Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | ER DAUÐINN ENDIR ALLS?

Barátta mannsins gegn dauðanum

Barátta mannsins gegn dauðanum

QIN SHI HUANGDI KEISARI

PONCE DE LEÓN LANDKÖNNUÐUR

Dauðinn er skelfilegur óvinur. Við berjumst gegn honum af öllu afli. Þegar einhver nákominn okkur deyr neitum við jafnvel að horfast í augu við það. Og þegar við erum ung og frísk eigum við erfitt með að ímynda okkur að dauðinn eigi eftir að knýja dyra og við höldum í þá blekkingu eins lengi og við getum.

Fáir hafa verið jafn hugfangnir af ódauðleikanum og faraóarnir til forna. Þeir eyddu stórum hluta ævinnar í að reyna að sigrast á dauðanum. Þar að auki fórnuðu þeir lífi þúsunda verkamanna í þessum sama tilgangi. Pýramídarnir, sem þeir reistu, eru til vitnis um það en sýna jafnframt fram á að tilraunir þeirra mistókust.

Keisararnir í Kína reyndu einnig að öðlast ódauðleika en þó með öðrum aðferðum. Qin Shi Huangdi keisari krafðist þess af gullgerðarmönnum sínum að þeir blönduðu honum töfradrykk, svokallaðan lífselexír, sem átti að bægja dauðanum frá. En margir þessara drykkja, sem þeir gáfu honum, innihéldu kvikasilfur og líklega urðu þessar töfrablöndur honum að bana.

Á 16. öld sigldi spænski landkönnuðurinn Juan Ponce de León um Karíbahafið. Sögur herma að hann hafi verið á höttunum eftir æskubrunninum. Á ferð sinni fann hann skagann sem nú kallast Flórída en lést svo nokkrum árum seinna eftir átök við frumbyggja Ameríku. Æskubrunnurinn svokallaði hefur þó aldrei fundist.

Faraóarnir, keisararnir og landkönnuðirnir leituðust allir við að sigrast á dauðanum. Þótt aðferðir þeirra höfði kannski ekki til okkar er markmið þeirra vel skiljanlegt. Innst inni langar eiginlega engan til að deyja.

ER HÆGT AÐ SIGRAST Á DAUÐANUM?

Af hverju sættum við okkur ekki við dauðann? Því er svarað í Biblíunni. Hún segir um Jehóva Guð, * skapara allra hluta: „Allt hefur hann  gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra [mannanna].“ (Prédikarinn 3:11) Við vildum gjarnan fá að njóta fegurðarinnar á jörðinni að eilífu, ekki aðeins í 80 ár eða svo. (Sálmur 90:10) Það er það sem við þráum innst inni.

En af hverju lagði Jehóva „eilífðina“ í brjóst okkar? Var það aðeins til að valda okkur vonbrigðum? Það er óhugsandi. Jehóva hefur lofað því að dauðinn verði sigraður. Í Biblíunni er oft minnst á að dauðinn verði afmáður og að Guð lofi eilífu lífi. – Sjá rammann  „Sigur yfir dauðanum“.

Jesús Kristur sagði skýrum orðum: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Baráttan gegn dauðanum er því ekki vonlaus. En eins og Jesús bendir á er það ekki á okkar valdi að vinna sigur yfir dauðanum heldur verðum við að treysta á Guð til þess.

^ gr. 9 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.