Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kennið börnunum að þjóna Jehóva

Kennið börnunum að þjóna Jehóva

,Láttu guðsmanninn kenna okkur hvernig við eigum að fara með sveininn sem á að fæðast.‘ – DÓM. 13:8.

SÖNGVAR: 88, 120

1. Hvernig brást Manóa við þegar hann frétti að hann myndi verða faðir?

KONAN hefði varla getað fært eiginmanni sínum óvæntari fréttir. Þau hjónin töldu víst að hún væri ófrjó. En engill Jehóva hafði birst henni og það sem virtist ómögulegt var nú staðreynd: Manóa og eiginkona hans áttu að eignast son! Manóa var eflaust himinlifandi en hann vissi líka að þessu fylgdi mikil ábyrgð. Hvernig gátu þau hjónin alið upp son sinn til að þjóna Guði í landi sem var fullt af illsku? Manóa bað Jehóva innilega: „Láttu guðsmanninn [engilinn], sem þú sendir, koma til okkar aftur svo að hann geti kennt okkur hvernig við eigum að fara með sveininn sem á að fæðast.“ – Dóm. 13:1-8.

2. Hvað felst í því að kenna börnunum? (Sjá einnig rammann „ Mikilvægustu biblíunemendur ykkar“.)

2 Ef þú ert foreldri skilurðu líklega vel einlæga bón Manóa. Þú hefur líka þá miklu ábyrgð að hjálpa barninu þínu að kynnast Jehóva og læra að elska hann. (Orðskv. 1:8) Með það fyrir augum skipuleggja kristnir foreldrar innihaldsríka tilbeiðslustund með fjölskyldunni í hverri viku. En þú þarft  auðvitað að gera meira en að halda vikulegt fjölskyldunám til þess að barnið tileinki sér sannleika Biblíunnar. (Lestu 5. Mósebók 6:6-9.) Hvernig geturðu brýnt sannleikann fyrir barninu þannig að hann nái til hjartans? Í þessari grein og þeirri næstu er rætt hvernig foreldrar geta líkt eftir Jesú. Hann átti að vísu ekki börn en foreldrar geta samt lært margt af kennsluaðferðum hans því að hann kenndi lærisveinum sínum af kærleika og auðmýkt og sýndi næman skilning. Skoðum hvernig þetta þrennt hafði áhrif á kennslu hans.

ELSKIÐ BÖRNIN YKKAR

3. Hvernig tjáði Jesús lærisveinum sínum að hann elskaði þá?

3 Jesús hikaði ekki við að segja lærisveinum sínum að hann elskaði þá. (Lestu Jóhannes 15:9.) Hann sýndi þeim líka að hann elskaði þá með því að eiga við þá náinn félagsskap. (Mark. 6:31, 32; Jóh. 2:2; 21:12, 13) Jesús var ekki bara kennari þeirra, heldur líka vinur. Þeir voru því ekki í neinum vafa um að hann elskaði þá. Hvernig getur þú líkt eftir því hvernig Jesús kenndi?

4. Hvernig geturðu sannfært börnin um að þú elskir þau? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

4 Segðu börnunum að þú elskir þau og sýndu þeim oft hve mikils virði þau eru þér. (Tít. 2:4) Samuel, sem býr í Ástralíu, segir: „Þegar ég var krakki var pabbi vanur að lesa fyrir mig á hverju kvöldi í Biblíusögubókinni minni. Hann svaraði spurningum mínum, faðmaði mig og kyssti mig góða nótt. Það kom mér á óvart þegar ég uppgötvaði síðar meir að pabbi hafði alist upp í fjölskyldu þar sem ekki var algengt að fólk faðmaðist og kysstist. En hann lagði mikið á sig til að sýna mér kærleika. Fyrir vikið urðum við mjög nánir og ég var öruggur og ánægður.“ Segðu börnunum oft að þú elskir þau svo að þeim geti liðið eins. Sýndu þeim ást  og umhyggju. Spjallaðu við þau, borðaðu með þeim og leiktu við þau.

5, 6. (a) Hvað gerir Jesús við þá sem hann elskar? (b) Útskýrðu hvernig viðeigandi agi hjálpar börnum að finnast þau elskuð og örugg.

5 „Ég tyfta og aga alla þá sem ég elska,“ sagði Jesús. * (Opinb. 3:19) Þótt lærisveinarnir hafi hvað eftir annað deilt um hver þeirra væri mestur gafst Jesús ekki upp á þeim. En hann leit heldur ekki fram hjá því þegar þeir fóru ekki eftir ráðum hans heldur ávítaði þá mildilega og af kærleika og valdi til þess heppilegan stað og tíma. – Mark. 9:33-37.

