Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Notum tunguna til góðs

Notum tunguna til góðs

,Mættu orð mín vera þér þóknanleg, Drottinn.‘ – SÁLM. 19:15.

SÖNGVAR: 82, 77

1, 2. Hvers vegna er tungunni líkt við eld í Biblíunni?

SNEMMA í október árið 1871 hófust mannskæðustu skógareldar í sögu Bandaríkjanna í norðausturhluta Wisconsin-ríkis. Eldurinn breiddist hratt út í þurru skóglendinu og gleypti um tvo milljarða trjáa. Meira en 1.200 manns urðu eldinum að bráð. Hugsanlega kviknaði þetta gífurlega eldhaf vegna neista frá járnbrautarlest sem átti leið um svæðið. Þetta minnir á orðin í Jakobsbréfinu 3:5 þar sem segir: „Sjáið hversu lítill neisti getur kveikt í miklum skógi.“ Hvers vegna var biblíuritarinn að tala um þetta?

2 Í sjötta versinu kemur í ljós hvað Jakob á við. Þar segir: „Tungan er líka eldur.“ Tungan táknar hæfileika okkar til að tala. Mál okkar getur valdið miklum skaða líkt og eldur. Biblían segir jafnvel að ,dauði og líf séu á valdi tungunnar‘. (Orðskv. 18:21) Auðvitað hættum við ekki að tala af ótta við að segja eitthvað særandi, ekkert frekar en við forðumst að nota eld af ótta við skaðann sem hann gæti valdið. Þetta snýst um að hafa stjórnina. Ef við höfum stjórn á eldi getum við notað hann til að elda, hlýja okkur og lýsa upp náttmyrkrið. Ef við höfum taumhald á tungunni getum við notað hana til að heiðra Guð og uppörva aðra. – Sálm. 19:15.

3. Hvað ætlum við að skoða varðandi mál okkar?

 3 Hæfileikinn til að tjá hugsanir okkar og tilfinningar er stórfengleg gjöf frá Guði, hvort sem við tjáum okkur með munninum eða höndunum. Hvernig getum við notað þessa gjöf til að byggja aðra upp en ekki draga þá niður? (Lestu Jakobsbréfið 3:9, 10.) Við skoðum nú þrennt sem við þurfum að hafa í huga varðandi mál okkar: Hvenær við ættum að tala, hvað við ættum að segja og hvernig við segjum það.

HVENÆR ÆTTUM VIÐ AÐ TALA?

4. Hvenær gæti verið ,tími til að þegja‘?

4 Að tala er hluti af daglegu lífi okkar en við þurfum ekki að tala öllum stundum. Biblían segir: „Að þegja hefur sinn tíma.“ (Préd. 3:7) Við sýnum öðrum virðingu með því að þegja þegar þeir tala. (Job. 6:24) Að ljóstra ekki upp um trúnaðarmál ber vott um nærgætni og góða dómgreind. (Orðskv. 20:19) Við sýnum líka visku með því að hafa taumhald á tungunni þegar okkur er ögrað. – 1. Pét. 3:10, 11.

5. Hvernig getum við sýnt Jehóva að við kunnum að meta þá gjöf sem málið er?

5 En Biblían segir líka: „Að tala hefur sinn tíma.“ (Préd. 3:7) Ef vinur þinn gefur þér fallega gjöf læturðu hana líklega ekki á stað þar sem enginn getur séð hana. Þú sýnir ábyggilega að þú sért þakklátur fyrir gjöfina með því að nota hana vel. Við sýnum Jehóva að við kunnum að meta þá gjöf sem málið er með því að nota hana viturlega. Það gerum við til dæmis með því að tjá tilfinningar okkar og þarfir, uppörva aðra og lofa Guð. (Sálm. 51:17) Við þurfum líka að vita hvenær er rétti ,tíminn til að tala‘. Hvernig getum við gert það?

