Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur staðist freistingar

Þú getur staðist freistingar

„Ég ætlaði alls ekki að skoða klám. En þegar ég fór á Netið birtist auglýsing á skjánum. Ég veit ekki hvað fékk mig til að smella á hana en ég gerði það samt.“ – KRISTÓFER. *

„Sæt stelpa í vinnunni fór að reyna við mig. Dag einn stakk hún upp á að við hittumst bara tvö og ,lékum okkur aðeins‘. Ég vissi alveg hvað hún var að meina.“ – DAÐI.

„ÉG GET staðist allt nema freistingar.“ Þessi fleygu orð lýsa vel hvernig sumir líta á freistingar – innst inni hafa þeir unun af þeim. En í augum annarra er stríðið við freistingar linnulaus barátta sem þeir vildu gjarnan geta sigrað í. Hvað finnst þér? Þegar freisting verður á vegi þínum ættirðu þá að láta undan eða reyna að standast hana?

Auðvitað leiða ekki allar freistingar til alvarlegra vandamála. Það eyðileggur varla líf þitt þótt þú laumist stöku sinnum í kökuboxið. Hins vegar getur það haft sorglegar afleiðingar að láta undan öðrum freistingum, sérstaklega þeim sem leiða til kynferðislegs siðleysis. Í Biblíunni fáum við þessa viðvörun: „Sá sem drýgir hór ... er vitstola, hann steypir sjálfum sér í glötun.“ – Orðskviðirnir 6:32, 33.

Hvernig ættirðu að bregðast við ef reynt er að tæla þig til siðleysis? Biblían svarar: „Það er vilji Guðs að þið verðið heilög. Hann vill að þið haldið ykkur frá óskírlífi [kynferðislegu siðleysi], að sérhvert ykkar temji sér að halda líkama sínum í helgun og heiðri.“ (1. Þessaloníkubréf 4:3, 4) Hvernig geturðu tamið þér slíkan viljastyrk? Skoðum þrennt sem getur hjálpað.

1. skref: Gættu að hvað þú horfir á

Að horfa á kynæsandi myndir ýtir undir óviðeigandi langanir. Jesús benti á tengslin milli þess að horfa á eitthvað og girnast það þegar hann sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ Hann hnykkti á þessu með sterku myndmáli og sagði: „Ef hægra auga þitt tælir þig til falls þá ríf það úr og kasta frá þér.“ (Matteus 5:28, 29) Hver er lærdómurinn? Til að standast freistingar verðum við að vera bæði einbeitt og ákveðin og horfa alls ekki á ögrandi myndefni.

Ef þú rekur augun í erótískar myndir skaltu líta undan.

 Lýsum þessu með dæmi: Ímyndaðu þér að þú sjáir bregða fyrir skærum glampa frá logsuðutæki. Myndirðu halda áfram að horfa í logann? Auðvitað ekki. Þú myndir líta undan eða halda fyrir augun til að skemma ekki sjónina. Þú ættir sömuleiðis að líta tafarlaust undan ef þú sérð erótísku myndefni bregða fyrir, hvort heldur á prenti, á skjánum eða ljóslifandi fyrir framan þig. Verndaðu hugann fyrir því sem getur spillt honum. Jónas, sem var háður klámi, segir: „Þegar ég sé fallega konu fæ ég oft löngun til að renna augunum til hennar aftur og aftur. En ég þvinga mig til að líta í aðra átt og segi við sjálfan mig: ,Biddu Jehóva um hjálp! Þú verður að biðja núna!‘ Eftir bænina líður löngunin fljótlega hjá.“ – Matteus 6:9, 13; 1. Korintubréf 10:13.

Hafðu líka í huga það sem Job, trúfastur þjónn Guðs, sagði: „Ég gerði þann sáttmála við augu mín að líta mey ekki girndarauga.“ (Jobsbók 31:1) Væri ekki ráð að fylgja fordæmi hans?

Prófaðu þetta: Líttu strax undan ef þú sérð erótísku myndefni bregða fyrir. Gerðu eins og biblíuritarinn sem sagði í bæn: „Snú augum mínum frá hégóma.“ – Sálmur 119:37.

