Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Farsælt fjölskyldulíf

Að takast á við vandamál

Að takast á við vandamál

Hann segir: „Hvar eru stelpurnar?“

Hún segir: „Þær fóru í Kringluna til að kaupa sér ný föt.“

Hann segir: [Pirraður og með hárri röddu] „Hvað áttu við ‚að kaupa sér ný föt‘? Þær keyptu sér nýjar flíkur í síðasta mánuði!“

Hún segir: [Særð og finnst hann vera að ásaka sig] „En það var útsala. Og burtséð frá því spurðu þær mig fyrst og ég sagði að þær mættu fara.“

Hann segir: [Missir stjórn á sér og hækkar róminn] „Þú veist hvað mér er illa við það þegar stelpurnar eyða peningum án þess að spyrja mig! Hvernig gastu tekið svona fljótfærnislega ákvörðun án þess að tala við mig fyrst?“

HVAÐA vandamáli þurfa þessi hjón að ráða fram úr að þínu mati? Eiginmaðurinn á greinilega erfitt með að stjórna skapi sínu. En þar fyrir utan virðast þau vera ósammála um hversu mikið frjálsræði dætur þeirra eiga að hafa. Og tjáskiptin virðast heldur ekki vera í lagi.

Ekkert hjónaband er fullkomið. Öll hjón þurfa að takast á við vandamál af einhverju tagi. En sama hvort vandamálin eru lítil eða stór er mikilvægt að hjón læri að leysa þau. Hvers vegna?

Óleyst vandamál geta með tímanum orðið eins og múrveggur og hindrað tjáskipti. Deilur eru „sem slagbrandar fyrir hallardyrum“, sagði Salómon konungur. (Orðskviðirnir 18:19) Hvað getið þið gert til að opna fyrir árangursríkari tjáskipti þegar þið takist á við vandamál?

Ef tjáskipti eru lífæð hjónabandsins þá er kærleikur og virðing hjarta þess og lungu. (Efesusbréfið 5:33) Þegar takast þarf á við vandamál mun kærleikurinn knýja hjónin til að gleyma fyrri mistökum — og sárindunum sem þau ollu — og einbeita sér að vandamálinu sem þau standa frammi fyrir þá stundina. (1. Korintubréf 13:4, 5; 1. Pétursbréf 4:8) Hjón sem sýna virðingu leyfa hvort öðru að tala frjálslega og reyna að skilja hvað býr að baki því sem sagt er.

Ráð til að greiða úr vandamálum

Hugleiðið eftirfarandi fjögur skref og sjáið hvernig meginreglur Biblíunnar geta hjálpað ykkur að sýna kærleika og virðingu þegar þið greiðið úr vandamálum.

1. Ákveðið tíma til að ræða vandamálið.

„Öllu er afmörkuð stund . . . að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1, 7) Rifrildi hjónanna í byrjun greinarinnar sýnir skýrt að sum vandamál geta vakið sterk viðbrögð. Ef það gerist skaltu sýna sjálfstjórn og gera hlé á samræðunum, það er að segja „þegja“, áður en þú missir stjórn á skapinu. Þið getið forðað hjónabandinu frá miklum skaða ef þið hlýðið ráði Biblíunnar: „Þegar deila kviknar er sem tekin sé úr stífla, láttu hana því niður falla áður en sennan hefst.“ — Orðskviðirnir 17:14.

En það hefur líka ‚sinn tíma að tala‘. Vandamál eru eins og illgresi. Þau vaxa hratt ef þau eru látin eiga sig. Þú skalt því ekki láta sem þú sjáir ekki vandamálin í þeirri von að þau hverfi. Ef þú gerir hlé á samræðunum sýndu þá maka þínum virðingu með því að ákveða tíma til að ræða málið fljótlega aftur. Slík ákvörðun getur hjálpað ykkur að fylgja eftirfarandi ráði Biblíunnar: „Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar.“ (Efesusbréfið 4:26) Að sjálfsögðu þarftu síðan að halda loforð þitt um að ræða málið.

