Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er samviska þín traustur leiðarvísir?

Er samviska þín traustur leiðarvísir?

,Markmið fræðslunnar er að vekja kærleika af hreinu hjarta og góðri samvisku.‘ – 1. TÍM. 1:5.

SÖNGVAR: 57, 48

1, 2. Hvaðan fengum við samviskuna og hvers vegna getum við verið þakklát fyrir hana?

JEHÓVA GUÐ skapaði manninn með frjálsan vilja, það er að segja frelsi til að velja og hafna. Hann gaf Adam og Evu og framtíðarafkomendum þeirra verðmætan leiðarvísi – samviskuna, en hún gerir okkur kleift að bera skyn á rétt og rangt. Ef við notum hana rétt getur hún hjálpað okkur gera það sem er gott og forðast illt. Samviskan er sönnun fyrir því að Guð elskar okkur og vill að mannkynið vinni sameinað að því að gera það sem er gott.

2 Enn þann dag í dag eru mennirnir gæddir samvisku. (Lestu Rómverjabréfið 2:14, 15.) Margir hegða sér alls ekki í samræmi við leiðbeiningar Biblíunnar en sumir gera það sem er gott og hafa andstyggð á hinu illa. Samviskan heldur aftur af mörgum svo að þeir fremji ekki alvarlega glæpi. Hugsaðu þér hve miklu verra heimsástandið væri ef enginn hefði samvisku. Við myndum líklega frétta af enn meiri illskuverkum en við gerum núna. Við getum því verið mjög þakklát fyrir að Jehóva skapaði mennina með samvisku.

3. Hvers vegna er það til góðs í kristna söfnuðinum að við þjálfum samviskuna?

 3 Ólíkt fólki almennt vilja þjónar Jehóva þjálfa samviskuna. Þeir vilja að samviska þeirra samræmist meginreglum Biblíunnar um rétt og rangt og gott og illt. Þeir sem hafa vel þjálfaða samvisku geta haft mjög góð áhrif á söfnuðinn. En að þjálfa og nota samviskuna snýst ekki bara um eitthvað sem gerist í huganum. Biblían bendir á að góð samviska tengist trú og kærleika. Páll skrifaði: „Markmið fræðslunnar er að vekja kærleika af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.“ (1. Tím. 1:5) Þegar við þjálfum samviskuna og hlustum á hana styrkjum við kærleika okkar til Jehóva og eflum trúna. Hvernig við notum samviskuna gefur til kynna hve sterk við erum í trúnni, hver við erum innst inni og hve heitt við þráum að þóknast Jehóva. Þessi innri rödd sýnir hvaða mann við höfum að geyma.

4. Hvernig getum við þjálfað samviskuna?

4 En hvernig getum við þjálfað samviskuna? Fyrst og fremst með reglulegu biblíunámi og bænum, og með því að hugleiða það sem við lesum og fara eftir því. Það felur augljóslega í sér meira en að sanka að sér upplýsingum og læra reglur. Biblíunám okkar ætti smám saman að hjálpa okkur að kynnast Jehóva betur, kynnast persónuleika hans og eiginleikum og átta okkur á hvað honum líkar og mislíkar. Þannig stillum við samvisku okkar í samræmi við viðhorf Jehóva. Það ætti að hreyfa við hjarta okkar og hvetja okkur til að líkjast honum æ meir.

5. Um hvað er rætt í þessari grein?

5 Það gæti þó verið gott að spyrja sig: Hvernig getur vel þjálfuð samviska hjálpað okkur þegar við þurfum að taka ákvarðanir? Hvernig getum við virt samvisku trúsystkina þegar þau taka ákvarðanir? Og hvernig getur samviskan hvatt okkur til góðra verka í enn meiri mæli? Með þessar spurningar í huga skulum við nú skoða þrjú svið þar sem samviskan getur verið okkur til góðs. Þessi svið eru (1) heilsan, (2) afþreying og (3) boðunin.

