Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 Kenndu börnunum

Rahab var vakandi fyrir fréttum

Rahab var vakandi fyrir fréttum

ÍMYNDUM okkur að við séum komin 3.500 ár aftur í tímann. Við erum stödd í borginni Jeríkó í Kanaanlandi. Í borginni býr stúlka sem heitir Rahab. Hún fæddist eftir að Móse hafði leitt Ísraelsmenn úr þrælkun í Egyptalandi og þeir fóru síðan þurrum fótum yfir Rauðahafið. Það eru ekki til nein útvörp eða sjónvörp og ekki heldur Netið. Samt vissi Rahab af þessu kraftaverki — jafnvel þó það hafi gerst langt í burtu. Veistu hvernig hún frétti af kraftaverkinu? — *

Ferðalangar hafa án efa sagt frá þessum kraftaverkum. Þegar Rahab var að alast upp lagði hún á minnið hvað Jehóva gerði fyrir fólk sitt. Hún heyrir síðar um margt stórkostlegt sem gerðist hjá Ísraelsmönnum. Eftir 40 ár í eyðimörkinni eru þeir komnir til Kanaanlands og Guð hefur hjálpað þeim að sigra alla andstæðinga. Nú fréttir Rahab að Ísraelsmenn hafi reist herbúðir sínar nálægt Jeríkó, rétt handan við ána Jórdan.

Kvöld eitt koma tveir ókunnugir menn til Rahab vegna þess að þeir vita að hún vinnur á stað þar sem ferðalangar geta gist. Hún býður þeim að gista. Um nóttina kemst konungurinn í Jeríkó að því að njósnarar frá Ísraelsmönnum séu komnir í borgina og að þeir séu hjá Rahab. Konungurinn sendir því þjóna sína til hennar með skilaboð um að hann vilji fá mennina sem eru hjá henni. En veistu hvað Rahab hafði uppgötvað og hvað hún gerði í kjölfarið? — 

Áður en sendiboðar konungs komu til Rahab hafði hún komist að því að gestir hennar voru njósnarar Ísraelsmanna. Hún faldi þá þess vegna á þakinu og sagði við sendiboða konungs: „Já, mennirnir komu til mín ... og þegar dimmdi og hliðinu var lokað fóru þeir út.“ Og hún hvatti þá til að elta mennina.

Hvers vegna heldurðu að Rahab hafi verndað njósnarana? — Hún útskýrir ástæðuna fyrir þeim: „Ég veit að Drottinn hefur gefið ykkur landið ... Við höfum frétt hvernig Drottinn þurrkaði upp vatnið í Sefhafinu fyrir framan  ykkur þegar þið hélduð út úr Egyptalandi.“ Hún hafði einnig frétt að Jehóva hafði séð til þess að Ísraelmenn sigruðu óvini sína.

Jehóva var vissulega ánægður með að Rahab skyldi vernda njósnarana eins og sagt er í Biblíunni, í Hebreabréfinu 11:31. Hann var einnig ánægður þegar hún sárbændi njósnarana: ‚Fyrst ég hef sýnt ykkur velvild viljið þið þá lofa mér að þyrma föður mínum, móður, bræðrum og systrum þegar Jeríkó fellur.‘ Njósnararnir lofuðu að gera það ef Rahab fylgdi fyrirmælum þeirra. Veistu hvað hún átti að gera? — 

Njósnararnir sögðu við Rahab: ‚Taktu þessa purpurarauðu snúru og bittu hana við gluggann hjá þér og safnaðu öllum ættingjum þínum með þér inn í húsið. Ef þú gerir það verður öllum þar óhætt.‘ Rahab gerir nákvæmlega eins og njósnararnir segja henni. Veistu hvað gerist næst? — 

Ísraelsmenn koma nú að múrum Jeríkó. Í sex daga ganga þeir þögulir einu sinni á dag í kringum borgina. Á sjöunda deginum ganga þeir sjö hringi og reka svo upp mikið heróp. Borgarmúrinn hrynur — nema þar sem purpurarauða snúran hangir út um gluggann. Rahab og fjölskylda hennar eru óhult. — Jósúabók 2:1-24; 6:1-5, 14, 15, 20-25.

Hvað getum við lært af því sem Rahab gerði? — Hún var ekki aðeins vakandi fyrir fréttum af því sem Guð gerði til þess að vernda þjóna sína heldur hjálpaði hún þeim þegar hún fékk tækifæri til. Já, Rahab kaus að þjóna Jehóva ásamt þjóð hans. Ætlar þú að gera eins og hún? — Við biðjum þess að þú gerir það.

^ gr. 3 Ef þú ert að lesa fyrir barn geturðu stoppað við þankastrikið og hvatt barnið til þess að tjá sig.