6 Sýndu börnum þínum kærleika með því að aga þau. Stundum er nóg að útskýra hvers vegna viss hegðun er góð eða slæm. En það er ekki alltaf sem barnið fer eftir því sem þú segir. (Orðskv. 22:15) Ef það gerist skaltu líkja eftir Jesú. Agaðu barnið mildilega og af kærleika við réttar aðstæður. Leiðréttu það, leiðbeindu því og kenndu því með þolinmæði. „Foreldrar mínir voru samkvæmir sjálfum sér þegar þeir öguðu mig,“ segir Elaine, systir sem býr í Suður-Afríku. „Ef þau höfðu varað mig við afleiðingum slæmrar hegðunar stóðu þau alltaf við orð sín. En þau öguðu mig aldrei af reiði eða án þess að útskýra hvers vegna ég hlyti agann. Fyrir vikið fann ég fyrir öryggiskennd. Ég vissi hvar mörkin lágu og skildi til hvers var ætlast af mér.“

SÝNDU AUÐMÝKT

7, 8. (a) Hvernig sýndi Jesús auðmýkt þegar hann bað? (b) Hvernig geta bænir þínar kennt börnunum að reiða sig á Guð?

7 Ímyndaðu þér hvernig lærisveinum Jesú hefur liðið þegar þeir heyrðu eða var sagt frá einni af síðustu bænum Jesú sem maður á jörð. Hann bað: „Abba, faðir! allt megnar þú. Tak þennan kaleik frá mér! Þó ekki sem ég vil heldur sem þú vilt.“ * (Mark. 14:36) Af þessari innilegu bæn hafa fylgjendur Jesú örugglega lært að fyrst hann sem var fullkominn bað föður sinn á himni um hjálp ættu þeir að gera slíkt hið sama.

8 Hvað læra börnin af því að hlusta á bænir þínar? Að sjálfsögðu biðurðu ekki til Jehóva aðallega til að kenna börnunum. En þegar þú biður auðmjúklega í návist þeirra læra þau að reiða sig á Jehóva. Ana, sem býr í Brasilíu, segir: „Þegar upp komu erfiðleikar, eins og þegar amma og afi urðu veik, báðu foreldrar mínir Jehóva um að gefa sér styrk til að takast á við aðstæðurnar og visku til að taka góðar ákvarðanir. Jafnvel þegar álagið var yfirþyrmandi létu þau vandamálin í hendur Jehóva. Þannig lærði ég að reiða mig á hann.“ Þegar þú biður með börnunum þínum skaltu ekki bara biðja fyrir þeim. Biddu Jehóva að hjálpa þér líka – ef til vill til að biðja yfirmann þinn um frí fyrir mót, til að gefa þér hugrekki til að segja nágranna frá trúnni eða til að hjálpa þér á aðra vegu. Reiddu þig á Guð í auðmýkt og þá læra börnin þín að gera það líka.

9. (a) Hvernig kenndi Jesús lærisveinum sínum að þjóna öðrum af auðmýkt? (b) Hvað læra börnin þín ef þú ert fús til að þjóna öðrum?

9 Jesús kenndi lærisveinunum í orði og verki að þjóna öðrum í auðmýkt. (Lestu Lúkas 22:27.) Hann kenndi postulunum að sýna fórnfýsi í þjónustu Jehóva og í samskiptum við trúsystkini.  Ef þú sýnir auðmýkt og fórnfýsi geturðu kennt börnunum með fordæmi þínu að gera slíkt hið sama. „Ég var aldrei afbrýðisöm þótt maðurinn minn notaði mikinn tíma með öðrum þar sem hann var öldungur,“ segir Debbie, tveggja barna móðir. „Ég vissi að hvenær sem fjölskyldan þyrfti á honum að halda væri hann til staðar fyrir okkur.“ (1. Tím. 3:4, 5) Pranas, eiginmaður hennar, bætir við: „Með tímanum vildu börnin ólm hjálpa til á mótum og við verkefni á vegum safnaðarins. Þau blómstruðu, eignuðust vini og fannst þau falla inn í hópinn.“ Öll fjölskyldan þjónar nú Jehóva í fullu starfi. Þegar þú sýnir auðmýkt og fórnfýsi er líklegt að börnin þín læri hvernig þau geti þjónað öðrum.

SÝNUM NÆMAN SKILNING

10. Hvernig sýndi Jesús að hann var næmur á fólk þegar mannfjöldi kom til að sjá hann?

10 Jesús var næmur á fólk. Hann horfði lengra en til þess sem var augljóst og áttaði sig á hvað bjó að baki verkum fólks. Sumir af áheyrendum hans í Galíleu virtust við eitt tækifæri hafa brennandi áhuga á að fylgja honum. (Jóh. 6:22-24) En Jesús gat lesið hjörtu fólks og skildi að það hafði meiri áhuga á bókstaflegum mat en kennslu hans. (Jóh. 2:25) Hann áttaði sig á hvað var rangt við hugarfar þess, leiðrétti það þolinmóður og útskýrði hvernig það gæti bætt sig. – Lestu Jóhannes 6:25-27.

Hefur barnið þitt gaman af boðuninni og áhuga á henni? (Sjá 11. grein.)

11. (a) Hvernig geturðu áttað þig á hvort barnið þitt hafi ánægju af boðuninni? (b) Hvernig geturðu hjálpað barninu að hafa meiri áhuga á boðuninni?