VERUM SKYNSÖM

6. Á hvaða sviði gætum við þurft að taka ákvarðanir?

6 Biblían hvetur okkur til að forðast skaðlega hegðun og vera hófsöm, til dæmis í matar- og drykkjarvenjum. (Orðskv. 23:20; 2. Kor. 7:1) Ef við fylgjum meginreglum Biblíunnar verndum við heilsuna að vissu marki þó að við auðvitað veikjumst öll og hrörnum. Í sumum löndum er auk hefðbundinnar læknismeðferðar hægt að velja um margs konar óhefðbundnar meðferðir. Deildarskrifstofur fá oft bréf frá bræðrum og systrum sem eru að velta fyrir sér ýmsum meðferðarúrræðum og spyrja hvort þjónar Jehóva geti þegið slíkar meðferðir.

7. Hvernig getum við tekið ákvarðanir um læknismeðferð?

7 Þó að vottur spyrji um ráð hefur hvorki deildarskrifstofan né öldungar í söfnuðunum vald til að ákveða hvers konar meðferð hann þiggur og hafnar. (Gal. 6:5) Þeir geta auðvitað bent á það sem Jehóva hefur sagt sem gæti haft áhrif á ákvörðunina. Kristnir menn þurfa til dæmis að hafa í huga boð Biblíunnar um að ,halda sig frá blóði‘. (Post. 15:29) Það þýðir að þeir gætu alls ekki fallist á meðferð sem fæli í sér að þiggja blóð eða einhverja af stóru blóðhlutunum fjórum. Þessi vitneskja gæti jafnvel haft áhrif á samvisku þeirra þegar þeir ákveða hvort þeir myndu þiggja smærri  blóðþætti sem unnir eru úr einhverjum af blóðhlutunum fjórum. * En hvaða önnur ráð Biblíunnar geta leiðbeint okkur þegar við veltum fyrir okkur læknismeðferðum?

8. Hvers konar viðhorf hvetur Biblían okkur til að hafa til heilsunnar?

8 Í Orðskviðunum 14:15 segir: „Einfaldur maður trúir öllu en hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ Við sumum sjúkdómum er ekki til nein þekkt lækning. Það er því viturlegt að vera á varðbergi gagnvart fullyrðingum um undralækningar sem eru aðallega staðfestar með sögusögnum. Páli var innblásið að skrifa: „Ljúflyndi [„sanngirni“, NW] ykkar verði kunnugt öllum mönnum.“ (Fil. 4:5) Ef við erum sanngjörn og skynsöm aftrar það okkur frá því að nota svo mikinn tíma í að hugsa um heilsuna að andlegu málin sitji á hakanum. Ef við leyfðum heilsunni að verða aðalatriðið í lífi okkar væri hætta á að við yrðum sjálfhverf. (Fil. 2:4) Þjónustan við Jehóva skiptir mestu máli og við ættum því að hafa skynsamlegt viðhorf til heilsunnar og ekki gera okkur óhóflegar væntingar. – Lestu Filippíbréfið 1:10.

Reynirðu að þröngva skoðunum þínum upp á aðra? (Sjá 9. grein.)

9. Hvað segir Rómverjabréfið 14:13, 19 okkur um ákvarðanir varðandi heilsuna og hvernig gæti einingu safnaðarins verið stefnt í hættu?

