Hoppa beint í efnið

 Farsælt fjölskyldulíf

Að byggja upp traust á ný

Að byggja upp traust á ný

Stefán *: „Mér hefði aldrei komið til hugar að Jóhanna myndi halda fram hjá mér. Ég missti allt traust á henni. Ég get ekki lýst því hversu erfitt það var að fyrirgefa henni.“

Jóhanna: „Ég get vel skilið að Stefán missti traust á mér. Það tók mig mörg ár að sanna fyrir honum hversu mikið ég sá eftir þessu.“

BIBLÍAN gefur saklausa makanum rétt til að ákveða hvort hann vilji skilja við brotlega makann eftir hjúskaparbrot eða vera áfram í hjónabandinu. * (Matteus 19:9) Stefán, sem vitnað er í hér að ofan, ákvað að fara ekki fram á skilnað. Bæði hann og Jóhanna einsettu sér að reyna að bjarga hjónabandinu. Þau uppgötvuðu hins vegar fljótlega að þau gátu ekki bara haldið áfram þar sem frá var horfið. Af hverju? Eins og fram kom í orðum þeirra hafði ótryggð Jóhönnu eyðilagt allt traust á milli þeirra. Þar sem gagnkvæmt traust er forsenda hamingjuríks hjónabands urðu þau að vinna hörðum höndum til að byggja það upp á ný.

Ef þú og makinn eruð að reyna að koma hjónabandinu á réttan kjöl eftir jafn alvarlegt áfall og framhjáhald standið þið vitanlega frammi fyrir erfiðri áskorun. Fyrstu mánuðirnir eftir að svikin komast upp geta verið sérlega erfiðir. En þið getið sigrast á erfiðleikunum! Hvernig er hægt að byggja upp traust á nýjan leik? Í Biblíunni er að finna viturleg ráð sem geta hjálpað. Skoðið saman eftirfarandi fjórar tillögur.

1 Verið heiðarleg hvort við annað.

 

„Leggið því af lygina og talið sannleika,“ skrifaði Páll postuli. (Efesusbréfið 4:25) Lygar, hálfsannleikur og jafnvel þögn getur grafið undan trausti. Þið verðið því að vera opinská og einlæg þegar þið talið saman.

 Í fyrstu gætuð þið verið í of miklu uppnámi til að geta rætt um framhjáhaldið. Fyrr eða síðar verðið þið samt sem áður að tala opinskátt um það. Það má vera að þið ákveðið að ræða ekki öll smáatriði en það væri óviturlegt að forðast umræðuefnið algerlega. „Í byrjun fannst mér mjög erfitt og óviðeigandi að ræða framhjáhaldið“, segir Jóhanna, sem vitnað var í fyrr í greininni. „Ég sá mikið eftir þessu og vildi bara útiloka þetta úr huganum og gleyma því.“ En þessir samskiptaörðugleikar ollu vandamálum. Hvers vegna? Stefán segir: „Ég hélt áfram að vera tortrygginn vegna þess að Jóhanna vildi ekki tala um framhjáhaldið.“ Þegar Jóhanna lítur til baka segir hún: „Þar sem ég neitaði að ræða þetta við manninn minn stóð ég í vegi fyrir því að sárin næðu að gróa.“

Allar samræður um svikin munu án efa valda sársauka. Patrekur, eiginmaður Díönu, framdi hjúskaparbrot með einkaritara sínum. Díana segir: „Það brunnu á mér margar spurningar. Hvernig gat hann gert mér þetta? Hvers vegna? Um hvað töluðu þau? Ég var í miklu tilfinningalegu uppnámi og hugsaði stöðugt um þetta. Ég vildi fá svör við enn fleiri spurningum eftir því sem vikurnar liðu.“ Patrekur segir: „Skiljanlega enduðu samtöl okkar Díönu stundum í rifrildi. En við báðum hvort annað alltaf afsökunar á eftir. Þessi einlægu samtöl færðu okkur nær hvoru öðru.“

Hvernig er hægt að minnka spennuna þegar slík samtöl eiga sér stað? Mundu að tilgangurinn með samræðunum er ekki að refsa maka þínum heldur að læra eitthvað af þessari bitru reynslu og styrkja hjónabandið. Kristófer og Mónika þurftu til dæmis að endurskoða samband sitt í ljósi þess að hann hafði verið henni ótrúr. „Ég komst að raun um að ég hafði verið of upptekinn af eigin hugðarefnum“, sagði Kristófer. „Ég hugsaði líka einum of mikið um að gera öðrum til hæfis og standa undir væntingum annarra. Ég eyddi mestum tíma mínum og athygli í aðra. Fyrir vikið varði ég of litlum tíma með konunni minni.“ Þessi sjálfsskoðun Kristófers hjálpaði bæði honum og Móniku til að gera ýmsar breytingar sem með tímanum styrktu hjónabandið.

