Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Farsælt fjölskyldulíf

Fjármál fjölskyldunnar

Fjármál fjölskyldunnar

Hann segir: „Lára, * konan mín, eyðir peningum í óþarfa — í hluti sem ég tel að við þurfum alls ekki á að halda. Hún virðist bara ekki geta lagt fyrir! Þetta skapar veruleg vandamál þegar upp koma óvænt útgjöld. Ég hef oft sagt að ef konan mín kemst yfir peninga eyðir hún þeim strax.“

Hún segir: „Ég er kannski ekki sparsamasta kona í heimi en maðurinn minn hefur enga hugmynd um hvað hlutirnir kosta, eins og matur, föt, heimilisáhöld og húsgögn. Það er ég sem er mest heima við. Ég fylgist með hvað vantar og kaupi það jafnvel þótt það kosti enn einar ‚umræður‘ um peninga.“

MÖRG hjón eiga erfitt með að halda ró sinni þegar þau ræða saman um fjármál heimilisins. Það er ekki skrýtið að peningar skuli tróna efst á lista yfir helstu deiluefni hjóna.

Ef hjón sjá ekki peninga í réttu ljósi gæti það orsakað streitu, rifrildi, skaðað tilfinningar þeirra og jafnvel bitnað á sambandi þeirra við Guð. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Foreldrar, sem geta ekki rætt saman um peninga og ráðstafað þeim viturlega, þurfa ef til vill að vinna meira, og það getur komið niður á þeim stuðningi sem þau eiga að veita hvort öðru og börnunum, bæði tilfinningalega og í trúarlegum efnum. Slíkir foreldrar kenna líka börnum sínum að fara óskynsamlega með peninga.

Í Biblíunni er bent á þá staðreynd að „silfrið veitir forsælu“. (Prédikarinn 7:12) Peningar veita hjónabandi þínu og fjölskyldu forsælu eða vernd einungis ef þú lærir að fara vel með þá og lærir að tala við maka þinn um fjármál. * Fjármálin þurfa því ekki að vera þrætuepli milli hjóna því að umræður um peninga geta reyndar styrkt sambandið milli þeirra.

En af hverju valda peningar oft vandamálum innan hjónabandsins? Og hvað geturðu gert til að umræður um peninga verði uppbyggjandi og leiðist ekki út í deilur?

Í hverju liggur vandinn?

Oft er það svo að ágreiningur um peninga snýst ekki beinlínis um peninga og skuldir heldur frekar um traust og ótta. Eiginmaður, sem krefst þess að konan sín geri grein fyrir hverri krónu sem hún eyðir, gæti í rauninni verið að segja að hann hafi litla trú á að hún geti annast fjármál fjölskyldunnar. Og eiginkona, sem kvartar undan því að eiginmaðurinn leggi of lítið fyrir, gæti verið að tjá ótta sinn við að einhver atburður í framtíðinni komi fjölskyldunni í kröggur.

Hjón glíma líka við annan vanda — þau hafa ólíkan bakgrunn. „Fjölskylda konunnar minnar kunni að fara með peninga,“ segir Matthew sem hefur verið kvæntur í átta ár. „Hún þekkir ekki af eigin raun þær áhyggjur sem ég hef þurft að glíma við. Faðir minn var alkóhólisti og reykti eins og strompur og var atvinnulaus langtímum saman. Okkur skorti oft nauðsynjar og ég varð dauðhræddur við skuldir. Þess vegna verð ég stundum ósanngjarn við konuna mína þegar peningar eru annars vegar.“ En óháð því af hverju spennan stafar er gott að spyrja sig hvernig hjón geti stillt saman strengi sína og forðast ágreining um peninga.

Hvort skiptir þig meira máli — peningar eða hjónabandið?

Fjórar leiðir til að ná árangri

Biblían er ekki fjármálahandbók en hún inniheldur góð ráð sem geta hjálpað hjónum að varast fjárhagsvandamál. Væri ekki tilvalið að kanna ráð hennar og prófa eftirfarandi tillögur?

1. Lærðu að halda ró þinni þegar þú talar um peninga.

„Hjá ráðþægnum mönnum er viska.“ (Orðskviðirnir 13:10) Ef til vill er eitthvað í uppeldinu sem veldur því að þér finnst óþægilegt að leita ráða hjá öðrum um fjármál, sér í lagi hjá maka þínum. Samt sem áður er það viska að læra að ræða um þetta mikilvæga mál. Væri ekki góð hugmynd að útskýra fyrir maka þínum hvaða áhrif þú telur að viðhorf foreldra þinna til peninga hafi haft á þig? Reyndu líka að skilja hvernig bakgrunnur maka þíns hefur haft áhrif á viðhorf hans.

Það er óþarfi að bíða eftir að vandamál komi upp til að geta rætt saman um fjármálin. Biblíuritari spurði: „Verða tveir menn samferða nema þeir hafi áður mælt sér mót?“ (Amos 3:3) Hvernig á þessi meginregla við? Ef þið ákveðið í sameiningu tíma til að ræða um fjármálin minnkið þið líkurnar á ósætti sem rekja má til misskilnings.

PRÓFIÐ ÞETTA: Takið reglulega frá tíma til að ræða saman um fjármál fjölskyldunnar, til dæmis fyrsta dag mánaðarins eða ákveðinn dag í hverri viku. Hafið umræðurnar stuttar, helst ekki lengri en korter. Veljið tíma þegar líklegt er að þið séuð bæði afslöppuð. Sammælist um að tala ekki um peninga á vissum tímum, eins og á matmálstímum eða þegar þið slakið á með börnunum.

