Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sérðu hönd Guðs að verki í lífi þínu?

Sérðu hönd Guðs að verki í lífi þínu?

„Hönd Drottins birtist þjónum hans.“ – JES. 66:14.

SÖNGVAR: 65, 26

1, 2. Hvernig hugsa sumir um Guð?

MARGIR sjá lítil tengsl milli þess sem þeir gera og þess sem Guð gerir. Sumir hugsa jafnvel að Guð hafi lítinn áhuga á því sem gerist hjá mönnunum. Eftir að ofurfellibylurinn Haiyan reið yfir miðhluta Filippseyja í nóvember 2013 og olli mikilli eyðileggingu sagði borgarstjóri stórrar borgar: „Guð hlýtur að hafa verið annars staðar.“

2 Aðrir láta eins og Guð sjái ekki það sem þeir gera. (Jes. 26:10, 11; 3. Jóh. 11) Þeir líkjast þeim sem Páll postuli lýsti þegar hann sagði: ,Þeir hirtu ekkert um að þekkja Guð.‘ Þeir voru „fullir alls kyns rangsleitni, vonsku, ágirndar og illsku“. – Rómv. 1:28, 29.

3. (a) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur? (b) Hvað er oft átt við þegar talað er um „hönd“ Jehóva í Biblíunni?

3 Hvað um okkur? Ólíkt þeim sem rætt var um hér að ofan áttum við okkur á að Jehóva fylgist með öllu sem við gerum. En tökum við líka eftir hvernig hann sýnir okkur áhuga og styður okkur? Erum við í hópi þeirra sem Jesús sagði að ,myndu sjá Guð‘? (Matt. 5:8) Til að skilja hvað felst í því skulum við fyrst skoða nokkur dæmi í Biblíunni um fólk sem sá hönd Guðs að  verki og um fólk sem lokaði augunum fyrir því. Síðan athugum við hvernig við getum séð skýrt hönd Jehóva í lífi okkar. Þegar við skoðum það skulum við hafa í huga að „hönd“ Guðs er oft notuð í Biblíunni sem tákn um mátt hans þegar hann hjálpar þjónum sínum og sigrast á andstæðingum sínum. – Lestu 5. Mósebók 26:8.

ÞEIR SÁU EKKI HÖND GUÐS

4. Hvers vegna sáu andstæðingar Ísraels ekki hönd Guðs að verki?

4 Snemma í sögu Ísraels fékk fólk tækifæri til að sjá og heyra um hvernig Jehóva hjálpaði þjóðinni. Hann frelsaði hana úr Egyptalandi fyrir kraftaverk og síðan féllu margir konungar fyrir hendi hennar. (Jós. 9:3, 9, 10) Nánast allir konungar vestan Jórdanar sáu og heyrðu um þetta en samt „gerðu þeir bandalag með sér um að berjast gegn Jósúa og Ísrael“. (Jós. 9:1, 2) Jafnvel þegar þessir konungar voru komnir í bardaga hefðu þeir átt að sjá hönd Guðs að verki. Jehóva sá til þess að ,sólin stæði kyrr og tunglið stöðvaðist uns þjóðin hafði hefnt sín á óvinum sínum‘. (Jós. 10:13) Jehóva ,efldi andstæðingum Ísraels kjark‘ svo að þeir færu í stríð gegn þjóðinni. (Jós. 11:20) Andstæðingarnir neituðu að viðurkenna að Guð berðist með Ísraelsmönnum en það varð þeim að falli.

5. Hvað neitaði hinn illi konungur Akab að viðurkenna?

5 Öldum síðar fékk hinn illi konungur Akab ýmis tækifæri til að sjá hönd Guðs að verki. Elía sagði við hann: „Hvorki [skal] falla dögg né regn þessi ár nema ég skipi svo fyrir.“ (1. Kon. 17:1) Jehóva stóð greinilega að baki þessum orðum en Akab neitaði að horfast í augu við það. Við annað tækifæri sá Akab eld koma af himni eftir að Elía hafði beðið Jehóva um að taka við fórn sinni. Elía gaf síðan í skyn að Jehóva myndi binda enda á þurrkana og sagði við Akab: „Aktu niður eftir áður en regnið lokar veginum fyrir þér.“ (1. Kon. 18:22-45) Akab sá allt þetta gerast en eftir sem áður neitaði hann að viðurkenna að þarna væri Jehóva að sýna mátt sinn með stórfenglegum hætti. Af þessu og því sem var rætt í efnisgreininni á undan getum við dregið mikilvægan lærdóm – við þurfum að vera vakandi fyrir hönd Guðs og taka eftir þegar hún er að verki.

