Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | VIÐHORF GUÐS TIL REYKINGA

Heimsfaraldur

Heimsfaraldur

Reykingar stráfella fólk.

  • Um 100.000.000 manna dóu vegna reykinga á síðustu öld.

  • Um 6.000.000 deyja af völdum reykinga á ári.

  • Að jafnaði fella þær einn einstakling á sex sekúndna fresti.

Og ekkert bendir til þess að þetta muni breytast.

Talið er að ef fram heldur sem horfir verði árleg dánartíðni vegna reykinga hærri en 8.000.000 árið 2030. Spár sýna að reykingar eigi eftir að verða 1.000.000.000 manna að aldurtila við lok 21. aldarinnar.

Þeir sem reykja eru ekki einu fórnarlömb tóbaks. Þau eru líka eftirlifandi fjölskyldur, sem verða fyrir miklum missi bæði tilfinningalega og fjárhagslega, og einnig þeir 600.000 einstaklingar sem deyja á ári vegna óbeinna reykinga. Og vandinn leggst í raun á alla því að kostnaður við heilbrigðisþjónustu eykst.

Ólíkt öðrum farsóttum þurfa læknar ekki að leita að lækningu við þessari plágu. Hægt er að binda endi á hana og lausnin er þekkt. Dr. Margaret Chan, sem er forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sagði: „Tóbaksfaraldurinn er eingöngu af mannavöldum og með samstilltu átaki stjórnvalda og samfélags er hægt að sporna við honum.“

Aldrei fyrr hefur alþjóðasamfélagið sýnt jafn mikla samstöðu í baráttunni við heilsuógn sem þessa. Í ágúst 2012 höfðu 175 lönd ákveðið að hrinda af stað aðgerðum til að draga úr tóbaksnotkun. * En valdamikil öfl halda þessum faraldri gangandi. Tóbaksiðnaðurinn eyðir árlega milljörðum Bandaríkjadollara í auglýsingar til að laða að nýja viðskiptavini, aðallega konur og ungt fólk í þróunarlöndunum. Og þar sem tóbak er ákaflega ávanabindandi er nær öruggt að margir af þeim einum milljarði manna sem nú þegar eru háðir reykingum, eigi eftir að gjalda fyrir það með lífi sínu. Dánartíðnin á eftir að hækka verulega á næstu 40 árum ef þeir sem reykja hætta því ekki.

Áhrifamáttur auglýsinga og fíknin í nikótín veldur því að margir eiga erfitt með að slíta sig lausa úr viðjum vanans þótt þá langi til þess. Það var einmitt reynsla Naoko sem byrjaði að reykja þegar hún var unglingur. Henni fannst hún vera fáguð og flott heimskona þegar hún hermdi eftir þeirri ímynd sem fjölmiðlar birtu af reykingum. Enda þótt hún horfði upp á foreldra sína deyja úr lungnakrabba hélt hún samt áfram að reykja á meðan hún ól upp börnin sín tvö. Hún viðurkennir þó: „Ég óttaðist að fá lungnakrabbamein og hafði áhyggjur af heilsu barnanna minna en ég gat samt ekki hætt. Ég hélt að ég myndi aldrei geta hætt að reykja.“

En með tímanum tókst Naoko þó að hætta. Hún fékk hjálp til að sigrast á þessum slæma ávana líkt og milljónir annarra hafa fengið. Hvar er hægt að fá slíka hjálp? Við hvetjum þig til að lesa um það á næstu síðum.

^ gr. 11 Þessar aðgerðir fela í sér að upplýsa fólk um skaðsemi reykinga, draga úr tóbaksauglýsingum, hækka álögur á tóbak og veita fólki markvissa aðstoð við að hætta að reykja.