2. Komið ykkur saman um hvernig eigi að líta á tekjurnar.

„Keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ (Rómverjabréfið 12:10) Ef þú ert eina fyrirvinnan geturðu sýnt maka þínum virðingu með því að líta ekki á tekjur þínar sem þín eigin laun heldur sem tekjur fjölskyldunnar. — 1. Tímóteusarbréf 5:8.

Ef þið hjónin eruð bæði útivinnandi getið þið virt hvort annað með því að gera hinu grein fyrir tekjum ykkar og helstu útgjöldum. Ef þú leynir öðru hvoru fyrir maka þínum gæti það grafið undan trausti og skaðað samband ykkar. Það er varla nauðsynlegt að ráðfæra sig við maka sinn í hvert sinn sem maður vill eyða nokkrum krónum, en ef þú ræðir við hann um öll stærri kaup sýnirðu að þú metur mikils skoðun maka þíns.

PRÓFIÐ ÞETTA: Komið ykkur saman um þá upphæð sem þið megið eyða án þess að bera það undir hvort annað, hvort sem það eru 2.000 krónur, 20.000 krónur eða önnur upphæð. Ræddu alltaf við maka þinn ef þú vilt eyða meiru en því sem nemur þessari upphæð.

3. Gerið skriflega áætlun.

„Áform hins iðjusama færa arð.“ (Orðskviðirnir 21:5) Ein leið til að gera framtíðaráform og nýta iðjusemina sem best er að semja fjárhagsáætlun fyrir fjölskylduna. Nína hefur verið gift í fimm ár. Hún segir: „Það getur komið verulega á óvart að sjá tekjur og útgjöld skrifuð niður á blað. Þá blasir veruleikinn við.“

Fjárhagsáætlun þarf ekki að vera flókin. Darren hefur verið kvæntur í 26 ár og á tvo drengi. Hann segir: „Til að byrja með notuðum við umslög. Við settum peningana fyrir eina viku í nokkur umslög. Við höfðum til dæmis umslög fyrir mat, afþreyingu og meira að segja klippingu. Ef peningar í einu umslaginu kláruðust of snemma fengum við lánað úr öðru umslagi, en við gættum þess alltaf að borga til baka í umslagið eins fljótt og við gátum.“ Ef þú borgar sjaldan með reiðufé heldur notast við heimabanka eða greiðslukort þá er mjög mikilvægt að þú gerir áætlun og fylgist með útgjöldunum.

PRÓFIÐ ÞETTA: Skrifið niður öll föst útgjöld. Finnið út hve hátt hlutfall af laununum þið viljið leggja í sparnað. Gerið síðan lista yfir hin ýmsu útgjöld eins og matar-, rafmagns-, hita- og símakostnað. Fylgist svo með í nokkra mánuði hve miklu þið eyðið í raun og veru. Ef þörf krefur dragið þá saman seglin svo að þið farið ekki að safna skuldum.

4. Skiptið með ykkur verkum.

„Betri eru tveir en einn því að þeir hafa betri laun fyrir strit sitt.“ (Prédikarinn 4:9, 10) Í sumum fjölskyldum sér eiginmaðurinn um fjármálin. Í öðrum axlar eiginkonan þessa ábyrgð af miklum dugnaði. (Orðskviðirnir 31:10-28) Mörg hjón velja þó að deila ábyrgðinni. „Konan mín sér um innkaup og lægri útgjöld,“ segir Mario sem hefur verið kvæntur í 21 ár. „Ég sé um skatta, afborganir af lánum og leiguna. Við látum hvort annað vita um stöðuna og vinnum saman sem félagar.“ Hvaða aðferð sem þið kjósið að nota þá skiptir mestu máli að þið vinnið saman sem ein heild.

PRÓFIÐ ÞETTA: Ræðið saman um hver sjái um hvaða skyldur og takið með í reikninginn styrkleika og veikleika ykkar beggja. Endurskoðið skiptinguna eftir nokkra mánuði og verið fús til að breyta henni eftir þörfum. Þú átt auðveldara með að meta að verðleikum það sem maki þinn gerir, svo sem að borga reikninga eða kaupa inn, ef þið skiptið stundum um hlutverk.

Þegar þið ræðið um fjármál

Umræður um peninga þurfa ekki að spilla ástinni á milli ykkar. Leah, sem hefur verið gift í fimm ár, komst að raun um það. Hún segir: „Við hjónin höfum lært að ræða opinskátt og heiðarlega um peninga. Fyrir vikið er samvinnan góð og okkur þykir enn vænna hvoru um annað.“

Þegar hjón ræða saman um það hvernig þau vilja verja peningunum trúa þau hvort öðru fyrir vonum sínum og draumum og sýna að þau eru skuldbundin maka sínum. Þegar þau ráðfæra sig við hvort annað áður en þau versla fyrir háar upphæðir sýna þau skoðunum og tilfinningum hvort annars virðingu. Þegar þau veita hvort öðru frelsi til að eyða ákveðinni upphæð án samráðs ber það vott um traust. Það er þetta sem ástríkt samband hjóna byggist á. Slíkt samband er sannarlega meira virði en peningar. Hvers vegna að vera að rífast um þá?

^ gr. 3 Nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 7 Fram kemur í Biblíunni að „maðurinn er höfuð konunnar“, þannig að hann ber aðalábyrgð á því hvernig peningum fjölskyldunnar er varið og hann á að koma fram við eiginkonu sína af kærleika og óeigingirni. — Efesusbréfið 5:23, 25.

SPYRÐU ÞIG . . .

  • Hvað er langt síðan við hjónin ræddum saman í rólegheitum um peninga?

  • Hvað get ég sagt og gert til að sýna að ég kunni að meta það sem maki minn aflar til rekstrar heimilisins?