Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getum við sýnt að við elskum Jehóva?

Hvernig getum við sýnt að við elskum Jehóva?

„Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði.“ – 1. JÓH. 4:19.

SÖNGVAR: 56, 138

1, 2. Hvernig hefur Jehóva kennt okkur að elska sig samkvæmt því sem Jóhannes segir?

FLESTIR eru sammála um að besta leiðin fyrir feður að kenna börnum sínum sé að sýna gott fordæmi. Jóhannes postuli skrifaði: „Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði.“ (1. Jóh. 4:19) Af þessu er ljóst að Jehóva er okkur framúrskarandi fyrirmynd í að sýna föðurlega ást og það fær okkur til að elska hann.

2 Hvernig hefur Guð ,elskað okkur að fyrra bragði‘? Páll postuli sagði: „Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Rómv. 5:8) Með þessari miklu fórn – að gefa son sinn sem lausnargjald fyrir alla sem trúa á hann – hefur Jehóva sýnt hvað raunverulega felst í kærleikanum. Kærleikurinn birtist í því að gefa eða sýna óeigingirni og fórnfýsi. Þetta stórkostlega kærleiksverk Guðs opnar okkur leið til að nálgast hann, njóta kærleika hans og elska hann á móti. – 1. Jóh. 4:10.

3, 4. Hvernig ættum við að sýna Jehóva kærleika?

3 Kærleikur er höfuðeiginleiki Jehóva. Þegar Jesús var spurður hvert væri æðsta boðorð Guðs er því skiljanlegt að hann hafi svarað: „Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu  hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ (Mark. 12:30) Við sjáum af orðum Jesú að kærleikur til Guðs þarf fyrst og fremst að koma frá hjartanu. Það er ekki hægt að þóknast Jehóva ef við elskum hann ekki af heilu hjarta. En kærleikurinn til Guðs nær líka til sálar okkar, huga og máttar. Sannur kærleikur til Guðs er því miklu meira en bara tilfinning í hjartanu. Hann snertir einnig okkar andlega mann og líkamlegu getu, allt sem við búum yfir. Spámaðurinn Míka talar um að það sé þess konar kærleikur sem Jehóva vill að við sýnum honum. – Lestu Míka 6:8.

4 Hvernig getum við sýnt að við elskum föður okkar á himnum heitt og innilega? Við ættum að elska hann skilyrðislaust. Þessi kærleikur snertir líkamlega getu okkar, tilfinningar og okkar andlega mann eins og Jesús gaf til kynna. Í greininni á undan var rætt um fernt sem sýnir hve mjög Jehóva elskar börn sín. Skoðum núna hvernig við getum sýnt Jehóva að við elskum hann og hvernig við getum lært að elska hann enn heitar.

VERUM ÞAKKLÁT FYRIR ÞAÐ SEM JEHÓVA VEITIR OKKUR

5. Hvernig ættum við að bregðast við öllu því sem Jehóva hefur gert fyrir okkur?

5 Hvað gerirðu þegar þú færð gjöf? Líklega tjáirðu þakklæti þitt með einhverjum hætti. Auk þess líturðu ekki á gjöfina sem sjálfsagðan hlut og þú átt örugglega eftir að nota hana vel. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að, frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né flöktandi skuggar. Hann er ávallt hinn sami.“ (Jak. 1:17) Jehóva veitir okkur alltaf það sem við þurfum til að lifa og vera hamingjusöm. Hvetur það okkur ekki til að vilja endurgjalda kærleika hans?

6. Hvað þurftu Ísraelsmenn að gera til að halda áfram að hljóta blessun Jehóva?

6 Jehóva annaðist Ísraelsmenn um margar aldir og hann blessaði þá ríkulega, bæði efnislega og andlega. (5. Mós. 4:7, 8) En ef þeir vildu hljóta þessa blessun áfram þurftu þeir að hlýða lögum Guðs sem fól meðal annars í sér að færa Jehóva reglulega ,það besta af frumgróða landsins‘ að fórn. (2. Mós. 23:19) Ísraelsmenn sýndu þar með að þeir litu ekki á það sem sjálfsagðan hlut að Jehóva skyldi elska þá og blessa. – Lestu 5. Mósebók 8:7-11.