PRÓFIÐ ÞETTA: Ef þú ert ótrúi makinn skaltu stilla þig um að koma með afsakanir eða skella skuldinni á maka þinn. Taktu ábyrgð á gerðum þínum og skaðanum sem þú ollir. Ef þú ert sá sem brotið var á skaltu ekki æpa á maka þinn eða lasta hann með niðrandi orðum. Að forðast slíkt tal hvetur maka þinn til að halda áfram að ræða opinskátt við þig. – Efesusbréfið 4:32.

2 Vinnið saman.

„Betri eru tveir en einn,“ segir í Biblíunni. Af hverju? „Því að þeir hafa betri laun fyrir strit sitt. Falli annar þeirra getur hinn reist félaga sinn á fætur.“ (Prédikarinn 4:9, 10) Þessi meginregla á vel við ekki síst þegar hjón reyna allt sem þau geta til að byggja upp traust á nýjan leik.

Ef þið vinnið saman getið þið styrkt sambandið á ný þrátt fyrir skaðann. Þið þurfið þess vegna bæði að vera staðráðin í að bjarga hjónabandinu. En ef þið reynið að ráða fram úr vandanum hvort í sínu horni gætuð þið setið uppi með fleiri vandamál. Þið verðið að líta á hvort annað sem liðsfélaga.

Stefán og Jóhanna komust að raun um það. „Við Stefán tókum höndum saman um að styrkja hjónabandið, en það tók sinn tíma,“ sagði Jóhanna. „Ég var harðákveðin í að valda honum aldrei slíkum sársauka aftur. Og jafnvel þótt Stefán væri mjög særður var hann ákveðinn í að láta ekki hjónabandið fara út um þúfur. Á hverjum degi reyndi ég að fullvissa hann um tryggð mína og hann hætti aldrei að sýna mér ástúð. Fyrir það verð ég honum ævinlega þakklát.“

PRÓFIÐ ÞETTA: Einsetjið ykkur að vinna saman að því að byggja upp traust á ný.

3 Temdu þér nýjar venjur í stað þeirra gömlu.

Eftir að Jesús hafði varað áheyrendur sína við því að fremja hjúskaparbrot sagði hann: „Ef hægra auga þitt tælir þig til falls þá  ríf það úr og kasta frá þér.“ (Matteus 5:27-29) Ef þú ert brotlegi makinn geturðu hugleitt hvaða venjur eða hegðun þú ættir að ,rífa úr og kasta frá þér‘ svo að hjónaband þitt styrkist.

Þú ættir auðvitað að slíta öll tengsl við aðilann sem þú framdir hjúskaparbrotið með. * (Orðskviðirnir 6:32; 1. Korintubréf 15:33) Patrekur, sem minnst var á fyrr í greininni, breytti um vinnutíma og skipti um farsímanúmer til að koma í veg fyrir frekari samskipti við hina konuna. Þessi viðleitni dugði þó ekki til að slíta öll tengsl við hana. En Patrekur var svo staðráðinn í að vinna aftur traust eiginkonu sinnar að hann sagði upp vinnunni. Hann losaði sig einnig við farsímann sinn og notaði einungis síma eiginkonunnar. Var fyrirhöfnin þess virði? Díana, eiginkona hans, segir: „Nú eru liðin sex ár og það kemur enn fyrir að ég hef áhyggjur af því að hin konan reyni að hafa samband við hann. En núna treysti ég því að Patrekur muni ekki láta tilleiðast.“

Ef þú ert seki makinn gætirðu einnig þurft að gera breytingar á persónuleika þínum. Til dæmis ef þú ert daðurgjarn eða nýtur þess að láta þig dreyma um að eiga ástarævintýri með öðrum en makanum. Ef svo er þarftu að ,afklæðast hinum gamla manni með gjörðum hans‘. Til að auka traust makans á þér skaltu temja þér nýjar venjur í stað þeirra gömlu. (Kólossubréfið 3:9, 10) Áttu erfitt með að sýna öðrum ástúð vegna þess hvernig þú varst alinn upp? Jafnvel þótt þér finnist það vandræðalegt í fyrstu skaltu tjá makanum ást þína og umhyggju eins oft og þú getur. Stefán segir: „Jóhanna sýndi mér oft ástúð með blíðri snertingu og með því að segja mér reglulega að hún elskaði mig.“

Um tíma ættirðu að upplýsa maka þinn um allt sem þú gerir yfir daginn. Mónika, sem minnst var á áður, segir: „Kristófer gerði sér far um að segja mér allt sem hann gerði á hverjum degi, jafnvel ómerkilegustu hluti, í þeim tilgangi að sýna mér að hann hefði ekkert að fela.“

PRÓFIÐ ÞETTA: Spyrjið hvort annað hvað gæti stuðlað að því að byggja upp traustið. Skrifið það niður og hrindið í framkvæmd. Finnið líka eitthvert áhugamál sem þið getið stundað reglulega saman.

