Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 Lesendur spyrja

Í hvaða skilningi eru Jesús og faðir hans eitt?

Í hvaða skilningi eru Jesús og faðir hans eitt?

„Ég og faðirinn erum eitt,“ sagði Jesús. (Jóhannes 10:30) Sumir halda því fram að þessi orð sanni að Jesús og faðir hans séu hluti af þríeinum Guði. Var Jesús að segja það með þessari staðhæfingu?

Skoðum textann í samhengi. Í versi 25 segist Jesús gera verk í nafni föður síns. Frá versi 27 til 29 talar hann um táknræna sauði sem faðir hans hafi gefið honum. Báðar þessar fullyrðingar hefðu verið óskiljanlegar í eyrum hlustenda hans ef hann og faðirinn væru ein og sama persónan. En það sem Jesús átti í rauninni við var þetta: „Faðir minn og ég erum svo nánir að enginn getur tekið sauðina frá mér, rétt eins og enginn getur tekið þá frá föður mínum.“ Það væri eins og sonur myndi segja við óvin föður síns: „Ef þú ræðst á föður minn, ert þú að ráðast á mig.“ Enginn myndi álykta sem svo að þessi sonur og faðir hans væru sama persónan. En allir myndu skilja að mjög sterk bönd væru á milli þeirra.

Jesús og faðir hans, Jehóva Guð, eru líka „eitt“ í þeim skilningi að þeir eru fullkomlega sameinaðir hvað varðar fyrirætlanir og siðferðisstaðla. Jesús vildi aldrei vera óháður Guði ólíkt Satan djöflinum og fyrstu hjónunum, Adam og Evu. „Ekkert getur sonurinn gert af sjálfum sér. Hann gerir það eitt sem hann sér föðurinn gera,“ útskýrði Jesús. „Því hvað sem hann gerir, gerir sonurinn einnig.“ − Jóhannes 5:19; 14:10; 17:8.

Þessi sterku einingarbönd þýða þó ekki að Guð og sonur hans séu óaðgreinanlegir. Þeir eru tveir einstaklingar. Þeir hafa hvor sinn persónuleika. Jesús hefur frjálsan vilja og sínar eigin tilfinningar, hugsanir og upplifanir. Eigi að síður valdi hann að leggja sig undir vilja föðurins. Samkvæmt Lúkasarguðspjalli 22:42, sagði Jesús: „Verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ Þessi orð væru merkingarlaus ef vilji hans gæti ekki verið annar en föðurins. Ef Jesús og faðir hans væru í raun ein persóna, hvers vegna bað Jesús þá til Guðs og viðurkenndi auðmjúklega að hann hefði ekki vitneskju um hluti sem einungis faðirinn vissi? − Matteus 24:36.

Áhangendur margra trúarbragða dýrka guði sem sagan segir að rífist og sláist við sína eigin fjölskyldu. Í grískri goðafræði steypti guðinn Krónos föður sínum, Úranosi, af stóli og át sín eigin börn svo dæmi sé tekið. Þetta er mjög ólíkt þeirri einingu og þeim kærleika sem ríkir milli Jehóva Guðs og sonar hans, Jesú. Og eining þeirra dregur okkur svo sannarlega nær þeim! Við höfum í raun fengið þann óviðjafnanlega heiður að vera sameinuð tveimur æðstu persónunum í öllum alheiminum. Jesús bað fyrir fylgjendum sínum og sagði: „Ég bið . . . að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur.“ − Jóhannes 17:20, 21.

Þegar Jesús sagði: „Ég og faðirinn erum eitt,“ var hann þess vegna ekki að tala um leyndardómsfulla þrenningu heldur stórkostlega einingu − nánustu bönd sem tveir einstaklingar geta bundist.