9 Skynsamur þjónn Guðs reynir ekki að þröngva skoðunum sínum upp á aðra. Hjón í Evrópu mæltu með ákveðnu mataræði og auglýstu fæðubótarefni af mikilli ákefð. Þau töldu sum trúsystkini á að taka fæðubótarefnin en aðrir afþökkuðu þau. Ekki leið á löngu þar til í ljós kom að fæðubótarefnin stóðust ekki væntingar og margir fylltust gremju. Hjónin höfðu fullan rétt á að ákveða hvort þau sjálf vildu fylgja ákveðnu mataræði og taka fæðubótarefnin en var það skynsamlegt að stofna einingu safnaðarins í hættu út af því sem þau töldu vera heilsusamlegt? Kristnir menn í Róm til forna höfðu á tímabili mismunandi skoðanir á hvers konar mat mætti borða og hvaða daga skyldi halda hátíðlega. Hvað ráðlagði Páll þeim? Hann sagði um hið síðarnefnda: „Einn gerir mun á dögum, annar metur alla daga jafna. Hver og einn fylgi sannfæringu sinni.“ Það var mikilvægt að verða ekki öðrum til ásteytingar. – Lestu Rómverjabréfið 14:5, 13, 15, 19, 20.

10. Hvers vegna ættum við að virða ákvarðanir annarra? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

10 Við skiljum kannski ekki alltaf hvers vegna trúsystkini okkar hafa eða hafa ekki samvisku til einhvers. Við ættum þó ekki að vera fljót að dæma þau eða reyna að telja þau á að breyta um skoðun. Kannski er samviska þeirra enn þá ,óstyrk‘ og þau hafa þörf fyrir að þjálfa  hana betur, eða kannski er hún of viðkvæm á ákveðnum sviðum. (1. Kor. 8:11, 12) Hins vegar getur líka verið að við þyrftum að skoða okkar eigin samvisku og ef til vill laga hana betur að meginreglum Guðs. Hvað varðar heilsuna og önnur slík mál ættum við hvert og eitt okkar að ákveða sjálf hvað við veljum og höfnum og taka ábyrgðinni sem því fylgir.

NJÓTUM UPPBYGGJANDI AFÞREYINGAR

11, 12. Hvaða leiðbeiningar Biblíunnar ættum við að hafa í huga þegar við veljum okkur afþreyingu?

11 Jehóva skapaði okkur þannig að við gætum notið afþreyingar og haft gott af henni. „Að hlæja hefur sinn tíma ... og að dansa hefur sinn tíma,“ skrifaði Salómon. (Préd. 3:4) En afþreying er ekki alltaf til góðs, afslappandi eða endurnærandi. Og það er ekki heldur gott að verja of miklum tíma í afþreyingu eða vera of upptekinn af henni. Hvernig getur samviskan hjálpað okkur að velja uppbyggjandi afþreyingu sem við höfum gott af?

12 Biblían varar við ákveðinni hegðun sem hún kallar „holdsins verk“. Í þeim felst „frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt“. Páll segir að „þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki“. (Gal. 5:19-21) Við gætum því spurt okkur hvort samviskan fái okkur til að forðast íþróttir sem ýta undir reiði, keppnisanda, þjóðerniskennd eða ofbeldi. Varar hún mig við þegar mér finnst freistandi að horfa á mynd sem inniheldur klámfengið efni eða ýtir undir það viðhorf að eðlilegt sé að stunda kynferðislegt siðleysi, ofdrykkju eða dulspeki?

13. Hvernig geta ráðin í 1. Tímóteusarbréfi 4:8 og Orðskviðunum 13:20 leiðbeint okkur þegar kemur að afþreyingu?

13 Í Biblíunni eru líka meginreglur sem geta hjálpað okkur að móta samviskuna og gert hana næma á afþreyingu. Ein er sú að „líkamleg æfing er nytsamleg í sumu“. (1. Tím. 4:8) Margir eru sammála um að það sé hressandi og heilsusamlegt að hreyfa sig reglulega í einhverjum mæli. En ef við viljum stunda íþróttir eða annars konar hreyfingu með öðrum, ættum við þá að gera það með hverjum sem er? Í Orðskviðunum 13:20 segir: „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.“ Gefur þetta ekki til kynna að við ættum að vanda valið á afþreyingu og láta biblíufrædda samvisku okkar ráða ferðinni?