4 Gefið ykkur nægan tíma.

Flýtið ykkur ekki um of að álykta að nú sé tími til þess kominn að allt verði eðlilegt á ný. Orðskviðirnir 21:5 koma með þessa aðvörun: „Hroðvirkni endar í örbirgð.“ Það tekur sinn tíma, stundum jafnvel mörg ár, að byggja upp traust á nýjan leik.

Ef þú ert saklausi makinn skaltu gefa þér tíma til að fyrirgefa maka þínum að fullu. Mónika segir: „Mér fannst undarlegt ef eiginkona gat ekki fyrirgefið manninum sínum framhjáhald. Ég skildi ekki hvers vegna hún þurfti að vera reið svona lengi. En þegar maðurinn minn var mér ótrúr skildi ég hversu erfitt það er að fyrirgefa slíkt.“ Það getur tekið langan tíma að veita fyrirgefningu og byggja upp traust.

Í Prédikaranum 3:1-3 segir enn fremur „að lækna hefur sinn tíma“. Í fyrstu gæti þér fundist öruggast að deila ekki tilfinningum þínum með makanum. En ef þú gerir það til lengri tíma hamlar það þér að byggja upp traust til maka þíns. Til þess að geta læknað sárin þarftu að fyrirgefa makanum og sýna það í verki með því að deila með honum innstu tilfinningum þínum og hugsunum. Fáðu einnig maka þinn til að tala við þig um gleði hans og sorgir.

Forðastu að ala á biturð og gremju. Gerðu þér allt far um að yfirvinna slíkar tilfinningar. (Efesusbréfið 4:32) Það gæti verið hjálp í því að hugleiða fordæmi Guðs. Þegar tilbiðjendur hans í Ísrael til forna sneru baki við honum særði það hann djúpt. Jehóva Guð líkti jafnvel sjálfum sér við maka sem hafði verið svikinn.  (Jeremía 3:8, 9; 9:1) En hann var ekki „ævinlega reiður“. (Jeremía 3:12) Hann fyrirgaf þjóð sinni þegar hún sneri aftur til hans full iðrunar.

Þegar þið bæði tvö eruð ánægð með þær breytingar sem þið hafið gert á sambandinu munið þið öðlast ákveðið öryggi. Þá getið þið farið að einbeita ykkur að öðrum markmiðum í stað þess að einblína eingöngu á að bjarga hjónabandinu. En munið samt að taka frá tíma endrum og eins til að meta framfarirnar. Verið ekki of sjálfsörugg. Gerið ráðstafanir til að takast á við minniháttar bakslag og styrkið böndin milli ykkar. – Galatabréfið 6:9.

PRÓFIÐ ÞETTA: Einbeitið ykkur að því að byggja upp nýtt og betra samband í stað þess reyna að gera hjónabandið eins og það var áður.

Ykkur getur farnast vel

Þegar efasemdir koma upp í hugann skuluð þið muna að Guð er höfundur hjónabandsins. (Matteus 19:4-6) Með hjálp hans getur ykkur farnast vel í hjónabandinu. Öll hjónin, sem minnst var á í þessari grein, fóru eftir góðum ráðleggingum Biblíunnar og tókst því að bjarga hjónabandi sínu.

Nú eru 20 ár liðin frá því að erfiðleikarnir skullu á í hjónabandi Stefáns og Jóhönnu. Þegar Stefán lítur til baka segir hann: „Við tókum mestum framförum eftir að við fórum að kynna okkur Biblíuna með vottum Jehóva. Hjálpin sem við fengum var ómetanleg. Hún fleytti okkur í gegnum erfiðustu tímana.“ Jóhanna segir: „Guð hefur blessað okkur ríkulega með því að hjálpa okkur í gegnum þennan hræðilega tíma. Vegna þess að við rannsökuðum Biblíuna saman og unnum hörðum höndum uppskárum við yndislegt hjónaband.“

^ gr. 3 Nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 5 Hægt er að finna góð ráð áður en slík ákvörðun er tekin í Vaknið! júlí-september 1999, bls. 6 og í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. ágúst 1995, bls. 10 og 11.

^ gr. 18 Ef ekki verður komist hjá öllum samskiptum um tíma (kannski vegna vinnu) ættirðu að takmarka þau eins mikið og mögulegt er. Hafðu eingöngu samskipti við hinn aðilann þegar aðrir eru viðstaddir og segðu maka þínum alltaf frá því.

SPYRÐU ÞIG . . .

  • Af hverju ákvað ég að bjarga hjónabandinu þrátt fyrir framhjáhald maka míns?

  • Hvaða góðu eiginleika sé ég í fari maka míns núna?

  • Hvernig sýndi ég maka mínum, þegar við vorum að kynnast, að mér þótti vænt um hann og hvernig get ég sýnt það á nýjan leik?