ÞAU SÁU HÖND JEHÓVA

6, 7. Hvað var sumum augljóst á dögum Jósúa?

6 Sumir sem voru í sömu aðstæðum og þessir illu konungar sáu hins vegar hönd Guðs. Gíbeonítar gerðu ekki eins og flestar þjóðir á dögum Jósúa. Þeir sömdu frið við Ísraelsmenn í stað þess að berjast gegn þeim. Hvers vegna? Þeir sögðu: „Við, þjónar þínir ... komum ... vegna nafns Drottins, Guðs þíns, því að við höfum heyrt orðstír hans og um allt sem hann vann.“ (Jós. 9:3, 9, 10) Þeir sýndu visku og viðurkenndu að hinn sanni Guð styddi Ísraelsmenn.

7 Rahab tók líka eftir hendi Guðs í atburðum sem gerðust á hennar dögum. Hún hafði heyrt hvernig Jehóva hafði bjargað fólki sínu og sagði því við tvo ísraelska njósnara: „Ég veit að Drottinn hefur gefið ykkur landið.“ Rahab lýsti yfir trú sinni á að Jehóva gæti bjargað henni og fjölskyldu hennar þó að það stofnaði henni í mikla hættu að taka slíka afstöðu. – Jós. 2:9-13; 4:23, 24.

8. Hvernig sýndu sumir Ísraelsmenn að þeir sáu hönd Guðs að verki?

8 Ólíkt Akab, hinum illa konungi Ísraels, viðurkenndu sumir Ísraelsmenn að hönd Guðs væri að verki þegar Elía bað til Jehóva og eldur kom af himni og  gleypti fórn hans. Þeir hrópuðu: „Jehóva er hinn sanni Guð!“ (1. Kon. 18:39, NW) Fyrir þeim var þetta algerlega augljóst.

9. Hvernig getum við séð Jehóva og hönd hans nú á tímum?

9 Það sem við höfum skoðað, bæði jákvæð og neikvæð viðbrögð fólks, hjálpar okkur að skilja hvað það þýðir að sjá Guð eða hönd hans við ýmsar aðstæður. Þegar við kynnumst honum getum við líka séð hönd hans þar sem við skynjum eiginleika hans og verk með „sjón hjartans“. (Ef. 1:18) Við viljum örugglega líkja eftir trúu fólki, bæði í nútíð og fortíð, sem sá skýrt hvernig Jehóva styður við þjóna sína. En höfum við sannanir fyrir því að hönd Guðs sé að verki í lífi fólks nú á tímum?

SANNANIR FYRIR AÐ HÖND GUÐS SÉ AÐ VERKI NÚNA

10. Hvað sannar að Jehóva hjálpar fólki nú á tímum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

10 Við höfum góðar ástæður til að trúa því að Jehóva hjálpi fólki enn þann dag í dag. Við heyrum oft frásögur af fólki sem hefur beðið til Guðs um að fá andlega leiðsögn og fengið hana. (Sálm. 53:3) Bróðir, sem heitir Allan, boðaði trúna hús úr húsi á lítilli eyju sem tilheyrir Filippseyjum og hitti þá konu sem brast í grát. Hann segir: „Hún hafði beðið til Jehóva þennan sama morgun um að vottarnir fyndu hana. Á unglingsárunum hafði hún verið í biblíunámi hjá þeim en þegar hún giftist og fluttist til þessarar eyju missti hún sambandið við þá. Það snart hana djúpt að Guð skyldi svara bæn hennar svona fljótt.“ Á innan við ári var hún búin að vígja líf sitt Jehóva.

