Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús – leiðin að innihaldsríku lífi

Jesús – leiðin að innihaldsríku lífi

LIFÐI Jesús í raun og veru innihaldsríku lífi? Hann ólst upp við fábrotnar aðstæður og átti ekki mikið af veraldlegum gæðum. Hann átti reyndar „hvergi höfði sínu að að halla“. (Lúkas 9:57, 58) Þess utan var hann hataður, rægður og tekinn af lífi af óvinum sínum.

Þú hugsar kannski sem svo að þetta geti nú varla kallast innihaldsríkt líf. En við skulum skoða nánar líf Jesú og ígrunda vel fjögur atriði í því sambandi.

1. JESÚS HAFÐI SKÝRA LÍFSSTEFNU – AÐ GERA VILJA GUÐS.

„Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig.“ – Jóhannes 4:34.

Með orðum sínum og verkum leitaðist Jesús við að gera vilja föður síns á himnum, Jehóva Guðs. * Það veitti honum mikla hamingju að hlýða Guði. Hann sagði meira að segja að það væri matur hans að gera vilja Guðs eins og fram kemur í versinu hér að ofan. Lítum nánar á við hvaða aðstæður hann kom með þessa líkingu.

Jesús sagði þessi orð um hádegisbil. (Jóhannes 4:6) Hann hafði gengið um fjalllendi Samaríu allan morguninn og hlýtur því að hafa verið sársvangur. Reyndar höfðu lærisveinar hans sagt við hann: „Rabbí, fá þér að eta.“ (Jóhannes 4:31) En í svari sínu gaf Jesús til kynna að hann styrktist og hresstist við það að gera vilja Guðs. Ertu ekki sammála því að líf Jesú hafi verið innihaldsríkt?

2. JESÚS ELSKAÐI FÖÐUR SINN AFAR HEITT.

„Ég elska föðurinn.“ – Jóhannes 14:31.

Jesús var mjög náinn föður sínum á himnum og elskaði hann heitt og innilega. Þess vegna sagði hann öðrum frá föðurnum – nafni hans, fyrirætlunum og eiginleikum. Með orðum sínum, verkum og viðhorfum endurspeglaði hann föður sinn fullkomlega. Jesús var eins og lifandi eftirmynd hans. Þegar Filippus bað Jesú: „Sýn þú okkur föðurinn“ gat hann því sagt: „Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn.“ – Jóhannes 14:8, 9.

Jesús elskaði föður sinn svo heitt að hann var fús til að hlýða honum allt til dauða. (Filippíbréfið 2:7, 8; 1. Jóhannesarbréf 5:3) Þessi djúpi kærleikur til Guðs gaf lífi Jesú mikið gildi.

 3. JESÚS ELSKAÐI MENNINA.

„Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ – Jóhannes 15:13.

Því er ekki að neita að framtíðarhorfur okkar ófullkominna manna eru heldur dapurlegar. Í Biblíunni segir: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni [Adam] og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ (Rómverjabréfið 5:12) Við getum ekki af eigin rammleik umflúið afleiðingar syndarinnar, það er að segja dauðann. – Rómverjabréfið 6:23.

Sem betur fer hefur Jehóva í kærleika sínum séð fyrir lausn á vandamálum mannkyns. Hann leyfði að fullkominn og syndlaus sonur sinn, Jesús, myndi þjást og deyja. Hann greiddi þar með lausnargjaldið fyrir mannkynið svo það gæti frelsast undan synd og dauða. Jesús tók þetta verkefni fúslega að sér og gaf fullkomið líf sitt í okkar þágu sökum þess að hann elskaði föður sinn og mennina. (Rómverjabréfið 5:6-8) Þessi óeigingjarni kærleikur gaf lífi Jesú vissulega gildi. *

4. JESÚS VISSI AÐ FAÐIRINN ELSKAÐI HANN OG HAFÐI VELÞÓKNUN Á HONUM.

„Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ – Matteus 3:17.

Jehóva talaði þessi orð frá himnum þegar Jesús skírðist. Hann lét þar með skýrt í ljós að hann elskaði son sinn, Jesú, og hafði velþóknun á honum. Það er því ekki að undra að Jesús gat sagt með sannfæringu: „Faðirinn elskar mig.“ (Jóhannes 10:17) Jesús mætti gagnrýni og andstöðu af hugrekki vegna þess að hann var sannfærður um kærleika og velþóknun föður síns. Það hjálpaði Jesú meira að segja að vera öruggur og halda ró sinni andspænis dauðanum. (Jóhannes 10:18) Vissan um að faðirinn elskaði hann og hafði velþóknun á honum gaf lífi hans jafnvel enn meira gildi.

Líf Jesú var svo sannarlega innihaldsríkt. Við getum því lært af honum hvernig öðlast megi lífsfyllingu. Í næstu grein skoðum við sumar af þeim meginreglum sem Jesús gaf fylgjendum sínum svo að þeir gætu lifað hamingjuríku lífi.

^ gr. 6 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.

^ gr. 15 Í 5. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? er hægt að lesa meira um hvaða þýðingu fórnardauði Jesú hefur fyrir okkur mennina. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.