Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Ég háði mitt eigið stríð gegn óréttlæti og ofbeldi

Ég háði mitt eigið stríð gegn óréttlæti og ofbeldi
  • FÆÐINGARÁR: 1960

  • FÖÐURLAND: LÍBANON

  • FORSAGA: BARDAGAMAÐUR Í KUNGFÚ

FORTÍÐ MÍN:

Ég ólst upp í bænum Rmeich nálægt landamærum Líbanons og Ísraels. Á þessum tíma geisaði borgarastyrjöld í landinu. Ég man enn hávaðann þegar jarðsprengjur sprungu og sé enn ljóslifandi fyrir mér saklaus fórnarlömbin sem mörg hver höfðu misst útlimi. Lífið var erfitt og samfélagið var gegnsýrt af glæpum og ofbeldi.

Við vorum 12 í fjölskyldunni og tilheyrðum kaþólsku Maronítakirkjunni. Faðir minn vann myrkranna á milli til að draga björg í bú og móðir mín sá því til þess að við hin færum í kirkju. Með tímanum fannst mér þó að kirkjan, líkt og samfélagið í heild, styddi ekki við bakið á þeim sem minna mættu sín.

Á unglingsárunum fékk ég áhuga á bardagaíþrótt sem heitir kungfú. Ég stundaði æfingar af kappi og lærði alls kyns högg og spörk. Ég lærði líka að beita ýmsum vopnum tengdum bardagaíþróttum og með tímanum varð ég mjög góður í kungfú. Ég hugsaði með mér: ,Þótt ég geti ekki stöðvað styrjöldina get ég að minnsta kosti reynt að stöðva fólk sem beitir ofbeldi.‘ Í hvert sinn sem ég sá tvo einstaklinga slást skarst ég tafarlaust í leikinn. Ég var skapstór og það þurfti ekki mikið til að reita mig til reiði. Ég háði mitt eigið stríð gegn óréttlæti og ofbeldi og þar af leiðandi hræddist fólk mig um allt Suður-Líbanon.

Árið 1980 gekk ég í kungfúfélag í Beirút. Þrátt fyrir að sprengiflaugum og flugskeytum rigndi daglega yfir borgina mætti ég á allar æfingar. Líf mitt snerist eingöngu um að borða, sofa og lifa lífinu eins og Bruce Lee, sem var kínversk-amerískur leikari og kungfúmeistari. Ég greiddi mér eins og hann, gekk eins og hann og hrópaði eins og hann þegar ég gerði kungfúæfingar. Ég brosti aldrei.

BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Markmið mitt var að fara til Kína og verða atvinnumaður í kungfú. Kvöld eitt, þegar ég var að æfa mig af kappi fyrir ferðina til Kína, var bankað á dyrnar. Ég fór til dyra í svörtum æfingafötum og svitinn lak af mér. Vinur  minn stóð fyrir utan og hafði boðið með sér tveimur vottum Jehóva. Ég sagði við þá: „Ég veit ekkert um Biblíuna!“ Mig óraði ekki fyrir hve mikið líf mitt ætti eftir að breytast þaðan í frá.

Vottarnir sýndu mér í Biblíunni af hverju mennirnir geti aldrei útrýmt óréttlæti og ofbeldi í eigin krafti. Þeir bentu mér á að í rauninni er það Satan djöfullinn sem stendur á bak við slík vandamál. (Opinberunarbókin 12:12) Friðurinn og öryggið, sem stafaði frá vottunum, höfðaði sterklega til mín. Og þegar þeir sögðu mér frá nafni Guðs varð ég djúpt snortinn. (2. Mósebók 6:3, neðanmáls) Þeir sýndu mér líka 1. Tímóteusarbréf 4:8 sem segir: „Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu en guðræknin er til allra hluta nytsamleg og gefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.“ Þetta vers átti eftir að hafa mikil áhrif á líf mitt.

Því miður missti ég sambandið við vottana því að fjölskylda mín bað þá um að koma ekki aftur. En þrátt fyrir það tók ég þá ákvörðun að hætta að stunda kungfú og byrja að kynna mér Biblíuna. Bræðrum mínum var illa við það. Ég var samt staðráðinn í að hafa uppi á Vottum Jehóva og biðja þá um að aðstoða mig við að skilja Biblíuna.

Ég reyndi allt hvað ég gat til að hafa uppi á Vottunum en án árangurs. Um svipað leyti féll faðir minn skyndilega frá og fleiri áföll dundu yfir fjölskylduna. Sorgin, sem fylgdi í kjölfarið, lagðist þungt á mig. Ég hafði fengið vinnu hjá byggingarfyrirtæki og dag nokkurn spurði Adel, vinnufélagi minn, af hverju ég væri svona dapur. Hann sagði mér síðan frá loforði Biblíunnar um upprisu. Þessi kærleiksríki, hlýlegi vottur fræddi mig þolinmóður um Biblíuna næstu níu mánuðina.

Eftir því sem ég fékk betri skilning á sannindum Biblíunnar áttaði ég mig á að ég þyrfti að breyta heilmiklu í fari mínu. Það var ekki auðvelt. Ég var uppstökkur og æsti mig af minnsta tilefni. Með hjálp Biblíunnar varð mér ljóst að ég gæti stjórnað skapi mínu og að ég ætti ekki að láta undan sérhverri skyndihvöt. Jesús sagði til dæmis í Matteusi 5:44: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.“ Og í Rómverjabréfinu 12:19 segir: „Hefnið yðar ekki sjálfir ... því að ritað er: ,Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.‘“ (Biblían 1981) Þessi vers og önnur hjálpuðu mér smám saman að öðlast innri frið.

LÍFIÐ HEFUR BREYST TIL HINS BETRA:

Þótt fjölskylda mín hafi í fyrstu verið andsnúin því að ég kynnti mér Biblíuna með vottum Jehóva ber hún núna virðingu fyrir þeim. Einn af bræðrum mínum hefur meira að segja sameinast mér í tilbeiðslunni á Jehóva og móðir okkar varði trú okkar frammi fyrir öðrum þangað til hún lést.

Ég nýt líka þeirrar blessunar að eiga yndislega og trúfasta eiginkonu, sem heitir Anita. Ég hef mikla ánægju af að boða fagnaðarerindið með henni en við verjum 70 klukkustundum á mánuði til þess. Frá árinu 2000 höfum við Anita búið í Eskilstuna í Svíþjóð þar sem við kennum arabískumælandi fólki sannindi Biblíunnar.

Ég finn enn til með fórnarlömbum ofbeldis. En nú veit ég hver býr í raun og veru að baki því og vitneskjan um að Guð bindi brátt enda á allt ofbeldi gefur mér sanna gleði og frið. – Sálmur 37:29.

Við hjónin höfum yndi af því að þjóna Jehóva og njótum þess að hjálpa fólki að kynnast honum.