7. Hvernig getum við notað ,eigur okkar‘ til að sýna Jehóva að við elskum hann?

7 Hvað um okkur? Við erum ekki skyldug til að færa bókstaflegar fórnargjafir en við ættum samt að sýna Guði kærleika með því að heiðra hann með ,eigum okkar‘. (Orðskv. 3:9) Á hvaða vegu getum við gert það? Við getum auðvitað notað efnislegar eigur okkar til að styðja við starf safnaðarins heima fyrir og á heimsvísu. Þetta er mjög góð leið til að tjá Jehóva kærleika okkar hvort sem við höfum mikið eða lítið handa á milli. (2. Kor. 8:12) En við getum líka sýnt Jehóva að við elskum hann með öðrum hætti.

8, 9. Hvernig er það að treysta á loforð Jehóva tengt því að elska hann? Lýstu með dæmi.

8 Minnum okkur á orð Jesú til fylgjenda sinna um að hafa ekki áhyggjur af fæði og klæði heldur að leita fyrst ríkis Guðs. Hann sagði að himneskur faðir okkar vissi hvers við þörfnumst. (Matt. 6:31-33) Hversu vel við treystum þessum orðum gefur til kynna hve heitt við elskum Jehóva vegna þess að traust er nátengt  kærleika. Við getum ekki elskað einhvern í raun og veru ef við treystum honum ekki. (Sálm. 143:8) Við gætum því spurt okkur: Sýna markmið mín og lífsstíll að ég elski Jehóva? Sýni ég með daglegu lífi mínu að ég teysti á mátt hans til að sjá fyrir þörfum mínum?

9 Mike er kristinn maður sem sýndi Jehóva slíkan kærleika og traust. Allt frá unga aldri langaði hann mikið til að þjóna Jehóva á erlendri grund. Hann kvæntist og eignaðist tvö börn, en þessi löngun hans var alltaf jafn sterk. Greinar og frásögur af starfi þar sem mikil þörf er á boðberum urðu fjölskyldu Mikes hvatning til að einfalda líf sitt. Þau seldu húsið sitt og fluttu í íbúð. Mike átti ræstingafyrirtæki en ákvað að minnka starfsemina og lærði líka hvernig hann gæti stýrt fyrirtækinu í gegnum Netið. Fjölskyldan fluttist svo til annars lands og eftir tvö ánægjuleg ár segir Mike: „Við upplifðum sannleikann í orðum Jesú í Matteusi 6:33.“

LÁTUM SANNLEIKANN FRÁ GUÐI NÁ TIL HJARTANS

10. Hvaða áhrif getur það haft á okkur að íhuga sannindi um Jehóva, eins og við sjáum af dæmi Davíðs konungs?

10 Davíð konungur horfði hugfanginn til himins fyrir um 3.000 árum og skrifaði: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, festingin kunngjörir verkin hans handa.“ Hann var líka djúpt snortinn þegar hann hugsaði um viskuna í lögum Guðs og sagði: „Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gerir hinn fávísa vitran.“ Hvaða áhrif hafði það á Davíð að hugleiða þetta fullur þakklætis? Hann heldur áfram: „Mættu orð mín vera þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns koma fram fyrir þig, Drottinn, bjarg mitt og frelsari.“ Davíð átti greinilega innilegt og náið samband við Guð sinn. – Sálm. 19:2, 8, 15.

