Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lifum í samræmi við bænina sem Jesús kenndi – fyrri hluti

Lifum í samræmi við bænina sem Jesús kenndi – fyrri hluti

„Helgist þitt nafn.“ – MATT. 6:9.

1. Hvernig getum við notað bænina, sem er skráð í Matteusi 6:9-13, þegar við boðum fagnaðarerindið?

MARGIR kunna faðirvorið utan að. Við vitnum oft í þessa bæn þegar við boðum trúna hús úr húsi til að rökstyðja að ríki Guðs sé raunveruleg stjórn og eigi eftir að gera stórkostlegar breytingar hér á jörð. Og stundum vitnum við í það fyrsta, sem nefnt er í bæninni, til að sýna fram á að Guð eigi sér nafn og það eigi að helgast, það er að segja að það eigi að vera heilagt í augum fólks. – Matt. 6:9.

2. Hvernig vitum við að Jesús ætlaðist ekki til að fólk færi orðrétt með bænina sem hann kenndi í hvert sinn sem það biður?

2 Ætlaðist Jesús til að við færum orðrétt með þessa bæn í hvert sinn sem við biðjum, eins og algengt er í kristna heiminum? Nei. Rétt áður en Jesús gaf lærisveinum sínum þessa bæn sem fyrirmynd sagði hann: „Þegar þér biðjist fyrir skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi.“ Þeir áttu sem sagt ekki að fara með bænina eins og þulu. (Matt. 6:7) Við annað tækifæri fór hann aftur með þessa bæn en með ólíku orðalagi.  (Lúk. 11:1-4) Með þessum hætti bendir Jesús á hvað sé rétt að biðja um og hvað sé mikilvægast. Það er því viðeigandi að líta á bænina sem fyrirmynd.

3. Hvaða spurningar er gott að hugleiða þegar við skoðum bænina sem Jesús kenndi?

3 Í þessari grein og þeirri næstu brjótum við til mergjar bænina sem Jesús kenndi fylgjendum sínum. Þegar við gerum það skulum við spyrja okkur hvernig við getum nýtt okkur þessa fyrirmynd til að auðga bænir okkar. Og það sem meira er, lifum við í samræmi við bænina?

„FAÐIR VOR, ÞÚ SEM ERT Á HIMNUM“

4. Á hvað minnir ávarpið „faðir vor“ og í hvaða skilningi er Jehóva faðir kristinna manna sem hafa jarðneska von?

4 Ávarpið „faðir vor“, ekki „faðir minn“, minnir á að við tilheyrum ,samfélagi þeirra sem trúa‘ og elska hver annan innilega. (1. Pét. 2:17) Það er óviðjafnanlegur heiður. Guð hefur getið andasmurða kristna menn sem syni sína og þeir eiga í vændum að fara til himna. Þeir geta með réttu og í fyllstu merkingu kallað Jehóva föður sinn. (Rómv. 8:15-17) Kristnir menn, sem eiga von um eilíft líf á jörð, geta líka kallað Jehóva föður sinn. Hann er lífgjafi þeirra og sér í kærleika sínum fyrir þörfum allra sem tilbiðja hann í sannleika. Þeir sem eiga þessa jarðnesku von verða börn Guðs í fyllsta skilningi eftir að þeir eru orðnir fullkomnir og hafa sannað hollustu sína í lokaprófrauninni. – Rómv. 8:21; Opinb. 20:7, 8.

5, 6. Hvaða góðu gjöf geta foreldrar gefið börnum sínum og hvernig ættu börnin að fara með þessa gjöf? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

5 Foreldrar gefa börnum sínum góða gjöf með því að kenna þeim að biðja og líta á Jehóva sem umhyggjusaman föður á himnum. Bróðir, sem er núna farandhirðir í Suður-Afríku, segir: „Allt frá því að dætur okkar fæddust bað ég með þeim á hverju kvöldi nema ég væri að heiman. Dæturnar segja oft að þær muni ekki nákvæmlega hvað ég sagði í þessum kvöldbænum. Þær muna hins vegar eftir andrúmsloftinu, eftir rónni og öryggiskenndinni sem fylgdi þessum helgu stundum þegar við töluðum við Jehóva, föður okkar. Ég hvatti þær til að biðja upphátt strax og þær gátu. Þá heyrði ég þær tjá Jehóva hugsanir sínar og tilfinningar. Þetta var einstakt tækifæri til að fá innsýn í hjarta þeirra. Síðan gat ég kennt þeim mildilega að gera bænir sínar innihaldsríkari með því að að nefna mikilvæg atriði úr faðirvorinu.“

6 Það kemur ekki á óvart að litlu stúlkurnar byggðu upp sterkt og gott samband við Jehóva. Þær eru giftar núna og þjóna Jehóva í fullu starfi ásamt eiginmönnum sínum. Foreldrar geta ekki gefið börnum sínum betri gjöf en að hjálpa þeim að eignast innilegt og náið samband við Jehóva. Auðvitað er það undir hverjum og einum komið að viðhalda þessu verðmæta sambandi. Það er meðal annars fólgið í því að læra að elska nafn Guðs og sýna því djúpa virðingu. – Sálm. 5:12, 13; 91:14.

