getur gert. Í Biblíunni segir: „Maðurinn sér hið ytra en Drottinn horfir á hjartað.“ (1. Samúelsbók 16:7) Guð veit af hverju þú ert eins og þú ert. Hann veit hvernig erfðir, uppeldi, umhverfi og persónuleiki þinn hafa átt sinn þátt í að móta þann mann sem þú hefur að geyma. Hann bæði sér og hefur mætur á þeirri persónu sem þig langar til að vera og tekur eftir viðleitni þinni til að breyta þér, jafnvel þótt þú gerir mistök.

Guð hefur næman skilning á því hver þú ert í raun og veru. En hvernig nýtir hann þennan skilning til að hughreysta þig?