Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þolgæðis hafið þið þörf“

„Þolgæðis hafið þið þörf“

ÞEGAR Anita * lét skírast sem vottur Jehóva snerist maðurinn hennar heiftarlega gegn trúnni. „Hann sá til þess að ég kæmist ekki á samkomur og bannaði mér meira að segja að nefna Guð á nafn,“ segir hún. „Bara við það að heyra nafnið Jehóva varð hann alveg brjálaður.“

Annað sem var mjög erfitt fyrir Anitu var að fræða börnin sín um Jehóva. „Það var bannað að tilbiðja Jehóva á mínu eigin heimili. Ég gat hvorki kennt börnunum mínum svo að maðurinn minn vissi til né farið með þau á samkomur.“

Andstaða frá fjölskyldunni getur reynt verulega á trúfesti þjóna Jehóva eins og aðstæður Anitu sýna fram á. Hið sama má segja um langvarandi veikindi, að missa barn eða maka eða að vera Jehóva trúr þegar náinn ættingi snýr baki við honum. Hvað getur þá hjálpað þjóni Jehóva að vera honum trúfastur?

Hvað myndir þú gera við slíkar aðstæður? Páll postuli sagði: „Þolgæðis hafið þið þörf.“ (Hebr. 10:36) En hvað getur hjálpað þér að sýna þolgæði og halda út?

BIÐJUM TIL JEHÓVA OG TREYSTUM Á HANN

Ein helsta leiðin til að fá styrk til að halda út í erfiðleikum er að biðja til Jehóva og treysta á hjálp hans. Lítum á dæmi. Ana varð fyrir miklu áfalli þegar eiginmaður hennar dó skyndilega eftir 30 ára hjónaband. „Hann fór í vinnuna einn daginn og kom aldrei heim aftur,“ segir Ana. „Hann var bara 52 ára.“

Hvernig tókst Ana á við missinn? Hún þurfti að fara aftur að vinna og það hjálpaði henni því að vinnan krafðist fullrar athygli, en sársaukinn var þó enn til staðar. Hún segir: „Ég úthellti hjarta mínu í bæn til Jehóva og bað hann að hjálpa mér að takast á við þennan sára missi.“ Svaraði Jehóva bænum hennar? Hún er sannfærð um það og segir: „Friðurinn, sem bara Guð getur veitt, færði mér ró og bjargaði geðheilsu minni. Og ég er fullviss um að ég fái að sjá eiginmann minn aftur í upprisunni.“ – Fil. 4:6, 7.

,Sá sem heyrir bænir‘ hefur lofað að sjá þjónum sínum fyrir öllu sem þeir þurfa til að geta verið honum trúir. (Sálm. 65:3) Finnst þér þetta loforð ekki trústyrkjandi? Sýnir það þér ekki fram á hvernig þú getur líka haldið út?

SAMKOMURNAR VEITA OKKUR STUÐNING

Jehóva veitir fólki sínu stuðning fyrir atbeina kristna safnaðarins. Á tímabili, þegar söfnuðurinn í Þessaloníku var ofsóttur grimmilega, skrifaði Páll trúsystkinum sínum þar: „Hvetjið ... og uppbyggið hvert annað, eins og þið og gerið.“ (1. Þess. 2:14; 5:11) Með því að styrkja kærleiksböndin og styðja hvert annað gátu kristnir menn í Þessaloníku haldið út í þessum prófraunum. Þeir gáfu okkur gott fordæmi með þolgæði sínu. Hvað getum við gert til að líkja eftir þeim?

