Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þau „sáu“ það sem Guð hafði lofað

Þau „sáu“ það sem Guð hafði lofað

„Allir þessir menn dóu í trú án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar.“ – HEBR. 11:13.

1. Hvernig er það okkur til góðs að geta séð fyrir okkur óorðna hluti? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

GUÐ hefur gefið okkur þann hæfileika að geta séð fyrir okkur hluti sem eru ekki enn orðnir að veruleika. Það gerir okkur kleift að hlakka til framtíðar og gera viturlegar áætlanir. Jehóva getur séð framtíðina fyrir og í Biblíunni segir hann oft fyrir fram hvað eigi eftir að gerast. Þannig getum við gert okkur það í hugarlund. Hæfileikinn að sjá fyrir sér óorðna hluti hjálpar okkur að trúa. – 2. Kor. 4:18.

2, 3. (a) Hvers vegna skiptir máli að það sem við sjáum fyrir okkur eigi sér stoð í veruleikanum? (b) Um hvaða spurningar er rætt í þessari grein?

2 Það er ekki alltaf sem huglægar myndir okkar tengjast veruleikanum. Lítil stelpa ímyndar sér að hún fljúgi um á baki fiðrildis en það eru auðvitað hreinir hugarórar. Þegar Hanna ímyndaði sér hvernig það yrði að fara með Samúel, son sinn, til að þjóna við tjaldbúðina hafði hún hins vegar góðan grundvöll fyrir því sem hún sá fyrir sér. Það byggðist á því sem hún hafði ákveðið að gera og þetta hjálpaði henni að hafa markmiðið skýrt í huga. (1. Sam. 1:22) Ef við sjáum fyrir okkur það sem Guð hefur lofað erum við með hugann  við hluti sem eiga eftir að gerast fyrir víst. – 2. Pét. 1:19-21.

3 Við getum verið viss um að margir þjónar Guðs til forna gerðu sér huglægar myndir af því sem Guð hafði lofað. Hvernig hjálpaði það þeim að sjá fyrir sér komandi gæði? Og hvernig getur það verið okkur til góðs að hugsa um þá yndislegu framtíð sem Guð hefur lofað hlýðnum mönnum?

ÞAÐ STYRKTI ÞÁ AÐ „SJÁ“ ÞAÐ SEM ÞEIR VONUÐU

4. Hvaða grundvöll hafði Abel fyrir því að horfa fram í tímann?

4 Gat Abel, fyrsti trúfasti maðurinn, „séð“ eitthvað sem Jehóva hafði lofað? Það er ekki víst að Abel hafi vitað hvernig Jehóva ætlaði að uppfylla loforðið sem fólst í því sem hann sagði við höggorminn. Jehóva hafði sagt: „Ég set fjandskap milli þín og konunnar og milli þíns niðja og hennar niðja. Hann skal merja höfuð þitt og þú skalt höggva hann í hælinn.“ (1. Mós. 3:14, 15) En Abel hugsaði örugglega mikið um þetta loforð og gerði sér grein fyrir að einhver yrði ,höggvinn í hælinn‘ svo að mennirnir gætu orðið fullkomnir, eins og Adam og Eva voru áður en þau syndguðu. Hvað svo sem Abel sá fyrir sér gerast í framtíðinni hafði hann trú sem byggðist á loforðum Guðs og Guð viðurkenndi því fórn hans. – Lestu 1. Mósebók 4:3-5; Hebreabréfið 11:4.

5. Hvernig ætli það hafi verið Enok til hvatningar að sjá fyrir sér ókomna tíma?

5 Enok var Jehóva trúr þó að hann ætti í höggi við óguðlegt fólk sem lastmælti Jehóva. Enok var innblásið að spá að Jehóva myndi koma „með sínum þúsundum heilagra til að halda dóm yfir öllum, og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk sem þeir hafa drýgt og um öll þau hörðu orð sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum“. (Júd. 14, 15) Enok trúði á Jehóva og því gæti hann hafa séð fyrir sér heim þar sem guðleysi yrði liðin tíð. – Lestu Hebreabréfið 11:5, 6.

