Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú ert hjartanlega velkominn

Þú ert hjartanlega velkominn

EF TIL VILL hefurðu átt leið fram hjá ríkissal Votta Jehóva þar sem þú býrð og velt fyrir þér hvað eigi sér stað þar inni. Vissirðu að allar samkomur þeirra eru opnar almenningi? Og það er tekið vel á móti gestum.

En kannski vakna hjá þér spurningar. Af hverju halda Vottar Jehóva samkomur? Hvað gerist á þessum samkomum? Og hvað hafa gestir, sem eru ekki vottar Jehóva, sagt um samkomurnar?

„Stefndu fólkinu saman“

Frá fornu fari hefur fólk safnast saman til að fræðast um Guð og tilbiðja hann. Fyrir 3500 árum fengu Ísraelsmenn þessi fyrirmæli: „Stefndu fólkinu saman, bæði körlum, konum og börnum ásamt aðkomumönnunum innan borgarhliða þinna, til þess að þeir hlusti á [lögin] og læri þau, óttist Drottin, Guð ykkar, og gæti þess að framfylgja öllum ákvæðum þessara laga.“ (5. Mósebók 31:12) Ungum sem öldnum í Ísrael var því kennt að tilbiðja og hlýða Jehóva Guði.

Þegar kristni söfnuðurinn var stofnaður öldum síðar héldu samkomur áfram að vera mikilvægur þáttur sannrar tilbeiðslu. Páll postuli skrifaði: „Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur ykkar eins og sumra er siður heldur uppörvið hvert annað.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Líkt og ánægjulegar samverustundir styrkja fjölskylduböndin, styrkjast kærleiksböndin milli þeirra sem vilja þjóna Guði þegar þeir safnast saman til að tilbiðja hann.

Í samræmi við þessi biblíulegu fordæmi halda Vottar Jehóva samkomur tvisvar í viku í ríkissölum sínum. Á samkomunum er viðstöddum hjálpað að skilja meginreglur Biblíunnar, læra að meta þær og fylgja þeim. Dagskráin er sú sama um allan heim þar sem því er við komið og með hverri samkomu er ákveðið markmið. Viðstaddir njóta þess að ræða saman fyrir og eftir samkomuna og þannig „uppörvast saman“. (Rómverjabréfið 1:12) En hvað á sér stað á þessum samkomum?

Biblíutengd ræða

Á samkomunni, sem flestir sækja í fyrsta skipti, er flutt biblíutengd ræða með almenning í huga. Hún er oftast flutt um helgar. Jesús Kristur flutti oft ræður opinberlega − þar á meðal er hin fræga fjallræða. (Matteus 5:1; 7:28, 29) Og Páll postuli ávarpaði Aþeninga. (Postulasagan 17:22-34) Í samræmi við þessi fordæmi eru á samkomum Votta Jehóva fluttar ræður sem eru sniðnar að þörfum almennings, enda sumir að koma á samkomu í fyrsta skipti.

Samkoman hefst með söng úr söngbókinni Syngið Jehóva lof. * Öllum sem vilja er frjálst að standa og taka undir sönginn. Eftir stutta bæn flytur ræðumaður 30 mínútna ræðu. (Sjá rammann  „Hagnýtar ræður fyrir almenning“.) Ræðan er byggð á Biblíunni. Út ræðuna hvetur ræðumaðurinn áheyrendur til að fletta upp ritningarstöðum og fylgjast með þegar hann les úr Biblíunni. Þess vegna væri tilvalið að koma með sína eigin biblíu eða biðja um eintak áður en samkoman hefst.

 Varðturnsnám

Í flestum söfnuðum Votta Jehóva kemur 60 mínútna Varðturnsnám á eftir ræðunni en þar er farið yfir biblíutengt efni með spurningum og svörum. Á þessari samkomu eru viðstaddir hvattir til að fylgja fordæmi Berojumanna sem voru uppi á fyrstu öld, en þeir „tóku við orðinu með mesta áhuga og rannsökuðu . . . ritningarnar“. − Postulasagan 17:11.

Varðturnsnámið hefst með söng. Efnið, sem fjallað er um, og spurningarnar, sem umsjónarmaðurinn spyr, er að finna í námsútgáfu þessa blaðs. Þú getur nálgast eintak af námsútgáfunni hjá vottum Jehóva. Nýlega hefur verið farið yfir greinar eins og: „Foreldrar − alið börnin ykkar upp með ástúð,“ „Gjaldið engum illt fyrir illt“ og „Allar þjáningar eru brátt á enda.“ Þótt samkoman fari fram með spurningum og svörum er áheyrendum í sjálfsvald sett hvort þeir svara. Þeir sem taka þátt í umræðunum hafa yfirleitt lesið greinina og ritningarstaðina fyrir fram og hugleitt efnið. Samkomunni lýkur með söng og bæn. − Matteus 26:30; Efesusbréfið 5:19.

Safnaðarbiblíunám

Eitt kvöld í viku hittast vottar Jehóva aftur í ríkissalnum til að vera viðstaddir þrískipta dagskrá sem stendur yfir í klukkutíma og þrjú korter. Fyrst á dagskrá er safnaðarbiblíunám sem tekur 25 mínútur. Þeir sem sækja þessa samkomu kynnast Biblíunni betur, fá hvatningu til að laga hugsun sína og viðhorf að vilja Guðs og til að taka framförum sem lærisveinar Krists. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Á þessari samkomu er farið yfir  biblíutengt efni með spurningum og svörum líkt og í Varðturnsnáminu. Þeir sem svara gera það af fúsum og frjálsum vilja. Námsritið er annaðhvort bók eða bæklingur sem Vottar Jehóva gefa út.

