Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁLÆGÐU ÞIG GUÐI

Þykir Jehóva í raun vænt um þig?

Þykir Jehóva í raun vænt um þig?

„Að finnast ég einskis virði er stærsta hindrunin sem ég er að reyna að yfirstíga.“ Þetta er haft eftir konu sem þótti erfitt að trúa því að Jehóva gæti fundið góða ástæðu til að þykja vænt um hana. Líður þér þannig líka? Ef svo er hugsar þú ef til vill eitthvað þessu líkt: ,Þykir Jehóva í raun vænt um hvern og einn tilbiðjenda sinna?‘ Svarið er já! Við finnum sönnun fyrir væntumþykju Jehóva í orðum Jesú. – Lestu Jóhannes 6:44.

Jesús þekkir persónuleika og vilja Jehóva betur en nokkur annar. (Lúkas 10:22) Jesús sagði: „Enginn getur komið til mín nema faðirinn, sem sendi mig, laði hann.“ Við getum þess vegna ekki gerst fylgjendur Krists og tilbeðið Jehóva, himneskan föður okkar, nema Jehóva sjálfur laði okkur til sín. (2. Þessaloníkubréf 2:13) Þegar við skiljum hvað Jesús átti við með þessum orðum sjáum við sterka sönnun fyrir væntumþykju Guðs.

Hvað þýðir það að Jehóva laði okkur til sín? Gríska sögnin sem þýdd er „laði“ er líka notuð í sambandi við að draga inn fiskinet. (Jóhannes 21:6, 11) Dregur Jehóva okkur til sín þvert á vilja okkar? Þvingar hann okkur til að þjóna sér? Nei, það gerir hann ekki. Jehóva gaf okkur frjálsan vilja og því þvingar hann sér ekki inn í hjörtu okkar. (5. Mósebók 30:19, 20) Fræðimaður einn orðaði þetta á eftirfarandi hátt: „Það er enginn hurðarhúnn utan á hjarta mannsins. Því þarf að opna það innan frá.“ Jehóva skoðar hjörtu milljóna manna um allan heim í leit að einstaklingum sem hafa rétt hjartalag. (1. Kroníkubók 28:9) Þegar hann svo finnur slíkt fólk kemur hann til móts við það á hjartnæman hátt. Hvernig þá?

Jehóva laðar til sín eða hreyfir hlýlega við hjarta þeirra „sem ætlaðir [eru] til eilífs lífs“. (Postulasagan 13:48) Hann gerir það á tvo vegu, með fagnaðarerindi Biblíunnar, sem nær til okkar sem einstaklinga, og með heilögum anda sínum. Þegar Jehóva sér hjarta sem er móttækilegt fyrir sannleikanum í Biblíunni notar hann anda sinn til að hjálpa viðkomandi að skilja og heimfæra þann sannleika upp á líf sitt. (1. Korintubréf 2:11, 12) Við gætum aldrei orðið sannir fylgjendur Jesú og trúir tilbiðjendur Jehóva án hjálpar hans.

„Það er enginn hurðarhúnn utan á hjarta mannsins. Því þarf að opna það innan frá.“

Hvað getum við því lært um Jehóva af því sem Jesús sagði í Jóhannesi 6:44? Við lærum að Jehóva laðar til sín fólk af því að hann sér eitthvað gott í hjörtum þess og honum þykir vænt um hvern og einn einstakling. Þegar konan, sem minnst var á í byrjun greinarinnar, skildi þennan sannleika varð það henni til mikillar hughreystingar. Hún segir: „Að vera þjónn Jehóva er æðsti heiður sem nokkrum getur hlotnast. Og ef Jehóva hefur valið mig sem þjón sinn hlýt ég að vera mikils virði í augum hans.“ Hvað um þig? Langar þig ekki til að opna leiðina að hjarta þínu, nú þegar þú hefur lært að Jehóva þyki vænt um tilbiðjendur sína alla sem einn?

Tillaga að biblíulestri í júlí og ágúst

Postulasagan 1-28 – Rómverjabréfið 1-16