Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Maður Jehóva að skapi

Maður Jehóva að skapi

 Maður Jehóva að skapi

HVAÐ kemur þér í hug þegar þú hugsar um biblíupersónuna Davíð? Sigur hans á risanum Golíat frá Filisteu? Flótti hans um óbyggðir vegna þess að Sál konungur hataði hann? Synd hans með Batsebu og erfiðleikarnir sem fylgdu í kjölfarið? Eða kannski innblásin ljóð hans sem varðveitt eru í Sálmunum í Biblíunni?

Davíð fékk ótal verkefni í þjónustu Guðs og upplifði mikla sigra en einnig sorgir. En það sem gerir hann aðlaðandi umfram allt annað er það sem Samúel benti á þegar hann sagði að Davíð myndi reynast ,maður Jehóva að skapi‘. – 1. Samúelsbók 13:14.

Orð Samúels rættust þegar Davíð var aðeins ungur að árum. Myndi þér ekki finnast ánægjulegt að vera lýst þannig að þú værir Jehóva að skapi? Hvað getum við lært af Davíð, ekki síst meðan hann var ungur, sem getur hjálpað okkur að verða þannig einstaklingar? Skoðum það nánar.

Fjölskylda hans og starf

Ísaí, faðir Davíðs og sonarsonur Rutar og Bóasar, var eflaust trúfastur þjónn Jehóva. Þegar Davíð og systkini hans, sjö bræður og tvær systur, voru enn ung að aldri fræddi Ísaí þau um Móselögin. Í einum af sálmum sínum kallar Davíð sjálfan sig son „ambáttar“ Jehóva. (Sálmur 86:16) Sumir hafa því ályktað að móðir Davíðs, sem ekki er nafngreind í Biblíunni, hafi einnig hjálpað honum að byggja upp sterka trú. Fræðimaður einn segir:  „Sennilega heyrði hann fyrst af vörum móður sinnar hinar merku frásögur af því sem Jehóva gerði fyrir fólk sitt,“ meðal annars frásöguna um Rut og Bóas.

Þegar Davíð kemur fyrst við sögu er hann ungur smaladrengur sem situr yfir fé föður síns. Vegna starfs síns var hann sennilega einsamall dögum saman með féð á beit. Reyndu að sjá það fyrir þér.

Fjölskylda Davíðs bjó í Betlehem, litlum bæ í efstu hlíðum fjalllendis Júda. Á grýttum ökrunum umhverfis Betlehem var ræktað úrvalskorn. Ávaxtatré, ólífulundir og vínekrur þöktu brekkur og dali þar sem jarðvegur var betri. Á þessum tíma var óræktað hálendi líklega notað sem beitiland. Fyrir neðan fjallshlíðarnar breiddi Júdaeyðimörkin úr sér.

Starf Davíðs var ekki hættulaust. Það var á þessu fjöllótta svæði sem hann barðist bæði við ljón og björn sem höfðu hrifsað til sín lömb úr hjörðinni. * Þessi hugrakki ungi maður elti rándýrin uppi, drap þau og bjargaði sauðunum úr gini þeirra. (1. Samúelsbók 17:34-36) Kannski var það á þessu tímabili í lífi Davíðs sem hann þjálfaðist í að nota slöngvu. Heimabær hans lá ekki langt frá landsvæði Benjamíníta. Skytturnar í þeirri ættkvísl gátu hæft „hárrétt með slöngvusteini og misstu ekki marks“. Færni Davíðs með slöngvuna var ekki síðri. – Dómarabókin 20:14-16; 1. Samúelsbók 17:49.