2. skref: Gættu að hvað þú hugsar um

Þar sem við erum öll ófullkomin gætum við af og til þurft að berjast við rangar langanir. Í Biblíunni segir: „Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd.“ (Jakobsbréfið 1:14, 15) Hvernig geturðu forðast að festast í slíkum vítahring?

Þegar rangar hugsanir sækja á þig skaltu leita til Guðs í bæn.

Þegar rangar langanir gera vart við sig skaltu muna að þú getur ákveðið hvernig þú bregst við. Berstu gegn þeim. Upprættu þær úr huganum. Vertu ákveðinn í að gæla ekki við siðlausa hugaróra. Trausti, sem var um tíma háður netklámi, segir: „Ég streittist við að losna við rangar hugsanir með því að einbeita mér að því sem er uppbyggjandi. Það var ekki auðvelt og ég hrasaði oft. En með tímanum lærði ég að stjórna hugsunarhætti mínum.“ Elsa átti í baráttu við siðlausar langanir á unglingsárunum. Hún segir: „Mér tókst að hafa hemil á röngum  hugsunum með því að hafa nóg að gera og biðja til Jehóva.“

Prófaðu þetta: Þegar siðlausar hugsanir gera vart við sig skaltu samstundis leita til Jehóva Guðs í bæn. Leggðu þig fram um að berjast gegn röngum hugsunum með því að hugsa um „allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert“. – Filippíbréfið 4:8.

3. skref: Gættu að hvað þú gerir

Þegar löngun, freisting og tækifæri skjóta samtímis upp kollinum getur það auðveldlega leitt til vandamála. (Orðskviðirnir 7:6-23) Hvað geturðu gert til að verða ekki fórnarlamb slíkra aðstæðna?

„Ég fer bara á Netið þegar aðrir eru nálægt.“

Í Biblíunni fáum við þessi góðu ráð: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.“ (Orðskviðirnir 22:3) Vertu því varkár. Reyndu að sjá fyrir aðstæður sem eru ávísun á vandræði og forðastu þær. (Orðskviðirnir 7:25) Maður að nafni Fannar, sem náði tökum á klámfíkn sinni, segir: „Ég kom heimilistölvunni fyrir þar sem allir gátu séð hana og setti upp síu á netvafrann. Ég fer bara á Netið þegar aðrir eru nálægt.“ Trausti, sem minnst var á fyrr í greininni, tekur í svipaðan streng og segir: „Ég horfi ekki á ögrandi kvikmyndir og umgengst ekki fólk sem talar um kynlíf á ósæmilegan hátt. Ég vil ekki bjóða hættunni heim.“

Prófaðu þetta: Gerðu þér grein fyrir veikleikum þínum og hugleiddu hvernig þú getur forðast aðstæður sem gætu leitt til freistinga. – Matteus 6:13.

GEFSTU EKKI UPP!

En hvað ef þú missir fótanna og lætur undan freistingu þrátt fyrir að hafa reynt þitt allra besta? Misstu ekki kjarkinn. Haltu baráttunni áfram. Í Biblíunni segir: „Sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur upp aftur.“ (Orðskviðirnir 24:16) Já, himneskur faðir okkar hvetur okkur til að ,standa upp aftur‘. Ætlarðu að þiggja kærleiksríka hjálp hans? Gefstu þá aldrei upp á að leita til hans í bæn. Byggðu upp trú þína með biblíunámi og styrktu ásetning þinn með því að sækja safnaðarsamkomur. Þú getur líka sótt kjark í þetta loforð Guðs: „Ég styrki þig, ég hjálpa þér.“ – Jesaja 41:10.

Kristófer, sem minnst var á í upphafi greinarinnar, segir: „Ég þurfti að leggja mig allan fram um að sigrast á klámfíkninni. Ég hrasaði oft en með hjálp Guðs vann ég að lokum sigur.“ Daði, sem einnig var minnst á, segir: „Ég hefði auðveldlega getað sofið hjá stelpunni sem ég vinn með en ég lét ekki undan freistingunni. Ég var ákveðinn og sagði: ,Nei!‘ Það er svo gott að hafa hreina samvisku. En það sem er enn betra er að ég veit að Jehóva er stoltur af mér.“

Ef þú ert ákveðinn og stenst freistingar máttu vera viss um að Guð er stoltur af þér líka. – Orðskviðirnir 27:11.

^ gr. 2 Nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.