Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Af hverju var Níníve til forna lýst sem „hinni blóðseku borg“?

Lágmynd á vegg sem sýnir hermenn halda á höfðum stríðsfanga og kasta þeim í hrúgu.

Níníve var höfuðborg stórveldisins Assýríu. Í þessari miklu borg mátti sjá glæsilegar hallir og hof, breiðstræti og rammgerða borgarmúra. Hebreski spámaðurinn Nahúm lýsti Níníve sem „hinni blóðseku borg. – Nahúm 3:1.

Þetta var hverju orði sannara því að grimmd Assýringa sést skýrt á lágmyndum úr höll Sanheríbs konungs í Níníve. Á einni þeirra má sjá fanga sæta pyndingu þar sem honum er haldið föstum á gólfinu og tungan slitin úr honum. Assýringar stærðu sig af því í áletrunum sínum að þeir settu króka á snæri og kræktu í nef eða varir fanga til að toga þá áfram. Embættismenn, sem teknir voru til fanga, voru látnir bera um háls sér höfuð konunga sinna eins og viðurstyggileg hálsmen.

Assýríufræðingurinn Archibald Henry Sayce lýsir villimennskunni sem átti sér stað þegar Assýringar höfðu hertekið bæi eða borgir. Hann segir: „Höfðum fólksins var safnað saman í vörður sem afmörkuðu slóð sigurvegarans. Drengir og stúlkur voru brennd lifandi eða þeirra biðu hræðilegri örlög. Menn voru festir upp á staur, flegnir lifandi og blindaðir eða hendur þeirra, fætur, eyru og nef voru skorin af þeim.“

Hvers vegna gerðu Gyðingar brjóstrið umhverfis þökin á húsum sínum?

Guð gaf Gyðingum þessi fyrirmæli: „Þegar þú reisir nýtt hús skaltu gera brjóstrið umhverfis þakið svo að þú bakir húsi þínu ekki blóðsök ef einhver dytti ofan af þakinu.“ (5. Mósebók 22:8) Brjóstrið voru nauðsynleg varúðarráðstöfun þar sem fjölskyldur Gyðinga voru oft á þakinu.

Hús í Ísrael voru oftast með flötu þaki. Það var kjörið fyrir fólk að fara upp á þak og láta sólina ylja sér, njóta ferska loftsins eða vinna húsverkin. Á sumrin var mjög notalegt að sofa á þakinu. (1. Samúelsbók 9:26) Bændur notuðu þök sín til að þurrka korn áður en þeir þresktu það og þar þurrkuðu þeir líka fíkjur og vínber. – Jósúabók 2:6.

Á þökunum fór einnig fram tilbeiðsla, bæði hjá þeim sem tilbáðu hinn sanna Guð og hjá þeim sem tilbáðu skurðgoð. (Nehemíabók 8:16-18; Jeremía 19:13) Pétur postuli fór upp á þak um hádegisbil til að biðja bæna. (Postulasagan 10:9-16) Á húsþökum var gjarnan lítið skýli úr vínviði eða pálmablöðum sem reyndist eflaust notalegt afdrep í sumarhitanum.

Ritverkið The Land and the Book segir um heimili Gyðinga að tröppur og stigar, sem lágu upp á þak, hafi verið „utan á húsinu en þó inni í garðinum“. Húsráðandinn gat því komist niður af þakinu án þess að þurfa að fara inn í húsið. Þetta kann að varpa ljósi á orð Jesú þegar hann talaði um hversu brýnt það væri að flýja borg sem var dæmd til eyðingar. Hann sagði: „Sá sem er uppi á þaki fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt.“ – Matteus 24:17.