Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva, Guð tjáskipta

Jehóva, Guð tjáskipta

„Hlustaðu, nú ætla ég að tala.“ – JOB. 42:4.

SÖNGVAR: 113, 114

1-3. (a) Hvernig vitum við að tungumála- og samskiptahæfileikar Guðs skara langt fram úr hæfileikum manna? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

HINN eilífi Guð skapaði vitibornar verur til að njóta lífsins ásamt sér. (Sálm. 36:10; 1. Tím. 1:11, Biblían 1912) Jóhannes postuli kallaði fyrsta félaga Guðs „Orðið“ og „upphaf sköpunar Guðs“. (Jóh. 1:1; Opinb. 3:14) Jehóva sagði þessum frumgetna syni frá hugsunum sínum og tilfinningum. (Jóh. 1:14, 17; Kól. 1:15) Páll postuli talar um að englar tali líka saman og eigi sér tungumál en það er mun æðra tungumálum manna. – 1. Kor. 13:1.

2 Jehóva þekkir milljarða vitiborinna sköpunarvera sinna náið, hvort heldur þær eru á himni eða jörð. Óteljandi einstaklingar geta beðið til hans samtímis á mismunandi tungumálum. Auk þess að hlusta á þessar bænir veitir hann andaverum sínum leiðbeiningar og talar við þær. Fyrst Jehóva getur gert allt þetta samtímis hljóta hugsanir hans og tungumála- og samskiptahæfileikar að skara langt fram úr hæfileikum manna. (Lestu Jesaja 55:8, 9.) Það er augljóst að þegar Jehóva tjáir mönnunum hugsanir sínar þarf hann að gera það með einföldum hætti til að þeir geti skilið þær.

3 Við skulum nú sjá hvernig alvitur Guð okkar hefur alla tíð gert ráðstafanir til að tryggja að tjáskipti sín við þjóna sína  séu skýr. Skoðum líka hvernig hann lagar tjáskipti sín að þörfum og aðstæðum fólks.

ORÐ GUÐS TIL MANNANNA

4. (a) Á hvaða tungumáli talaði Jehóva við Móse, Samúel og Davíð? (b) Frá hverju er sagt í Biblíunni?

4 Jehóva talaði við Adam í Edengarðinum og notaði þá tungumál manna, líklega einhvers konar fornhebresku. Síðar sagði hann hebreskumælandi biblíuriturum, eins og Móse, Samúel og Davíð, frá hugsunum sínum og þeir tjáðu þessar hugsanir á sinn hátt og með eigin orðum. Þeir skrifuðu niður það sem Guð sagði þeim beint en auk þess sögðu þeir frá samskiptum hans við þjóna sína. Þetta voru meðal annars frásögur af fólki sem sýndi mikla trú og kærleika en einnig frásögur af mistökum fólks og ótrúmennsku. Allar þessar upplýsingar eru okkur sem lifum núna mikils virði. – Rómv. 15:4.

5. Var Jehóva ákveðinn í að þjónar sínir skyldu aðeins nota hebresku? Skýrðu svarið.

5 Með tímanum breyttust aðstæður og Jehóva tjáði sig þá ekki bara á hebresku við mennina. Eftir útlegðina í Babýlon varð arameíska aðaltungumál sumra þjóna Guðs. Jehóva gaf ef til vill til kynna hvað koma skyldi þegar hann innblés spámönnunum Daníel og Jeremía og Esra presti að skrifa hluta af bókum sínum á arameísku. *

6. Hvernig varð orð Guðs aðgengilegt á öðrum málum en hebresku?

6 Alexander mikli lagði síðar undir sig stóran hluta hins forna heims og almenn gríska, svokölluð koine-gríska, varð alþjóðlegt mál manna. Margir Gyðingar tóku að tala grísku sem varð til þess að Hebresku ritningarnar voru þýddar á þetta mál. Talið er að 72 þýðendur hafi unnið að þessu verki sem síðar var kallað Sjötíumannaþýðingin. Þetta var fyrsta þýðing Biblíunnar og ein sú mikilvægasta. * Þar sem svo margir þýðendur komu að henni varð stíllinn fjölbreyttur, sums staðar orðtryggur en annars staðar frekar frjálslegur. Engu að síður litu grískumælandi Gyðingar og síðar kristnir menn á Sjötíumannaþýðinguna sem orð Guðs.

