Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hann elskaði fólk

Hann elskaði fólk

,Ég hafði yndi mitt af mannanna börnum.‘ – ORÐSKV. 8:31, Biblían 1981.

1, 2. Hvernig hefur Jesús sannað að hann elskar mennina?

FYRSTI sonur Jehóva er elsta og skýrasta dæmið um óendanlega visku hans. Jesús var persónugervingur viskunnar og vann að sköpuninni við hlið föður síns. Við getum rétt ímyndað okkur hve ánægður hann var þegar faðir hans „gjörði himininn“ og „festi undirstöður jarðar“. En þótt Jesús hafi verið hrifinn af öllu sem Guð skapaði hafði hann mest ,yndi af mannanna börnum‘. (Orðskv. 8:22-31, Biblían 1981) Já, Jesú er innilega annt um mennina og hefur verið frá því að þeir urðu til.

2 Jesús sannaði kærleika sinn og hollustu við Jehóva og ást sína á „mannanna börnum“ þegar hann „svipti sig öllu“ og varð maður á jörð. Hann gerði það til að gefa „líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“. (Fil. 2:5-8; Matt. 20:28) Þetta var mikið kærleiksverk. Þegar Jesús var á jörð gaf Guð honum mátt til að vinna kraftaverk sem vitnuðu um hve annt honum var um fólk. Með þessu sýndi Jesús hve stórfenglegir atburðir verða bráðlega um alla jörð.

3. Hvað ætlum við nú að skoða?

 3 Að Jesús skyldi koma til jarðar gerði honum líka kleift að flytja „fagnaðarerindið um Guðs ríki“. (Lúk. 4:43) Hann vissi að þetta ríki ætti eftir að helga nafn föður síns og leysa að fullu öll vandamál mannkyns. Það kemur ekki á óvart að umhyggja hans fyrir mönnunum skuli koma skýrt í ljós í öllum frásögunum af boðunarferðum hans. Hvers vegna skiptir það okkur máli? Vegna þess að það sem hann gerði er traustvekjandi og veitir von fyrir framtíðina. Skoðum núna fjögur kraftaverk Jesú.

„KRAFTUR DROTTINS VAR MEÐ HONUM TIL AÐ LÆKNA“

4. Hvað gerðist þegar Jesús hitti holdsveikan mann?

4 Jesús var kominn vel af stað í boðuninni og var að starfa í Galíleu. Í einni af borgunum blasti við honum dapurleg sjón. (Mark. 1:39, 40) Maður með hræðilegan sjúkdóm, holdsveiki, stóð beint fyrir framan hann. Læknirinn Lúkas lýsir hve langt genginn sjúkdómurinn var og segir að maðurinn hafi verið „altekinn líkþrá“. (Lúk. 5:12) Hann „sá Jesú, féll fram fyrir honum og bað hann: ,Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig.‘“ Hann efaðist ekki um að Jesús hefði mátt til að lækna hann en hann þurfti að fá að vita hvort Jesús vildi gera það. Hvernig myndi Jesús svara innilegri bón hans? Hvað hugsaði Jesús þegar hann sá manninn sem var líklega afmyndaður vegna sjúkdómsins? Var hann kaldlyndur gagnvart holdsveikum eins og farísearnir? Hvað hefðir þú gert?

5. Hvers vegna sagði Jesús: „Ég vil,“ þegar hann læknaði holdsveika manninn?

5 Holdsveiki maðurinn hafði greinilega ekki kallað: „Óhreinn, óhreinn,“ eins og kveðið var á um í Móselögunum. Jesús minntist ekkert á það heldur einbeitti sér að manninum og þörfum hans. (3. Mós. 13:43-46) Við vitum ekki nákvæmlega hvað Jesús hugsaði. Við vitum hins vegar hvernig honum var innanbrjósts. Fullur meðaumkunar vann hann kraftaverk. Svo ótrúlegt sem það var rétti hann út höndina og snerti holdsveika manninn. Hann sagði með styrkri en blíðri röddu: „,Ég vil, verð þú hreinn!‘ Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin.“ (Lúk. 5:13) Kraftur Jehóva var greinilega með Jesú, ekki bara til að vinna slíkt kraftaverk heldur líka til að sýna hve annt honum var um fólk. – Lúk. 5:17.

6. Hvað er athyglisvert við kraftaverk Jesú og hvað sýna þau okkur fram á?

6 Með krafti Guðs gat Jesús Kristur unnið alls konar ótrúleg kraftaverk. Hann læknaði ekki bara holdsveika heldur einnig fólk með ýmsa aðra sjúkdóma og fatlanir. Í innblásinni frásögn Biblíunnar segir: „Fólkið undraðist þegar það sá mállausa mæla, fatlaða heila, halta ganga og blinda sjá.“ (Matt. 15:31) Jesús þurfti ekki líffæragjafir til að vinna slík miskunnarverk. Hann endurnýjaði hreinlega líffæri og líkamshluta fólks eftir þörfum. Og hann læknaði fólk á augabragði, jafnvel úr fjarlægð. (Jóh. 4:46-54) Hvað sýna þessi ótrúlegu kraftaverk? Að Jesús, sem nú er orðinn konungur á himnum, hefur ekki bara mátt til að lækna fólk fyrir fullt og allt. Hann þráir líka að gera það. Þegar við sjáum hvernig Jesús kom fram við fólk styrkir það trú okkar á að ,hann miskunni sig yfir bágstadda og snauða‘ í nýja heiminum eins og lofað er í Biblíunni. (Sálm. 72:13) Jesús gerir  þá það sem hjarta hans þráir og hjálpar öllum sem eiga um sárt að binda.