„HELGIST ÞITT NAFN“

7. Hvaða heiður hljóta þjónar Guðs en hvaða kröfu gerir það til okkar?

7 Það er mikill heiður að fá að þekkja nafn Guðs og tilheyra þeim hópi sem fær að bera það. (Post. 15:14; Jes. 43:10) Við biðjum föður okkar á himnum: „Helgist þitt nafn.“ Að bera fram þessa  bæn getur verið þér hvatning til að biðja Jehóva að hjálpa þér að gera hvorki né segja nokkuð sem myndi kasta rýrð á heilagt nafn hans. Við viljum ekki líkjast einstaklingum á fyrstu öld sem lifðu ekki eftir því sem þeir boðuðu. Páll postuli sagði við þá: „Nafn Guðs er ykkar vegna lastað meðal heiðingja.“ – Rómv. 2:21-24.

8, 9. Nefndu dæmi sem sýnir að Jehóva blessar þá sem láta sér annt um að helga nafn hans.

8 Við viljum helga nafn Guðs. Systir í Noregi missti eiginmann sinn langt um aldur fram og var nú einstæð móðir með tveggja ára dreng. „Þetta var ákaflega erfitt tímabil,“ segir hún. „Ég bað Jehóva daglega, næstum á hverjum klukkutíma, um styrk til að ráða við tilfinningar mínar. Ég vildi ekki taka óviturlegar ákvarðanir eða vera honum ótrú og gefa Satan tilefni til að smána hann. Mig langaði til að helga nafn Jehóva og ég vildi að sonur minn fengi að hitta föður sinn á ný í paradís.“ – Orðskv. 27:11.

9 Svaraði Jehóva óeigingjörnum bænum þessarar systur? Já. Hún sótti samkomur reglulega og naut stuðnings umhyggjusamra trúsystkina. Fimm árum síðar giftist hún öldungi í söfnuðinum. Sonur hennar er nú orðinn tvítugur og er skírður bróðir. „Maðurinn minn hjálpaði mér að ala hann upp og ég er svo ánægð,“ segir hún.

10. Hvað þarf til að nafn Guðs helgist að fullu?

10 Hvað þarf Jehóva að gera til að helga nafn sitt og hreinsa það að fullu? Hann þarf að ryðja úr vegi öllum sem hafna drottinvaldi hans með þrjósku og þverúð. (Lestu Esekíel 38:22, 23.) Mennirnir verða smám saman fullkomnir. Við þráum að sá tími renni upp þegar allar vitibornar sköpunarverur Guðs sýna að nafn hans er heilagt í augum þeirra. Þá verður kærleiksríkur faðir okkar á himnum loksins „allt í öllu“. – 1. Kor. 15:28.

„TIL KOMI ÞITT RÍKI“

11, 12. Hvað skildu sannkristnir menn undir lok 19. aldar?

11 Postular Jesú spurðu hann áður en hann steig upp til himna: „Drottinn, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“ Af svari Jesú má sjá að það var ekki tímabært að þeir fengju að vita hvenær ríki Guðs tæki völd. Hann sagði lærisveinum sínum að einbeita sér að því mikilvæga verki að vitna um hann. (Lestu Postulasöguna 1:6-8.) Hann sagði þeim engu að síður að þeir ættu að hlakka til þess að ríki Guðs kæmi. Kristnir menn hafa því beðið þess að ríki Guðs komi, allt frá dögum postulanna.

12 Jehóva upplýsti þjóna sína um tímasetningar þegar styttist í að ríki hans í höndum Jesú tæki völd á himnum. Árið 1876 birtist grein eftir Charles Taze Russell í tímaritinu Bible Examiner. Greinin hét „Hvenær enda tímar heiðingjanna?“ og benti á að árið 1914 væri mjög þýðingarmikið. Í greininni voru „sjö tíðir“, sem nefndar eru í spádómsbók Daníels, settar í samband við ,tíma heiðingjanna‘ sem Jesús talaði um. * – Dan. 4:13; Lúk. 21:24.

13. Hvað gerðist árið 1914 og hvað hafa heimsatburðir síðan þá staðfest?

13 Árið 1914 braust út stríð milli þjóða í Evrópu, og það breiddist síðan  út um allan heim. Þegar því lauk árið 1918 hafði heimurinn mátt þola skelfilega hungursneyð, og inflúensufaraldur var skollinn á sem kostaði fleiri mannslíf en stríðið sjálft. Jesús hafði lýst hvernig hægt væri að sjá að hann væri kominn aftur sem nýr en ósýnilegur konungur jarðar, og þetta tákn var byrjað að koma fram. (Matt. 24:3-8; Lúk. 21:10, 11) Við höfum óyggjandi sannanir fyrir því að Drottni Jesú Kristi hafi verið „fengin kóróna“ árið 1914. Það ár fór hann út „sigrandi og til þess að sigra“. (Opinb. 6:2) Hann háði stríð á himni gegn Satan og illu öndunum, þeim var úthýst af himnum og varpað niður til jarðar. Þaðan í frá hefur mannkynið fundið fyrir því sem lýst er í þessum innblásnu orðum: „Vei sé jörðunni og hafinu því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð því að hann veit að hann hefur nauman tíma.“ – Opinb. 12:7-12.