7. Á hvaða tungumáli kenndi Jesús líklega lærisveinum sínum?

7 Þegar frumburður Guðs kom til jarðar talaði hann líklega og kenndi á máli sem Biblían kallar hebresku. (Jóh. 19:20; 20:16; Post. 26:14) Ljóst er að arameíska hafði haft áhrif á hebresku fyrstu aldar og því hefur Jesús líklega notað ýmis arameísk orð. Hann kunni þó einnig þá fornu hebresku sem Móse og spámennirnir höfðu talað, en lesið var á því máli vikulega í samkundunum. (Lúk. 4:17-19; 24:44, 45; Post. 15:21) Auk þess var gríska og latína töluð í Ísrael. Ekki er sagt frá því í Ritningunni hvort Jesús hafi talað þessi mál.

8, 9. Hvers vegna voru sumar bækur Biblíunnar skrifaðar á grísku, og hvað segir það okkur um Jehóva?

8 Fyrstu fylgjendur Jesú kunnu hebresku en eftir dauða hans töluðu lærisveinarnir önnur tungumál. (Lestu Postulasöguna 6:1.) Þegar kristnin fór að breiðast út fóru samskipti kristinna  manna að miklu leyti fram á grísku. Guðspjöll Matteusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar, sem eru innblásnar frásögur af kennslu og starfi Jesú, voru á grísku og þeim var dreift víða um lönd. Margir lærisveinanna töluðu sem sagt grísku en ekki hebresku. * Bréf Páls postula og hinar innblásnu bækurnar voru einnig á grísku.

9 Það er athyglisvert að þegar ritarar Grísku ritninganna vitnuðu í Hebresku ritningarnar vitnuðu þeir yfirleitt í Sjötíumannaþýðinguna. Þessar tilvitnanir eru stundum orðaðar aðeins öðruvísi en hebreski frumtextinn en samt urðu þær hluti af hinni innblásnu Biblíu. Verk ófullkominna þýðenda varð þar af leiðandi hluti af innblásnu orði Guðs, en Guð tekur ekki eitt tungumál eða eina menningu fram yfir aðra. – Lestu Postulasöguna 10:34.

10. Hvernig kom Jehóva orði sínu til mannanna og hvað lærum við af því?

10 Stutt yfirlit okkar yfir tjáskipti Guðs við mennina sýnir fram á að Jehóva tekur mið af þörfum og aðstæðum fólks þegar hann talar til þess. Hann krefst þess ekki að við lærum ákveðið tungumál til að kynnast honum eða vilja hans. (Lestu Sakaría 8:23; Opinberunarbókina 7:9, 10.) Jehóva innblés ritun Biblíunnar en hann leyfði mönnunum sem skrifuðu hana að nota mismunandi ritstíl.

BOÐSKAPUR GUÐS VARÐVEITTIST

11. Hvers vegna hafa mismunandi tungumál ekki hindrað samskipti Guðs við mennina?

11 Hafa mismunandi tungumál og smávægilegur munur á þýðingum hindrað samskipti Guðs við mennina? Nei. Svo dæmi sé tekið kunnum við líklega bara fáein orð á málinu sem Jesús talaði. (Matt. 27:46; Mark. 5:41; 7:34; 14:36) En Jehóva sá til þess að boðskap Jesú væri miðlað á grísku og með tímanum á öðrum tungumálum. Gyðingar og kristnir menn afrituðu biblíuhandritin aftur og aftur og varðveittu þannig þessar heilögu ritningar. Þær voru svo þýddar á fjölda tungumála. Jóhannes Krýsostom, sem var uppi á fjórðu og fimmtu öld, sagði að á hans tíma hafi verið búið að þýða kenningar Jesú á mál Sýrlendinga, Egypta, Indverja, Persa, Eþíópíumanna og ótal annarra þjóða.