14. Hvernig breytti unglingsstúlka í samræmi við Rómverjabréfið 14:2-4?

14 Christian og Daniela eiga tvö börn á táningsaldri. Christian segir: „Á tilbeiðslukvöldi fjölskyldunnar ræddum við um afþreyingu. Allir voru sammála um að sum skemmtun sé við hæfi en önnur ekki. Hverjir eru góður félagsskapur? Ein af dætrum okkar kvartaði undan því að henni fyndist hegðun sumra votta í skólanum ekki vera við hæfi í frímínútunum. Og henni fannst vera þrýst á sig til að hegða sér eins. Við ræddum um að hvert og eitt okkar hafi samvisku og við ættum að láta hana segja okkur hvað við kjósum að gera og með hverjum.“ – Lestu Rómverjabréfið 14:2-4.

Biblíufrædd samviska þín getur hjálpað þér að forðast hættur. (Sjá 14. grein.)

15. Hvernig er það okkur til góðs að hugleiða Matteus 6:33 í tengslum við afþreyingu?

15 Við þurfum líka að hugsa um hvenær við stundum afþreyingu. Læturðu andlegu dagskrána, eins og samkomur, boðunina og sjálfsnám, hafa forgang og  stundar afþreyingu utan hennar? Eða reynirðu að koma þjónustunni við Jehóva fyrir í þéttri dagskrá sem snýst mikið um afþreyingu? Hvernig forgangsraðar þú? Jesús sagði: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matt. 6:33) Fær samviskan þig til að forgangsraða í samræmi við ráð Jesú?

SAMVISKAN HVETUR TIL GÓÐRA VERKA

16. Hvaða áhrif getur samviska okkar haft á boðunina?

16 Vel þjálfuð samviska varar okkur ekki bara við því sem er rangt. Hún hvetur okkur líka til góðra verka. Þessi góðu verk fela fyrst og fremst í sér að við tökum þátt í boðuninni hús úr húsi og nýtum okkur tækifærin sem við fáum til að vitna óformlega. Samviska Páls „knúði hann“ til slíkra verka. Hann sagði um fagnaðarerindið: „Vei mér ef ég boða það ekki.“ (1. Kor. 9:16) Ef við líkjum eftir honum fullvissar samviskan okkur um að við séum að gera það sem er rétt. Og þegar við boðum fagnaðarerindið ýtum við einnig við samvisku þeirra sem við tölum við. Páll sagði um það að ,birta fólki sannleikann‘: „Guð veit að ég skírskota til samvisku hvers manns um sjálfan mig.“ – 2. Kor. 4:2.

17. Hvernig fylgdi ung systir samvisku sinni?

17 Þegar Jacqueline var 16 ára var hún í líffræði í skólanum. Farið var ítarlega í þróunarkenninguna. „Samviskan leyfði mér ekki að taka eins mikinn þátt í umræðunum og ég gerði vanalega. Ég gat ekki samþykkt þróunarkenninguna svo að ég talaði við kennarann og útskýrði afstöðu mína. Mér til undrunar var hann mjög vingjarnlegur og bauð mér að segja öllum bekknum frá trú minni á sköpun.“ Jacqueline var mjög ánægð með að hafa hlustað á og fylgt biblíufræddri samvisku sinni. Hvetur samviskan þig með svipuðum hætti til að gera það sem þú veist að er rétt?

18. Hvers vegna ættum við að vilja að samviska okkar sé traustur leiðarvísir?

18 Það er frábært markmið að reyna að lifa æ betur í samræmi við leiðbeiningar Jehóva og vilja hans. Samviska okkar getur verið öflugt verkfæri til að ná því markmiði. Við þjálfum samviskuna með því að kafa djúpt í orð Guðs, hugleiða það sem við lesum og gera okkar ýtrasta til að fara eftir því. Þá verður samviskan dýrmætur hluti af okkar andlega manni.

^ gr. 7 Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 1. júlí 2000, bls. 29-31.