Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hundrað ár undir stjórn Guðsríkis

Hundrað ár undir stjórn Guðsríkis

„Guð friðarins ... styrki yður í öllu góðu í hlýðni við vilja sinn.“ – HEBR. 13:20, 21.

SÖNGVAR: 136,  14

1. Hversu mikilvæg var boðunin Jesú? Skýrðu svarið.

JESÚS hafði unun af því að tala um ríki Guðs. Samkvæmt Biblíunni talaði hann meira um þetta ríki en nokkurt annað mál og nefndi það rúmlega 100 sinnum á þjónustutíð sinni. Ríki Guðs var Jesú greinilega hjartans mál. – Lestu Matteus 12:34.

2. Hve margir gætu hafa verið viðstaddir þegar Jesús gaf fyrirmælin í Matteusi 28:19, 20 og hvers vegna getum við dregið þá ályktun?

2 Stuttu eftir að Jesús reis upp frá dauðum hitti hann rúmlega 500 tilvonandi boðbera Guðsríkis. (1. Kor. 15:6) Ef til vill var það þá sem hann gaf fyrirmælin um að boða ,öllum þjóðum‘ boðskapinn um ríkið, en þetta verkefni virtist vægast sagt yfirþyrmandi. * Jesús sagði fyrir að þetta mikla verk yrði unnið allt til „enda veraldar“ og þannig hefur það líka verið. Þú átt líklega þátt í þessu verkefni  og í uppfyllingu spádómsins. – Matt. 28:19, 20.

3. Á hvaða þremur sviðum hefur Jehóva búið okkur vel undir að boða fagnaðarerindið?

3 Eftir að Jesús gaf fylgjendum sínum fyrirmælin um að boða trúna gaf hann þeim þetta loforð: „Ég er með yður.“ (Matt. 28:20) Hann myndi sem sagt sjálfur stýra þessari miklu boðun. Auk þess hefur Guð hjálpað okkur að framfylgja fyrirmælunum með því að veita okkur allt sem við þurfum til þess. (Hebr. 13:20, 21) Í þessari grein skoðum við þrennt sem hann hefur veitt okkur: (1) hjálpargögn sem við höfum fengið, (2) aðferðir sem við höfum notað og (3) kennslu sem við höfum hlotið. Byrjum á að skoða nokkur hjálpargögn sem við höfum notað síðastliðin 100 ár.

KONUNGURINN VEITIR ÞJÓNUM SÍNUM HJÁLPARGÖGN TIL AÐ BOÐA TRÚNA

4. Hvers vegna höfum við notað mismunandi verkfæri í boðuninni?

4 Jesús líkti ,orðinu um ríkið‘ við sáðkorn sem sáð var í mismunandi jarðveg. (Matt. 13:18, 19) Garðyrkjumaður notar kannski mismunandi verkfæri til að búa garðinn undir sáningu. Gegnum árin hefur konungur okkar með svipuðum hætti veitt okkur verkfæri til að búa hjörtu milljóna manna undir að taka við boðskapnum um ríki Guðs. Sum þessara hjálpargagna komu að góðum notum í áratug eða þar um bil en önnur notum við enn þann dag í dag. Öll hafa þau þó hjálpað okkur að verða færari boðberar á einn eða annan hátt.

5. Hvað var boðunarspjald og hvernig var það notað?

5 Boðunarspjöldin voru hjálpargagn sem kom mörgum af stað í boðuninni, en boðberar byrjuðu að nota þau árið 1933. Spjöldin voru um 8 sinnum 13 sentímetrar að stærð og á þeim var stutt kynning á biblíutengdu efni. Af og til kom út nýtt spjald með nýju efni. Kynningarorð boðberans voru einföld. Charles W. Erlenmeyer var um tíu ára gamall þegar hann notaði fyrst spjöldin í boðuninni. Hann segir: „Yfirleitt var kynningin á þessa leið: ,Myndirðu vilja lesa þetta spjald?‘ Þegar húsráðandinn var búinn að lesa buðum við rit og héldum svo áfram að næstu dyrum.“

6. Að hvaða gagni komu boðunarspjöldin?

6 Boðunarspjöldin voru gagnleg á ýmsa vegu. Sumir boðberar voru feimnir og vissu ekki hvað þeir áttu að segja þótt þeir hafi haft sterka löngun til að boða trúna. Aðrir höfðu frá mörgu að segja. Þeir sögðu húsráðendum gjarnan allt sem þeir vissu á fáeinum mínútum en þeir voru ekki alltaf svo nærgætnir. Boðunarspjaldið „talaði“ hins vegar fyrir boðberann með nokkrum vel völdum og hnitmiðuðum orðum.