6. Hvernig lýsir Biblían mikilvægi þess að velja rétta tímann til að tala?

6 Myndmálið í Orðskviðunum 25:11 lýsir mikilvægi þess að velja rétta tímann til að tala. Þar segir: „Gullepli í skrautlegum silfurskálum – svo eru orð í tíma töluð.“ (Biblían 1981) Gullepli ein og sér eru mjög falleg. En fegurð þeirra kemur enn betur í ljós þegar þau eru lögð í skrautlega silfurskál. Með svipuðum hætti verða orð okkar áhrifaríkari og ná betur til fólks þegar við veljum vandlega rétta tímann til að tala. Hvernig gerum við það?

7, 8. Hvernig fóru trúsystkini okkar í Japan að dæmi Jesú með því að velja rétta tímann til að segja frá upprisunni?

7 Það sem við höfum að segja er kannski einmitt það sem viðmælandinn þarf að heyra en ef við veljum ekki rétta tímann til að tala gætu orð okkar farið fyrir ofan garð og neðan. (Lestu Orðskviðina 15:23.) Lítum á dæmi. Í mars árið 2011 ollu jarðskjálfti og flóðbylgja gífurlegu tjóni í austurhluta Japans og þurrkuðu út heilu borgirnar. Meira en 15.000 manns týndu lífi. Þó að vottar Jehóva á svæðinu hafi upplifað sömu hörmungar og nágrannar sínir nýttu þeir hvert tækifæri til að nota Biblíuna til að hughreysta aðra sem syrgðu. Margir íbúanna eru þó búddhatrúar og hafa litla sem enga þekkingu á kenningum Biblíunnar. Bræður okkar og systur áttuðu sig á að það væri líklega ekki besti tíminn svona stuttu eftir hamfarirnar að segja syrgjandi fólkinu frá upprisuvoninni. Þess í stað einbeittu þau sér að því að veita tilfinningalegan stuðning og sýna fólki með hjálp Biblíunnar hvers vegna saklaust fólk lendir í slíkum hremmingum.

8 Jesús vissi hvenær hann átti að þegja en hann vissi líka hvenær rétti tíminn  var til að tala. (Jóh. 18:33-37; 19:8-11) Eitt sinn sagði hann við lærisveina sína: „Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú.“ (Jóh. 16:12) Vottarnir í Austur-Japan fóru að dæmi Jesú. Tveimur og hálfu ári eftir hamfarirnar tóku þeir þátt í alþjóðlegu átaki til að dreifa Guðsríkisfréttum númer 38 sem heitir „Geta hinir dánu lifað á ný?“ Þá voru margir tilbúnir til að heyra hughreystandi boðskap Biblíunnar um upprisu og margir húsráðendur tóku fúslega við smáritinu. Menning fólks og trúarskoðanir eru auðvitað mjög misjafnar og því þurfum við að sýna skynsemi þegar við ákveðum hvenær sé rétti tíminn til að tala.

9. Við hvaða aðstæður geta orð okkar haft meiri áhrif ef við veljum rétta tímann til að tala?

9 Við sumar aðstæður er sérstaklega mikilvægt að gera sér grein fyrir hvenær sé rétti tíminn til að tala. Til dæmis gæti einhver móðgað okkur, jafnvel þótt það hafi ekki verið ætlunin. Þá væri skynsamlegt að staldra við og hugleiða hvort virkilega sé ástæða til að við svörum fyrir okkur. Ef okkur finnst við þurfa að segja eitthvað ættum við ekki að gera það þegar við erum í uppnámi og gætum sagt eitthvað í fljótfærni. (Lestu Orðskviðina 15:28.) Við þurfum líka að sýna góða dómgreind þegar við tölum um sannleikann við ættingja sem eru ekki í trúnni. Við viljum auðvitað að þeir kynnist Jehóva en við þurfum að vera þolinmóð og nærgætin. Orð í tíma töluð gætu gert þau móttækileg fyrir sannleikanum.

HVAÐ ÆTTUM VIÐ AÐ SEGJA?

10. (a) Hvers vegna ættum við að vanda orðaval okkar? (b) Nefndu dæmi um særandi tal.