PRÓFIÐ ÞETTA: Veljið ákveðinn tíma í hverri viku til að ræða um fjölskylduvandamál. Ef þið finnið að þið hafið tilhneigingu til að rífast á ákveðnum tíma dags — til dæmis þegar þið eruð nýkomin heim úr vinnu eða þegar þið eruð svöng — komið ykkur þá saman um að ræða ekki málin þá. Veljið frekar tíma þegar líklegt er að þið séuð betur fyrirkölluð.

2. Tjáðu skoðanir þínar af hreinskilni og virðingu.

„Talið sannleika hvert við sinn náunga.“ (Efesusbréfið 4:25) Ef þú ert í hjónabandi er maki þinn nánasti náungi þinn. Vertu því hreinskilinn og segðu maka þínum nákvæmlega hvernig þér líður. Margareta *, sem hefur verið gift í 26 ár, segir: „Þegar ég var nýgift ætlaðist ég til þess að maðurinn minn vissi hvernig mér liði þegar vandamál komu upp. Mér lærðist að slíkar væntingar væru óraunhæfar. Núna reyni ég að tjá hugsanir mínar og tilfinningar skýrt og skilmerkilega.“

Hafðu hugfast að markmiðið með því að ræða málin er ekki að eiga síðasta orðið eða sigra andstæðing heldur einfaldlega að láta maka þinn vita hvað þú ert að hugsa. Til að gera það á árangursríkan hátt skaltu tilgreina hvert vandamálið er að þínu mati, segja síðan hvenær það kemur upp og útskýra hvernig áhrif það hefur á þig. Tökum dæmi. Ef hirðuleysi maka þíns fer í taugarnar á þér gætirðu sagt vingjarnlega: „Þegar þú kemur heim úr vinnunni og skilur fötin eftir á gólfinu [hvenær vandamálið kemur upp og hvert það er] finnst mér eins og þú kunnir ekki að meta það sem ég geri til að halda heimilinu hreinu [útskýrir nákvæmlega hvernig þér líður].“ Komdu síðan með tillögu um hvernig hægt væri að leysa vandamálið.

PRÓFIÐ ÞETTA: Skrifaðu niður hvert þú telur vandamálið vera og hvernig þú vilt leysa það. Það hjálpar þér að hafa skýrt í huga hvað þú vilt segja áður en þú talar við maka þinn.

3. Hlustaðu og virtu tilfinningar maka þíns.

Lærisveinninn Jakob skrifaði að kristinn maður ætti að vera „fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði“. (Jakobsbréfið 1:19) Fátt veldur meiri óhamingju í hjónabandi en það þegar vandamál kemur upp og manni finnst makinn ekki skilja hvernig manni líður. Vertu þess vegna staðráðinn í að láta maka þínum ekki líða þannig. — Matteus 7:12.

Wolfgang, sem hefur verið giftur í 35 ár, segir: „Þegar við ræðum vandamál verð ég svolítið ergilegur, sérstaklega þegar mér finnst konan mín ekki skilja mig.“ Dianna, sem hefur verið gift í 20 ár, viðurkennir: „Ég kvarta oft yfir því við manninn minn að hann hlusti ekki á mig þegar við ræðum vandamál.“ Hvernig er hægt að sigrast á slíkum vanda?

Ekki ætla að þú vitir hvað maki þinn er að hugsa eða hvernig honum líður. Orð Guðs segir: „Af hroka kvikna deilur en hjá ráðþægnum mönnum er viska.“ (Orðskviðirnir 13:10) Sýndu maka þínum þá virðingu að leyfa honum að segja skoðun sína án þess að grípa fram í. Gakktu síðan úr skugga um að þú hafir skilið það sem sagt var með því að endurtaka með eigin orðum það sem þú heldur að hann hafi átt við. Gerðu þetta án þess að vera kaldhæðinn eða hranalegur. Leyfðu maka þínum að leiðrétta þig ef þú hefur misskilið eitthvað sem hann sagði. Einokaðu ekki samræðurnar. Hlustið og tjáið skoðanir ykkar þannig til skiptis þar til þið eruð viss um að þið skiljið sjónarmið og tilfinningar hvort annars.

