Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þær voru „heimilisræknar“

Þær voru „heimilisræknar“

Frumkristnir menn og samtíð þeirra

Þær voru „heimilisræknar“

„Er þeir nú voru á ferð, kom hann inn í þorp nokkurt. En kona ein að nafni Marta tók á móti honum í hús sitt. Og hún átti systur, er hét María; hún settist við fætur drottins og hlýddi á orð hans. En Marta var önnum kafin við mikla þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: Herra, hirðir þú ekki um það, að systir mín lætur mig eina ganga um beina? Seg þú henni að hjálpa mér. En drottinn svaraði og sagði við hana: Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María hefur valið góða hlutann, hann skal ekki verða tekinn frá henni.“ — LÚKAS 10:38-42, Biblían 1908.

MARTA var augljóslega iðin og dugleg. Eflaust þótti öðrum mikið til hennar koma. Hjá Gyðingum á fyrstu öld var kona metin eftir því hve vel hún rækti skyldur sínar á heimilinu og annaðist þarfir fjölskyldunnar.

Kristnar konur á fyrstu öld voru einnig hvattar til að vera „heimilisræknar“. (Títusarbréfið 2:5) En þess utan höfðu þær fengið þann heiður og ábyrgð að fræða aðra um kristna trú. (Matteus 28:19, 20; Postulasagan 2:18) Hver voru helstu heimilisstörfin sem Gyðingakonur á fyrstu öld þurftu að sinna? Og hvaða lærdóm getum við dregið af því sem Jesús sagði um Maríu?

„Önnum kafin við mikla þjónustu.“ Dagurinn hjá Gyðingakonu hófst snemma, líklega fyrir sólarupprás. (Orðskviðirnir 31:15) Eftir að hafa gefið fjölskyldunni graut að borða kann hún að hafa fylgt sonum sínum í samkunduna þar sem skólinn var. Dæturnar voru eftir heima og lærðu þar að reka heimili, en slík kunnátta var ómissandi ef þær áttu að reynast dugmiklar eiginkonur.

Mæðgurnar byrjuðu daginn í sameiningu á því að sinna almennum heimilisstörfum — fylla á olíulampana (1), sópa gólfin (2) og mjólka geitina (3). Því næst hófst brauðgerðin fyrir daginn. Dæturnar sigtuðu fyrst kornið til að losa það við óhreinindi (4) og möluðu það síðan í handkvörn úr steini (5) þannig að úr varð gróft hveiti. Móðirin tók hveitið og bætti í það vatni og súrdeigi. Hún hnoðaði deigið (6) og lét það síðan lyfta sér meðan hún sinnti öðrum heimilisstörfum. Dætur hennar voru þá uppteknar við að ysta nýja geitarmjólkina eða strokka og hnoða smjör (7).

Seinna um morguninn héldu mæðgurnar líklega á markaðinn og sú ferð gat verið ævintýri líkust. Angan af kryddi fyllti loftið, dýrahljóð bárust úr ýmsum áttum og kaupendur prúttuðu háum rómi um verð. Á markaðinum keypti móðirin það sem fjölskyldan þurfti þann daginn (8). Líklega yrði ferskt grænmeti og þurrkaður fiskur á boðstólunum. Væri hún kristin notaði hún eflaust tækifærið til að tala um trúna við aðra á markaðstorginu. — Postulasagan 17:17.

Samviskusöm móðir notaði tímann, sem gafst á ferðum til og frá markaðinum, til að fræða börn sín um meginreglurnar í Ritningunni og kenna þeim að hafa þær í hávegum. (5. Mósebók 6:6, 7) Hún kann einnig að hafa gefið dætrum sínum góð ráð sem myndu nýtast þeim til að hafa næmt auga í viðskiptum. — Orðskviðirnir 31:14, 18.

Það var einnig í verkahring kvennanna að fara daglega að brunninum (9). Þangað sóttu þær vatn handa allri fjölskyldunni og spjölluðu við aðrar konur sem voru þar í sömu erindagerðum. Þegar heim var komið hófst brauðbaksturinn. Mæðgurnar flöttu deigið út í hringlaga kökur og röðuðu þeim síðan í heitan ofninn (10) sem var yfirleitt utandyra. Þær röbbuðu saman á meðan þær fylgdust með brauðinu bakast og bökunarilmurinn fyllti vit þeirra.

Síðan lögðu þær leið sína að nálægum læk til að þvo föt (11). Fyrst hreinsuðu konurnar fötin vandlega með lút, það er að segja sápu úr natríum- eða kalíumkarbónati sem unnið var úr ösku af ákveðnum jurtum. Eftir að hafa skolað þvottinn og undið hann breiddu þær hann til þerris á runna og klappir við lækinn.

Þegar mæðgurnar voru komnar heim með þvottinn fóru þær hugsanlega upp á flatt húsþakið til að gera við (12) föt sem þurfti að lagfæra áður en þau voru sett inn í skáp. Þar á eftir fengu dæturnar ef til vill kennslu í útsaumi og vefnaði (13). Brátt var kominn tími til að konurnar hæfust handa við eldamennskuna (14). Kvöldverðurinn samanstóð oftast af brauði, grænmeti, ystingi, þurrkuðum fiski og svalandi vatni. Þar sem gestrisni var þáttur í menningunni þurfti fjölskyldan að vera viðbúin því að deila fábrotnum málsverðinum með hugsanlegum gestum.

Þegar degi tók að halla og börnin fóru að búa sig undir háttinn þurfti kannski að bera mýkjandi olíu á hruflað hné. Í flöktandi birtunni frá olíulampanum sögðu foreldrarnir síðan sögu úr Ritningunni og fóru með bæn fyrir börnin. Þegar ró færðist yfir látlaust heimilið hafði eiginmaðurinn ríka ástæðu til að segja við konu sína þessi þekktu orð: „Dugmikla konu, hver hlýtur hana? Hún er miklu dýrmætari en perlur.“ — Orðskviðirnir 31:10.

Að velja „góða hlutann“. Vafalaust voru samviskusamar konur á fyrstu öld önnum kafnar við margvísleg heimilisstörf. (Lúkas 10:40) Konur nú á tímum, sérstaklega mæður, hafa líka í mörgu að snúast. Tækninýjungar hafa einfaldað sum heimilisstörf. Hins vegar eiga margar mæður ekki um annað að velja en að vinna utan heimilis auk þess að annast fjölskylduna.

Þrátt fyrir að hafa margt á sinni könnu fylgja fjölmargar kristnar konur nú á tímum fordæmi Maríu sem minnst var á í byrjun greinarinnar. Þær meta mikils samband sitt við Guð. (Matteus 4:4) Þær annast fjölskyldur sínar af alúð líkt og þær eru hvattar til í Ritningunni. (Orðskviðirnir 31:11-31) En þær fylgja líka meginreglunni sem Jesús minntist á við Mörtu. Þar sem Mörtu var annt um samband sitt við Guð tók hún örugglega þessi vinalegu ráð til sín. Konur, sem þjóna Guði, láta skyldur heimilisins ekki hindra sig í að læra um hann (15) eða að boða trúna. (Matteus 24:14; Hebreabréfið 10:24, 25) Þannig velja þær „góða hlutann“. (Lúkas 10:42, Biblían 1908) Fyrir vikið eru þær mikils metnar innan fjölskyldunnar og dýrmætar í augum Guðs og Krists. — Orðskviðirnir 18:22.