11 Þú getur að vísu ekki lesið hjörtu en þú getur sýnt næman skilning eins og Jesús og áttað þig á hvað barninu þínu finnst um boðunarstarfið. Margir foreldrar gera stutt hlé þegar þeir eru í boðuninni til að börnin geti hvílt sig og fengið sér smá snarl. Þú gætir horft lengra en til þess sem er augljóst og spurt þig: „Hefur barnið ánægju af boðuninni eða bara hléunum?“ Ef þú kemst að því að barnið mætti hafa meiri áhuga á boðuninni  og ánægju af henni geturðu hjálpað því að setja sér markmið. Notaðu ímyndunaraflið til að hjálpa börnunum að vera sjálf þátttakendur þegar þau boða trúna með þér.

12. (a) Hvernig varaði Jesús fylgjendur sína við óhreinleika í siðferðismálum? (b) Hvers vegna var viðvörun Jesú tímabær?

12 Næmur skilningur Jesú birtist líka í því að hann bar kennsl á hegðun sem leiðir til syndar. Fylgjendur hans vissu til dæmis að það væri rangt að stunda kynferðislegt siðleysi. En Jesús varaði þá við því sem leiðir til siðleysis og sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu. Ef hægra auga þitt tælir þig til falls þá ríf það úr og kasta frá þér.“ (Matt. 5:27-29) Þetta voru tímabær ráð fyrir kristna menn sem voru undir yfirráðum Rómverja. Sagnfræðingur nokkur skrifaði að í leikritum Rómverja hafi menn „bæði séð og heyrt ósiðsemi, og mest var klappað fyrir klúrustu atriðunum“. Jesús sýndi hve næmur og kærleiksríkur hann var þegar hann varaði lærisveina sína við því sem myndi torvelda þeim að halda sér siðferðilega hreinum.

13, 14. Hvernig geturðu verndað börnin þín gegn siðlausu skemmtiefni?

13 Næmur skilningur getur hjálpað þér að vernda börnin þín gegn því sem er skaðlegt trú þeirra. Klám og annað siðlaust efni er orðið mjög útbreitt og því geta yngri börn en nokkru sinni fyrr komist í kynni við slíkt efni. Kristnir foreldrar segja börnum sínum auðvitað að siðlaust skemmtiefni sé ekki við hæfi. En ef þú ert næmur áttarðu þig á hvað gæti gert barnið þitt forvitið um klám. Spyrðu þig: Hvernig gæti barnið mitt freistast til að horfa á klám? Þekkir það hætturnar sem fylgja því? Er auðvelt fyrir barnið að leita til mín ef því fyndist freistandi að horfa á klám? Jafnvel þótt börnin þín séu frekar ung gætirðu sagt við þau: „Ef þú rekst einhvern tíma á siðlaust efni á Netinu og finnst freistandi að skoða það komdu þá og talaðu við mig. Þú þarft ekki að skammast þín. Ég skal hjálpa þér.“

14 Næmur skilningur hjálpar þér líka að sýna skynsemi þegar þú velur skemmtiefni fyrir sjálfan þig. „Við foreldrar leggjum línurnar fyrir alla í fjölskyldunni með vali okkar á tónlist, kvikmyndum og bókum,“ segir Pranas sem vitnað var í fyrr í greininni. „Maður getur talað endalaust við börnin en þau taka eftir því sem maður gerir og herma eftir því.“ Ef börnin sjá þig vanda valið á skemmtiefni er líklegt að þau geri það líka. – Rómv. 2:21-24.

JEHÓVA HEYRIR BÆNIR YKKAR

15, 16. (a  Hvers vegna geturðu verið viss um að Guð hjálpi þér að kenna börnunum? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?

15 Hvað gerðist eftir að Manóa hafði beðið um hjálp til að ala upp son sinn? „Guð heyrði bæn Manóa.“ (Dóm. 13:9) Foreldrar, Jehóva hlustar líka á bænir ykkar. Hann svarar þeim og hjálpar ykkur kenna börnunum. Ef þið elskið þau, sýnið auðmýkt og næman skilning eru allar líkur á að það takist vel.

16 Jehóva getur hjálpað foreldrum að kenna börnum á unglingsaldri rétt eins og hann hjálpar þeim að kenna ungum börnum sínum. Í næstu grein er rætt hvernig foreldrar geta líkt eftir kærleika, auðmýkt og næmum skilningi Jesú þegar þeir kenna unglingunum sínum að þjóna Jehóva.

^ gr. 5 Samkvæmt Biblíunni felur agi í sér kærleiksríka leiðsögn, kennslu, leiðréttingu og stundum refsingu – en hana á aldrei að veita í reiði.

^ gr. 7 Í The International Standard Bible Encyclopedia segir: „Abba var talmálsorð sem börn notuðu á tímum Jesú. Það lýsti fyrst og fremst innilegu sambandi þeirra við föður sinn og virðingu þeirra fyrir honum.“