Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vinnum að því að fegra andlegu paradísina

Vinnum að því að fegra andlegu paradísina

„Til að ... skreyta fótskör mína.“ – JES. 60:13.

SÖNGVAR: 10275

1, 2. Hvað getur orðið „fótskör“ táknað í Hebresku ritningunum?

JEHÓVA GUÐ hefur lýst yfir: „Himinninn er hásæti mitt og jörðin fótskör mín.“ (Jes. 66:1) Hann segist líka ætla að ,skreyta fótskör sína‘. (Jes. 60:13) Hvernig gerir hann það? Og hvað þýðir það fyrir okkur sem búum á „fótskör“ hans?

2 Orðið „fótskör“ táknar stundum jörðina en er auk þess notað í Hebresku ritningunum um musteri Ísraelsmanna til forna. (1. Kron. 28:2; Sálm. 132:7) Musterið var miðstöð sannrar tilbeiðslu á jörð. Af þeirri ástæðu var það mjög fallegt í augum Jehóva og tilvist þess fegraði fótskör hans.

3. Hvað er hið mikla andlega musteri Guðs og hvenær varð það til?

3 Jehóva notar ekki lengur bókstaflegt musteri á jörð sem miðstöð sannrar tilbeiðslu. Hann notar hins vegar andlegt musteri sem er honum til miklu meiri vegsemdar en nokkur bygging. Þetta musteri er fyrirkomulag sem gerir okkur kleift að eiga gott samband við Guð vegna fórnar og prestdóms Jesú Krists. Það varð til árið 29 þegar Jesús var skírður og smurður æðstiprestur í hinu mikla andlega musteri Jehóva. – Hebr. 9:11, 12.

4, 5. (a) Hvernig lýsir 99. sálmurinn einlægri löngun þjóna Jehóva? (b) Að hverju ættum við að spyrja okkur?

 4 Við kunnum að meta andlega musterið og lofum því Jehóva með því að kunngera nafn hans og dásama hann fyrir þá miskunn að greiða lausnargjaldið. Hugsa sér að rúmlega átta milljónir sannkristinna manna skuli vegsama Jehóva. Margt trúað fólk heldur ranglega að það muni lofsyngja Guð þegar það kveðji jarðlífið og fari til himna. Allir vottar Jehóva vita hins vegar að þeir þurfa að lofa Guð núna, hér á jörð.

5 Með því að gera það líkjum við eftir trúum þjónum Jehóva sem lýst er í Sálmi 99:1-3, 5. (Lestu.) Eins og gefið er til kynna í þessum sálmi studdu Móse, Aron og Samúel sanna tilbeiðslu í einu og öllu, eins og hún fór fram á þeim tíma. (Sálm. 99:6, 7) Andasmurðir bræður Krists þjóna trúfastir í jarðneskum forgarði hins andlega musteris núna þangað til þeir fara til himna til að gegna prestsþjónustu með Jesú. Milljónir ,annarra sauða‘ styðja þá dyggilega. (Jóh. 10:16) Báðir hóparnir tilbiðja Jehóva í sameiningu hér við fótskör hans þó að þeir hafi ólíka framtíðarvon. Hvert og eitt okkar ætti samt að spyrja sig: Styð ég sanna tilbeiðslu í einu og öllu?

HVERJIR ÞJÓNA Í ANDLEGU MUSTERI GUÐS?

6, 7. Hvað gerðist meðal frumkristinna manna, og hvað reyndist nauðsynlegt mörgum öldum síðar?

6 Spáð hafði verið um fráhvarf frá sannkristinni trú og það tók að gera vart við sig áður en öld var liðin frá stofnun kristna safnaðarins. (Post. 20:28-30; 2. Þess. 2:3, 4) Þaðan í frá varð æ erfiðara að bera kennsl á þá sem þjónuðu Guði í raun og veru í andlegu musteri hans. Margar aldir liðu þangað til Jehóva leiddi það í ljós fyrir atbeina hins nýkrýnda konungs, Jesú Krists.

7 Árið 1919 var orðið ljóst hverjir höfðu velþóknun Jehóva og þjónuðu honum í andlegu musteri hans. Þeir höfðu verið hreinsaðir trúarlega þannig að þeir þóknuðust Guði enn betur með þjónustu sinni. (Jes. 4:2, 3; Mal. 3:1-4) Það sem Páll postuli hafði séð í sýn öldum áður tók að rætast að vissu marki.