11. Hvernig getum við notað þekkinguna sem Guð hefur veitt okkur til að sýna að við elskum hann? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

11 Nú á dögum höfum við fengið mikla þekkingu á sköpunarverki Jehóva og á því hvernig fyrirætlun hans nær fram að ganga. Heimurinn hvetur til æðri menntunar. Reynslan sýnir þó að margir sem fara út í slíkt nám missa trúna á Guð og kærleikann til hans. En í Biblíunni erum við ekki hvött til að sækjast aðeins eftir þekkingu heldur líka til að afla okkur visku og skilnings. Það felur í sér að við lærum að notfæra okkur þekkinguna, sem við höfum fengið frá Guði, okkur og öðrum til góðs. (Orðskv. 4:5-7) Vilji Guðs er „að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tím. 2:4) Við sýnum að við elskum Jehóva þegar við leggjum okkur fram um að segja öllum frá fagnaðarerindinu um ríki Guðs og hjálpum þeim að skilja hvaða stórfenglegu fyrirætlun Guð hefur með mannkynið. – Lestu Sálm 66:16, 17.

12. Hvernig sýndi stúlka nokkur þakklæti fyrir andlegu fæðuna frá Jehóva?

12 Unga fólkið getur líka sýnt að það elskar Jehóva með því að vera þakklátt fyrir andlegu fæðuna sem hann veitir okkur. Shannon segir að þegar hún var 11 ára hafi hún og systir hennar, sem var 10 ára, sótt umdæmismótið „Guðrækni“ ásamt foreldrum sínum. Hluta af dagskránni var unga fólkið beðið um að setjast á ákveðnu svæði á mótsstaðnum. Shannon var svolítið taugaóstyrk en settist samt þar. Hún var ekkert smá ánægð þegar allt unga fólkið fékk gefins  eintak af fallegri bók sem heitir Spurningar unga fólksins – svör sem duga. Hvaða áhrif hafði það á Shannon og viðhorf hennar til Jehóva? Hún segir: „Þá loksins skildi ég að Jehóva er raunverulegur og að hann elskar mig sem einstakling mjög, mjög mikið.“ Hún bætir við: „Við erum svo ánægð að Jehóva, hinn mikli Guð, gefur okkur fúslega svona fallegar og fullkomnar gjafir.“

ÞIGGJUM LEIÐSÖGN GUÐS OG AGA

13, 14. Hvað gefa viðbrögð okkar við leiðsögn Jehóva til kynna um kærleika okkar til hans?

13 Í Biblíunni erum við minnt á að „Drottinn agar þann sem hann elskar og lætur þann son finna til sem hann hefur mætur á“. (Orðskv. 3:12) En hvernig eigum við að bregðast við aganum? Páll postuli var raunsær þegar hann skrifaði: „Um stundar sakir virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni heldur hryggðar.“ Með þessu var Páll þó ekki að draga úr mikilvægi þess að hljóta aga því að í framhaldinu segir hann: „En eftir á veitir hann þeim er alist hafa upp við hann friðsamt og réttlátt líf.“ (Hebr. 12:11) Ef við elskum Jehóva þurfum við að gæta okkar að verða ekki stolt og gröm þegar hann leiðbeinir okkur. Það getur reynt verulega á hjá sumum. En kærleikurinn til Guðs getur verið okkur mikil hjálp.

14 Margir Gyðingar á dögum Malakís kunnu ekki að meta leiðsögn Guðs. Þeir þekktu vel lögin um fórnargjafir en voru orðnir svo kærulausir að Jehóva þurfti að ávíta þá harðlega. (Lestu Malakí 1:12, 13.) Hversu alvarleg var staðan? Heyrum hvað Jehóva segir: „Ég [sendi] bölvunina yfir ykkur og sný blessun ykkar í bölvun. Já, ég sný henni í bölvun því að þið hafið ekki gætt [boða minna] heils hugar.“ (Mal. 2:1, 2) Það getur greinilega haft alvarlegar afleiðingar að leggja það í vana sinn að hunsa kærleiksríka leiðsögn Jehóva eða gera það af ásettu ráði.

Fylgdu leiðsögn Guðs en ekki viðmiðum heimsins. (Sjá 15. grein.)

