Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu á verði – Satan vill tortíma þér

Vertu á verði – Satan vill tortíma þér

„Vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt.“ – 1. PÉT. 5:8.

1. Hvernig varð Satan til?

EINU SINNI átti hann gott samband við Jehóva. En svo gerðist það einhvern tíma að þennan volduga anda fór að langa í tilbeiðslu mannanna. Í stað þess að ýta þessari óviðeigandi löngun frá sér gældi hann við hana og leyfði henni að vaxa, og það varð til þess að hann syndgaði að lokum. (Jak. 1:14, 15) Við þekkjum þessa andaveru sem Satan. Hann „var ekki staðfastur í sannleikanum“ heldur gerði uppreisn gegn Jehóva og varð „lyginnar faðir“. – Jóh. 8:44, Biblían 1859.

2, 3. Hvað segja heitin Satan, djöfull, höggormur og dreki um erkióvin Jehóva?

2 Síðan Satan gerði uppreisn hefur hann reynst versti óvinur Jehóva og hann er sannarlega enginn vinur mannanna heldur. Heitin, sem Satan eru gefin, bera með sér hve spilltur hann er. Satan merkir „andstæðingur“ og það gefur til kynna að þessi illa andavera styðji ekki drottinvald Guðs. Hann hatar það og berst hatrammlega gegn því. Satan þráir ekkert heitar en að sjá Jehóva missa drottinvald sitt.

3 Eins og fram kemur í Opinberunarbókinni 12:9 er Satan kallaður djöfull en það merkir „rógberi“. Það minnir á hvernig hann hefur rægt Jehóva með því að kalla hann lygara. Heitið  ,hinn gamli höggormur‘ kallar fram í hugann sorgardaginn í Eden þegar Satan notaði höggorm til að blekkja Evu. Heitið ,drekinn mikli‘ vekur hjá okkur hugmynd um ógurlegt skrímsli. Það lýsir vel dýrslegri löngun Satans til að hindra að vilji Jehóva nái fram að ganga og til að tortíma þjónum hans.

4. Um hvað er rætt í þessari grein?

4 Það er greinilegt að okkur sem viljum vera ráðvönd Guði stafar mikil hætta af Satan. Það er því ærin ástæða fyrir því að Biblían hvetur okkur: „Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt.“ (1. Pét. 5:8) Með þessa viðvörun að leiðarljósi er rætt um þrjú einkenni Satans í þessari grein. Þau undirstrika hve mikilvægt það er að vera á verði gegn þessum samviskulausa óvini Jehóva og þjóna hans.

SATAN ER ÖFLUGUR

5, 6. (a) Nefndu dæmi sem sýna að andaverur eru ,voldugar hetjur‘. (b) Í hvaða skilningi hefur Satan „mátt dauðans“?

5 Englar eru sagðir vera ,voldugar hetjur‘. (Sálm. 103:20) Þeir eru æðri en mennirnir og eru því bæði gáfaðri og sterkari en þeir. Englar, sem eru trúir Guði, nota auðvitað mátt sinn til góðs. Einu sinni felldi engill Jehóva 185.000 assýrska hermenn sem ógnuðu þjóð hans. Það hefði verið ógerlegt fyrir einn mann og erfitt fyrir heilan her. (2. Kon. 19:35) Öðru sinni beitti engill ofurmannlegum mætti sínum og hugviti til að leysa postula Jesú úr fangelsi. Þessari andaveru tókst að fara í kringum allar öryggisráðstafanir, opna læstar dyr, hleypa postulunum út og læsa síðan á eftir þeim – án þess að nærstaddir verðir yrðu þess varir. – Post. 5:18-23.

6 Andaverur, sem eru trúar Guði, nota mátt sinn til góðs en Satan notar mátt sinn til ills, og hann er bæði öflugur og áhrifamikill. Í Biblíunni er hann kallaður ,höfðingi þessa heims‘ og „guð þessarar aldar“. (Jóh. 12:31; 2. Kor. 4:4) Satan djöfullinn hefur meira að segja „mátt dauðans“. (Hebr. 2:14) Það merkir ekki að hann drepi alla með beinum hætti. Heimurinn er hins vegar gegnsýrður sömu grimmdinni og hann. Og því má bæta við að synd og dauði hafa náð til allra manna vegna þess að Eva trúði lygum Satans og Adam óhlýðnaðist Guði. (Rómv. 5:12) Í þeim skilningi hefur Satan haft „mátt dauðans“. Hann er „manndrápari“ eins og Jesús kallaði hann. (Jóh. 8:44) Satan er svo sannarlega öflugur óvinur.