10 Orð búa yfir mætti til að græða en líka til að særa. (Lestu Orðskviðina 12:18.) Í heimi Satans er algengt að fólk noti orð til að særa. Skemmtanaiðnaðurinn fær marga til að brýna „tungur sínar sem sverð“ og ,miða eitruðum orðum líkt og örvum‘. (Sálm. 64:4) Þjónar Guðs þurfa að forðast skaðlega hegðun af þessu tagi. ,Eitruð orð‘ geta til dæmis verið kaldhæðni, eins og særandi athugasemdir sem gera lítið úr öðrum eða eru dæmandi. Kaldhæðni á oft að vera fyndin en grínið getur hæglega orðið virðingarlaust og móðgandi. Meiðandi kaldhæðni er ein tegund af „lastmæli“ sem þjónar Guðs ættu að forðast. Skopskyn getur kryddað mál okkar en við þurfum að forðast þá gildru að reyna að vekja hlátur með því að nota hvassar, kaldhæðnislegar athugasemdir sem særa eða niðurlægja. Í Biblíunni fáum við þessi ráð: „Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra.“ – Ef. 4:29, 31.

11. Hvernig á hjartað þátt í að við veljum réttu orðin?

11 Jesús kenndi að ,af gnægð hjartans mæli munnurinn‘. (Matt. 12:34) Ef við viljum segja réttu orðin þurfum við því fyrst að hugsa um hjartað. Tal okkar endurspeglar yfirleitt hvað okkur finnst um aðra innst inni. Ef hjartað er fullt af kærleika og umhyggju er líklegt að tal okkar verði jákvætt og uppörvandi.

12. Hvað getur hjálpað okkur að velja réttu orðin?

12 Við þurfum líka að leggja eitthvað á okkur og sýna góða dómgreind til að geta valið réttu orðin. Jafnvel hinn vitri Salómon konungur „rannsakaði og kynnti sér“ margt til að „finna fögur orð“ og geta skrifað „sannleiksorð“. (Préd. 12:9, 10) Finnst þér oft erfitt að  „finna fögur orð“? Þá gætirðu þurft að auka orðaforðann. Ein leið til að gera það er að taka eftir orðalagi í Biblíunni og ritunum okkar. Reyndu að átta þig á orðalagi sem þú skilur ekki. Lærðu síðan hvernig þú getur notað orðin til að hjálpa öðrum. Í Biblíunni er sagt um Jesú: „Drottinn Guð hefur gefið mér [Jesú] lærisveinatungu svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum.“ (Jes. 50:4) Ef við tökum okkur tíma til að hugleiða hvað við ætlum að segja getur það hjálpað okkur að finna réttu orðin. (Jak. 1:19) Við gætum spurt okkur: Skila þessi orð því sem ég vil segja? Hvaða áhrif hefur orðaval mitt á viðmælandann?

13. Hvers vegna er mikilvægt að það sem við segjum sé auðskilið?

13 Ísraelsmenn þeyttu lúðra til merkis um að fólkið skyldi safnast saman eða leggja upp í ferð. Eins var það gert til að gefa hermönnum merki um að ráðast til bardaga. Það er eðlilegt að Biblían skuli nota lúðurblástur til að lýsa mikilvægi þess að nota skilmerkileg orð. Ógreinilegur lúðurhljómur gæti haft hörmulegar afleiðingar fyrir her í stríði. Á svipaðan hátt getur það valdið misskilningi eða verið misvísandi ef við segjum hlutina ekki nógu skýrt og hnitmiðað. Þótt við viljum vera skýr og skorinorð þurfum við hins vegar að gæta þess að vera alltaf háttvís og nærgætin. – Lestu 1. Korintubréf 14:8, 9.

14. Nefndu dæmi um það hvernig Jesús notaði auðskilið mál.

14 Jesús er besta fyrirmyndin um að nota viðeigandi orð. Ræða hans í Matteusi kafla 5 til 7 er stutt en afar áhrifarík. Jesús notaði hvorki háfleygt né tvírætt mál. Hann var heldur ekki harðorður eða særandi í tali. Öllu heldur notaði hann skýrt og einfalt orðalag til að ná til hjartna áheyrenda sinna. Til dæmis fullvissaði hann fólkið um að það þyrfti ekki að hafa áhyggjur af matarskorti með því að benda á hvernig Jehóva sér fyrir fuglum himinsins. Hann bar áheyrendurna saman við fugla og spurði síðan: „Eruð þér ekki miklu fremri þeim?“ (Matt. 6:26) Með þessum skýru og auðskildu orðum náði Jesús að snerta hjörtu áheyrendanna og hughreysta þá. Skoðum nú annað sem er mikilvægt að hafa í huga þegar við tölum.