7. Í hverju lentu sumir þegar þeir notuðu boðunarspjöldin?

7 Auðvitað var þetta ekki alltaf svo einfalt. Grace A. Estep, vottur til margra ára, segir: „Stundum spurði fólk: ,Hvað stendur á því? Geturðu ekki bara sagt mér það?‘“ Auk þess gátu sumir húsráðendur ekki lesið það sem stóð á spjaldinu. Og aðrir héldu að þeir mættu eiga spjaldið, tóku við því og lokuðu dyrunum. Húsráðendur, sem voru andsnúnir okkur, áttu það til að rífa spjaldið í tætlur. En með þessu lærðu bræður okkar og systur að tala við almenning og kynna sig opinberlega sem fulltrúa ríkis Guðs.

8. Hvernig var ferðagrammófónninn notaður? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

8 Ferðagrammófónninn var annað hjálpargagn sem var notað á fjórða áratug  síðustu aldar og snemma á þeim fimmta. Þar sem grammófónninn talaði að mestu leyti fyrir boðberann kölluðu sumir hann Aron. (Lestu 2. Mósebók 4:14-16.) Ef húsráðandinn féllst á að hlusta spilaði boðberinn fjögurra og hálfrar mínútna ræðu fyrir hann og bauð honum síðan rit. Stundum komu heilu fjölskyldurnar saman til að hlusta á þennan biblíufyrirlestur. Árið 1934 hóf Varðturnsfélagið að framleiða ferðagrammófóna sem voru sérstaklega hannaðir fyrir boðunina. Allt í allt voru gefnar út 92 hljómplötur með mismunandi ræðum.

9. Hve áhrifaríkt var að boða trúna með hjálp grammófóna?

9 Einn húsráðandi, sem hlustaði á upptöku af ræðu, hét Hillary Goslin. Hann bað boðberann um að fá grammófóninn lánaðan í viku til að geta kynnt boðskapinn um Guðsríki fyrir nágrönnum sínum. Þegar boðberinn sneri aftur biðu hans margir sem höfðu fengið áhuga á boðskapnum. Með tímanum létu sumir þeirra skírast og tvær dætur Hillarys sóttu Gíleaðskólann og urðu trúboðar. Grammófónninn hjálpaði mörgum að byrja að boða trúna rétt eins og boðunarspjöldin höfðu gert. Síðar meir átti konungurinn eftir að leggja boðberum orð í munn en til þess notaði hann Boðunarskólann.

ALLAR LEIÐIR NOTAÐAR TIL AÐ NÁ TIL FÓLKS

10, 11. Hvernig voru dagblöð og útvarp notuð til að koma sannleika Biblíunnar á framfæri og hvers vegna voru þessar aðferðir áhrifaríkar?

10 Undir stjórn ríkis Guðs hafa þegnar þess notað mismunandi aðferðir til að koma fagnaðarerindinu til eins margra og hægt er. Þetta var sérstaklega mikilvægt á þeim tíma sem ,verkamenn voru fáir‘. (Lestu Matteus 9:37.) Snemma á 20. öldinni voru dagblöð notuð til að ná til mikils fjölda fólks á svæðum þar sem þjónar Jehóva voru fáir. Í hverri viku sendi Charles Taze Russell ræðu með símskeyti til fréttastofu. Fréttastofan sendi svo ræðuna áfram til dagblaða í Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu. Áætlað er að árið 1913 hafi ræður bróður Russells verið birtar í 2.000 dagblöðum og náð til 15 milljóna lesenda.

11 Eftir dauða bróður Russells var byrjað að nota aðra áhrifaríka aðferð til að koma fagnaðarerindinu á framfæri. Hinn 16. apríl 1922 flutti Joseph F. Rutherford eina af sínum fyrstu útvarpsræðum. Líklega hafa um 50.000 manns heyrt þessa ræðu. Fyrsta útvarpsstöð safnaðarins, WBBR, hóf síðan útsendingu hinn 24. febrúar 1924. Í Varðtuninum 1. desember 1924 var sagt um þessa nýju aðferð til að ná til fólks: „Af þeim leiðum, sem notaðar hafa verið til að koma boðskap sannleikans á framfæri, teljum við að útvarpið sé sú hagkvæmasta og áhrifaríkasta.“ Rétt eins og dagblöðin var útvarpið gagnlegt til að ná til margra áheyrenda á svæðum þar sem voru fáir boðberar.