Sérðu skýrt hvernig Jehóva hjálpar þjónum sínum nú á dögum? (Sjá 11.-13. grein.)

11, 12. (a) Hvernig hjálpar Jehóva þjónum sínum? (b) Segðu frá systur sem Jehóva hjálpaði.

11 Margir þjónar Guðs hafa fundið fyrir hjálp hans þegar þeir losuðu sig undan slæmum ávana eins og að reykja, nota fíkniefni eða horfa á klám. Sumir sögðust hafa reynt nokkrum sinnum að hætta upp á eigin spýtur en þeim hafði ekki tekist það. En þegar þeir báðu Jehóva um hjálp gaf hann þeim ,kraftinn mikla‘ og þannig tókst þeim loksins að sigrast á veikleikum sínum. – 2. Kor. 4:7; Sálm. 37:23, 24.

12 Jehóva hefur hjálpað mörgum þjónum sínum að takast á við persónuleg vandamál. Amy fann fyrir því þegar hún var send til að hjálpa til við að byggja ríkissal og trúboðsheimili á lítilli Kyrrahafseyju. Hún segir: „Við bjuggum á litlu hóteli og á hverjum degi þurftum við að vaða götur sem flætt hafði yfir til að komast á byggingarsvæðið.“ Hún þurfti líka að aðlagast venjum heimafólksins og oft var vatns- og rafmagnslaust. Hún bætir við: „Til að bæta gráu ofan á svart hellti ég mig yfir systur sem vann líka við byggingarnar. Ég fór heim og mér fannst ég vera svo misheppnuð. Á myrku hótelherberginu úthellti ég hjarta mínu fyrir Jehóva og bað hann um hjálp.“ Þegar rafmagnið komst aftur á fann Amy grein í Varðturninum sem fjallaði um dagskrána á Gíleaðútskrift. Þar var rætt um öll þau vandamál sem hún var að kljást við: nýja menningu, heimþrá og nýtt fólk sem maður þarf að læra að umgangast. Hún segir: „Mér fannst eins og Jehóva talaði beint til mín þetta kvöld. Það gaf mér styrk til að halda áfram við bygginguna.“ – Sálm. 44:26, 27; Jes. 41:10, 13.

13. Hvað sannar að Jehóva hefur hjálpað þjónum sínum að verja rétt sinn til að boða fagnaðarerindið?

13 Enn ein sönnun fyrir því að Jehóva styður okkur með styrkri hendi sinni er hve vel Vottum Jehóva hefur gengið að  „verja fagnaðarerindið“ og hljóta lagalega viðurkenningu. (Fil. 1:7) Stjórnvöld hafa sums staðar reynt að stöðva starf Votta Jehóva að öllu leyti. En þegar við horfum til baka sjáum við að söfnuðurinn hefur unnið í það minnsta 268 mál á æðstu dómsstigum, þar á meðal hafa 24 mál unnist frá árinu 2000 fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Þetta er skýrt merki þess að enginn geti haldið aftur af hendi Jehóva. – Jes. 54:17; lestu Jesaja 59:1.

14. Hvernig sjáum við hönd Guðs að verki í boðuninni og í sameinuðum söfnuði okkar?

14 Það er aðeins með hjálp Guðs sem við getum boðað fagnaðarerindið um heim allan. (Matt. 24:14; Post. 1:8) Auk þess eru þjónar Guðs sameinað, alþjóðlegt bræðralag – en slíka einingu er hvergi annars staðar að finna. Við skiljum því vel hvers vegna jafnvel fólk utan safnaðarins segir: „Guð er sannarlega hjá ykkur.“ (1. Kor. 14:25) Þegar á heildina er litið höfum við yfirgnæfandi sannanir um að Guð starfi í þágu þjóna sinna. (Lestu Jesaja 66:14.) En hvað um þig sem einstakling? Sérðu skýrt hönd Guðs að verki í lífi þínu?

SÉRÐU HÖND JEHÓVA AÐ VERKI Í LÍFI ÞÍNU?

15. Útskýrðu hvers vegna við sjáum kannski ekki alltaf hönd Jehóva í lífi okkar.

