Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvaða áhrif hafa litir á þig?

Hvaða áhrif hafa litir á þig?

Þegar þú horfir í kringum þig vinna augun og heilinn saman að því að safna upplýsingum. Þú kemur auga á ávöxt og tekur ákvörðun um hvort þú viljir borða hann. Þú horfir til himins og kemst að þeirri niðurstöðu að það verði ekki rigning í dag. Þú lítur á orðin sem þú ert að lesa núna og ræður úr þeim. Í rauninni eru það litir sem hafa áhrif á þig. Hvernig þá?

Liturinn á ávextinum, sem þú sást, sker úr um hvort hann sé þroskaður og ætilegur. Liturinn á himninum og skýjunum getur sagt þér til um veðrið. Þegar þú lest orðin í þessari grein skilja augu þín á milli litarins á textanum og litarins á bakgrunninum. Jafnvel án þess að þú takir eftir því notar þú stöðugt liti til að safna upplýsingum um heiminn í kringum þig. En litir hafa líka áhrif á tilfinningar þínar.

TILFINNINGALEG ÁHRIF LITA

Þegar þú gengur um verslun ertu umkringdur vörum sem eru hannaðar til að ná athygli þinni. Hvort sem þú gerir þér grein fyrir því eða ekki velja auglýsendur liti og litasamsetningar mjög vandlega til að höfða til sérstakra þarfa fólks, kyns eða aldurshóps. Innanhússarkitektar, fatahönnuðir og listamenn gera sér líka grein fyrir að litir geta vakið hjá okkur tilfinningar.

Fólk getur skynjað liti á mismunandi hátt af því að það hefur ekki sömu siði og venjur. Í Asíu tengir fólk til dæmis rauðan lit við velgengni og hátíðahöld en í sumum hlutum Afríku er rauður litur notaður til tákns um sorg. Þrátt fyrir ólíkan uppruna bregðast allir eins við ákveðnum litum. Lítum á þrjá liti og hvaða áhrif þeir geta haft á okkur.

RAUÐUR er mjög æpandi litur. Hann hefur oft verið tengdur við orku, stríð og hættu. Þessi litur vekur ákaflega miklar tilfinningar og hraðar efnaskiptum líkamans, örvar andadrátt og hækkar blóðþrýsting.

Í Biblíunni er hebreska orðið fyrir „rauður“ dregið af orði sem þýðir „blóð“. Biblían notar dökkrauðan eða skarlatsrauðan lit til að draga upp minnisstæða mynd af morðóðri vændiskonu í fjólubláum og skarlatsrauðum klæðum ríðandi á „skarlatsrauðu dýri, alsettu guðlöstunar nöfnum“. – Opinberunarbókin 17:1-6.

GRÆNN litur hefur allt önnur áhrif á okkur en rauður. Hann hefur sefandi áhrif og hægir á efnaskiptum líkamans. Grænn er róandi litur og tengist friðsæld og kyrrð. Við erum afslöppuð þegar við sjáum grænar hæðir og hóla. Hvernig varð þessi róandi litur til? Í 1. Mósebók er sagt frá því þegar Guð lét vaxa grænt gras og alls kyns gróður fyrir mannkynið. – 1. Mósebók 1:11, 12, 30.

HVÍTUR tengist oft ljósi, öryggi og hreinleika. Hann táknar líka eiginleika eins og góðvild, sakleysi og skírleika. Hvítur kemur oftar fyrir en nokkur litur í Biblíunni. Í sýnum má sjá menn og engla í hvítum klæðum sem undirstrikar réttlæti þeirra og andlegan hreinleika. (Jóhannes 20:12; Opinberunarbókin  3:4; 7:9, 13, 14) Knapar í hreinum hvítum línklæðum á hvítum hestum tákna réttlátt stríð. (Opinberunarbókin 19:14) Guð notar hvítt til að sýna fram á að hann sé tilbúinn að fyrirgefa syndir: „Þó að syndir yðar séu sem skarlat skulu þær verða hvítar sem mjöll.“ – Jesaja 1:18.

LITIR HJÁLPA OKKUR AÐ MUNA

Guð skilur hvernig litir vekja upp tilfinningar hjá mönnum og það sjáum við glöggt þegar talað er um liti í Biblíunni. Í Opinberunarbókinni er til dæmis sagt frá því hvað mannkynið er að ganga í gegnum núna, það er að segja stríð, hungur og drepsóttir. Því er lýst í áhrifamikilli sýn þar sem riddarar þeysast um á fjórum hestum í óvenjulegum litum.

Fyrst kemur til sögunnar snjóhvítur hestur sem táknar réttlátt stríð Jesú Krists. Því næst sjáum við eldrauðan hest sem táknar stríð milli þjóða. Fast á hæla honum kemur uggvænlegur svartur hestur sem táknar hungursneyð. Að lokum kemur „bleikur hestur og sá er á honum sat hét Dauði“. (Opinberunarbókin 6:1-8) Hver litur kallar fram ákveðna tilfinningu hjá okkur sem tengist táknrænni merkingu hestanna. Við eigum auðvelt með að muna eftir lit þeirra og hvað þeir þýða fyrir okkar tíma.

Í Biblíunni er að finna mörg dæmi þess að litir séu notaðir til að blása lífi í frásögur hennar. Skapari ljóssins, litanna og mannsaugans notar liti á undraverðan hátt í kennslu sinni. Með þeim dregur hann upp myndir sem lesendur eiga auðvelt með að skilja og muna eftir. Litir hjálpa okkur að safna upplýsingum og vinna úr þeim. Litir hafa áhrif á tilfinningar okkar. Litir geta hjálpað okkur að leggja mikilvægar upplýsingar á minnið. Litir eru dásamleg gjöf frá skapara okkar og þeir gera líf okkar ánægjulegra.