Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | HEFUR GUÐ ÁHUGA Á ÞÉR?

Ber Guð umhyggju fyrir þér?

Ber Guð umhyggju fyrir þér?

„Ég er hrjáður og snauður en Drottinn ber umhyggju fyrir mér.“ * – DAVÍÐ KONUNGUR ÍSRAELS Á 11. ÖLD F.KR.

„Þjóðirnar eru sem dropi úr fötu.“ – JESAJA 40:15.

Var óraunhæft af Davíð konungi að halda að Guð bæri umhyggju fyrir honum? Ber Guð umhyggju fyrir þér? Mörgum finnst erfitt að trúa að almáttugur Guð hafi áhuga á þeim. Hvers vegna?

Ástæðan er meðal annars sú að Guð er miklu æðri en við mennirnir. Hann situr hátt yfir jörðinni og í augum hans eru heilu þjóðirnar ekki annað en „dropi úr fötu og eru metnar sem ryk á vogarskálum“. (Jesaja 40:15) Rithöfundur nokkur, sem trúir ekki á Guð, gekk svo langt að segja að það „beri vott um gífurlegt ofmat á sjálfum sér að trúa að til sé Guð sem hafi mikinn áhuga á því sem maður geri“.

Sumum finnst líka að þeir séu óverðugir umhyggju Guðs vegna þess hvernig þeir hegða sér. Til dæmis segir miðaldra maður að nafni Jim: „Ég bað aftur og aftur til Guðs um innri frið og sjálfstjórn en samt náði reiðin alltaf tökum á mér aftur. Að lokum dró ég þá ályktun að mér væri hreinlega ekki viðbjargandi og að Guð gæti ekki hjálpað mér.“

En er Guð svo fjarlægur okkur mönnunum að hann taki ekki eftir okkur? Hvað finnst honum í raun og veru um ófullkomna menn? Ef Guð hefði ekki látið okkur í té upplýsingar um sjálfan sig gæti enginn maður svarað þessum spurningum fyrir hans hönd. En Biblían, sem hefur að geyma innblásinn boðskap Guðs til mannkynsins, fullvissar okkur um að hann sé hvorki fjarlægur okkur né áhugalaus um okkur sem einstaklinga. Biblían segir: „Eigi er hann langt frá neinum af okkur.“ (Postulasagan 17:27) Í næstu fjórum greinum könnum við hvað Guð hefur sjálfur sagt um þetta og hvernig hann hefur sýnt hverju og einu okkar áhuga, líka þér.

^ gr. 3 Sálmur 40:18.