Margir boðberar taka þátt í boðun meðal almennings og kynna vefsetrið jw.org fyrir fólki. (Sjá 12. og 13. grein.)

12. (a) Hvaða leið til að boða trúna meðal almennings finnst þér skemmtilegust? (b) Hvað getur hjálpað okkur að sigrast á óttanum við að boða trúna meðal almennings?

12 Núna er lögð aukin áhersla á boðun meðal almennings – á strætóbiðstöðvum, lestarstöðvum, bílastæðum, torgum og mörkuðum. Verðurðu taugaóstyrkur við tilhugsunina um að taka þátt í boðuninni á þessum stöðum? Biddu þá Jehóva um að hjálpa þér og hugsaðu um það sem gamalreyndur farandhirðir, Angelo Manera yngri, sagði: „Við litum á hverja nýjung í boðuninni sem nýja leið til að  þjóna Jehóva, nýja leið til að sýna honum hollustu og sem eins konar próf á trúfesti okkar. Við vildum áköf sýna hve fús við vorum að þjóna honum á hvern þann veg sem hann bað okkur um.“ Þegar við prófum nýjar leiðir í boðuninni og förum jafnvel út fyrir þægindarammann styrkir það trú okkar og traust á Jehóva og við eignumst nánara samband við hann. – Lestu 2. Korintubréf 12:9, 10.

13. Hvers vegna er árangursríkt að nota vefsetrið okkar við boðunina og hvaða reynslu hefur þú af því að benda fólki á það?

13 Margir boðberar hafa ánægju af að kynna vefsetur okkar, jw.org, fyrir fólki. Þar getur það lesið og hlaðið niður biblíutengdum ritum á rúmlega 700 tungumálum. Á hverjum degi heimsækja 1,6 milljónir manna þetta vefsetur. Núna notum við vefsetrið til að koma fagnaðarerindinu til fólks, jafnvel á afskekktum svæðum, ekki ósvipað og útvarpið var notað áður fyrr.

BOÐBERAR FAGNAÐARERINDISINS HLJÓTA KENNSLU

14. Hvaða kennslu þurftu boðberar að fá og hvaða skóli hefur hjálpað þeim að verða færir kennarar?

14 Við höfum nú skoðað fáein hjálpargögn og aðferðir sem notaðar hafa verið til að koma fagnaðarerindinu á framfæri. En hvað um kennsluna sem við höfum hlotið? Hugsum okkur að húsráðandinn hafi mótmælt því sem hann heyrði af hljómplötunni eða sýnt áhuga á því sem hann las á boðunarspjaldinu. Boðberar þurftu að læra að bregðast við mótbárum af háttvísi og verða færir í að kenna áhugasömum. Það var eflaust fyrir tilstuðlan heilags anda sem Nathan H. Knorr kom auga á þörfina á að kenna boðberum hvernig þeir ættu að tala í boðuninni. Til hvers leiddi það? Boðunarskólinn var settur á fót en hann hóf göngu sína í söfnuðunum árið 1943. Þessi skóli hefur hjálpað okkur að verða færir kennarar.

15. (a) Hvernig hefur sumum liðið þegar þeir hafa flutt ræðu í Boðunarskólanum? (b) Hvernig hefur þú upplifað að Jehóva stendur við loforð sitt í Sálmi 32:8?