6. Hvaða von varðveitti Nói eftir flóðið?

6 Nói lifði flóðið af þar sem hann trúði Guði. (Hebr. 11:7) Eftir flóðið færði hann einnig dýrafórnir vegna trúar sinnar. (1. Mós. 8:20) Vafalaust trúði hann, líkt og Abel, að mennirnir yrðu að lokum leystir úr fjötrum syndar og dauða. Nói varðveitti trúna og vonina jafnvel á þeim myrka tíma eftir flóðið þegar Nimrod tók völd, en hann var mikill andstæðingur Jehóva. (1. Mós. 10:8-12) Líklega fannst Nóa mjög hughreystandi að hugsa til þess þegar mennirnir losna undan kúgun, erfðarsynd og dauða. Við getum líka „séð“ þessa yndislegu tíma – og þeirra er skammt að bíða. – Rómv. 6:23.

ÞAU „SÁU“ LOFORÐIN UPPFYLLT

7. Hvers konar framtíð má ætla að Abraham, Ísak og Jakob hafi „séð“?

7 Abraham, Ísak og Jakob gátu séð fyrir sér stórfenglega framtíð af því að Guð hafði lofað að allar þjóðir myndu hljóta blessun vegna afkomenda þeirra. (1. Mós. 22:18; 26:4; 28:14) Niðjar þessara ættfeðra áttu að verða fjöldamargir og búa í landinu sem Guð lofaði að gefa þeim. (1. Mós. 15:5-7) Vegna trúar sinnar gátu þessir guðhræddu menn „séð“ afkomendur sína búa í landinu. Allt frá því að mennirnir urðu ófullkomnir hefur Jehóva reyndar fullvissað trúa þjóna sína um að blessunin, sem Adam glataði, væri ekki horfin fyrir fullt og allt.

8. Hvers vegna gat Abraham sýnt einstaka trú?

 8 Abraham vann einstök verk vegna trúar sinnar. Líklegt er að hann hafi verið fær um það vegna þess að hann gat séð fyrir sér það sem Guð hafði lofað. Í Biblíunni er bent á að Abraham og aðrir trúir þjónar Guðs hafi ,dáið í trú án þess að hafa öðlast fyrirheitin‘. Þeir hafi hins vegar ,séð þau álengdar og fagnað þeim‘. (Lestu Hebreabréfið 11:8-13.) Abraham hafði sterk rök fyrir því að það sem hann vonaðist eftir væri raunverulegt. Það var eins og hann gæti séð hluti sem ekki var hægt að sjá.

9. Hvernig var það Abraham til góðs að trúa á loforð Guðs?

9 Abraham trúði á loforð Guðs og það styrkti hann í þeim ásetningi að gera vilja hans. Vegna trúar sinnar fór hann burt frá borginni Úr og vildi ekki setjast að í neinni af borgum Kanaanslands. Þessar borgir stóðu á veikum grunni af því að stjórnendur þeirra voru guðlausir, rétt eins og stjórnendur borgarinnar Úr. (Jós. 24:2) Abraham lifði langa ævi og vænti alla tíð „þeirrar borgar sem hefur traustan grunn, þeirrar sem Guð hannaði og reisti“. (Hebr. 11:10) Abraham „sá“ sjálfan sig eiga fasta búsetu á stað þar sem Jehóva færi með völdin. Abel, Enok, Nói, Abraham og fleiri trúðu á upprisuvonina og hlökkuðu til þess að lifa á jörðinni í ríki Guðs, í ,borginni sem hefur traustan grunn‘. Það efldi trú þeirra á Jehóva að hugleiða þessi loforð. – Lestu Hebreabréfið 11:15, 16.