Ef við eflum vináttuböndin við trúsystkini okkar eigum við auðveldara með að hvetja hvert annað. (Rómv. 14:19) Það er sérstaklega mikilvægt á erfiðum tímum. Páll upplifði sjálfur miklar raunir og Jehóva styrkti hann svo að hann gæti haldið út. Stundum notaði Jehóva trúsystkini Páls til að styrkja hann og uppörva. Páll sagði um nokkra safnaðarmenn í Kólossu þegar hann sendi kveðjur til þeirra: ,Þeir hafa verið mér styrkur.‘ (Kól. 4:10, 11) Já, þessir bræður elskuðu Pál og þess vegna hughreystu þeir hann og styrktu þegar hann þurfti á því að halda. Ef til vill hefurðu fundið fyrir svipaðri hvatningu og stuðningi frá trúsystkinum í söfnuðinum þínum.

 STUÐNINGUR ÖLDUNGA

Annað sem Guð hefur séð okkur fyrir í söfnuðinum eru öldungarnir. Þessir reyndu bræður veita okkur mikinn stuðning og geta verið eins og „hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum eins og vatnslækir í þurrlendi, skuggi af háum hamri í skrælnuðu landi“. (Jes. 32:2) Þetta vekur sannarlega með okkur traust. Hefurðu nýtt þér þessa kærleiksríku ráðstöfun? Hvatning og stuðningur öldunganna getur hjálpað þér að vera þolgóður og halda út.

Öldungarnir eru auðvitað engir kraftaverkamenn. Þeir eru ófullkomnir og með sömu veikleika og við hin. (Post. 14:15) Stuðningur þeirra getur samt gert mikið fyrir okkur. (Jak. 5:14, 15) Bróðir á Ítalíu hefur glímt við vöðvarýrnunarsjúkdóm í mörg ár. Hann segir: „Bræðurnir hafa sýnt mér kærleika og umhyggju og þeir heimsækja mig oft, og það hefur hjálpað mér að vera þolgóður.“ Leitar þú til öldunganna þegar eitthvað bjátar á? Jehóva vill að þú nýtir þér þessa ráðstöfun.

VERUM MEÐ FASTA ANDLEGA DAGSKRÁ

Enn eitt sem við getum gert til að halda út er að vera með fasta andlega dagskrá. Skoðum hvað John segir en hann greindist með sjaldgæfa tegund krabbameins aðeins 39 ára að aldri. „Mér fannst eins og lífið hefði svikið mig, ég var svo ungur.“ Sonur Johns var bara þriggja ára. „Þetta þýddi að konan mín varð bæði að hugsa um son okkar og um mig,“ segir hann. „Auk þess þurfti hún að hjálpa mér að komast í meðferðirnar og allar læknisheimsóknir.“ Eftir lyfjameðferð var John sífellt þreyttur og með slæma ógleði. Og ofan á allt annað fékk faðir Johns banvænan sjúkdóm og þurfti á aðstoð fjölskyldunnar að halda.

Hvernig tókust John og fjölskylda hans á við þessar erfiðu aðstæður? „Þó að ég væri úrvinda af þreytu sá ég til þess að fjölskyldan hefði fasta andlega dagskrá,“ segir hann. „Við mættum á allar samkomur, boðuðum trúna í hverri viku og tókum okkur tíma fyrir tilbeiðslustund fjölskyldunnar þó að það reyndi stundum töluvert á.“ John sá hve mikilvægt það er að halda góðu sambandi við Jehóva til að geta verið þolgóður. Hvaða ráð gefur hann öðrum sem eru að takast á við erfiðleika? Hann segir: „Þegar mesta áfallið líður hjá finnur maður fyrir kærleika og styrk frá Jehóva og það ýtir nagandi áhyggjum úr vegi. Jehóva getur veitt þér styrk rétt eins og hann veitti mér.“

Við megum vera þess fullviss að með hjálp Guðs getum við haldið út og verið þolgóð í erfiðleikum sem verða á vegi okkar, bæði núna og í framtíðinni. Biðjum til Jehóva og treystum á hann, styrkjum vináttuböndin við trúsystkini okkar, nýtum okkur stuðning öldunganna og verum með fasta andlega dagskrá. Ef við gerum þetta sýnum við að við tökum til okkar orð Páls: „Þolgæðis hafið þið þörf.“

^ gr. 2 Sumum nöfnum er breytt.