„STATT UPP, TAK REKKJU ÞÍNA OG GAKK!“

7, 8. Lýstu aðdraganda þess að Jesús hittir lamaðan mann við Betesdalaug.

7 Nokkrir mánuðir líða frá því að Jesús hittir holdsveika manninn í Galíleu. Hann heldur áfram þaðan til Júdeu til að boða fagnaðarerindið. Boðskapur hans og viðmót hljóta að hafa snortið þúsundir manna. Hann þráði greinilega að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða föngum lausn og græða þá sem höfðu sundurmarin hjörtu. – Jes. 61:1, 2; Lúk. 4:18-21.

8 Nú er kominn nísanmánuður. Jesús heldur sem leið liggur til Jerúsalem til að halda páska í samræmi við fyrirmæli föður síns. Mikið er um að vera í borginni og fólk streymir þangað til að halda þessa helgu hátíð. Rétt norðan við musterið er laug sem kölluð er Betesda og þar hittir Jesús fatlaðan mann.

9, 10. (a) Hvers vegna flykktist fólk til Betesdalaugarinnar? (b) Hvað gerði Jesús við laugina og hvað lærum við af því? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

9 Veikir og fatlaðir flykktust til Betesdalaugarinnar. Hvers vegna? Af einhverri óþekktri ástæðu trúðu þeir að sá sem steig ofan í vatnið þegar ókyrrð kom á það læknaðist fyrir kraftaverk. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig fólki hefur liðið. Það var áhyggjufullt, vondauft og örvæntingarfullt. En hver var ástæðan fyrir að Jesús kom þangað, hann sem var fullkominn og alheilbrigður? Fullur samúðar gekk hann til manns sem hafði verið lamaður lengur en Jesús hafði lifað á jörð. – Lestu Jóhannes 5:5-9.

10 Geturðu séð fyrir þér örvæntinguna í augum lamaða mannsins þegar Jesús spyr hann hvort hann vilji læknast? Svarið lét ekki á sér standa. Hann vildi læknast en sá ekki fram á að það gæti gerst þar sem hann hafði engan til að hjálpa sér ofan í laugina. Jesús sagði manninum þá að gera hið ómögulega – að taka rekkju sína og ganga. Maðurinn tók Jesú á orðinu, tók rekkju sína og fór að ganga. Hvílíkur forsmekkur af því sem Jesús ætlar að gera í nýja heiminum! Við sjáum líka af þessu kraftaverki hve umhugað Jesú var um fólk. Hann leitaði þá uppi sem voru hjálparþurfi. Fordæmi hans ætti að hvetja okkur til að halda áfram að leita að fólki á starfssvæði okkar sem er miður sín yfir öllum þeim hryllingi sem á sér stað í heiminum.

„HVER SNART KLÆÐI MÍN?“

11. Hvernig sýnir Markús 5:25-34 fram á að Jesús ber umhyggju fyrir sjúkum?

11 Lestu Markús 5:25-34. Í tólf ár hafði konan búið við mikla skömm. Sjúkdómurinn hafði áhrif á allt líf hennar, þar á meðal tilbeiðsluna. „Hún hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum [og] kostað til aleigu sinni“ en samt hafði henni bara versnað. Dag nokkurn ákvað hún að reyna nýja leið til að fá lækningu. Hún fór á stað þar sem hún vissi að hún gæti nálgast mann sem hét Jesús. Hún laumaði sér inn í mannþröngina og snerti klæði hans. (3. Mós. 15:19, 25) Jesús fann að kraftur hafði farið út frá honum og spurði hver hefði snert hann. Konan „kom hrædd og skjálfandi, féll til fóta honum og sagði honum allan sannleikann“. Jesús áttaði sig á að Jehóva, faðir hans,  hafði læknað konuna og sagði við hana með hlýju: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði og ver heil meina þinna.“

Jesús sýndi með kraftaverkum sínum að honum er innilega annt um okkur og stendur ekki á sama um vandamál okkar. (Sjá 11. og 12. grein.)

12. (a) Hvernig myndirðu lýsa Jesú miðað við það sem við höfum rætt? (b) Hvernig er Jesús okkur góð fyrirmynd?

12 Jesús er sannarlega góður. Honum var greinilega mjög umhugað um sjúka og þjáða. Satan vill telja okkur trú um að við séum einskis virði og að enginn elski okkur. En Jesús sýndi með kraftaverkum sínum að honum er mjög annt um okkur og stendur ekki á sama um erfiðleika okkar. Við eigum okkur konung og æðstaprest sem skilur okkur. (Hebr. 4:15) Við eigum kannski erfitt með að setja okkur í spor þeirra sem eiga við langvinnan sjúkdóm að glíma, sérstaklega ef við höfum aldrei kynnst því af eigin raun. En minnum okkur á að Jesús fann til með veikum þótt hann hefði aldrei verið veikur sjálfur. Við ættum að reyna að líkja eftir honum eftir bestu getu. – 1. Pét. 3:8.

