Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hver er Góg í Magóg sem talað er um í bók Esekíels?

Í mörg ár hefur verið sagt í ritum okkar að Góg í Magóg sé heiti sem Satan hafi fengið eftir að honum var úthýst af himnum. Þessi skýring byggðist á því að í Opinberunarbókinni er Satan djöfullinn sagður leiða allsherjarárásina sem gerð verður á þjóna Guðs. (Opinb. 12:1-17) Þess vegna var talið að Góg hlyti að vera eitt af spádómlegum nöfnum Satans.

En þessi skýring vakti upp nokkrar umhugsunarverðar spurningar. Hvers vegna? Þegar Jehóva talar um að Góg verði sigraður segir hann um hann: „Ég mun fá þig ránfuglum og öðrum vængjuðum skepnum ásamt dýrum merkurinnar að bráð.“ (Esek. 39:4) Síðan bætir hann við: „Á þeim degi fæ ég Góg legstað í Ísrael ... Góg verður grafinn þar og allar hersveitir hans.“ (Esek. 39:11) En hvernig geta ,ránfuglar og dýr merkurinnar‘ étið andaveru? Hvernig er hægt að gefa Satan „legstað“ á jörðinni? Í Biblíunni kemur skýrt fram að Satan verði bundinn í undirdjúpinu í þúsund ár en ekki étinn eða grafinn. – Opinb. 20:1, 2.

Í Opinberunarbókinni er bent á að Satan verði leystur úr undirdjúpinu við lok þúsund áranna. Síðan segir: „Hann mun fara og leiða þjóðirnar Góg og Magóg, á fjórum skautum jarðarinnar, afvega og safna þeim saman til stríðs.“ (Opinb. 20:8) En hvernig getur Satan afvegaleitt Góg ef Góg er Satan sjálfur? „Góg“ táknar ekki Satan, hvorki í bók Esekíels né í Opinberunarbókinni.

Hver er þá Góg í Magóg? Til að fá svar við því þurfum við að kanna í Biblíunni hver það er sem ræðst á þjóna Guðs. Í Biblíunni er ekki bara talað um árás ,Gógs í Magóg‘. Þar er einnig rætt um árás ,konungs norðursins‘ og árás „konunga jarðarinnar“. (Esek. 38:2, 10-13; Dan. 11:40, 44, 45; Opinb. 17:14; 19:19) Eru þetta aðskildar árásir? Líklega ekki. Biblían er eflaust að tala um sömu árásina með mismunandi nöfnum. Hvers vegna getum við ályktað það? Vegna þess að Biblían segir að allar þjóðir jarðar taki þátt í þessari lokaárás sem hrindir Harmagedónstríðinu af stað. – Opinb. 16:14, 16.

 Þegar við berum saman versin hér að ofan, sem segja frá lokaárásinni á þjóna Guðs, sjáum við að heitið Góg í Magóg á ekki við Satan heldur við bandalag þjóða. Er það hinn táknræni „konungur norðursins“ sem fer með forystu þessa bandalags? Við getum ekki sagt það fyrir víst. Það virðist þó samræmast því sem Jehóva segir um Góg: „Kemur þú ekki frá landi þínu lengst í norðri, þú og margar þjóðir með þér, allir ríðandi á hestum, mikill liðsafnaður og voldugur her?“ – Esek. 38:6, 15.

Daníel, sem var samtíða Esekíel, segir eitthvað svipað um konung norðursins: „Þá munu fréttir að austan og norðan skjóta honum skelk í bringu, hann mun halda til vígaferla í mikilli bræði og eyða og tortíma mörgum. Hann mun slá upp konungstjaldi sínu milli hafsins og hins fagra heilaga fjalls en þá mun hann mæta örlögum sínum og enginn verður til hjálpar.“ (Dan. 11:44, 45) Þetta samsvarar greinilega því sem Esekíel segir um gerðir Gógs. – Esek. 38:8-12, 16.

Hvað gerist þegar þessi lokaárás er hafin? Daníel segir: „Míkael [Jesús Kristur], leiðtoginn mikli, sem verndar syni þjóðar þinnar [frá árinu 1914], mun þá birtast [í Harmagedón]. Verða þá slíkir hörmungatímar [þrengingin mikla] að eigi verður við jafnað frá því að þjóðin varð til. Á þeim tíma mun þjóð þín bjargast, allir þeir sem skráðir eru í bókinni.“ (Dan. 12:1) Þessari aðgerð Jesú, fulltrúa Guðs, er einnig lýst í Opinberunarbókinni 19:11-21.

En við hvern er þá átt þegar talað er um „Góg og Magóg“ í Opinberunarbókinni 20:8? Þeir sem rísa upp gegn Jehóva í lokaprófrauninni eftir að þúsund árin eru liðin sýna sams konar morðhug og ,Góg í Magóg‘, það er að segja þjóðirnar sem ráðast á þjóna Guðs undir lok þrengingarinnar miklu. Og það fer nákvæmlega eins fyrir báðum hópunum – þeirra bíður eilífur dauði. (Opinb. 19:20, 21; 20:9) Það virðist því vera viðeigandi að allir uppreisnarmennirnir, sem koma fram við lok þúsund áranna, séu kallaðir „Góg og Magóg“.

Við sem erum áhugasamir biblíunemendur bíðum þess spennt að sjá hver eigi eftir að fara með hlutverk ,konungs norðursins‘ í náinni framtíð. En óháð því hver fer með forystu fyrir þessu bandalagi þjóða getum við verið viss um tvennt: (1) Góg í Magóg og hersveitir hans verða sigraðar og þeim verður útrýmt og (2) konungur okkar, Jesús Kristur, mun bjarga þjónum Guðs og leiða þá inn í nýjan heim þar sem ríkir sannur friður og öryggi. – Opinb. 7:14-17.