Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Loforðið um paradís á jörð breytti lífi mínu

Loforðið um paradís á jörð breytti lífi mínu
  • FÆÐINGARÁR: 1974

  • FÖÐURLAND: LETTLAND

  • FORSAGA: FÍFLDJARFUR MÓTORHJÓLAKAPPI

FORTÍÐ MÍN:

Ég fæddist í Ríga, höfuðborg Lettlands. Við systir mín ólumst upp hjá móður okkar. Þrátt fyrir að mamma væri kaþólsk fórum við bara í kirkju á stórhátíðardögum. Ég hef alltaf trúað á æðri máttarvöld en á unglingsárunum fangaði margt annað athygli mína.

Á uppvaxtarárum mínum tók mamma eftir því að ég var naskur við að taka hluti í sundur og setja þá saman aftur. Hún var alltaf hálfhrædd við að skilja mig einan eftir heima því að í húsinu var alls konar dót sem hægt var að taka í sundur. Hún keypti því handa mér málmsmíðasett sem mér fannst ótrúlega gaman að setja saman og taka í sundur. Þetta átti vel við annað áhugamál mitt – mótorhjól. Mamma skráði mig í skellinöðrukeppni sem heitir Zelta Mopēds (Gullna skellinaðran.) Ég byrjaði að keppa á skellinöðrum en fór seinna meir að keppa á mótorhjólum.

Ég var fljótur að læra og áður en langt um leið náði ég góðum árangri í þessari hröðu og hættulegu íþrótt. Ég varð þrisvar sinnum Lettlandsmeistari í mótorhjólaakstri og sigraði tvisvar sinnum í meistarakeppni Eystrasaltslandanna.

BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Þegar ég var á hátindi ferils míns fór Evija, kærastan mín (sem ég giftist seinna meir), að hafa samband við votta Jehóva. Hún hafði rekist á rit frá þeim og þar var hægt að fylla út beiðni um biblíunámskeið. Hún fyllti út miðann og setti hann í póst. Brátt komu tvær konur að heimsækja hana og hún byrjaði að kynna sér Biblíuna með hjálp þeirra. Það var allt í lagi mín vegna en á þessum tímapunkti hafði ég ekkert sérstaklega mikinn áhuga á trúmálum.

Seinna meir buðu þær mér að vera með í biblíunáminu og hlusta á umræðurnar. Ég þáði boðið og mér líkaði vel við það sem ég lærði. Það sem hreyfði sérstaklega við  mér var loforð Biblíunnar um paradís á jörð. Þær sýndu mér til dæmis Sálm 37:10, 11 en þar segir: „Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn, ef þú leitar hans er hann ekki að finna. En hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“ Þetta loforð hafði mikil áhrif á mig.

Áhugi minn á trúmálum jókst smám saman og mér varð æ betur ljóst hversu margar trúarkenningar eru byggðar á lygum. Aftur á móti fannst mér kenningar Biblíunnar auðskiljanlegar og rökréttar.

Af námi mínu í Biblíunni lærði ég hversu mikils virði lífið er í augum Jehóva, hversu dýrmætt það er. (Sálmur 36:10) Þetta hafði áhrif á keppnisferil minn og ég vildi ekki lengur stofna lífi mínu í hættu. Þess í stað vildi ég nota það til að vegsama Jehóva. Frægðin, upphefðin og ánægjan, sem fylgdu kappakstrinum, skiptu mig ekki lengur máli.

Ég skildi að ég var ábyrgur gagnvart lífgjafa mínum, Jehóva.

Árið 1996 fór ég á alþjóðamót Votta Jehóva í Tallinn í Eistlandi. Það var haldið í nágrenni við leikvanginn þar sem ég hafði oft keppt. Á mótinu sá ég fólk víða að úr heiminum og meðal þeirra ríkti alger friður og eining. Kona ein týndi töskunni sinni og ég bjóst við að hún myndi aldrei sjá hana aftur. Fljótlega fann annar vottur töskuna og hún fékk hana í hendur án þess að neitt hefði verið tekið úr henni. Ég átti ekki til orð. Nú skildi ég að vottarnir lifa í samræmi við háleitar frumreglur Biblíunnar. Við Evija héldum áfram að taka framförum í biblíunáminu og 1997 létum við skírast sem vottar Jehóva.

LÍFIÐ HEFUR BREYST TIL HINS BETRA:

Nokkrir vina minna hafa týnt lífinu í þessari hröðu og hættulegu mótorhjólaíþrótt. Þegar ég byrjaði að kynna mér Biblíuna skildi ég að ég var ábyrgur gagnvart lífgjafa mínum, Jehóva. Þessi sannindi hafa eflaust bjargað lífi mínu.

Í fjögur ár nutum við Evija þess heiðurs að mega vinna í fullu starfi á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Ríga. Nú höfum við hins vegar það ánægjulega verkefni að ala upp dóttur okkar, Alise, og hjálpa henni að kynnast Jehóva. Ég nýt líka þess heiðurs að fá að koma á þýðingarskrifstofuna einn dag í viku til þess að gera við bíla og annað sem þarfnast lagfæringa. Það gleður mig mikið að geta notað kunnáttuna sem ég aflaði mér þegar ég var ungur. Og ég er enn að taka hluti í sundur og setja þá saman aftur.

Ég er innilega þakklátur fyrir að hafa lært sannleika Biblíunnar og mér þykir vænt um að mega, ásamt fjölskyldu minni, segja öðrum frá hinum eina sanna Guði. Loforðið um paradís á jörð breytti svo sannarlega lífi mínu.