14. (a) Hvers vegna er enn mikilvægt að biðja þess að ríki Guðs komi? (b) Hvað fáum við að gera?

14 Í spádóminum í Opinberunarbókinni 12:7-12 kemur fram hvers vegna stofnun Guðsríkis fór nokkurn veginn saman við upphaf þeirra hörmunga sem hafa hrjáð mannkynið allar götur síðan. Jesús, konungur Guðsríkis, tók að ríkja mitt á meðal óvina sinna. Við höldum áfram að biðja þess að ríki Guðs komi uns hann hefur unnið fullan sigur og bundið enda á illskuna á  jörðinni. En við þurfum líka að lifa í samræmi við bænir okkar með því að taka þátt í að uppfylla stórmerkilegan þátt þessa tákns. Jesús sagði í spádómi sínum: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ – Matt. 24:14.

„VERÐI ÞINN VILJI ... Á JÖRÐU“

15, 16. Hvernig getum við lifað í samræmi við þá bæn að vilji Guðs verði á jörð?

15 Vilji Guðs var gerður fullkomlega á jörðinni fyrir hér um bil 6.000 árum. Jehóva hafði búið mönnunum bestu skilyrði. Hann gat horft á handaverk sitt og sagt að það væri „harla gott“. (1. Mós. 1:31) Síðan gerði Satan uppreisn og þaðan í frá hafa tiltölulega fáir menn gert vilja Guðs á jörð. En núna eru uppi um átta milljónir votta sem bæði biðja til Guðs að vilji hans nái fram að ganga á jörð og leggja sig líka alla fram um að lifa í samræmi við bæn sína. Þeir gera það með líferni sínu en einnig með því að vera duglegir að gera fólk að lærisveinum.

Hjálparðu börnum þínum að lifa í samræmi við þá bæn að vilji Guðs verði á jörð? (Sjá 16. grein.)

16 Lítum á dæmi: Systir nokkur, sem var trúboði í Afríku og lét skírast árið 1948, segir: „Í samræmi við þessa beiðni í faðirvorinu bið ég þess oft að hægt sé að ná til allra réttsinnaðra manna og hjálpa þeim að kynnast Jehóva áður en það er um seinan. Og áður en ég vitna fyrir einhverjum bið ég um visku til að ná til hjarta hans. Ég bið þess sömuleiðis að Jehóva blessi viðleitni okkar til að annast auðmjúkt fólk sem við höfum fundið.“ Þessi áttræða systir sér góðan árangur af starfi sínu, og með stuðningi annarra hefur henni tekist að hjálpa mörgum að gerast vottar Jehóva. Þú veist eflaust af fleirum sem leggja sig í líma við að gera vilja Guðs þrátt fyrir þær hömlur sem fylgja ellinni. – Lestu Filippíbréfið 2:17.

17. Hvað finnst þér um það sem Jehóva á eftir að gera til að svara bæninni um að vilji hans verði á jörð?

17 Við höldum áfram að biðja þess að vilji Guðs nái fram að ganga uns óvinir ríkis hans verða horfnir af jörðinni. Þegar milljarðar manna verða reistir upp í paradís á jörð sjáum við vilja Guðs ná fram að ganga í enn ríkari mæli. „Undrist þetta ekki,“ sagði Jesús. „Sú stund kemur þegar allir þeir sem í gröfunum eru munu heyra raust [mína] og ganga fram.“ (Jóh. 5:28, 29) Það verður unaðslegt að vera á staðnum og taka á móti ástvinum okkar upprisnum frá dauðum. Guð mun „þerra hvert tár“ af augum okkar. (Opinb. 21:4) Flestir hinna upprisnu tilheyra hópi ,ranglátra‘ í þeim skilningi að þeir lifðu og dóu án þess að kynnast sannleikanum um Jehóva Guð og son hans. Það verður ánægjulegt verkefni að upplýsa þá um vilja Guðs og fyrirætlun, og hjálpa þeim að hljóta „hið eilífa líf“. – Post. 24:15; Jóh. 17:3.

18. Hverjar eru brýnustu þarfir mannkyns?

18 Friður og farsæld alheims eru undir því komin að nafn Jehóva helgist fyrir atbeina ríkis hans. Brýnustu þörfum mannkyns verður því fullnægt þegar fyrstu þrem beiðnunum í faðirvorinu verður svarað að fullu. En við höfum líka aðrar mikilvægar þarfir sem nefndar eru í fjórum öðrum beiðnum í bæninni sem Jesús kenndi. Rætt er um þær í næstu grein.

^ gr. 12 Á bls. 215-218 í bókinni Hvað kennir Biblían? er skýrt hvernig þessi spádómur rættist árið 1914 þegar ríki Messíasar var stofnað.