Hann notaði tímann vel

Starf fjárhirðis var að mestu kyrrlát og einmanaleg iðja. En Davíð lét sér ekki leiðast. Þvert á móti gaf friðsæl kyrrðin honum ótal tækifæri til hugleiðinga. Það er ekki ólíklegt að sumt af því sem Davíð skrifaði í sálmum sínum hafi verið hugleiðingar frá þessum tíma. Skyldi það hafa verið í einverunni  sem hann velti fyrir sér hlutverki mannsins í alheiminum og undrum himinsins, sólinni, tunglinu og stjörnunum, „handaverkum“ Jehóva? Var það í högunum umhverfis Betlehem sem hann virti fyrir sér frjósamt landið og talaði um sauðfénað og uxa, fuglana og „dýr merkurinnar“? – Sálmur 8:4-10; 19:2-7.

Þar sem Davíð hafði verið fjárhirðir skildi hann eflaust enn betur umhyggju Jehóva fyrir trúföstum þjónum sínum. Davíð söng því: „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.“ – Sálmur 23:1, 2, 4.

Þú veltir því kannski fyrir þér hvernig þetta snerti þig. Ein af ástæðunum fyrir því að Davíð átti náið samband við Jehóva og var kallaður ,maður honum að skapi‘ var sú að hann hafði íhugað vel og vandlega handaverk Jehóva og samband sitt við hann. Hefur þú gert það?

Finnurðu stundum fyrir sterkri löngun til að lofa og vegsama skaparann eftir að hafa skoðað gaumgæfilega eitthvað í sköpunarverki hans? Hefurðu fundið hjarta þitt fyllast kærleika til Jehóva við að sjá eiginleika hans endurspeglast í samskiptum hans við mannkynið? Til að geta fundið fyrir þakklæti í garð Jehóva þarftu auðvitað að gefa þér tíma til að hugleiða í ró og næði það sem þú lest í Biblíunni og sérð í sköpuninni. Ef þú gefur þér tíma til íhugunar hjálpar það þér að kynnast Jehóva náið og elska hann. Bæði ungum og öldnum getur hlotnast sá heiður. Að öllum líkindum var Davíð náinn vinur Jehóva allt frá unga aldri. Hvernig vitum við það?

Davíð smurður til konungs

Þegar Sál konungur reyndist óhæfur til að fara fyrir þjóð Guðs sagði Jehóva við Samúel spámann: „Hversu lengi ætlarðu að vera sorgmæddur vegna Sáls? Ég hef hafnað honum sem konungi yfir Ísrael. Fylltu horn þitt af olíu og haltu af stað. Ég sendi þig til Ísaí frá Betlehem því að ég hef valið mér einn af sonum hans til að verða konungur.“ – 1. Samúelsbók 16:1.

Þegar spámaður Guðs kom til Betlehem bað hann Ísaí að kalla saman syni sína. Hvern þeirra átti Samúel að smyrja til konungs? Þegar hann sá hinn myndarlega Elíab, elsta soninn, hugsaði hann með sér: „Þetta er hann.“ En Jehóva sagði við Samúel: „Horfðu ekki á hæð hans og glæsileik því að  ég hef hafnað honum. Guð lítur ekki á það sem maðurinn lítur á. Maðurinn sér hið ytra en Drottinn horfir á hjartað.“ Jehóva hafnaði einnig Abínadab, Samma og fjórum öðrum bræðrum þeirra. Í frásögunni segir áfram: „Því næst spurði Samúel Ísaí: ,Eru þetta allir synir þínir?‘ Hann svaraði: ,Þann yngsta vantar enn því að hann situr yfir fénu.‘“ – 1. Samúelsbók 16:7, 11.

Svar Ísaí gaf til kynna að honum fyndist útilokað að Davíð væri sá sem Samúel leitaði eftir. Davíð hafði fengið þann starfa að líta eftir fénu þar sem hann var yngstur í fjölskyldunni og því minnst metinn. En hann var sá sem Guð hafði útvalið. Jehóva sér hvað býr í hjarta manna og sá augljóslega eitthvað mjög verðmætt í þessum unga manni. Þegar Ísaí sendi síðan eftir Davíð sagði Jehóva við Samúel: „,Stattu upp og smyrðu hann því að þetta er hann.‘ Samúel tók þá olíuhornið og smurði hann að bræðrum hans viðstöddum. Andi Drottins kom yfir Davíð frá þessum degi.“ – 1. Samúelsbók 16:12, 13.

