Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað er „Júdasarguðspjall“?

Hvað er „Júdasarguðspjall“?

Í APRÍL 2006 birtu dagblöð um allan heim þá merkilegu frétt að hópur fræðimanna ætlaði að opinbera efni fornhandrits sem hafði nýlega komið í leitirnar og var nefnt „Júdasarguðspjall“. Í fréttinni var sagt frá þeim fullyrðingum fræðimanna að þessi texti myndi gjörbreyta skilningi manna á Júdasi, lærisveininum sem sveik Jesú. Samkvæmt staðhæfingum þeirra átti Júdas að hafa verið hetja. Hann átti að hafa verið sá postuli sem skildi Jesú hvað best og framselt hann til aftöku að beiðni hans sjálfs.

Er þetta handrit áreiðanlegt? Ef svo er opinberar það þá áður óþekkt sannindi um sögulega menn eins og Júdas Ískaríot, Jesú Krist eða einhverja af hinum frumkristnu? Ætti það að hafa áhrif á skilning okkar á Jesú og kennslu hans?

„JÚDASARGUÐSPJALL“ UPPGÖTVAÐ

Nokkur óvissa ríkir um hvernig „Júdasarguðspjall“ fannst. Það voru ekki fornleifafræðingar sem fundu það og skrásettu heldur birtist það skyndilega á fornmunamarkaði seint á áttunda áratug síðustu aldar eða snemma á þeim níunda. Líklega fannst það í grafarhelli í Egyptalandi árið 1978. Það var eitt af fjórum handritabútum úr gamalli bók sem skrifuð var á koptísku (tungumáli sem þróaðist úr fornegypsku).

Eftir að handritið, sem hafði verið í þurru loftslagi Egyptalands um aldaraðir, var flutt úr landi byrjaði það að morkna í sundur. Fáeinir fræðimenn fengu stuttlega að sjá það árið 1983 en söluverðið var svo óheyrilega hátt að engin kaup áttu sér stað. Handritið skemmdist enn þá meira næstu árin vegna slæmrar meðhöndlunar og óheppilegra geymslustaða. Svissneskur fornmunasafnari keypti það árið 2000 og hún lét það seinna meir í hendur sérfræðinga sem störfuðu á vegum Maecenas listasjóðsins og National Geographic stofnunarinnar. Þeir áttu nú fyrir höndum það erfiða verkefni að lagfæra handritið og koma því aftur í fyrra horf því að það hafði að hluta til morknað í sundur. Þessir sérfræðingar áttu einnig að aldursgreina það, þýða og ráða í textann.

 Kolefnismælingar gáfu til kynna að handritið væri frá þriðju eða fjórðu öld. Sérfræðingarnir gátu sér þó til um að koptíski textinn væri þýðing á mun eldra handriti á grísku. Hvenær og undir hvaða kringumstæðum var þá „Júdasarguðspjall“ ritað?

„JÚDASARGUÐSPALL“ – GUÐSPJALL GNÓSTÍKA

Það er fyrst minnst á „Júdasarguðspjall“ í verkum Írenaeusar sem var biskup í Lyon seint á annarri öld. Írenaeus var mótsnúinn kenningum margra trúarhópa og hann skrifaði um einn þeirra í ritverki sínu Against Heresies (Gegn villutrú) og sagði: „Þeir fullyrða að svikarinn Júdas hafi gerþekkt þetta mál, og að hann hafi getað komið hinum dularfullu svikum í kring þar sem hann hafi vitað sannleikann betur en allir hinir. Þar með setti hann allt í uppnám bæði á himni og jörð. Þeir spinna upp lygasögu sem þeir kalla Júdasarguðspjall.“

„Guðspjallið var ekki skrifað á tímum Júdasar af einhverjum sem þekkti hann.“

Írenaeusi var sérlega umhugað um að hrekja hinar margvíslegu kenningar gnóstíka sem fullyrtu að þeir byggju yfir sérstakri þekkingu. Það voru til margir gnóstískir hópar og hver þeirra hafði sína eigin túlkun á því sem þeir töldu vera sannleikann. Gnóstíkar gáfu frekari útskýringar á kenningum sínum, sem þeir byggðu á eigin ritum, og þær breiddust út eins og eldur í sinu á annarri öld.

Gnóstísk guðspjöll sem þessi ýttu oft undir þá hugmynd að postular Jesú hefðu misskilið boðskap hans og að Jesús hefði útbreytt leyndar kenningar sem aðeins fáeinir útvaldir gátu skilið. * Einhverjir þessara gnóstíka héldu því fram að efnisheimurinn væri fangelsi. Því væri „skapari og guð“ Hebresku ritninganna andsnúinn hinum mörgu fullkomnu guðum, sem þeir trúðu á, og ekki eins máttugur. Sá sem bjó yfir sannri „þekkingu“ skildi þennan „leyndardóm“ og leitaðist við að komast út úr efnisheiminum.

„Júdasarguðspjall“ er einmitt byggt á slíkum hugmyndum. Það hefst á orðunum: „Leyndardómurinn sem Jesús kunngerði Júdasi Ískaríot á átta dögum, þremur dögum áður en hann hélt páska.“

Var þetta handritið sem Írenaeus hafði skrifað um og hafði um aldir verið talið glatað? Marvin Meyer, einn af sérfræðingunum sem rannsökuðu og þýddu handritið, segir að „stutt lýsing Írenaeusar passi mjög vel við koptíska textann sem fékk nafnið Júdasarguðspjall“.