Það kostar að sjálfsögðu auðmýkt og þolinmæði að hlusta af athygli á maka sinn og virða skoðanir hans. En ef þú átt frumkvæðið að því að sýna maka þínum virðingu með þessum hætti er mun líklegra að hann beri virðingu fyrir þér. — Matteus 7:2; Rómverjabréfið 12:10.

PRÓFIÐ ÞETTA: Þegar þú endurtekur orð maka þíns skaltu ekki bergmála orðrétt það sem hann sagði. Sýndu hluttekningu og skilning og reyndu að lýsa því sem þú heldur að maki þinn eigi við. — 1. Pétursbréf 3:8.

4. Finnið lausn sem þið eruð bæði sátt við.

„Betri eru tveir en einn því að þeir hafa betri laun fyrir strit sitt. Falli annar þeirra getur hinn reist félaga sinn á fætur.“ (Prédikarinn 4:9, 10) Vandamál í hjónabandi eru torleyst ef hjónin vinna ekki saman og styðja hvort annað.

Jehóva skipaði eiginmanninn höfuð fjölskyldunnar. (1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 5:23) En það merkir ekki að hann eigi að drottna yfir henni. Vitur eiginmaður tekur ekki gerræðislegar ákvarðanir. David hefur verið giftur í 20 ár. Hann segir: „Ég reyni að komast að samkomulagi við konuna mína og taka ákvörðun sem við getum bæði stutt.“ Tanya, sem hefur verið gift í sjö ár, segir: „Þetta snýst ekki um það hvort hefur rétt fyrir sér. Stundum eru bara ólíkar skoðanir á því hvernig eigi að leysa vandamálið. Ég hef komist að raun um að árangursríkasta leiðin sé að vera sveigjanlegur og sanngjarn.“

PRÓFIÐ ÞETTA: : Vinnið saman að því að skrifa niður eins margar hugsanlegar lausnir á vandamálinu og ykkur dettur í hug. Þegar þið eruð búin að því skuluð þið fara yfir listann og velja lausnina sem ykkur líst best á. Finnið síðan tíma í náinni framtíð til að kanna hvort þið hafið fylgt ákvörðun ykkar eftir og hvort hún hafi skilað tilætluðum árangri.

Sameinið krafta ykkar

Jesús sagði um hjónabandið: „Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ (Matteus 19:6) Orðasambandið „tengt saman“ er þýðing á grísku orði sem þýðir „undir sama oki“. Ok var tré sem tengdi tvö dráttardýr saman. Ef þau voru ekki samstillt urðu afköstin lítil og okið gat ert þau eða meitt. En ef þau unnu vel saman gátu þau dregið mikinn þunga eða plægt akur.

Hjónabandsokið getur sömuleiðis valdið hjónum óþægindum ef þau eru ekki samstillt. En ef þau læra að vinna saman geta þau leyst nánast hvaða vandamál sem er og látið margt gott af sér leiða. Kalala býr í hamingjuríku hjónabandi og lýsir í hnotskurn því sem hefur hjálpað þeim hjónum: „Síðustu 25 árin höfum við leyst vandamál okkar með því að ræða opinskátt saman, setja okkur í spor hvort annars, biðja um hjálp Jehóva og tileinka okkur meginreglur Biblíunnar.“ Getið þið gert slíkt hið sama?

SPYRÐU ÞIG . . .

  • Um hvaða vandamál vil ég helst ræða við maka minn?

  • Hvernig get ég verið viss um að ég viti hvernig maka mínum er innanbrjósts?

  • Hvaða erfiðleikum getur það valdið ef ég krefst þess alltaf að hlutirnir séu gerðir eftir mínu höfði?

^ gr. 17 Sumum nöfnum hefur verið breytt.