Þess er ekki getið í frásögunni hversu gamall Davíð var þegar þetta gerðist. Það kemur hins vegar fram einhverju síðar að þrír elstu bræðurnir, Elíab, Abínadab og Samma, hafi þjónað í her Sáls konungs. Kannski hafa hinir fimm verið of ungir til að fara með þeim. Þar sem ísraelskir menn gengu í herinn þegar þeir voru tvítugir var sennilega enginn þeirra kominn á þann aldur. (4. Mósebók 1:3; 1. Samúelsbók 17:13) Hvað sem því líður var Davíð mjög ungur þegar Jehóva valdi hann. Samt sem áður virðist Davíð þegar hafa verið mjög andlega þenkjandi. Hann átti greinilega náið samband við Jehóva sem hann hafði ræktað með því að íhuga það sem hann hafði lært um Guð.

Við ættum að hvetja unga fólkið nú á tímum til að gera slíkt hið sama. Hvetjið þið foreldrar börnin ykkar til að hugleiða biblíuleg málefni, læra að meta sköpun Guðs og rannsaka það sem Biblían kennir um skaparann? (5. Mósebók 6:4-9) Og eigið þið unga fólkið frumkvæði að því að gera eitthvað slíkt? Biblíutengd rit eins og Varðturninn og Vaknið! * eru samin sérstaklega til að hjálpa ykkur.

Fær hörpuleikari

Textarnir í mörgum af sálmum Davíðs segja okkur ýmislegt um hann meðan hann var fjárhirðir. Að öllum líkindum hefur tónlist hans gert það líka. Ekkert af tónlistinni, sem samin var við þessa heilögu sálma, hefur auðvitað varðveist fram til okkar daga en við vitum þó að höfundur þeirra var frábær tónlistarmaður. Reyndar var ástæðan fyrir því að Sál konungur lét kalla Davíð frá fjárgæslunni sú að hann var fær hörpuleikari. – 1. Samúelsbók 16:18-23. *

Hvar og hvenær þroskaði Davíð þessa hæfileika með sér? Sennilega á þeim tíma þegar hann gætti fjárins í haga. Getum við ekki auðveldlega séð Davíð fyrir okkur syngja Guði sínum innilega lofsöngva allt frá unga aldri? Hafði Jehóva ekki einmitt útvalið hann og falið honum sérstakt verkefni vegna hollustu hans og trúfesti?

Við höfum einungis fjallað hér um yngri æviár Davíðs. Það er ekki ólíklegt að hugleiðingar hans á þeim tíma þegar hann gætti fjár úti í haga í nágrenni Betlehem hafi verið kveikjan að eftirfarandi ljóðlínum. Þær lýsa vel því hugarfari sem einkenndi hann alla ævi. Við getum séð Davíð fyrir okkur lofsyngja Jehóva með þessum orðum: „Ég minnist fornra daga, hugleiði allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.“ (Sálmur 143:5) Hlýjan í þessum sálmi og mörgum öðrum sem Davíð samdi er öllum hvatning sem vilja vera Jehóva að skapi.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Sýrlenski brúnbjörninn, sem forðum átti heimkynni í Palestínu, vó að meðaltali um 140 kg og gat drepið menn eða dýr með því einu að slá til þeirra með gríðarstórri loppunni. Fyrr á tímum var einnig fjöldinn allur af ljónum á þessu svæði. Í Jesaja 31:4 segir að jafnvel ,hópur fjárhirða‘ hafi ekki getað hrætt ljónshvolp burt frá bráðinni.

^ gr. 20 Gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 22 Ráðgjafi konungsins, sem mælti með Davíð, sagði einnig að hann væri ,vel máli farinn og vel vaxinn og Drottinn væri með honum‘. – 1. Samúelsbók 16:18.