Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Góð trú stuðlar að góðu siðferði

Góð trú stuðlar að góðu siðferði

GÓÐ trú kennir okkur að beina huganum að því sem er göfugt og bæta hegðun okkar. Hún styður okkur í þeirri baráttu að gera það sem er rétt og laðar fram það besta í fari okkar. Hvernig vitum við að góð trú gerir það?

Taktu eftir því sem Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Korintu í Grikklandi á fyrstu öld. Þessi forna borg var illræmd fyrir siðlausan lífsstíl íbúa sinna. Páll skrifaði: „Enginn sem er saurlífur, dýrkar falsguði eða lifir í hórdómi, enginn karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar, enginn þjófur eða fégráðugur, vínsvallari, rógberi eða fjársvikari fær að erfa Guðs ríki.“ Síðan bætti Páll við: „Og þannig voruð þið sumir hverjir. En þið létuð laugast, létuð helgast, eruð réttlættir. Það gerði nafn Drottins Jesú Krists og andi vors Guðs.“ (1. Korintubréf 6:9-11) Hugsaðu þér − góð trú hjálpaði sumum sem höfðu lélegt siðferði að verða hreinir og réttlátir þjónar Guðs.

Í Biblíunni er hins vegar bent á eftirfarandi: „Þann tíma mun að bera er menn þola ekki hina heilnæmu kenningu heldur hópa að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það sem kitlar eyrun.“ − 2. Tímóteusarbréf 4:3.

Hver er staðan hjá þeim trúarbrögðum sem þú þekkir? Fylgja þau háleitum siðferðisreglum Biblíunnar? Eða hafa þau útþynnt skýrar ráðleggingar hennar og segja fólki bara það „sem kitlar eyrun“?

Til að kanna hvort ákveðin trúarbrögð gefi af sér góðan ávöxt gætirðu gefið þér smá tíma til að svara eftirfarandi spurningum.

MÁLEFNI: Hjónaband.

BIBLÍAN KENNIR:

„Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ − Hebreabréfið 13:4.

SPURNING:

Gerir þessi trú þá kröfu til fylgjenda sinna að pör, sem búa saman, séu löglega gift?

MÁLEFNI: Skilnaður.

BIBLÍAN KENNIR:

Þegar Jesús var spurður hvort hjón mættu einhvern tíma skilja sagði hann: „Sá sem skilur við konu sína, nema sakir hórdóms, og kvænist annarri drýgir hór.“ − Matteus 19:9.

SPURNING:

Virðir þessi trú leiðbeiningar Jesú og leyfir meðlimum sínum að skilja og giftast aftur − en aðeins ef um hórdóm er að ræða?

MÁLEFNI: Siðferði í kynferðismálum.

BIBLÍAN KENNIR:

„Forðist saurlifnaðinn! Sérhver önnur synd, sem maðurinn drýgir, er fyrir utan líkama hans. En saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama.“ − 1. Korintubréf 6:18.

„Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg og eins hafa karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn hafa framið  skömm með karlmönnum og tóku svo út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.“ − Rómverjabréfið 1:26, 27.

SPURNING:

Kennir þessi trú að kynferðislegt siðleysi sé synd, hvort sem um er að ræða milli karls og konu eða fólks af sama kyni?

MÁLEFNI: Að framfylgja siðferðisreglum Biblíunnar meðal áhangenda sinna.

BIBLÍAN KENNIR:

„Þið skuluð ekki umgangast nokkurn þann er nefnir sig bróður en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkandi eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi. Þið skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni.“ (1. Korintubréf 5:11) Hvað ætti að gera við einstaklinga sem segjast vera kristnir en eru iðrunarlausir syndarar? „Útrýmið hinum vonda úr ykkar hópi,“ segir í orði Guðs. − 1. Korintubréf 5:13.

SPURNING:

Er þeim sem hunsar siðferðisreglur Biblíunnar og iðrast ekki vikið úr þessu trúfélagi?