7. Hvernig hafa illu andarnir sýnt að þeir eru mjög öflugir?

7 Með því að standa gegn Satan tökum við bæði afstöðu gegn honum og öllum sem standa hans megin í deilunni um æðsta vald yfir alheiminum. Þeirra á meðal er nokkuð stór hópur illra anda, það er að segja andavera sem gerðu líka uppreisn gegn Guði. (Opinb. 12:3, 4) Illu andarnir hafa æ ofan í æ sýnt að þeir búa yfir ofurmannlegum mætti og hafa oft valdið fólki miklum þjáningum. (Matt. 8:28-32; Mark. 5:1-5) Við skulum aldrei vanmeta áhrif þessara illu engla eða höfðingja þeirra. (Matt. 9:34) Án hjálpar Jehóva gætum við aldrei haldið velli í baráttunni gegn Satan.

SATAN ER GRIMMUR

8. (a) Hvert er markmið Satans? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvernig endurspeglar heimurinn grimmd Satans að þínu mati?

8 Pétur postuli líkir Satan við „öskrandi ljón“. Gríska orðið, sem er þýtt  „öskrandi“, merkir „ýlfur í skepnu sem er tryllt af hungri“, að sögn heimildarrits. Það lýsir vel hve grimmur Satan er. Allur heimurinn er nú þegar á hans valdi en hann hungrar samt í fleiri fórnarlömb. (1. Jóh. 5:19) Heimurinn er bara eins og „forréttur“ í augum hans. Það má segja að hann hafi snúið sér að „aðalréttinum“, að þeim sem eru eftir af hinum andasmurðu og ,öðrum sauðum‘ sem eru félagar þeirra. (Jóh. 10:16; Opinb. 12:17) Satan er staðráðinn í að rífa þjóna Jehóva í sig. Ofsóknirnar, sem fylgjendur Jesú hafa mátt þola allt frá fyrstu öld, vitna um grimmd hans.

9, 10. (a) Hvernig reyndi Satan að hindra að vilji Jehóva með Ísraelsmenn næði fram að ganga? (Nefndu dæmi.) (b) Hvers vegna hafði Satan sérstaka ástæðu til að beina spjótum sínum að Ísrael? (c) Hvernig heldurðu að Satan líði þegar einhver af þjónum Jehóva nú á dögum syndgar alvarlega?

9 Grimmd Satans birtist á ýmsa vegu þegar hann reynir að hindra að vilji Guðs nái fram að ganga. Hungrað ljón hefur enga samúð með fórnarlömbum sínum. Það finnur ekki fyrir neinni meðaumkun áður en það drepur og hefur ekkert samviskubit á eftir. Satan hefur enga meðaumkun með þeim sem hann reynir að rífa í sig. Hugsaðu til þess hve oft Satan djöfullinn hlýtur að hafa legið í leyni þegar Ísraelsmenn féllu í freistni og gerðust sekir um kynferðislegt siðleysi eða græðgi. „Sérðu“ öskrandi ljónið gæða sér á bráð sinni þegar þú lest um siðleysi Simrí eða græðgi Gehasí og sorgleg örlög þeirra beggja? – 4. Mós. 25:6-8, 14, 15; 2. Kon. 5:20-27.

Satan gleðst þegar einhver þjónn Jehóva syndgar. (Sjá 10. grein.)