15. Hvaða algenga hugarfar heimsins þurfum við að varast?

15 Nú á tímum þegar margir eru sjálfhverfir og ég-kynslóðin ryður sér til  rúms er ekki auðvelt að ræða um leiðsögn og aga, hvað þá að taka við slíku. Jafnvel þótt sumir virðist þiggja leiðsögn og aga gera margir þeirra það með ólund. En þjónum Guðs er bent á að ,fylgja ekki háttsemi þessa heims‘ heldur tileinka sér ,fullkominn vilja Guðs‘. (Rómv. 12:2) Fyrir milligöngu safnaðar síns veitir Jehóva okkur tímabær ráð á mörgum sviðum lífsins, til dæmis um umgengni við hitt kynið, félagsskap og afþreyingu. Ef við þiggjum og nýtum okkur fúslega slík ráð sýnum við að við erum þakklát og elskum Jehóva af öllu hjarta. – Jóh. 14:31; Rómv. 6:17.

SÆKJUMST EFTIR VERND OG BJÖRGUN JEHÓVA

16, 17. (a) Hvers vegna ættum við að huga að vilja Jehóva þegar við tökum ákvarðanir? (b) Hvernig sýndu Ísraelsmenn að þá skorti traust og kærleika til Jehóva?

16 Þegar litlum börnum finnst sér ógnað hlaupa þau sjálfkrafa til foreldra sinna. Þegar þau vaxa úr grasi læra þau að treysta æ betur á eigin dómgreind og að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Það fylgir því að fullorðnast. Þeir sem eiga náið samband við foreldra sína spyrja þá samt gjarnan álits og leita ráða hjá þeim áður en þeir taka ákvarðanir. Hið sama á við um andlega leiðsögn. Jehóva hefur vissulega gefið okkur anda sinn sem hvetur okkur til „að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar“. En ef við tækjum ákvarðanir án þess að hugleiða hver vilji Guðs er væri það merki um að okkur skorti bæði traust og kærleika til hans. – Fil. 2:13.

17 Á dögum Samúels biðu Ísraelsmenn eitt sinn mikinn ósigur fyrir Filisteum. Þeir þurftu nauðsynlega á hjálp Guðs og vernd að halda. Hvað gerðu þeir? „Við skulum sækja sáttmálsörk Drottins til Síló svo að hann verði mitt á meðal okkar og bjargi okkur úr greipum fjandmanna okkar,“ sögðu þeir. Hvernig fór? „Mannfallið var mjög mikið og féllu þrjátíu þúsund fótgönguliðar úr liði Ísraelsmanna. Örk Guðs var tekin herfangi.“ (1. Sam. 4:2-4, 10, 11) Það leit kannski út fyrir að Ísraelsmenn leituðu hjálpar Jehóva með því að taka örkina með sér. En í rauninni höfðu þeir ekki leitað leiðsagnar hans. Þeir gerðu það sem þeim sjálfum datt í hug og útkoman var skelfileg. – Lestu Orðskviðina 14:12.

18. Með hvaða hugarfari ættum við að leita til Jehóva?

18 Sálmaritarinn sýndi rétt hugarfar þegar hann skrifaði: „Vona á Guð því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn. Sál mín er beygð í mér, því vil ég minnast þín.“ (Sálm. 42:6, 7) Þetta lýsir innilegum tilfinningum og sterkri ást á Jehóva. Hefur þú byggt upp slíkan kærleika og traust til föður þíns á himnum? Jafnvel þótt þú svarir því játandi gætirðu ef til vill farið enn betur eftir þessum ráðum Biblíunnar: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar.“ – Orðskv. 3:5, 6.

19. Hvernig langar þig til að sýna að þú elskar Jehóva?

19 Með því að elska okkur að fyrra bragði hefur Jehóva sýnt okkur hvernig við getum elskað hann. Höfum alltaf í huga framúrskarandi fordæmi hans. Og leitumst við að sýna honum alltaf betur og betur að við elskum hann ,af öllu hjarta, allri sálu, öllum huga og öllum mætti‘. – Mark. 12:30.