15 Það tók marga svolítinn tíma að venjast því að tala fyrir framan hóp áheyrenda. Julio S. Ramu flutti fyrstu ræðuna sína í skólanum árið 1944. Ræðan fjallaði um Dóeg, mann sem er rætt um í aðeins fimm versum í Biblíunni, og Julio þurfti að byggja alla ræðuna á þessum örfáu versum. Hann minnist þess hvernig honum leið og  segir: „Hnén skulfu, hendurnar titruðu og það glamraði í tönnunum. Ég flutti ræðuna á þrem mínútum. Þetta var í fyrsta sinn sem ég talaði ofan af sviði en ég hætti ekki eftir það.“ Börn voru líka með í skólanum þótt það hafi ekki endilega verið auðvelt fyrir þau að flytja ræðu fyrir framan söfnuðinn. Angelo Manera, sem nefndur var fyrr í greininni, man eftir ungum dreng sem var nýbyrjaður í grunnskóla. „Hann var svo taugaóstyrkur að þegar hann hóf ræðuna fór hann að snökta. En hann ætlaði sér að klára ræðuna og snökti sig því í gegnum hana alla.“ Veigrar þú þér við að svara á samkomum eða taka þátt með öðrum hætti vegna þess að þú ert feiminn eða finnst þú ekki geta það? Biddu Jehóva um hjálp til að sigrast á óttanum. Hann hjálpar þér alveg eins og hann hjálpaði þessum fyrstu nemendum Boðunarskólans. – Lestu Sálm 32:8.

16. Hvaða markmiði hefur Gíleaðskólinn þjónað (a) á árum áður? (b) frá árinu 2011?

16 Söfnuður Jehóva starfrækir fleiri skóla en Boðunarskólann. Trúboðar og aðrir hafa notið góðs af Gíleaðskólanum. Kennari í skólanum segir að eitt af markmiðum skólans sé að „glæða með nemendum enn sterkari löngun til að boða fagnaðarerindið“. Gíleaðskólinn var stofnsettur árið 1943 og síðan þá hafa rúmlega 8.500 nemendur sótt hann. Þessir nemendur hafa verið sendir til 170 landa. Frá og með árinu 2011 hefur skólinn aðeins verið ætlaður þeim sem eru í sérstakri þjónustu í fullu starfi – sérbrautryðjendum, farandhirðum, Betelítum og trúboðum sem hafa ekki sótt skólann áður.

17. Hvaða áhrif hefur kennslan í Gíleaðskólanum haft?

17 Hvaða áhrif hefur þessi sérstaka kennsla haft? Skoðum eitt dæmi. Í ágúst 1949 voru innan við tíu innfæddir boðberar í Japan. En í árslok voru 13 trúboðar frá Gíleað önnum kafnir að boða fagnaðarerindið þar. Núna eru yfir 216.000 boðberar í Japan og næstum 42 prósent þeirra eru brautryðjendur.

18. Nefndu nokkra skóla til viðbótar sem söfnuðurinn starfrækir.

18 Fleiri skólar eru starfræktir, eins og Ríkisþjónustuskólinn, Brautryðjendaskólinn, Skólinn fyrir boðbera Guðsríkis, Skólinn fyrir farandumsjónarmenn og eiginkonur þeirra og Skólinn fyrir bræður í deildarnefndum og eiginkonur þeirra. Kennslan hefur reynst bræðrum og systrum einstaklega nytsöm og hefur styrkt þau í trúnni. Það er augljóst að konungurinn heldur áfram að veita þegnum sínum kennslu.

19. Hvað hugsaði Charles T. Russell um boðunina og hvernig hefur það reynst vera rétt?

19 Rúm öld er liðin frá því að ríki Guðs var stofnsett. Konungur okkar, Jesús Kristur, heldur áfram að kenna okkur og leiðbeina í boðuninni. Stuttu áður en Charles Taze Russell dó, árið 1916, sá hann fyrir sér að fagnaðarerindið yrði boðað í stórauknum mæli um heim allan. Hann sagði nánum félaga sínum: „Umfang starfsins eykst hratt og mun halda áfram að aukast því að við höfum alþjóðlegt starf fyrir höndum, að boða fólki ,fagnaðarerindið um ríki Guðs‘.“ (Faith on the March eftir A. H. Macmillan, bls. 69) Hann hafði sannarlega rétt fyrir sér! Við megum vera þakklát fyrir að Guð friðarins heldur áfram að sjá okkur fyrir öllu sem við þurfum til að gera vilja hans og vinna þetta ánægjulega starf.

^ gr. 2 Við höfum ástæðu til að ætla að flestir sem voru viðstaddir við þetta tækifæri hafi tekið kristna trú. Páll kallar þá ,fimm hundruð bræður‘ í bréfi sínu til Korintumanna. Það er athyglisvert að hann skuli segja um þá: „Flestir [þeirra] eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir.“ Það virðist því vera að Páll og aðrir kristnir menn á fyrstu öld hafi þekkt marga þeirra sem höfðu heyrt fyrirmæli Jesú með eigin eyrum.