Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ríkissalurinn er tilbeiðsluhús okkar

Ríkissalurinn er tilbeiðsluhús okkar

„Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“ – JÓH. 2:17.

SÖNGVAR: 127118

1, 2. (a) Hvar hafa þjónar Jehóva tilbeðið hann áður fyrr? (b) Hvernig leit Jesús á musteri Guðs í Jerúsalem? (c) Hver er tilgangur þessarar greinar?

ÞJÓNAR Guðs hafa frá fornu fari átt sér ákveðna staði til að tilbiðja hann. Abel notaði ef til vill altari þegar hann færði Guði fórnir. (1. Mós. 4:3, 4) Nói, Abraham, Ísak, Jakob og Móse reistu allir ölturu. (1. Mós. 8:20; 12:7; 26:25; 35:1; 2. Mós. 17:15) Ísraelsmenn reistu tjaldbúðina samkvæmt fyrirmælum Jehóva. (2. Mós. 25:8) Seinna byggðu þeir musteri til að tilbiðja hann. (1. Kon. 8:27, 29) Gyðingar söfnuðust reglulega saman í samkunduhúsum eftir að þeir sneru heim úr útlegðinni í Babýlon. (Mark. 6:2; Jóh. 18:20; Post. 15:21) Frumkristnir menn komu saman á heimilum safnaðarmanna. (Post. 12:12; 1. Kor. 16:19) Þjónar Guðs nú á dögum halda samkomur í tugþúsundum ríkissala um allan heim þar sem þeir fræðast og tilbiðja Guð.

2 Jesú var ákaflega annt um musteri Jehóva í Jerúsalem. Guðspjallaritari heimfærði á hann orð spámannsins: „Vandlæting vegna húss þíns hefur tært mig upp.“ (Sálm. 69:10; Jóh. 2:17) Ekki er hægt að kalla ríkissalina hús Jehóva í  sama skilningi og musterið í Jerúsalem. (2. Kron. 5:13; 33:4) Í Biblíunni eru hins vegar meginreglur sem sýna okkur hvernig við eigum að nota og virða tilbeiðsluhús okkar nú á tímum. Tilgangur þessarar greinar er að fara yfir nokkrar af þessum meginreglum. Við skoðum hvernig við eigum að líta á ríkissalina, fjármagna þá og halda þeim við. *

SÝNUM VIRÐINGU FYRIR HREINNI TILBEIÐSLU

3-5. Hvert er hlutverk ríkissalarins og hvernig ættum við þar af leiðandi að líta á samkomurnar?

3 Ríkissalurinn er miðstöð hreinnar tilbeiðslu í byggðarlaginu. Vikulegar safnaðarsamkomur í ríkissalnum eru ein leið sem Jehóva notar til að næra okkur andlega. Þar uppbyggjumst við og fáum leiðbeiningar fyrir milligöngu safnaðar hans. Allir sem sækja samkomur gera það í rauninni í boði Jehóva og sonar hans. Þó að boðið standi alltaf megum aldrei líta á það sem sjálfsagðan hlut að nærast af borði Jehóva. – 1. Kor. 10:21.

4 Jehóva finnst afar mikilvægt að við sækjum samkomur til tilbeiðslu og til að uppörvast saman. Þess vegna innblés hann Páli postula að hvetja okkur til að vanrækja ekki safnaðarsamkomur okkar. (Lestu Hebreabréfið 10:24, 25.) Bæri það merki um virðingu fyrir Jehóva ef við misstum af samkomum að óþörfu? Við getum sýnt Jehóva hve mikið við kunnum að meta hann og ráðstafanir hans með því að búa okkur undir samkomurnar og taka góðan þátt í þeim. – Sálm. 22:23.

5 Viðhorf okkar til ríkissalarins ætti að bera vitni um virðingu, bæði fyrir byggingunni og starfseminni sem þar fer fram. Er ekki viðhorf okkar til ríkissalarins nátengt því hvernig við lítum á nafn Guðs sem stendur yfirleitt á skilti ríkissalarins? – Samanber 1. Konungabók 8:17.

6. Hvað hafa sumir sagt um ríkissali okkar og þá sem sækja þar samkomur? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

6 Fólk, sem er ekki vottar, tekur oft eftir því að við berum virðingu fyrir tilbeiðsluhúsi okkar. Maður í Tyrklandi sagði til dæmis: „Það hafði sterk áhrif á mig hve hreinn og snyrtilegur ríkissalurinn var. Fólkið var vel til fara, brosti vingjarnlega og heilsaði mér hlýlega. Þetta hafði mikil áhrif á mig.“ Maðurinn byrjaði að sækja samkomur reglulega og lét skírast skömmu síðar. Söfnuður í borg einni í Indónesíu bauð nágrönnum og fulltrúum borgaryfirvalda í opið hús áður en nýr ríkissalur var vígður. Borgarstjórinn þáði boðið. Honum fannst mikið til þess koma hve vandað og vel hannað húsið var og hve garðurinn var fallegur. „Það endurspeglar sterka trú ykkar hve snyrtilegur salurinn er,“ sagði hann.