12. Hvernig var reynt að sporna gegn útbreiðslu Biblíunnar?

12 Þýðing Biblíunnar á mörg tungumál kom í veg fyrir áform manna eins og Díókletíanusar Rómarkeisara sem skipaði svo fyrir árið 303 að öll eintök Ritningarinnar skyldu eyðilögð. Orð Guðs varð fyrir ótal árásum og það átti líka  við um þá sem þýddu það og dreifðu. Á 16. öld hóf William Tyndale að þýða Biblíuna á ensku úr hebresku og grísku. Hann sagði við hámenntaðan mann: „Ef Guð lætur mig lifa skal ég innan fáeinna ára sjá til þess að drengur, sem plægir akur, viti meira um Ritninguna en þú.“ Tyndale þurfti að flýja England til meginlands Evrópu til að geta þýtt Biblíuna og prentað hana. Prestar stóðu fyrir herferð til að brenna opinberlega allar biblíur sem þeir fundu en þrátt fyrir það breiddist Biblían út í stórum stíl. Tyndale var að lokum svikinn. Hann var kyrktur og brenndur á báli en biblíuþýðing hans lifði áfram. Mikið var stuðst við hana þegar unnið var að hinni víðfrægu King James-þýðingu Biblíunnar. – Lestu 2. Tímóteusarbréf 2:9.

13. Hvað hafa rannsóknir á fornum handritum leitt í ljós?

13 Það er satt að í sum forn eintök af Biblíunni hafa slæðst inn minni háttar villur og örlítið misræmi er milli þeirra. En biblíufræðingar hafa rannsakað vandlega og borið saman þúsundir slitra, handrita og fornra þýðinga. Þessar rannsóknir hafa staðfest áreiðanleika langflestra biblíuversa. Þó að nokkur óvissa ríki um fáein vers breytir það ekki heildarboðskap Biblíunnar. Rannsóknir á fornum handritum sannfæra einlæga biblíunemendur um að þeir hafa fengið það í hendur sem Jehóva innblés biblíuriturunum að skrifa í upphafi. – Jes. 40:8. *

14. Hversu aðgengilegur er boðskapur Biblíunnar?

14 Jehóva hefur séð til þess að Biblían sé mest þýdda bók mannkynsögunnar þrátt fyrir hatramma andstöðu. Jafnvel núna, þegar margir eru trúlitlir eða trúlausir, heldur Biblían áfram að vera söluhæst á markaðinum. Hún er gefin út í heild eða að hluta á rúmlega 2.800 tungumálum. Engin önnur bók er nærri því eins útbreidd og aðgengileg. Sumar biblíuþýðingar eru ekki eins skýrar og áreiðanlegar og aðrar. En hægt er að kynna sér meginboðskap Biblíunnar um von og frelsun í nánast öllum þýðingum.

ÞÖRF Á NÝRRI BIBLÍUÞÝÐINGU

15. (a) Hvernig hefur andlega fæðan náð til fólks þrátt fyrir mismunandi tungumál? (b) Hvers vegna hentar vel að þýða efni safnaðarins úr ensku?

15 Fámennur hópur duglegra biblíunemenda var skipaður til að vera hinn „trúi og hyggni þjónn“ snemma á síðustu öld, og að stórum hluta fóru samskipti þeirra við ,hjúin‘ fram á ensku. (Matt. 24:45) Þessi „þjónn“ hefur lagt  mikið á sig til að koma andlegu fæðunni til skila á æ fleiri tungumálum og núna er hún aðgengileg á rúmlega 700 málum. Enska er víða notuð sem tungumál viðskipta og menntunar nú á dögum líkt og koine-grískan á fyrstu öld og því hentar vel að þýða efni safnaðarins úr henni.

16, 17. (a) Fyrir hvað höfðu þjónar Guðs þörf? (b) Hvernig var þörfinni fullnægt? (c) Hvaða von bundu menn við Nýheimsþýðinguna árið 1950?

16 Biblían er undirstaða andlegu fæðunnar. Á miðri 20. öld var algengasta enska biblíuþýðingin King James-útgáfan frá 1611. Málið í henni var reyndar mjög forneskjulegt og nafn Guðs kom aðeins fyrir í fáein skipti þó að það stæði mörg þúsund sinnum í fornum biblíuhandritum. Í henni var nokkuð um þýðingarvillur og einhverjum versum hafði verið bætt við sem er ekki að finna í áreiðanlegum fornum handritum. Ýmsir vankantar voru líka á öðrum enskum biblíuþýðingum sem fólk notaðist við.

