Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI: ER GUÐ GRIMMUR?

Af hverju segja sumir að Guð sé grimmur?

Af hverju segja sumir að Guð sé grimmur?

HVAÐ finnst þér um spurninguna: „Er Guð grimmur?“ Sumum finnst óhugsandi að Guð geti verið grimmur en margir velta því samt fyrir sér hvort hann sé það eða gera ráð fyrir því að svo sé. Hvers vegna?

Sumir sem lent hafa í náttúruhamförum spyrja: „Af hverju kemur Guð ekki í veg fyrir slíkar hamfarir? Er honum kannski alveg sama? Eða er hann svona grimmur?“

Aðrir velta slíku fyrir sér þegar þeir lesa í Biblíunni. Þeir lesa ef til vill um flóðið á dögum Nóa og hugsa með sér: „Af hverju myndi kærleiksríkur Guð deyða allt þetta fólk? Þýðir það að hann sé grimmur?“

Kemur fyrir að þú veltir slíkum spurningum fyrir þér? Eða finnst þér erfitt að átta þig á hvernig þú getir svarað þeim sem segja að Guð sé grimmur? Hvort heldur er gæti verið gagnlegt fyrir þig að hugleiða aðra spurningu.

AF HVERJU HRYLLIR OKKUR VIÐ GRIMMDARVERKUM?

Okkur hryllir við grimmdarverkum einfaldlega vegna þess að við höfum sterka réttlætiskennd. Við erum mjög ólík dýrunum að þessu leyti. Guð skapaði okkur „eftir sinni mynd“. (1. Mósebók 1:27) Hvað þýðir það? Við erum fær um að endurspegla eiginleika Guðs og fylgja sömu siðferðisstöðlum og hann. Hugsaðu til dæmis um þetta: Ef Guð hefur gefið okkur vitundina um hvað sé rétt og rangt og okkur hryllir við grimmdarverkum væri þá ekki rökrétt að álykta sem svo að Guð hafi líka andúð á grimmd?

Þess konar röksemdarfærsla kemur heim og saman við það sem við finnum í Biblíunni. Þar segir Guð: „Mínir vegir [eru] hærri yðar vegum og mínar hugsanir hærri yðar hugsunum.“ (Jesaja 55:9) Ef við fullyrtum að Guð væri grimmur værum við þá ekki að andmæla því sem hann segir, og í raun að gefa í skyn að okkar hugsanir séu hærri hans? Það væri skynsamlegt að rannsaka málið betur áður en við tökum slíka afstöðu. Í stað þess að spyrja hvort Guð sé grimmur ættum við kannski að spyrja af hverju sumt af því sem hann gerir gæti virst grimmilegt. Könnum nánar hvað það merkir í raun að vera grimmur.

Þegar við segjum að einhver sé grimmur gefum við okkur að hvatir hans séu slæmar. Sá sem er grimmur hefur ánægju af því að sjá aðra þjást eða lætur sig þjáningar þeirra litlu varða. Þess vegna myndum við segja að faðir sem agar son sinn vegna þess að hann hefur gaman af því að særa hann væri grimmur. En faðir sem agar son sinn til að leiðbeina honum eða vernda hann væri góður faðir. Það er auðvelt að ætla mönnum rangar hvatir eins og þú kannast örugglega við ef einhver hefur haft þig fyrir rangri sök.

Við skulum því skoða nánar tvær ástæður þess að sumir álíti Guð grimman. Náttúruhamfarir og frásögur Biblíunnar af réttlátum dómum Guðs. Sýna slíkar staðreyndir að Guð sé grimmur?