Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dómar Guðs – voru þeir grimmilegir?

Dómar Guðs – voru þeir grimmilegir?

TIL að svara þessari spurningu skulum við stuttlega líta á tvö dæmi í Biblíunni um dóma Guðs, heimsflóðið á dögum Nóa og eyðingu Kanverja.

HEIMSFLÓÐIÐ Á DÖGUM NÓA

SUMIR SEGJA: „Guð var grimmur þegar hann eyddi öllu mannkyninu í flóði nema Nóa og fjölskyldu hans.“

BIBLÍAN SEGIR: Guð sagði: „Mér þóknast ekki dauði guðlausra, heldur að hinn guðlausi hverfi frá breytni sinni og lifi.“ (Esekíel 33:11) Af þessum orðum má sjá að Guð hafði enga ánægju af því að eyða hinum illu á dögum Nóa. Af hverju gerði hann það þá?

Í Biblíunni segir að þegar Guð felldi slíka dóma yfir óguðlegum mönnum fyrr á tímum gerði hann það „til viðvörunar þeim er síðar lifðu óguðlega“. (2. Pétursbréf 2:5, 6) Hvað lærum við um Guð af þessu?

Í fyrsta lagi sýndi Guð að þótt honum taki sárt að eyða fólki þá tekur hann eftir illum mönnum sem valda öðrum þjáningum og gerir þá ábyrga fyrir verkum sínum. Með tíð og tíma mun hann binda enda á allt óréttlæti og þjáningar.

Í öðru lagi sjáum við af verkum Guðs fyrr á tímum að í kærleika sínum varaði hann fólk við áður en hann felldi dóm. Nói boðaði fólki orð Guðs en flestir hunsuðu viðvaranir hans. Biblían segir: „Þeir vissu ekki fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt.“ – Matteus 24:39.

Hefur Guð haldið áfram að vara fólk við? Já. Hann varaði til dæmis Ísraelsmenn við því að ef þeir fremdu illvirki líkt og þjóðirnar umhverfis þá myndi hann leyfa óvinum þeirra að ráðast inn í landið, leggja Jerúsalem, höfuðborg þeirra, í rúst og senda þjóðina í útlegð. Ísraelsmenn fóru samt að gera það sem var illt í augum Guðs. Þeir fórnuðu jafnvel börnum sínum. Tók Jehóva í taumana? Já, hann gerði það, en fyrst hafði hann sent spámenn til að vara fólkið við. Þetta gerði hann margoft til að reyna að breyta hugarfari þeirra áður en það var um seinan. Hann sagði meira að segja: „Drottinn Guð gerir ekkert án þess að opinbera fyrirætlun sína fyrir þjónum sínum, spámönnunum.“ – Amos 3:7.

HVERNIG ÞAÐ SNERTIR ÞIG: Það sem við lærum um Jehóva af þessum dómum vekur hjá okkur von. Við getum treyst því að Guð fullnægi dómi sínum yfir þeim sem valda öðrum grimmilegum þjáningum. Biblían segir: „Illvirkjum verður tortímt ... En hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“ (Sálmur 37:9-11) Hvað finnst þér um dóm sem frelsar mannkynið undan þjáningum? Ber slíkur dómur vott um grimmd eða miskunnsemi?

EYÐING KANVERJA

SUMIR SEGJA: „Eyðing Kanverja var grimmilegur stríðsglæpur sem líkja má við þjóðarmorð nú á tímum.“

BIBLÍAN SEGIR: „Allir [Guðs] vegir [eru] réttlátir. Hann er trúfastur Guð og svikalaus.“ (5. Mósebók 32:4) Það er ekki hægt að bera saman réttláta dóma Guðs og stríð manna. Hvers vegna ekki? Vegna þess að Guð getur lesið hjörtu manna, það er að segja, hann sér hvað býr innra með okkur. Það geta mennirnir ekki gert.

Gott dæmi um það er þegar Guð kvað upp dóm gegn borgunum Sódómu og Gómorru og ákvað að eyða þeim. Hinn trúi Abraham vildi vera viss um að þetta væri sanngjarn dómur. Hann gat ekki ímyndað sér að réttvís Guð myndi „tortíma hinum réttláta með hinum óguðlega“. Guð sýndi honum þolinmæði og fullvissaði hann um að ef aðeins tíu réttlátir fyndust í Sódómu myndi hann þyrma borginni. (1. Mósebók 18:20-33) Það er því greinilegt að Guð rannsakaði hjörtu fólksins og sá hvað illskan risti djúpt. – 1. Kroníkubók 28:9.

Guð dæmdi Kanverja á svipaðan hátt og sá til þess að þeim var eytt. Kanverjar voru alræmdir fyrir grimmd, eins og að fórna börnum með því að brenna þau lifandi. * (2. Konungabók 16:3) Kanverjar vissu að Jehóva hafði sagt Ísraelsmönnum að taka sér landið til eignar og þeir sem ákváðu að verða eftir í landinu og berjast gegn Ísraelsmönnum settu sig ekki aðeins upp á móti þeim heldur líka Jehóva, sem hafði sýnt á áhrifaríkan hátt að hann var með lýð sínum.

Hins vegar miskunnaði Jehóva þeim Kanverjum sem sneru frá illsku sinni og tileinkuðu sér háleit siðferðisgildi hans. Til dæmis þyrmdi hann lífi skækjunnar Rahab og fjölskyldu hennar. Og þegar íbúar kanversku borgarinnar Gíbeon báðu um miskunn fengu þeir allir að halda lífi ásamt börnum sínum. – Jósúabók 6:25; 9:3, 24-26.

HVERNIG ÞAÐ SNERTIR ÞIG: Við getum lært mikið af dómi Guðs yfir Kanverjum. Nú nálgast óðum sá dagur þegar „óguðlegir menn verða dæmdir og tortímast“. (2. Pétursbréf 3:7) Ef við elskum Jehóva verður það okkur til góðs þegar hann bindur enda á allar þjáningar manna. Hann mun gera það með því að eyða þeim sem neita að lúta stjórn hans.

Kanverjar voru alræmdir fyrir grimmd og settu sig upp á móti Guði og þjóð hans.

Jehóva minnir okkur á að ákvarðanir foreldra hafa áhrif á börn þeirra. Guð segir á kærleiksríkan hátt í orði sínu: „Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa með því að elska Drottin, Guð þinn, hlýða boði hans og halda þér fast við hann.“ (5. Mósebók 30:19, 20) Hljóma þessi orð eins og þau komi frá grimmum Guði eða frá Guði sem elskar fólk og vill að það taki rétta ákvörðun?

^ gr. 15 Fornleifafræðingar hafa fundið vísbendingar um að tilbeiðsla Kanverja hafi meðal annars falið í sér ungbarnafórnir.