Við gætum sýnt Guði óvirðingu með hegðun okkar. (Sjá 7. og 8. grein.)

7, 8. Hvað er mikilvægt að hafa í huga þegar við sækjum samkomur?

7 Við ættum að sýna með framferði okkar, klæðaburði og útliti að við berum virðingu fyrir Guði en það er hann sem býður okkur að sækja safnaðarsamkomurnar. Við sýnum líka virðingu með því að forðast öfgar. Það hefur sýnt sig að sumir virðast gera einum of strangar kröfur til hegðunar á samkomum  en aðrir virðast einum of kærulausir. Jehóva vill auðvitað að þjónum sínum og öðrum samkomugestum líði vel í ríkissalnum. En við viljum að sjálfsögðu ekki sýna samkomunni óvirðingu með því að vera of frjálslega til fara, nota samkomutímann til að senda SMS, tala saman, borða, drekka og þar fram eftir götunum. Foreldrar ættu að kenna börnunum að ríkissalurinn er ekki staður til að hlaupa eða leika sér. – Préd. 3:1.

8 Jesús reiddist þegar hann sá menn stunda verslun og viðskipti í musteri Guðs og rak þá út. (Jóh. 2:13-17) Ríkissalirnir eru hús til að tilbiðja Guð og fá andlega fræðslu. Því ætti ekki að stunda þar viðskipti sem eiga ekkert skylt við tilbeiðslu okkar. – Samanber Nehemíabók 13:7, 8.

BYGGING OG FJÁRMÖGNUN RÍKISSALA

9, 10. (a) Hvernig eru nýir ríkissalir fjármagnaðir og reistir, og með hvaða árangri? (b) Hvaða kærleiksríka ráðstöfun hefur hjálpað söfnuðum með takmörkuð fjárráð að reisa sér ríkissal?

9 Söfnuður Jehóva leggur feikilega áherslu á að fjármagna og byggja látlausa ríkissali. Ólaunaðir sjálfboðaliðar sjá um að hanna þá og byggja eða gera upp húsnæði sem fyrir er. Hver er árangurinn? Frá 1. nóvember 1999 hafa verið byggðar yfir 28.000 fallegar miðstöðvar hreinnar tilbeiðslu fyrir söfnuði um allan heim. Það þýðir að síðustu 15 ár hafa að meðaltali verið reistir fimm nýir ríkissalir á hverjum degi.

10 Lagt er kapp á að styðja byggingu ríkissala hvar sem þeirra er þörf. Þessi kærleiksríka ráðstöfun er byggð á þeirri meginreglu Biblíunnar að gnægð sumra bæti úr skorti annarra „og þannig verði jöfnuður“. (Lestu 2. Korintubréf 8:13-15.) Afraksturinn er að fallegir ríkissalir hafa verið byggðir fyrir söfnuði sem hefðu annars ekki haft bolmagn til að reisa sér miðstöð hreinnar tilbeiðslu.

11. Hvað segja bræður og systur gjarnan um nýja ríkissalinn sinn og hvernig líður þér að heyra það?

11 Söfnuður í Kostaríku, sem naut góðs af þessari ráðstöfun, skrifaði eftirfarandi: „Það er draumi líkast að standa fyrir framan ríkissalinn. Við trúum varla eigin augum. Fallegi ríkissalurinn okkar var fullgerður á aðeins átta dögum. Þetta tókst með blessun Jehóva, ráðstöfunum hins trúa og hyggna þjóns og stuðningi ástkærra bræðra. Þetta tilbeiðsluhús er svo sannarlega verðmæt gjöf, gimsteinn sem Jehóva hefur gefið okkur. Við ráðum okkur ekki fyrir  gleði.“ Hlýnar þér ekki um hjartarætur þegar þú heyrir bræður og systur tjá þakklæti sitt fyrir nýjan ríkissal og vita að trúsystkini okkar á ótal stöðum í heiminum upplifa sömu gleði? Jehóva er þar að verki því að jafnskjótt og nýir ríkissalir eru reistir fyllast þeir gjarnan af einlægu fólki sem langar til að vita meira um ástríkan skapara okkar. – Sálm. 127:1.

12. Hvernig geturðu lagt þitt af mörkum við að byggja ríkissali?

12 Fjöldi bræðra og systra hefur haft mikla ánægju af að taka þátt í að byggja ríkissali. Hvort sem við getum lagt hönd á plóginn á byggingarstaðnum eða ekki getum við öll stutt slíkar framkvæmdir með fjárframlögum. Á biblíutímanum átti brennandi áhugi á sannri tilbeiðslu drjúgan þátt í að fjármagna framkvæmdir í þágu tilbeiðslunnar og hið sama er uppi á teningnum núna, Jehóva til lofs. – 2. Mós. 25:2; 2. Kor. 9:7.

AÐ HALDA RÍKISSALNUM HREINUM

13, 14. Hvaða meginreglur Biblíunnar minna á að við þurfum að halda ríkissalnum hreinum og snyrtilegum?