8, 9. Í hvaða þrem myndum birtist ,paradísin‘ sem Páll sá í sýn?

8 Sýn Páls er lýst í 2. Korintubréfi 12:1-4. (Lestu.) Talað er um að þessi yfirnáttúrlega sýn hafi verið opinberun. Hún lýsti ókomnum atburði en ekki neinu sem var til á tímum Páls. Hvaða „Paradís“ var það sem Páll sá þegar hann var „hrifinn burt allt til þriðja himins“? Þessi paradís átti að vera bæði bókstafleg, andleg og himnesk, og verður til í þessum þrem myndum í framtíðinni. Hún getur verið bókstaflega paradísin sem verður á jörðinni. (Lúk. 23:43) Hún getur einnig verið andlega paradísin sem við njótum til fulls í nýja heiminum. Auk þess getur hún verið þær ánægjulegu aðstæður sem ríkja á himnum í „Paradís Guðs“. – Opinb. 2:7.

9 En hvers vegna sagðist Páll hafa heyrt „ósegjanleg orð sem engum manni er leyft að mæla“? Þetta var ekki rétti tíminn til að útskýra í smáatriðum  þær dásemdir sem hann hafði séð í sýninni. Á okkar tímum er hins vegar leyfilegt að tala um þær blessanir sem þjónar Guðs búa við.

10. Útskýrðu muninn á „andlegu paradísinni“ og „andlega musterinu“.

10 Orðasambandið „andleg paradís“ er orðið hluti af orðaforða okkar innan safnaðarins. Það lýsir hinu einstaka andlega umhverfi sem gerir okkur kleift að eiga frið við Guð og við trúsystkini okkar. Við megum ekki rugla saman hugtökunum „andleg paradís“ og „andlegt musteri“. Andlega musterið er það fyrirkomulag sem Guð hefur á sannri tilbeiðslu. Andlega paradísin sýnir hins vegar glöggt hverjir hafa velþóknun Guðs og þjóna honum núna í andlega musterinu. – Mal. 3:18.

11. Hvaða verk fáum við að vinna í andlegu paradísinni?

11 Það er hrífandi til þess að hugsa að síðan 1919 hefur Jehóva leyft ófullkomnu fólki að vinna með sér að því að rækta, efla og stækka andlegu paradísina á jörð. Sérðu sjálfan þig fara með hlutverk í þessu einstaka verkefni? Hvetur það þig til að halda áfram að starfa með Jehóva að því að fegra „fótskör“ hans?

JEHÓVA FEGRAR SÖFNUÐ SINN

12. Hverju getum við öll treyst varðandi spádóminn í Jesaja 60:17? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

12 Í Jesaja 60:17 er spáð um stórkostlegar breytingar í jarðneskum hluta alheimssafnaðar Jehóva. (Lestu.) Ungt fólk og þeir sem eru fremur nýir í trúnni hafa lesið um þessar breytingar eða heyrt aðra segja frá þeim. En það er ómetanlegt að hafa upplifað þær sjálfur! Bræður og systur, sem hafa gert það, eru sannfærð um að Jehóva stjórni söfnuði sínum og leiði hann fyrir milligöngu konungsins sem hann hefur skipað. Þau hafa góðan grundvöll til að trúa því og treysta, og hið sama er að segja um okkur öll. Það styrkir trú okkar og traust á Jehóva að heyra þau segja frá þessu.

13. Hvaða skylda hvílir á okkur samkvæmt Sálmi 48:13-15?

13 Við verðum að segja öðrum frá söfnuði Guðs óháð því hve lengi við höfum þekkt sannleikann. Það er hreint kraftaverk að til skuli vera andleg paradís í þessum illa, spillta og kærleikslausa heimi. Við ættum að njóta þess að segja „komandi kynslóð“ frá þeim dásemdum sem eiga sér stað í „Síon“, söfnuði Jehóva, og frá sannleikanum um andlegu paradísina. – Lestu Sálm 48:13-15.

14, 15. Hvaða skipulagsbreytingar urðu í söfnuðinum upp úr 1970 og hvernig hafa þær verið til góðs?