HVERNIG ÆTTUM VIÐ AÐ TALA VIÐ AÐRA?

15. Af hverju þurfum við að vera vingjarnleg í tali?

15 Hvernig við segjum hlutina getur skipt jafnmiklu máli og hvað við segjum. Þegar Jesús talaði í samkundunni í heimabæ sínum Nasaret ,undraðist fólkið þau hugnæmu orð sem fram gengu af munni hans‘. (Lúk. 4:22) Vingjarnlegt tal höfðar til hjartans og veikir ekki mátt orða okkar á nokkurn hátt. Það getur öllu heldur aukið sannfæringarkraft þeirra. (Orðskv. 25:15) Við getum líkt eftir Jesú í tali með því að vera vingjarnleg, kurteis og taka tillit til tilfinninga annarra. Þegar Jesús sá fjölda fólks leggja mikið á sig til að heyra hann tala kenndi hann í brjósti um það og fór að ,kenna því margt‘. (Mark. 6:34) Jesús var ekki einu sinni harðorður þegar fólk gerði lítið úr honum. – 1. Pét. 2:23.

16, 17. (a) Hvernig getum við líkt eftir Jesú þegar við tölum við einhvern í fjölskyldunni eða náinn vin í söfnuðinum? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Nefndu dæmi sem sýnir fram á kosti þess að vera vingjarnlegur í tali.

16 Það getur verið erfitt að tala blíðlega og vera nærgætinn við þá sem við þekkjum mjög vel. Okkur gæti til dæmis  fundist í lagi að tala alveg umbúðalaust við einhvern í fjölskyldunni eða náinn vin í söfnuðinum. Fannst Jesú í lagi að vera harðorður við lærisveina sína bara af því að þeir voru nánir vinir hans? Alls ekki. Nánustu fylgjendur Jesú þráttuðu endurtekið um það hver þeirra væri mestur en hann leiðrétti þá vingjarnlega og bar fram líkingu um lítið barn. (Mark. 9:33-37) Öldungar geta líkt eftir fordæmi Jesú með því að leiðbeina fólki í söfnuðinum „með hógværð“. – Gal. 6:1.

17 Jafnvel þegar einhver móðgar okkur getur það haft góð áhrif að svara vingjarnlega. (Orðskv. 15:1) Lítum á dæmi. Einstæð móðir átti unglingsson sem lifði tvöföldu lífi. Systir, sem vildi vel, sagði við hana: „Það er leitt að þér skyldi mistakast í uppeldinu.“ Móðirin hugsaði sig um og svaraði svo: „Það er satt að það gengur ekki svo vel eins og er en við erum að vinna í þessu. Tölum saman eftir Harmagedón, þá vitum við hvernig gekk.“ Þetta vingjarnlega svar varð til þess að systurnar varðveittu friðinn. Það hafði líka hvetjandi áhrif á soninn sem heyrði samtalið. Hann áttaði sig á að móðir hans hefði ekki gefist upp á honum og það fékk hann til segja skilið við slæman félagsskap. Með tímanum lét hann skírast og nokkru síðar hóf hann starf á Betel. Hvort sem við erum með trúsystkinum okkar, fjölskyldu eða ókunnugum ættum við alltaf að láta ,mál okkar vera ljúflegt en salti kryddað‘. – Kól. 4:6.

18. Hvernig getum við fylgt fordæmi Jesú í tali okkar?

18 Hæfileikinn að geta tjáð hugsanir okkar og tilfinningar er einstök gjöf. Við skulum fylgja fordæmi Jesú með því að velja rétta tímann til að tala, leitast við að nota viðeigandi orð og leggja okkur fram um að vera vingjarnleg í tali. Þannig hvetjum við og hughreystum þá sem við tölum við og gleðjum Jehóva sem gaf okkur þessa einstöku gjöf.