15 Hverjar gætu ástæðurnar verið fyrir því að við sæjum ekki skýrt hönd Jehóva í lífi okkar? Erfiðleikar geta gagntekið okkur. Þegar það gerist gætum við gleymt að hugsa um hvernig Jehóva hefur hjálpað okkur áður. Elía spámaður var hugrakkur maður. En þegar Jesebel drottning hótaði að drepa hann gleymdi hann um tíma hvernig Jehóva hafði liðsinnt honum. Í Biblíunni er sagt um Elía að hann ,hafi óskað þess eins að deyja‘. (1. Kon. 19:1-4) Hvað þurfti Elía að gera við þessar aðstæður? Hann þurfti að leita til Jehóva til að fá hughreystingu. – 1. Kon. 19:14-18.

16. Hvað getum við gert til að sjá Guð eins og Job gerði?

 16 Job varð svo upptekinn af eigin vandamálum að hann hætti að sjá hlutina frá sjónarhóli Guðs. (Job. 42:3-6) Eins og Job gætum við þurft að leggja meira á okkur til að sjá Guð. Hvernig getum við gert það? Við þurfum að líta á aðstæður okkar frá sjónarhóli Biblíunnar. Þegar við áttum okkur á hvernig Jehóva styður okkur verður hann okkur raunverulegri. Þá getum við sagt eins og Job: „Ég þekkti þig af afspurn en nú hefur auga mitt litið þig.“

Notar Jehóva þig til að hjálpa öðrum að geta séð hann? (Sjá 17. og 18. grein.)

17, 18. (a) Hvernig gætum við tekið eftir hendi Jehóva í lífi okkar? (b) Segðu frásögu sem sýnir hvernig Guð hjálpar okkur.

17 Hvernig getum við séð hönd Jehóva? Hér eru nokkur atriði sem við gætum hugsað um: Þér finnst kannski augljóst að það var Jehóva sem leiddi þig til sannleikans. Hefurðu einhvern tíma verið á samkomu og heyrt eitthvað sem fékk þig til að segja: „Þetta var einmitt það sem ég þurfti að heyra“? Þú gætir líka hafa fundið fyrir bænheyrslu. Kannski ákvaðstu einhvern tíma að auka við boðunina og varst undrandi yfir því hvernig Jehóva hjálpaði þér að ná markmiði þínu. Eða hefurðu sagt upp vinnu til að geta þjónað Jehóva betur og fundið hvernig hann stendur við loforð sitt: „Ég mun ekki ... yfirgefa þig“? (Hebr. 13:5) Ef við eigum gott samband við Jehóva getum við auðveldlega séð hvernig hann hefur hjálpað okkur á marga vegu.

18 Sarah, sem býr í Keníu, segir svo frá: „Ég bað vegna biblíunemanda sem mér fannst ekki kunna að meta námið og spurði Jehóva hvort ég ætti að hætta náminu. Um leið og ég hafði sagt ,amen‘ hringdi síminn. Þetta var biblíunemandinn. Hún hringdi til að spyrja hvort hún mætti koma með mér á samkomu. Ég var steinhissa!“ Við getum líka tekið eftir styrkri hendi Guðs í lífi okkar ef við erum vakandi fyrir henni. Rhonna, systir í Asíu, segir að við þurfum að læra að taka eftir hjálp Jehóva. Hún bætir við: „En þegar við lærum það er ótrúlegt að finna hve mikinn áhuga hann hefur á okkur.“

19. Hvað annað þurfum við til að geta séð Guð?

19 Jesús sagði: „Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá.“ (Matt. 5:8) Hvernig getum við verið ,hjartahrein‘? Okkar innri maður þarf að vera hreinn og við þurfum að leggja af alla slæma hegðun. (Lestu 2. Korintubréf 4:2.) Með því að styrkja samband okkar við Guð og hegða okkur vel setjum við okkur í hóp þeirra sem geta séð Guð. Í næstu grein verður rætt hvernig trúin getur hjálpað okkur að sjá enn betur áhrif Jehóva á líf okkar.