Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nýheimsþýðingin – endurskoðaða útgáfan frá 2013

Nýheimsþýðingin – endurskoðaða útgáfan frá 2013

NÝHEIMSÞÝÐING HEILAGRAR RITNINGAR hefur verið endurskoðuð nokkrum sinnum frá því að hún fyrst kom út, en aldrei hafa verið gerðar jafn umfangsmiklar breytingar og í útgáfunni frá 2013. Meðal annars fækkaði orðunum um 10 prósent í ensku útgáfunni. Sumum mikilvægum biblíuorðum var breytt. Í sumum köflum var textinn settur í ljóðrænt form. Og neðanmálsgreinum var bætt við í almennu útgáfunni til skýringar. Það væri ógerlegt að ræða allar breytingarnar í þessari grein en við skulum skoða fáeinar þeirra.

Hvaða mikilvægu biblíuorðum var breytt? Eins og rætt var í greininni á undan var þýðingu á orðunum séolʹ, hades og „sál“ breytt. En mörg önnur orð voru einnig þýdd með öðrum hætti.

Til dæmis var orðinu „staurfestur“ (á ensku „impaled“) skipt út fyrir „líflátinn á staur“ eða „negldur á staur“ til að koma í veg fyrir að fólk misskildi hvernig Jesús var tekinn af lífi. (Matt. 20:19; 27:31) „Taumlausri hegðun“ („loose conduct“) var breytt í „blygðunarlausa hegðun“ („brazen conduct“) sem felur í sér fyrirlitningu í samræmi við gríska orðið. Enska orðið, sem notað var um „langlyndi“ („long-suffering“), gat skilist þannig að maður þjáðist lengi. Orðið „þolinmæði“ („patience“) lýsir því betur hvað átt er við. Orðinu „svall“ („revelries“) var breytt í „svallveislur“ („wild parties“) sem lesendur skilja betur nú til dags. (Gal. 5:19-22) Í stað orðasambandsins „ástrík umhyggja“ („loving-kindness“) er nú talað um „órjúfanlegan kærleika“ („loyal love“) en sú þýðing nær merkingunni betur. Það kallast líka vel á við merkingu orðsins „trúfesti“ sem oft er notað samhliða því. – Sálm. 36:6; 89:2 (36:5; 89:1 í NW).

Sum orð á frummálunum, sem voru áður þýdd eins á flestum stöðum, eru núna þýdd eftir samhengi. Hebreska orðið ‛ohlamʹ var til dæmis yfirleitt þýtt „um óákveðinn tíma“ en það getur einnig merkt „að eilífu“. Það er athyglisvert að skoða hvernig mismunandi merkingar orðsins koma nú fram í versum eins og Sálmi 90:2 og Míka 5:1 (5:2 í NW).

Hebresku og grísku orðin fyrir „sæði“ koma oft fyrir í Biblíunni, bæði í sambandi við akuryrkju og í táknrænni merkingu um „niðja“. Í eldri útgáfum Nýheimsþýðingarinnar var enska orðið fyrir „sæði“ („seed“) notað alls staðar, þar á meðal í 1. Mósebók 3:15. Ekki er þó lengur algengt í ensku að tala  um „sæði“ þegar átt er við „niðja“. Í endurskoðuðu útgáfunni er því talað um „niðja“ í 1. Mósebók 3:15 og tengdum versum. (1. Mós. 22:17, 18; Opinb. 12:17) Í öðrum versum eru orðin þýdd eftir samhengi. – 1. Mós. 1:11; Sálm. 22:31 (22:32 í NW); Jes. 57:3.

Hvers vegna hefur sums staðar verið horfið frá bókstaflegri þýðingu? Í viðauka A1 í útgáfunni frá 2013 segir að góð biblíuþýðing „tjái rétta merkingu orðs eða orðasambands þegar bókstafleg þýðing myndi brengla merkinguna eða gera hana óljósa“. Þegar myndmál frummálsins er skiljanlegt á málinu sem þýtt er á er það þýtt bókstaflega. Á flestum málum er til dæmis auðvelt að skilja orðasambandið „rannsakar ... hjörtun“ í Opinberunarbókinni 2:23. Hins vegar er ekki víst að fólk skilji orðasambandið „rannsakar nýrun“ í sama versi. Þess vegna er „nýrun“ núna þýtt „innstu hugsanir“ en það lýsir merkingu frummálsins. Í bókstaflegu myndmáli 5. Mósebókar 32:14 er líka talað um „nýrnafeiti hveitisins“ en nú er það þýtt „besta hveitið“ sem er mun skýrara. Af svipuðum ástæðum hefur setningunni „varir mínar eru óumskornar“ verið breytt í „ég á erfitt með að tala“ þar sem hið fyrrnefnda er heldur illskiljanlegt á flestum tungumálum. – 2. Mós. 6:12.