FRÆÐIMENN DEILA UM ÍMYND JÚDASAR Í GUÐSPJALLINU

Í „Júdasarguðspjalli“ er Jesús sagður hlæja hæðnislega að lærisveinunum vegna þess að þeir áttu erfitt með að skilja það sem hann kenndi þeim. En Júdas er aftur á móti sá eini af postulunum tólf sem skildi hver Jesús var í raun. Þess vegna segir Jesús honum í einrúmi frá „leyndardómum ríkisins“.

Í fyrstu voru fræðimennirnir, sem unnu við endurgerð handritsins, undir miklum áhrifum af verkum Írenaeusar og lýsingu hans á guðspjallinu. Í þýðingu þeirra segir að Jesús hafi tekið Júdas fram yfir hina lærisveinana af því að hann væri sá eini sem myndi skilja leyndardómana og „komast upp í ríkið“. Þótt afvegaleiddu postularnir myndu finna annan postula í stað Júdasar þá yrði Júdas „þrettándi andinn“ sem „stæði framar öllum [hinum postulunum]“ því að eins og Jesús sagði þá myndi hann hjálpa sér að losna úr holdlegum líkama sínum.

Metsöluhöfundar eins og Bart Ehrman og Elaine Pagels, sem eru virtir fræðimenn á sviði frumkristni og gnóstíkastefnu, birtu fljótlega sínar eigin niðurstöður og athugasemdir um „Júdasarguðspjall“. Þýðing þeirra á handritinu svipaði mjög til þýðingarinnar sem fyrst var gefin  út. Aftur á móti leið ekki langur tími þangað til fræðimenn á borð við April DeConick og Birger Pearson létu í ljós áhyggjur sínar yfir vinnubrögðunum. Þau héldu því fram að National Geographic stofnunin hefði flýtt útgáfu handritatextans til þess eins að vera fyrstir með fréttirnar. Þau sögðu líka að hefðbundnu ferli við slíkar rannsóknir hefði ekki verið fylgt. Fræðimennirnir, sem unnu að verkinu, voru látnir skrifa undir samning um þagnarskyldu og gátu því ekki fengið aðra fræðimenn til að lesa verkið yfir áður en það var gefið út, eins og venja er.

Enginn fræðimannanna, sem rannsökuðu textann, fullyrðir að þar sé að finna sögulegar staðreyndir.

DeConick og Pearson gerðu hvort um sig sjálfstæða rannsókn á verkinu og komust að því að fræðimennirnir hefðu ranglega þýtt mikilvæga hluta handritsins. Í þýðingu DeConicks á textanum segir að Jesús hafi kallað Júdas „þrettánda djöfulinn“ en ekki „þrettánda andann“. * Jesús segir Júdasi líka beinum orðum að hann verði ekki reistur upp til „ríkisins“. Og frekar en að Júdas standi öllum hinum lærisveinunum framar segir Jesús við hann: „Þú munt gera verri hluti en allir hinir“ og spáir því svo að Júdas muni deyða líkama hans. DeConick leit svo á að „Júdasarguðspjall“ væri gnóstísk skrumskæling sem hefði alla postulana að háði. Niðurstöður DeConicks og Pearsons sýna svo ekki verður um villst að í „Júdasarguðspjalli“ er Júdas alls engin hetja.

HVAÐ GETUM VIÐ LÆRT AF „JÚDASARGUÐSPJALLI“?

Enginn fræðimannanna, sem rannsökuðu textann, fullyrðir að þar sé að finna sögulegar staðreyndir og gildir þá einu hvort þeir álitu Júdas vera hetju eða djöful í guðspjallinu. Bart Ehrman segir: „Júdas skrifaði ekki þetta guðspjall og ekki heldur neinn sem þóttist vera hann . . . Guðspjallið var ekki skrifað á tímum Júdasar af einhverjum sem þekkti hann . . . Það gefur okkur því engar nánari upplýsingar um hvað gerðist í raun og veru á dögum Jesú.“

„Júdasarguðspjall“ er gnóstískur texti frá annarri öld og var upprunalega skrifaður á grísku. Fræðimenn deila enn um það hvort þetta nýuppgötvaða „Júdasarguðspjall“ sé nákvæmlega eins og það sem Írenaeus skrifaði um. Efni „Júdasarguðspjalls“ sannar að sá tími hafi komið þegar hópur falskristinna manna setti fram sínar eigin kenningar, sem varð til þess að hann tvístraðist og til urðu margir trúarhópar. Í stað þess að grafa undan trúverðugleika Biblíunnar rennir „Júdasarguðspjall“ stoðum undir viðvaranir postulanna, eins og til dæmis orð Páls í Postulasögunni 20:29, 30, en þar segir: „Ég veit að skæðir vargar munu koma inn á ykkur þegar ég er farinn og eigi þyrma hjörðinni. Og úr hópi sjálfra ykkar munu koma menn sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“

^ gr. 11 Þessi guðspjöll eru oft nefnd eftir þeim sem fullyrt var um að hefðu skilið betur sannar kenningar Jesú líkt og „Tómasarguðspjall“ og „Guðspjall Maríu Magdalenu“. Búið er að bera kennsl á um 30 slík fornhandrit.

^ gr. 18 Fræðimenn sem aðhyllast þá skoðun að Júdas sé djöfull samkvæmt þessum texta – sá sem skildi betur en allir hinir lærisveinarnir hver Jesús væri – benda á hversu keimlíkt það er frásögum guðspjallanna í Biblíunni af því þegar djöflarnir sögðu réttilega til um hver Jesús væri. – Markús 3:11; 5:7.