14 Roskið fólk á meðal okkar hefur sjálft upplifað sumar skipulagsbreytingar sem orðið hafa undanfarna áratugi og hafa fegrað jarðneskan hluta safnaðar Jehóva. Þau muna þá tíð að hver söfnuður hafði sinn safnaðarþjón í stað öldungaráðs, deildskrifstofan var með einn deildarþjón í stað deildarnefndar og fyrirmæli bárust frá forseta Varðturnsfélagsins áður en hið stjórnandi ráð Votta Jehóva hafði tekið á sig skýra mynd. Þó að þessir dyggu bræður hafi átt sér trúa aðstoðarmenn var það eiginlega aðeins einn sem tók ákvarðanir innan safnaðarins, á deildarskrifstofum og við aðalstöðvar  okkar. Upp úr 1970 voru gerðar breytingar þannig að hópur öldunga í stað einstaklinga færi með umsjónina.

15 Hafa þessar breytingar verið til góðs? Já, og það er eðlilegt. Hvers vegna? Breytingarnar byggðust á aukinni þekkingu á þeirri fyrirmynd sem finna má í Biblíunni. Söfnuðurinn nýtur nú góðs af sameinuðum hæfileikum allra þeirra manna sem Jehóva hefur gefið honum til forystu í stað þess að aðeins einn einstaklingur ráði ferðinni að mestu leyti. – Ef. 4:8; Orðskv. 24:6.

Jehóva veitir fólki alls staðar leiðsögnina sem það bráðvantar. (Sjá 16. og 17. grein.)

16, 17. Hvaða breytingum á síðastliðnum árum ertu sérstaklega hrifinn af og hvers vegna?

16 Hugsaðu líka um þær breytingar sem hafa orðið seinustu árin eins og á útliti rita okkar, innihaldi og aðferðum við að dreifa þeim. Við höfum mikla ánægju af því að bjóða þessi aðlaðandi rit sem veita góð ráð. Og þegar við notum nýjustu tækni til að boða trúna, eins og til dæmis vefsíðuna jw.org, endurspeglum við löngun Jehóva til að veita fólki alls staðar leiðsögnina sem alla bráðvantar en fæstir fá.

17 Ekki má heldur gleyma þeirri skynsamlegu breytingu sem gaf okkur svigrúm fyrir tilbeiðslukvöld fjölskyldunnar eða meiri tíma fyrir sjálfsnám. Við kunnum líka að meta breytingarnar á dagskrá mótanna. Við segjum oft að þau verði betri með hverju árinu sem líður. Við gleðjumst sömuleiðis yfir allri þeirri menntun sem er í boði í skólum safnaðarins. Hönd Jehóva er greinilega að verki í öllum þessum breytingum. Jafnt og þétt  fegrar hann söfnuð sinn og andlegu paradísina sem við búum í.

LEGGÐU ÞITT AF MÖRKUM TIL AÐ FEGRA ANDLEGU PARADÍSINA

18, 19. Hvernig getum við átt þátt í að fegra andlegu paradísina?

18 Jehóva leyfir okkur að eiga þátt í að fegra andlegu paradísina og það er okkur mikill heiður. Við gerum það með því að boða fagnaðarerindið um ríkið af kappi og gera fólk að lærisveinum. Þegar við hjálpum fólki að kynnast Jehóva og vígjast honum höfum við átt þátt í að stækka andlegu paradísina. – Jes. 26:15; 54:2.

19 Við getum líka fegrað andlegu paradísina með því að bæta okkur jafnt og þétt sem kristnir einstaklingar. Þeir sem sjá til okkar laðast þá enn frekar að andlegu paradísinni. Það er ekki endilega biblíuþekkingin sem laðar fólk í fyrstu að söfnuðinum og þar með að Jehóva og Jesú. Oft er það frekar hreint líferni okkar og friðsemd.

Þú getur átt þátt í að stækka andlegu paradísina. (Sjá 18. og 19. grein.)

20. Hvaða löngun ættu Orðskviðirnir 14:35 að vekja með okkur?

20 Það hlýtur að gleðja Jehóva og Jesú að fylgjast með því sem gerist núna í andlegu paradísinni. Ánægjan, sem við höfum af því að fegra hana, er aðeins forsmekkur þess sem við fáum að upplifa í framtíðinni þegar við tökum að breyta jörðinni í bókstaflega paradís. Höfum í huga það sem segir í Orðskviðunum 14:35: „Hæfur þjónn hlýtur hylli konungsins.“ Við skulum alltaf leggja okkur fram um að reynast hæf og gera okkar besta til að eiga þátt í að fegra andlegu paradísina.