Af hverju er farið yfir biblíutengd rit á þessari samkomu? Á biblíutímanum var ekki nóg að lesa orð Guðs. Lögmálskennararnir „lögðu það út og skýrðu til þess að fólkið skildi það sem lesið var“. (Nehemíabók 8:8) Á undanförnum árum hefur meðal annars verið farið yfir rit um Jesajabók og Daníelsbók og hefur það dýpkað skilning viðstaddra á þessum bókum Biblíunnar.

Boðunarskóli

Á eftir safnaðarbiblíunáminu kemur Boðunarskólinn. Þessum 30 mínútna dagskrárlið er ætlað að hjálpa kristnum mönnum að verða færari í að fræða aðra um Biblíuna. (2. Tímóteusarbréf 4:2) Hefur til dæmis barnið þitt eða vinur einhvern tíma spurt þig spurningar um Guð eða Biblíuna sem þér fannst erfitt að svara? Í Boðunarskólanum geturðu lært hvernig hægt sé að nota Biblíuna á uppbyggilegan hátt til að svara erfiðum spurningum. Þá getum við tekið undir með Jesaja spámanni sem sagði: „Drottinn Guð hefur gefið mér lærisveinatungu svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum.“ − Jesaja 50:4.

Boðunarskólinn hefst á ræðu byggðri á nokkrum köflum úr Biblíunni sem áheyrendur hafa verið hvattir til að lesa heima. Í lok ræðunnar biður ræðumaðurinn áheyrendur um að segja í stuttu máli hvað þeim fannst gagnlegt í lesefni vikunnar. Að þessari umræðu lokinni flytja nemendur, sem hafa skráð sig í skólann, verkefni sem þeim hafa verið úthlutuð.

Nemendur eiga að lesa upp úr Biblíunni frá sviðinu eða sviðsetja hvernig kenna megi annarri manneskju biblíusannindi. Í lok hvers verkefnis hrósar umsjónarmaður skólans nemandanum fyrir það sem vel var gert  og byggir það á handbókinni Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum. Seinna, í einrúmi, bendir hann kannski nemandanum á hvernig hann geti tekið framförum.

Fjölþætt dagskrá skólans á ekki aðeins að hjálpa nemandanum heldur líka öllum viðstöddum sem vilja bæta sig í lestri, mælsku og kennslutækni.

Þjónustusamkoma

Síðast á dagskrá er þjónustusamkoman. Með ræðum, sýnidæmum, viðtölum og þátttöku úr sal læra áheyrendur að kenna biblíusannindi á áhrifaríkan hátt. Áður en Jesús sendi lærisveinana út að prédika kallaði hann þá saman og gaf þeim ítarlegar leiðbeiningar. (Lúkas 10:1-16) Þeir lögðu af stað vel undirbúnir til að boða fagnaðarerindið og upplifðu margt ánægjulegt. Þeir sneru síðan aftur til Jesú og sögðu honum frá því sem gerst hafði. (Lúkas 10:17) Lærisveinarnir skiptust oft á frásögum. − Postulasagan 4:23; 15:4.

Þjónustusamkoman stendur yfir í 35 mínútur og er dagskrá hennar að finna í fréttariti sem nefnist Ríkisþjónusta okkar og kemur út í hverjum mánuði. Nýlega hefur verið fjallað um efni eins og: „Fjölskyldur, tilbiðjið Jehóva í sameiningu,“ „Af hverju heimsækjum við fólk aftur og aftur“ og „Líkjum eftir Kristi í boðunarstarfinu“. Dagskránni lýkur með söng og meðlimur í söfnuðinum fer með lokabæn.

Ummæli nokkurra gesta

Fólkið í söfnuðinum leitast við að taka vel á móti öllum. Andrew hafði til dæmis heyrt margt slæmt um Votta Jehóva. En þegar hann kom á samkomu í fyrsta sinn vakti það undrun hans hvað allir tóku vel á móti honum. „Mér leið vel þarna,“ segir hann. „Það kom mér verulega á óvart hvað fólkið var vinalegt og sýndi mér áhuga.“ Ashel, unglingsstúlka frá Kanada tekur í sama streng: „Samkoman var mjög áhugaverð. Það var auðvelt að fylgjast með.“

José býr í Brasilíu og hafði orð á sér fyrir að vera árásargjarn. Engu að síður var honum boðið að koma á samkomu í ríkissal í nágrenninu. Hann segir: „Allir í ríkissalnum tóku hlýlega á móti mér þótt þeir vissu hvaða orð fór af mér.“ Atsushi býr í Japan. Hann segir: „Ég verð að viðurkenna að þegar ég sótti samkomu hjá Vottum Jehóva í fyrsta skipti fannst mér ég vera svolítið utangátta. Ég gerði mér samt ljóst að þetta fólk var eðlilegt. Það reyndi sitt besta til að láta mér líða vel.“

Þú ert velkominn

Eins og ummælin að ofan bera með sér getur það verið uppbyggjandi og ánægjulegt að sækja samkomur í ríkissalnum. Þú lærir um Jehóva Guð og hann mun, með fræðslunni sem þar er veitt, kenna þér „það sem gagnlegt er“. − Jesaja 48:17.

Aðgangur að samkomum Votta Jehóva er ókeypis og engin samskot fara fram. Hefurðu áhuga á að koma á samkomu í ríkissalnum í þínu byggðarlagi? Þú ert innilega velkominn.

^ gr. 10 Öll rit, sem nefnd eru í þessari grein, eru gefin út af Vottum Jehóva.