Hvers vegna eru orðasamböndin „synir Ísraels“ og „föðurlausir drengir“ núna þýdd „Ísraelsmenn“ og „föðurlaus börn“? Á hebresku gefur málfræðilegt karlkyn og kvenkyn yfirleitt til kynna hvort um sé að ræða karl eða konu. Sum karlkynsorð geta þó náð yfir fólk af báðum kynjum. Til dæmis gefur samhengið í sumum versum til kynna að „synir Ísraels“ nái yfir bæði karla og konur. Núna er þetta orðasamband því oftast þýtt „Ísraelsmenn“. – 2. Mós. 1:7; 35:29; 2. Kon. 8:12.

Af sömu ástæðu var hebreska karlkynsorðið, sem þýðir „synir“ í 1. Mósebók 3:16, þýtt „börn“ í eldri útgáfum Nýheimsþýðingarinnar. En í 2. Mósebók 22:23 (22:24 í NW) hefur orðalaginu verið breytt og nú stendur: „Börn þín [hebr. „synir þínir“] verða föðurlaus.“ Sömu hugmyndafræði hefur verið fylgt í öðrum versum. „Föðurlaus drengur“ er nú þýtt „föðurlaust barn“ eða „munaðarleysingi“. (5. Mós. 10:18; Job. 6:27) Reyndar var það þýtt með svipuðum hætti í grísku Sjötíumannaþýðingunni. Eins hefur orðasambandið „unglingsár þín“ í Prédikaranum 12:1 tekið við af þýðingu sem gaf til kynna að aðeins væri átt við unglingsdrengi.

Hvers vegna hefur þýðing margra hebreskra sagna verið einfölduð? Hebreskar sagnir standa aðallega í tveimur myndum, óloknu horfi sem gefur til kynna áframhaldandi verknað, og loknu horfi sem lýsir lokinni athöfn. Í eldri útgáfum af Nýheimsþýðingunni voru hebreskar sagnir í óloknu horfi alltaf þýddar með því að bæta hjálpartexta eins og „hélt áfram að“ við sögnina til að sýna að verknaðurinn hafi haldið áfram eða endurtekið sig. * Ef sögnin stóð í loknu horfi voru notuð áhersluorð eins og „vissulega“, „verða að“ og „sannarlega“ til að sýna fram á að verknaðinum væri lokið.

Í endurskoðuðu útgáfunni frá 2013 er hjálpartexta ekki bætt við sögnina nema það hafi áhrif  á merkinguna. Það þarf til dæmis ekki að leggja áherslu á að Guð hafi endurtekið sagt „verði ljós“. Í endurskoðuðu útgáfunni er því ekki gefið til kynna að sögnin „segja“ sé ólokin. (1. Mós. 1:3) Hins vegar kallaði Jehóva greinilega margsinnis á Adam og því er enn þá tekið fram í 1. Mósebók 3:9 að hann hafi „kallað endurtekið“. Á heildina litið eru sagnir þýddar með einfaldari hætti en áður, þannig að áherslan er lögð á verknaðinn frekar en á það hvort honum sé lokið eða ekki, eins og hebreska sögnin gefur til kynna. Þessi breyting gerir líka að verkum að textinn nær betur hnitmiðuðum stíl hebreskunnar.

Fleiri kaflar eru nú með ljóðrænu sniði í samræmi við upprunalegan stíl þeirra.

Hvers vegna eru fleiri kaflar núna með ljóðrænu sniði? Margir hlutar Biblíunnar voru upphaflega skrifaðir í bundnu máli. Í nútímamálum inniheldur ljóðrænn texti yfirleitt rím en í hebresku voru helstu einkenni ljóðræns texta hliðstæður og andstæður. Hrynjandi hebresku ljóðanna náðist ekki með rímorðum heldur með því að raða hugsununum í rökrétta röð.

