Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Góð trú stuðlar að bróðurkærleika

Góð trú stuðlar að bróðurkærleika

„SÁ SEM ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur,“ segir í Biblíunni. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Góð trú ætti því að stuðla að bróðurkærleika.

Mörg trúfélög hafa staðið sig mjög vel í því að sinna sjúkum, öldruðum og fátækum. Þau hvetja safnaðarmenn sína til að fylgja ráðum Jóhannesar postula sem skrifaði: „Ef sá sem hefur heimsins gæði horfir á bróður sinn eða systur vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir þeim, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum?  Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.“ − 1. Jóhannesarbréf 3:17, 18.

En hvað gerist síðan þegar þjóðir fara í stríð? Ætti boðorð Guðs um að „elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ aðeins að gilda á friðartímum en falla niður þegar stjórnmálamenn eða konungar ákveða að herja á nágrannaþjóð? − Matteus 22:39.

Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Þegar þú spyrð þig spurninganna hér á eftir skaltu velta fyrir þér hvort meðlimir þessa trúfélags sýni öllum kærleika öllum stundum, ekki aðeins í orði heldur líka í verki.

MÁLEFNI: Stríð.

BIBLÍAN KENNIR:

Jesús sagði við lærisveina sína: „Ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.“ − Matteus 5:44.

Þegar hermenn komu til að handtaka Jesú dró Pétur postuli fram sverð til að verja hann. En Jesús sagði: „Slíðra sverð þitt! Allir sem sverði bregða munu fyrir sverði falla.“ − Matteus 26:52.

Jóhannes postuli skrifaði: „Af þessu má greina að börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlæti og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til. Því að þetta er sá boðskapur sem þið hafið heyrt frá upphafi: Við eigum að elska hvert annað. Ekki vera eins og Kain sem var af hinum vonda og myrti bróður sinn.“ − 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.

SPURNING:

Hvetur þessi trú áhangendur sína til að taka þátt í hernaði?

MÁLEFNI: Stjórnmál.

BIBLÍAN KENNIR:

Eftir að hafa séð Jesú gera kraftaverk vildu sumir að hann tæki þátt í stjórnmálum. Hvernig brást hann við? „Jesús vissi nú að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gera hann að konungi og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.“ − Jóhannes 6:15.

Þegar Jesús var handtekinn og ranglega sakaður um áróður gegn yfirvöldum svaraði hann: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi hefðu þjónar mínir barist svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ − Jóhannes 18:36.

Þegar Jesús bað fyrir lærisveinum sínum sagði hann við Guð: „Ég hef gefið þeim orð þitt og heimurinn hataði þá af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ − Jóhannes 17:14.

 SPURNING:

Fylgir þessi trúarhópur fordæmi Jesú og tekur ekki þátt í stjórnmálum, þótt það kalli yfir hann hatur sumra stjórnmálamanna?

MÁLEFNI: Fordómar.

BIBLÍAN KENNIR:

Þegar fyrstu óumskornu heiðingjarnir gerðust kristnir sagði Pétur postuli: „Sannlega skil ég nú að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ − Postulasagan 10:34, 35.

Jakob skrifaði kristnum mönnum á fyrstu öld: „Bræður mínir og systur, þið sem trúið á Jesú Krist, dýrðardrottin okkar, farið ekki í manngreinarálit. Nú kemur maður inn í samkundu ykkar með gullhring á hendi og í skartlegum klæðum og jafnframt kemur inn fátækur maður í óhreinum fötum. Ef öll athygli ykkar beinist að þeim sem skartklæðin ber og þið segið: ‚Settu þig hérna í gott sæti!‘ en segið við fátæka manninn: ‚Stattu þarna eða settu þig á gólfið við fótskör mína,‘ hafið þið þá ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með illum hvötum?“ − Jakobsbréfið 2:1-4.

SPURNING:

Kennir þessi trú að allir séu jafnir í augum Guðs og að ekki megi mismuna fólki vegna kynþáttar eða efnahags?