13 Jehóva hefur góða reglu á hlutunum. Eftir að ríkissalur hefur verið byggður þarf að halda honum hreinum og snyrtilegum til að hann endurspegli eiginleika Guðs. (Lestu 1. Korintubréf 14:33, 40.) Biblían setur hreinlæti í samband við heilagleika og andlegan hreinleika. (Opinb. 19:8) Þeir sem vilja þóknast Jehóva þurfa því að temja sér hreinlæti.

14 Okkur ætti aldrei að finnast óþægilegt að bjóða áhugasömum á samkomur.  Við ættum að geta treyst að meginreglurnar um hreinlæti séu hafðar í heiðri og að salurinn endurspegli fagnaðarerindið sem við flytjum. Þannig getur fólk séð að við tilbiðjum heilagan Guð sem mun innan skamms breyta jörðinni í óspillta paradís. – Jes. 6:1-3; Opinb. 11:18.

15, 16. (a) Hvers vegna getur það reynt á að halda ríkissalnum hreinum en hvers vegna er það nauðsynlegt? (b) Hvernig er ræstingin skipulögð í ríkissalnum þínum og hvaða hlutverk höfum við öll?

15 Fólk leggur mismikla áherslu á að skúra og þrífa. Það ræðst meðal annars af uppeldi þess, ástandi vega og gatna, aðgengi að vatni og hreinlætisvörum og umhverfisþáttum eins og mold og ryki. Ríkissalurinn ber nafn Jehóva og er hús hreinnar tilbeiðslu. Hann ætti því að vera til fyrirmyndar hvað hreinlæti varðar, óháð umhverfi og viðhorfi fólks almennt. – 5. Mós. 23:14.

16 Ræsting ríkissalarins má ekki vera tilviljun háð. Öldungaráð hvers safnaðar þarf að sjá til þess að gerð sé áætlun og að nóg sé til af hreinlætisvörum og áhöldum þannig að hægt sé að halda tilbeiðsluhúsi safnaðarins í góðu standi. Sumt þarf að þrífa eftir hverja samkomu en annað sjaldnar. Til að ekkert verði út undan þarf því að skipuleggja ræstinguna vel og hafa góða umsjón með henni. Allir í söfnuðinum geta lagt sitt af mörkum til að halda ríkissalnum hreinum og snyrtilegum.

VIÐHALD RÍKISSALARINS

17, 18. (a) Hvaða fordæmi höfum við í Biblíunni um viðhald tilbeiðsluhúsa? (b) Hvers vegna eigum við að halda ríkissölum vel við?

17 Þjónar Jehóva leggja sig fram við að halda tilbeiðsluhúsi sínu vel við. Jóas Júdakonungur fyrirskipaði að prestarnir skyldu nota fjárframlög, sem bárust musteri Jehóva, ,til viðgerða á musterinu hvar sem skemmdir kunnu að finnast‘. (2. Kon. 12:4, 5) Meira en 200 árum síðar notaði Jósía konungur einnig framlög til musterisins til að fjármagna nauðsynlegt viðhald. – Lestu 2. Kroníkubók 34:9-11.

18 Ýmsar deildarskrifstofur skýra frá að í sumum löndum sé lítið lagt upp úr viðhaldi bygginga og búnaðar. Í þessum löndum kunna ef til vill fáir til slíkra verka eða fólk hefur almennt ekki efni á viðhaldi. Ef viðhaldi ríkissalarins væri ekki sinnt er þó víst að byggingin gengi fljótt úr sér og yrði okkur ekki til sóma í samfélaginu. Á hinn bóginn er það Jehóva til lofs ef söfnuðurinn gerir sitt besta til að halda ríkissalnum í góðu standi, og fjárframlög bræðra og systra nýtast þá vel.

Við megum ekki vanrækja viðhald og ræstingu ríkissalarins. (Sjá 16. og 18. grein.)

19. Hvernig lítur þú á ríkissalinn og hvað ætlarðu að gera?

19 Ríkissalurinn er vígður Jehóva. Hann tilheyrir því ekki neinum einstaklingi eða söfnuði, og gildir þá einu hver er lögskráður eigandi hans. Til að fylgja meginreglum Biblíunnar þurfum við að vinna vel saman að því að byggingin samsvari því hlutverki sem henni er ætlað. Allir í söfnuðinum geta lagt sitt af mörkum með því að sýna tilbeiðsluhúsum okkar þá virðingu sem þeim ber, gefa fé til nýbygginga og gefa af tíma sínum og kröftum til að halda ríkissölunum hreinum og í góðu standi. Þannig sýnum við að okkur er ákaflega annt um húsin þar sem Jehóva er tilbeðinn, líkt og Jesú var. – Jóh. 2:17.

^ gr. 2 Þessi grein fjallar aðallega um ríkissali en sömu meginreglur eiga við um mótshallir og aðrar byggingar þar sem við tilbiðjum Jehóva.