JESÚS GRÉT

13. Hvað lærum við um Jesú af upprisu Lasarusar?

13 Jesús fann sárlega til með þjáðum. ,Hann komst við og varð djúpt hrærður‘ þegar hann sá hvernig vinir og ættingjar Lasarusar syrgðu. Þannig brást hann við þó að hann vissi að hann væri rétt í þann mund að reisa Lasarus upp. (Lestu Jóhannes 11:33-36.) Jesús skammaðist sín ekki fyrir að sýna sterkar tilfinningar. Fólk gat séð hvað honum þótti vænt um Lasarus og fjölskyldu hans. Hann sýndi ósvikna umhyggju með því að nota kraftinn frá Guði til  að vekja vin sinn aftur til lífs. – Jóh. 11:43, 44.

14, 15. (a) Hvað gefur til kynna að Jehóva þrái að útrýma þjáningum manna? (b) Hvers vegna er athyglisvert að Jesús talaði um minningargrafir?

14 Í Biblíunni er Jesú lýst þannig að hann sé lifandi eftirmynd Jehóva, föður síns. (Hebr. 1:3) Með kraftaverkum sínum sýndi hann fram á að hann og faðir hans þrá að útrýma sjúkdómum, sársauka og dauða. Þeir eiga því bráðlega eftir að reisa upp mikinn fjölda fólks. Jesús sagði: „Sú stund kemur þegar allir þeir sem í gröfunum eru munu ... ganga fram.“ – Jóh. 5:28, 29.

15 Jesús notaði hér orð sem merkir bókstaflega „minningargrafir“ og það er viðeigandi þar sem minni Guðs á í hlut. Almáttugur Guð, sem skapaði allan alheiminn, getur munað eftir látnum ástvinum okkar í smáatriðum, meðal annars meðfæddum eiginleikum og þeim sem þeir hafa tileinkað sér. (Jes. 40:26) Jehóva bæði getur og vill muna eftir þeim og hið sama er að segja um son hans. Upprisa Lasarusar og annarra sem sagt er frá í Biblíunni vitna um það sem á eftir að gerast um alla jörð í nýja heiminum.

KRAFTAVERK JESÚ SNERTA ÞIG

16. Hvaða tækifæri fá margir þeirra sem þjóna Guði trúfastlega núna?

16 Ef við erum Guði trú getur vel verið að við fáum að sjá eitt mesta kraftaverk sögunnar – það kraftaverk að lifa af þrenginguna miklu. Fljótlega eftir Harmagedón verða enn fleiri kraftaverk, þannig að allir verða fullkomlega heilsuhraustir. (Jes. 33:24; 35:5, 6; Opinb. 21:4) Ímyndaðu þér hvernig það verður þegar fólk hendir gleraugum og göngustöfum, hækjum, hjólastólum, heyrnartækjum og þvíumlíku. Það er rík ástæða fyrir því að Jehóva gefur þeim góða heilsu sem lifa af Harmagedón. Þeir hafa verk að vinna. Fullir ákafa eiga þeir eftir að breyta jörðinni, þessari gjöf Guðs, í eina samfellda paradís. – Sálm. 115:16.

17, 18. (a) Hver var greinilega aðalástæðan fyrir kraftaverkum Jesú? (b) Hvers vegna ættum við að gera hvaðeina sem þarf til að fá að ganga inn í nýjan heim Guðs?

17 Það er uppörvandi fyrir ,múginn mikla‘ að lesa frásögur af því þegar Jesús læknaði sjúka. (Opinb. 7:9) Það styrkir þá yndislegu von þeirra að læknast af öllum meinum í framtíðinni. Þessi kraftaverk sýna hve annt frumgetnum syni Guðs er um mennina. (Jóh. 10:11; 15:12, 13) Umhyggja Jesú dregur upp hjartnæma mynd af því hve Jehóva lætur sér annt um hvern einasta þjón sinn. – Jóh. 5:19.

18 Mannkynið stynur, er sárþjáð og deyjandi. (Rómv. 8:22) Við þurfum á nýjum heimi Guðs að halda þar sem allir læknast fullkomlega eins og hann hefur lofað. Í Malakí 3:20 er hnykkt á þessu loforði og sagt að þeir sem læknast muni „stökkva eins og kálfar“, spenntir og kátir yfir að hafa losnað úr fjötrum ófullkomleikans. Við skulum vera Guði innilega þakklát og hafa sterka trú á loforð hans. Það ætti að hvetja okkur til að gera hvaðeina sem þarf til að fá að ganga inn í nýja heiminn. Það er hughreystandi til þess að vita að kraftaverk Jesú á jörðinni voru forsmekkur af þeirri varanlegu lækningu sem mannkynið hlýtur bráðlega undir stjórn hans.