Jobsbók og Sálmarnir hafa alltaf verið með ljóðrænu sniði í Nýheimsþýðingunni en þannig er sýnt fram á að hugmyndin hafi upphaflega verið að syngja ætti textann eða þylja hann. Með þessu sniði er ljósi varpað á ljóðræna þætti sem gerir textann áhrifameiri og auðveldari að muna. Í útgáfunni frá 2013 eru Orðskviðirnir, Ljóðaljóðin og margir kaflar í bókum spámannanna líka með ljóðrænu sniði til að gefa til kynna að textinn hafi verið skrifaður í bundnu máli og til að leggja áherslu á hliðstæður og andstæður. Dæmi um það má sjá í Jesaja 24:2 þar sem hver lína inniheldur andstæðu og er byggð á annarri línu en þannig er lögð áhersla á að enginn geti umflúið dóm Guðs. Ef maður hugsar um slík vers sem ljóð skilur maður að biblíuritarinn hafi ekki bara verið að endurtaka sig. Öllu heldur var um að ræða ljóðrænan stíl sem kom boðskap Guðs á framfæri með áhrifaríkum hætti.

Munurinn á óbundnu og bundnu máli í hebresku er ekki alltaf svo skýr og því er misjafnt eftir biblíuþýðingum hvaða hlutar Biblíunnar eru ljóðrænir. Það er að vissu marki undir þýðendunum komið hvaða vers verða með ljóðrænu sniði. Orðalagið í óbundnu máli er sums staðar ljóðrænt og ríkt af myndmáli, orðaleikjum og hliðstæðum sem koma boðskapnum vel til skila.

Ein nýjungin er yfirlit í upphafi hverrar bókar. Það er sérstaklega gagnlegt til að átta sig á hver talar í hinum fornu Ljóðaljóðum þar sem mælendur skiptast ört á.

Hvaða áhrif höfðu rannsóknir á frummálshandritum á endurskoðuðu útgáfuna? Fyrsta útgáfa Nýheimsþýðingarinnar var byggð á hebreska masoretatextanum og hinum virta gríska texta Westcotts og Horts. Frekari rannsóknir hafa þó verið gerðar á fornum biblíuhandritum og þær hafa varpað ljósi á ýmis vers Biblíunnar. Afrit af Dauðahafshandritunum hafa orðið aðgengileg. Rannsóknir hafa verið gerðar á fleiri grískum handritum. Og mörg handritanna, sem varpað hafa nýju ljósi á texta Biblíunnar, eru nú aðgengileg í tölvutæku formi. Það auðveldar vinnuna við að greina mismun í handritum og komast að því hvaða útgáfa hebreska og gríska textans er áreiðanlegust. Þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar nýtti sér þessi gögn við rannsóknir á ýmsum versum og þar af leiðandi hefur sumum þeirra verið breytt.

Í 2. Samúelsbók 13:21 er til dæmis sagt í grísku Sjötíumannaþýðingunni: „En hann vildi ekki særa tilfinningar Amnons, sonar síns, því að hann elskaði hann þar sem hann var frumburður hans.“ Í eldri útgáfum af Nýheimsþýðingunni var þessi málsgrein ekki höfð með þar sem hana vantar í masoretatextann. Hins vegar er hún með í Dauðahafshandritunum og því var henni einnig bætt við í útgáfunni frá 2013. Af svipuðum ástæðum var nafni Guðs bætt við fimm sinnum í 1. Samúelsbók. Rannsóknir á grískum textum urðu líka til þess að setningum var raðað öðruvísi í Matteusi 21:29-31. Í stað þess að halda sig alfarið við eina virta útgáfu af gríska textanum var tekið mið af áreiðanlegum handritum og sumar breytinganna voru byggðar á þeim.

Þetta eru aðeins fáeinar af þeim breytingum sem hafa auðveldað mörgum að lesa og skilja Biblíuna. Nýheimsþýðingin er gjöf frá Guði sem tjáir sig fúslega við okkur.

^ gr. 10 Sjá New World Translation of the Holy Scriptures – With References, viðauka 3C, „Hebrew Verbs Indicating Continuous or Progressive Action“.