10. Hvernig hefur framtíðarsýn Söru eflaust verið henni til góðs?

10 Hugsum líka um Söru, eiginkonu Abrahams. Jákvæð framtíðarsýn gerði henni kleift að sýna trú í verki þó að hún væri barnlaus og orðin níræð. Það var eins og hún sæi afkomendur sína njóta þeirrar blessunar sem Jehóva hafði lofað. (Hebr. 11:11, 12) Hvers vegna gat hún gert sér þessar vonir? Jehóva hafði sagt eiginmanni hennar: „Ég mun blessa hana og hún skal verða ættmóðir þjóða. Þjóðkonungar munu af henni koma.“ (1. Mós. 17:16) Eftir að Sara eignaðist Ísak hafði hún fulla ástæðu til að sjá fyrir sér loforðið, sem Guð hafði gefið Abraham, rætast í heild sinni. Við getum líka verið þakklát fyrir að geta gert okkur myndir í huganum af því sem Guð hefur lofað. Og það rætist fyrir víst.

HANN HORFÐI FRAM TIL LAUNANNA

11, 12. Hvernig lærði Móse að elska Jehóva?

11 Móse hafði sömuleiðis sterka trú á Jehóva og lærði að elska hann innilega. Hann ólst upp með fjölskyldu faraós konungs í Egyptalandi og það hefði verið auðvelt fyrir hann að ala með sér löngun í vald og auðævi. En kynforeldrar Móse höfðu greinilega frætt hann um Jehóva og fyrirætlun hans að frelsa Hebrea úr þrælkun og gefa þeim fyrirheitna landið. (1. Mós. 13:14, 15; 2. Mós. 2:5-10) Hvaða löngun heldurðu að Móse hafi glætt með sér með því að láta hugann dvelja við þá blessun sem þjóð Guðs átti í vændum – löngun í upphefð eða löngun til að þóknast til Jehóva?

12 Í Biblíunni segir: „Fyrir trú hafnaði Móse því er hann var orðinn fulltíða maður að vera talinn dóttursonur faraós og kaus fremur að þola illt með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni. Hann taldi háðung vegna Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands því að hann horfði fram til launanna.“ – Hebr. 11:24-26.

13. Hvaða gagn hafði Móse af því að hugleiða það sem Jehóva hafði lofað?

 13 Móse hugleiddi það sem Jehóva hafði lofað að gera fyrir Ísraelsmenn og það styrkti trú hans og kærleika. Líkt og aðrir guðhræddir menn gat hann líklega séð fyrir sér þá tíma þegar Jehóva myndi leysa mannkynið úr fjötrum dauðans. (Job. 14:14, 15; Hebr. 11:17-19) Það er engin furða að Móse skyldi elska Guð sem lét sér svona annt um Hebreana og um alla aðra. Trú og kærleikur var Móse drifkraftur alla ævi. (5. Mós. 6:4, 5) Jafnvel þegar faraó ógnaði lífi Móse veitti trúin og kærleikurinn til Guðs honum styrk og hugrekki til að halda ótrauður áfram, og líklega hefur það einnig verið honum hvatning að sjá fyrir sér þá björtu framtíð sem var í vændum. – 2. Mós. 10:28, 29.

SJÁÐU FYRIR ÞÉR ÞAÐ SEM RÍKI GUÐS KEMUR TIL LEIÐAR

14. Hvers konar framtíðarsýn er hreinir hugarórar?

14 Margir nú á tímum gera sér óraunhæfa mynd af framtíðinni. Þeir hafa kannski ekki mikið handa á milli en dreymir samt um að verða moldríkir og búa við algert öryggi þó að lífið sé tóm „mæða og hégómi“ núna. (Sálm. 90:10) Þeir ímynda sér að þeir geti lifað áhyggjulausu lífi undir stjórn manna. Í Biblíunni kemur hins vegar fram að ríki Guðs sé eina von mannkyns. (Dan. 2:44) Margir hugsa að Guð eigi aldrei eftir að eyða þessum illa heimi en Biblían dregur upp allt aðra mynd. (Sef. 1:18; 1. Jóh. 2:15-17) Vonir þeirra sem loka augunum fyrir fyrirætlun Guðs með framtíðina eru ekkert annað en hugarórar.

Sérðu sjálfan þig fyrir þér í nýja heiminum? (Sjá 15. grein.)

15. (a) Hvernig er það okkur til góðs að sjá framtíðina fyrir okkur? (b) Segðu frá einhverju sem þú hlakkar til þegar Guð uppfyllir loforð sín.