10 Satan hafði sérstakt tilefni til að beina spjótum sínum að Ísrael til forna. Messías átti einmitt að koma af þessari þjóð, og það var hann sem átti að gera út af við Satan og réttlæta drottinvald Jehóva. (1. Mós. 3:15) Satan vildi ekki að þjóðin dafnaði og sveifst einskis til að reyna að fá hana til að syndga og spillast. Láttu þér ekki detta í hug að Satan hafi vorkennt Davíð þegar hann drýgði hór eða hafi haft nokkra samúð með Móse þegar hann fékk ekki að fara  inn í fyrirheitna landið. Satan gleðst örugglega þegar einhver af þjónum Guðs syndgar alvarlega. Það er ekki ósennilegt að hann noti einmitt sigra af því tagi til að smána Jehóva. – Orðskv. 27:11.

11. Hvaða ástæðu gæti Satan hafa haft til að beina spjótum sínum að Söru?

11 Satan hafði sérstakt hatur á ættinni sem Messías átti að koma af. Tökum sem dæmi hvað gerðist skömmu eftir að Abraham fékk að vita að hann ætti að verða að „mikilli þjóð“. (1. Mós. 12:1-3) Meðan Abraham og Sara voru í Egyptalandi lét faraó sækja Söru og tók hana inn á heimili sitt. Hann ætlaði greinilega að taka hana sér fyrir konu og það ógnaði góðu siðferði hennar. En Jehóva skarst í leikinn og bjargaði henni. (Lestu 1. Mósebók 12:14-20.) Svipað atvik átti sér stað í Gerar, skömmu áður en Ísak fæddist. (1. Mós. 20:1-7) Hafði Satan hönd í bagga þegar þetta gerðist? Vonaðist hann til að Sara léti tælast af íburðarmiklum höllum faraós og Abímeleks, hún sem hafði yfirgefið velmegunina í Úr og bjó nú í tjöldum? Hélt Satan að Sara myndi svíkja eiginmann sinn – og Jehóva – og drýgja hór með því að verða eiginkona annars hvors þeirra? Það er ósagt látið í Biblíunni en við höfum fulla ástæðu til að ætla að það hefði glatt Satan ef Sara hefði orðið óhæf til að eignast fyrirheitna niðjann. Satan hefði ekki haft neina sektarkennd þó að þessi ágæta kona hefði fyrirgert hjónabandi sínu, mannorði og sambandi við Jehóva. Satan er grimmur!

12, 13. (a) Hvernig birtist grimmd Satans eftir að Jesús fæddist? (b) Hvað heldurðu að Satan finnist um börn sem elska Jehóva og þjóna honum nú á dögum?

12 Jesús fæddist löngu eftir að Abraham var uppi. Þú skalt ekki ímynda þér að Satan hafi fundist hann vera fallegt eða krúttlegt lítið barn. Nei, Satan vissi að þetta kornabarn var hinn tilvonandi Messías. Jesús var mikilvægasti niðji Abrahams og átti að „brjóta niður verk djöfulsins“. (1. Jóh. 3:8) Ætli Satan hafi hugsað sem svo að það væri nú einum of langt gengið að drepa smábarn? Nei, Satan á sér engar siðareglur. Og hann beið ekki boðanna að ráðast á barnið. Hvernig?

13 Heródesi konungi brá illilega í brún þegar stjörnuspekingar spurðu um ,hinn nýfædda konung Gyðinga‘ og hann einsetti sér að myrða hann. (Matt. 2:1-3, 13) Til að barnið kæmist örugglega ekki undan fyrirskipaði hann að allir drengir tveggja ára og yngri í Betlehem og nágrenni skyldu myrtir. (Lestu Matteus 2:13-18.) Jesús komst undan í þessu ægilega blóðbaði en hvað segir þetta okkur um óvininn Satan? Það er deginum ljósara að hann metur mannslífið einskis. Og hann ber ekki minnstu tilfinningar til barna. Satan er sannarlega „öskrandi ljón“. Þú skalt aldrei vanmeta hve grimmur og illskeyttur hann er.

SATAN BLEKKIR

14, 15. Hvernig hefur Satan „blindað huga vantrúaðra“?

14 Satan þarf að beita blekkingum til að snúa fólki gegn Jehóva, Guði kærleikans. (1. Jóh. 4:8) Með blekkingum kemur hann í veg fyrir að fólk ,skynji andlega þörf sína‘. (Matt. 5:3, NW) Þannig hefur hann „blindað huga vantrúaðra til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans sem er mynd Guðs“. – 2. Kor. 4:4.