17 Þörf var á nákvæmri biblíu sem kæmi upprunalegri merkingu frumtextans til skila á nútímamáli. Þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar var mynduð og á tíu ára tímabili, frá 1950 til 1960, var Nýheimsþýðingin gefin út í sex bindum. Þegar fyrsta bindi hennar var gefið út 2. ágúst 1950 ávarpaði bróðir Nathan H. Knorr mótsgesti og sagði: „Við höfum fundið æ sterkar fyrir því að okkur vantaði biblíuþýðingu á nútímamáli sem samræmist opinberuðum sannleika, þýðingu sem endurspeglar tryggilega merkingu upprunalega textans og veitir okkur þar með grundvöll til að skilja fleiri sannindi. Við þurfum þýðingu sem er jafn auðskilin fyrir lesendur nú á tímum og upprunaleg skrif lærisveina Krists voru fyrir almúga þess tíma, venjulegt og látlaust fólk.“ Hann sagðist vona að þessi þýðing ætti eftir að hjálpa milljónum manna að byggja upp trú og styrkjast í henni.

18. Hvaða ákvarðanir hafa auðveldað þýðingu Biblíunnar?

18 Þessi von rættist með sérstökum hætti árið 1963 þegar Nýheimsþýðing Grísku ritninganna var gefin út á sex tungumálum til viðbótar – frönsku, hollensku, ítölsku, portúgölsku, spænsku og þýsku. Árið 1989 ákvað stjórnandi ráð Votta Jehóva að koma á fót nýrri deild við aðalstöðvarnar sem var ætlað að auðvelda vinnuna við biblíuþýðingar. Árið 2005 voru biblíuþýðingar síðan settar ofarlega á forgangslistann á þeim tungumálum sem þetta tímarit er gefið út. Fyrir vikið hefur Nýheimsþýðingin komið út í heild eða að hluta á rúmlega 130 tungumálum fram að þessu.

19. Hvaða sögulegi atburður átti sér stað árið 2013, og hvað er rætt í næstu grein?

19 Með tímanum kom í ljós að endurskoða þurfti enska útgáfu Nýheimsþýðingarinnar í samræmi við breytingar sem orðið hafa á tungumálinu. Helgina 5. og 6. október 2013 mættu 1.413.676 manns í 31 landi til að hlusta á 129. ársfund Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn í Pennsylvaníu, annaðhvort beint eða nettengdir. Áheyrendur voru himinlifandi þegar bróðir í hinu stjórnandi ráði tilkynnti að út væri komin endurskoðuð útgáfa af Nýheimsþýðingunni á ensku. Margir táruðust þegar þeir fengu í hendur eintak af þessari útgáfu. Þegar lesið var upp úr endurskoðuðu biblíunni var áheyrendum ljóst að aldrei hefði komið út betri þýðing á orði Guðs á ensku. Í næstu grein verður rætt um ýmis einkenni þessarar útgáfu og um þýðingu hennar á önnur tungumál.

^ gr. 5 Esrabók 4:8 – 6:18; 7:12-26; Jeremía 10:11 og Daníel 2:4b – 7:28 var upphaflega skrifað á arameísku.

^ gr. 6 Talið er að vinnan við Sjötíumannaþýðinguna hafi hafist á þriðju öld f.Kr. í Egyptalandi og henni var ef til vill lokið um 150 f.Kr. Þýðingin er enn mikilvæg þar sem hún veitir fræðimönnum skilning á ýmsum torskildum hebreskum orðum og setningum.

^ gr. 8 Sumir telja að Matteus hafi skrifað guðspjall sitt á hebresku og að það hafi síðan verið þýtt á grísku, ef til vill af Matteusi sjálfum.

^ gr. 13 Sjá bæklinginn Bók fyrir alla menn, bls. 7-9, „Hvernig varðveittist bókin?“ Sjá einnig endurskoðaða útgáfu Nýheimsþýðingarinnar á ensku, viðauka A3.