15 Við sem erum kristin getum hins vegar sótt mikinn styrk í að sjá framtíðina fyrir okkur, hvort heldur við höfum himneska von eða jarðneska. Sérðu sjálfan þig fyrir þér njóta þeirra gæða sem Guð hefur lofað? Það veitir þér eflaust mikla ánægju að hugsa um það sem þú getur gert þegar Guð uppfyllir loforð sín. „Sérðu“ sjálfan þig lifa að eilífu á jörð? Hugsaðu þér að þú sért að vinna með öðrum að því að breyta jörðinni í paradís. Nágrannar þínir elska Jehóva eins og þú. Þú ert hraustur og atorkusamur og horfir björtum augum fram á við. Þeim sem hafa umsjón með endurreisninni er innilega annt um þig og þú hefur yndi af tilverunni. Þú ert ánægður að geta notað hæfileika þína og kunnáttu því að allt sem þú gerir er öðrum til góðs og heiðrar Jehóva. Meðal annars ertu önnum kafinn að hjálpa hinum upprisnu að kynnast Jehóva. (Jóh. 17:3; Post. 24:15) Þetta eru engir draumórar. Þessi aðlaðandi mynd, sem við sjáum fyrir okkur, er byggð á lýsingum Biblíunnar á framtíðinni. – Jes. 11:9; 25:8; 33:24; 35:5-7; 65:22.

RÆÐUM SAMAN UM VONINA

16, 17. Hvernig er það okkur til góðs að ræða um vonina?

16 Þegar við ræðum við trúsystkini okkar um það sem okkur langar til að gera í nýja heiminum fáum við enn skýrari mynd í huganum af þessari dásamlegu framtíð. Enginn veit nákvæmlega hvernig aðstæður hans verða í nýja heiminum en þegar við ræðum saman  um ýmsa möguleika uppörvum við hvert annað og sýnum að við treystum loforðum Jehóva. Páll postuli og trúsystkini hans í Róm ,uppörvuðust saman‘ þegar hann heimsótti þau þar. Þau kunnu eflaust að meta það og það sama er að segja um okkur sem lifum á þessum erfiðu tímum. – Rómv. 1:11, 12.

17 Þegar við sjáum framtíðina fyrir okkur hjálpar það okkur líka að bægja frá okkur neikvæðni og áhyggjum af erfiðleikum nútímans. Pétur postuli hafði ef til vill slíkar áhyggjur þegar hann sagði við Jesú: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum við hljóta?“ Jesús svaraði með því að hjálpa Pétri og öðrum viðstöddum að hugsa til framtíðar. Hann sagði: „Sannlega segi ég ykkur: Þegar Guð hefur endurnýjað allt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu munuð þið, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá allt hundraðfalt aftur og öðlast eilíft líf.“ (Matt. 19:27-29) Pétur og hinir lærisveinarnir gátu nú hugsað um hlutverk sitt þegar þeir sætu í stjórninni sem myndi ríkja yfir jörðinni og veita hlýðnum mönnum mikla blessun.

18. Hvernig er það okkur til góðs að hugsa um loforð Guðs rætast?

18 Það hefur alla tíð verið þjónum Jehóva á jörð til góðs að hugsa um loforð hans verða að veruleika. Abel vissi nógu mikið um fyrirætlun Guðs til að geta séð fyrir sér bjartari framtíð, trúað á Jehóva og átt trausta von. Abraham gat unnið einstök trúarverk vegna þess að hann „sá“ að hluta til hvernig Jehóva uppfyllti spádóminn um ,niðjann‘. (1. Mós. 3:15) Móse „horfði fram til launanna“, sýndi trúna í verki og styrkti kærleikann til Jehóva. (Hebr. 11:26) Trú okkar á Guð og kærleikurinn til hans getur líka vaxið þegar við notum þann hæfileika að sjá fyrir okkur hvernig Jehóva uppfyllir loforð sín. Í næstu grein er rætt hvernig við getum notað þessa gjöf Guðs sem best.