15 Einhver áhrifamesta blekking Satans er falstrúarbrögðin. Jehóva „krefst  óskiptrar hollustu“ og Satan hlýtur því að njóta þess að sjá fólk tilbiðja forfeður sína, náttúruna eða dýrin – hvern sem er eða hvað sem er annað en Jehóva. (2. Mós. 20:5, NW) Margir sem halda sig tilbiðja Guð á réttan hátt eru samt í fjötrum falstrúar og gagnslausra helgisiða. Þeir eru í átakanlegri aðstöðu, ekki ósvipaðri og fólkið sem Jehóva ávarpaði í bænartón: „Hvers vegna reiðið þér fram silfur fyrir það sem ekki er brauð og laun erfiðis yðar fyrir það sem ekki seður? Hlýðið á mig, þá fáið þér hina bestu fæðu og endurnærist af feitmeti.“ – Jes. 55:2.

16, 17. (a) Hvers vegna sagði Jesús Pétri: „Vík frá mér, Satan“? (b) Hvernig reynir Satan að fá okkur til að slaka á verðinum?

16 Satan getur jafnvel blekkt kappsama þjóna Jehóva. Lítum á dæmi: Jesús sagði lærisveinum sínum að hann yrði bráðlega tekinn af lífi. Pétri gekk ábyggilega gott eitt til þegar hann fór með Jesú afsíðis og sagði: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús svaraði Pétri með festu: „Vík frá mér, Satan.“ (Matt. 16:22, 23) Hvers vegna skyldi Jesús hafa kallað Pétur „Satan“? Vegna þess að Jesús skildi hvað var í vændum. Þess var stutt að bíða að hann myndi deyja sem lausnarfórn og sanna að djöfullinn væri lygari. Jesús mátti ekki hlífa sjálfum sér á þessum miklu tímamótum í sögu mannkyns. En Satan hefði gjarnan viljað að hann slakaði á verðinum einmitt á þessari stundu.

17 Við lifum líka á mjög sérstökum tímum því að þessi heimur er í þann mund að líða undir lok. Satan vill að við slökum á verðinum, hlífum okkur, komum okkur vel fyrir í þessum heimi og missum sjónar á því hvað tímanum líður. Láttu það ekki henda þig. Haltu vöku þinni. (Matt. 24:42) Trúðu ekki þeim blekkingaráróðri Satans að endirinn sé víðs fjarri – eða komi aldrei.

18, 19. (a) Hvernig vill Satan að við hugsum um sjálf okkur? (b) Hvernig hjálpar Jehóva okkur að vera á varðbergi og halda vöku okkar?

18 Satan reynir að blekkja okkur á annan hátt. Hann vill telja okkur trú um að Guð geti ekki elskað okkur og að syndir okkar séu ófyrirgefanlegar. Þetta er enn ein af blekkingum Satans. Hver er það eiginlega sem Jehóva getur alls ekki elskað? Það er Satan. Hverjum getur hann alls ekki fyrirgefið? Það er líka Satan. Í Biblíunni segir hins vegar: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum.“ (Hebr. 6:10) Jehóva kann að meta viðleitni okkar til að þóknast sér og þjónusta okkar er ekki til einskis. (Lestu 1. Korintubréf 15:58.) Látum aldrei blekkjast af villandi áróðri Satans.

19 Satan er öflugur, grimmur og mikill blekkingameistari eins og við höfum séð. Hvernig getum við sigrað í baráttunni við þennan ógnvekjandi óvin? Við erum ekki varnarlaus. Í Biblíunni fræðir Jehóva okkur um aðferðir Satans svo að okkur er „ekki ... ókunnugt um vélráð hans“. (2. Kor. 2:11) Þegar við skiljum hvaða aðferðum Satan beitir erum við í miklu betri aðstöðu til að vera á varðbergi og halda vöku okkar. En það er ekki nóg að þekkja bara aðferðir Satans. Í Biblíunni segir: „Standið gegn djöflinum og þá mun hann flýja ykkur.“ (Jak. 4:7) Í greininni á eftir er rætt um þrjú svið þar sem við getum barist gegn Satan og sigrað.