Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Ég var stjórnlaus“

„Ég var stjórnlaus“
  • FÆÐINGARÁR: 1960

  • FÖÐURLAND: FINNLAND

  • FORSAGA: SÖNGVARI Í ÞUNGAROKKSHLJÓMSVEIT

FORTÍÐ MÍN:

Ég ólst upp í verkamannahverfi í hafnarborginni Turku. Faðir minn var hnefaleikameistari og yngri bróðir minn og ég stunduðum líka hnefaleika að kappi. Í skólanum var oft skorað á mig í slag og ég hikaði aldrei við að beita hnefunum. Á unglingsárunum gekk ég til liðs við alræmda klíku og leiddist þannig inn á ofbeldisfyllri braut. Ég kynntist líka þungarokki og lét mig dreyma um að verða rokkstjarna.

Ég keypti mér trommusett, stofnaði hljómsveit og fljótlega varð ég aðalsöngvari hljómsveitarinnar. Mér fannst gaman að sleppa fram af mér beislinu þegar ég var á sviði. Tónlistin okkar var ágeng og við höfðum villta sviðsframkomu. Þannig öfluðum við okkur smám saman mikilla vinsælda og spiluðum fyrir fjölmarga áheyrendur. Við tókum upp nokkrar plötur og fyrir þá síðustu fengum við mjög góða dóma. Síðla á níunda áratugnum ferðuðumst við til Bandaríkjanna í þeim tilgangi að koma hljómsveitinni á framfæri. Við komum nokkrum sinnum fram í New York og Los Angeles og ræddum við nokkra útgefendur í tónlistariðnaðinum áður en við fórum aftur heim til Finnlands.

Jafnvel þótt mér fyndist gaman að spila með hljómsveitinni þráði ég meiri lífsfyllingu. Ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég sá harðneskjuna sem ríkti í tónlistariðnaðinum. Ég lifði siðlausu lífi og var svekktur út í sjálfan mig. Mér fannst ég vera slæmur maður og var hræddur um að ég myndi brenna í helvíti. Ég leitaði því að svörum við spurningum mínum í alls kyns trúarlegum ritum og bað Guð líka ákaft um hjálp þótt ég væri handviss um að hann hefði enga velþóknun á mér.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Ég vann á pósthúsi í heimabænum til að sjá fyrir mér. Dag nokkurn heyrði ég að einn af vinnufélögum mínum væri vottur Jehóva. Ég lét spurningarnar dynja á honum. Það vakti áhuga minn hversu rökrétt svör hans voru svo að ég samþykkti að kynna mér Biblíuna með hjálp hans. Við höfðum skoðað Biblíuna saman í nokkrar vikur þegar hljómsveitinni minni var boðinn spennandi plötusamningur með möguleika á að gefa út plötu í Bandaríkjunum. Í mínum augum var þetta einstakt tækifæri.

Ég sagði biblíukennaranum mínum að mig langaði til að gera eina plötu í viðbót og eftir það væri ég tilbúinn til að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Hann lét ekki skoðun sína í ljós en bað mig einfaldlega um að lesa það sem stendur í Matteusi 6:24. Þar segir Jesús: „Enginn getur þjónað tveimur herrum.“ Ég varð orðlaus þegar ég gerði mér ljóst hvað Jesús átti við. En nokkrum dögum seinna kom það í hlut biblíukennarans að verða orðlaus þegar ég sagði honum að ég hefði hætt í hljómsveitinni vegna þess að ég vildi fylgja Jesú!

Mér fannst Biblían vera eins og spegill sem afhjúpaði bresti mína. (Jakobsbréfið 1:22-25) Ég áttaði mig á því að ég var stjórnlaus. Ég var bæði stoltur og óstjórnlega metnaðargjarn. Ég var líka orðljótur áflogahundur og reykti og drakk ótæpilega. Þegar það rann upp fyrir mér að hegðun mín var á skjön við meginreglur Biblíunnar fannst mér eins og öll sund væru lokuð. Samt sem áður var ég tilbúinn til að gera breytingar á lífi mínu. – Efesusbréfið 4:22-24.

„Himneskur faðir okkar er miskunnsamur og græðir sár þeirra sem iðrast fyrri synda.“

Í fyrstu var ég gagntekinn af sektarkennd vegna fyrri gjörða. En biblíukennarinn minn hjálpaði mér mikið. Hann sýndi mér það sem stendur í Jesaja 1:18: „Þó að syndir yðar séu sem skarlat skulu þær verða hvítar sem mjöll.“ Þetta biblíuvers og fleiri sannfærðu mig um að himneskur faðir okkar er miskunnsamur og græðir sár þeirra sem iðrast fyrri synda.

Kærleikur minn til Jehóva óx eftir því sem ég kynntist honum betur og mig langaði til að vígja honum líf mitt. (Sálmur 40:9) Ég lét skírast árið 1992 á alþjóðlegu móti Votta Jehóva sem haldið var í Sankti Pétursborg í Rússlandi.

ÞAÐ HEFUR ORÐIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Ég hef eignast marga góða vini sem einnig tilbiðja Jehóva. Öðru hverju hittumst við til að spila viðeigandi tónlist og gleðjumst saman yfir þessari gjöf frá Guði. (Jakobsbréfið 1:17) Þegar ég hitti Kristinu, ástkæru eiginkonu mína, var það einstök blessun fyrir mig. Saman höfum við deilt bæði gleði og sorgum. Ég get tjáð henni mínar dýpstu tilfinningar.

Ég væri líklega ekki lengur á lífi ef ég hefði ekki orðið vottur Jehóva. Áður fyrr var líf mitt fullt af vandamálum og erfiðleikum en núna finnst mér lífið hafa öðlast sannan tilgang og ég er sáttur við sjálfan mig.